Buthan – Stage 1 (27.05.2018)

by Halldóra

Camp1: Punakha (1.209 m hæð – gistum í tjaldi) 
Stage 1: 30,7 km / hækkun 1.263m / lækkun 729 m 

BUTHAN THE LAST SECRET 200 km hlaupið er ræst fyrir utan klaustrið Punakha Dzong sem hópurinn skoðaði í gær.
Það voru grunnskólabörn úr skólum í  Punakha héraðinu sem tóku á móti hlaupurunum og sungu fallega þjóðsöng Konungsdæmisins Bhutan rétt áður en hlaupið var ræst í sjötta skipti.

Yfirmaður Lama frá Punakha Dzong blessaði síðan hlauparana og óskaði eftir góðu veðri og bað fyrir öryggi hlaupara.  Eftir blessunina var hlaupið ræst. Framundan var 6 daga 200 km hlaup um hið stórkostlega og fallega landslag í BHutan.

Lengsta hengibrú Bhutan beið hlauparanna á fyrstu vatnsstöðinni, (check-point 1). Eftir 30,7 km hlaup dagsins beið Chorten Nyingpo Monastery  þeirra í 1756m hæð.

TO UNDERSTAND EVERYTHING, IS TO FORGIVE EVERYTHING

Það var einstaklega gaman í ræsingunni, virkilega hátíðlegt og algjört gæsahúðarmóment.  Þetta var samt allt öðruvísi ræsing en í öllum öðrum hlaupum sem ég hef tekið þátt í, þar sem ég vissi að það væru 6 heilir hlaupadagar framundan og um 11.000 metra hækkun.  Það var sól og hiti þegar við lögðum af stað og mikill raki í loftinu, þar sem það rigndi verulega um nóttina.

Það var yndislegt að leggja af stað og hlaupa fram hjá þessum fallegu, yndislegu og vel klæddu krökkum.

Framundan voru um 10 km á malbiki, svo ég fór vel hratt af stað.  Við hlupum meðfram á, inn eftir bænum og eftir 5 km fórum við yfir brú og fórum í raun til baka. Eftir aðra 5 km þá komum við að stærstu hengibrú Bhutan þar sem fyrsta drykkjarstöðin var (11,4 km búnir samtals). Rétt áður en ég kom að hengibrúnni, tók Díana (herbergisfélagi Bekku) fram úr mér og hvatti mig til að passa mig að drekka vel, því það væri mjög heitt og mikill raki. Ég var þá orðin eldrauð í framan og farin að fá svona kaldan svita, sem er afleiðing mikils hita og raka. Svo ég drakk allan líterinn sem ég var með af vökva var dugleg að taka inn salt og á fyrstu drykkjarstöðinni, fór ég úr stuttermabolnum svo ég var bara á toppnum og fyllti vel á brúsana.  Eina sem er í boði á drykkjarstöðvum í þessu Bhutan hlaupi er vatn, enginn orkudrykkur, né önnur orkua Það þarf að bera á sér öll gel, bari, salttöflur og annað sem þú vilt borða á leiðinni.

Haddýjar-hopp – tók sex hopp á brúnni, þrjú fyrir hvorn ljósmyndara. Hefði kannski átt að láta eitt duga, þar sem ég fékk mikið af krömpum þegar leið á hlaupið.

Mér leið mun betur eftir að vera komin úr stuttermabolnum, „bara á toppnum“og hélt áfram. Fram hjá fallega klaustrinu þar sem ræsingin fór fram, síðan hlupum í gegnum konungsgarðinn og svo áfram um 9 km leið á flatlendi, en samt ekki sem betur fer meira malbiki áður en við komum að síðari drykkjarstöð dagsins (vatnsstöð). Við urðum líka að tékka okkur inn á þessum drykkjarstöðvum, þar sem var merkt við okkur, því við vorum ekki með neinar tímaflögur á okkur.  Hlauparar hafa gleymt að láta vit af sér og þá hafa hlaupshaldarar hafið leit svo þetta var mjög mikilvægt atriði.

Komin á „toppinn“ og leið mun betur í hitanum.

Eftir síðari drykkjarstöðina (20,9 km) hófst klifrið. Þá hitti ég nokkra hlaupara eins og Lynn og Martin. Ég tók eiginlega allar brekkurnar upp með Martin og tók fram úr Díönu á leiðinni upp.  Svo komu svissnesku hjónin Hans Jörg og Pia og tóku fram úr mér, ekki í eina skiptið sem þau gerðu það í brekkunum í þessari keppni  (Svisslendingarnir sterkir í brekkunum)

Þegar ég átti um 4 km eftir þá geng ég á Eric sem leið mjög illa og Rajiv frá Indlandi var að aðstoða hann. Þeir voru báðir orðnir vatnslausir og ég átti því miður ekkert mikið umfram það sem ég þurfti.  Ég var farin að finna mikið fyrir krömpum á leiðinni upp. Var búin að vera tæp í krömpum bæði í fluginu á leiðinni út, og hafði fengið slæma krampa bæði fyrstu nóttina á hótelinu sem og síðustu nótt í tjaldinu. Þannig að ég var mjög tæp og bað oft Afa Jóhannes heitinn (sem er alltaf með mér í keppnum erlendis) um aðstoð til að komast í mark.   Svo hélt ég áfram og rétt þegar ég var að fá mjög slæman krampa þá kom Rajiv og bauðst til að aðstoða mig, nuddaði á mér kálfana svo ég gat haldið áfram.  Ég gat þá gefið honum að drekka með mér þessa síðustu dropa sem ég átti, algjör win-win og sterkt vinasamband sem myndaðist. Skemmtilegt við svona margra daga hlaup er að maður er mikið að hlaupa með og í kringum sama fólkið á leiðinni.

Loksins sást í klaustrið og það var svolítil sérstakt að hlaupa að klaustrinu en jafnframt fallegt. Þegar ég kom í mark, voru Beta og strákarnir (Siggi, Viktor og Guðmundur Smári) búnir að fara í sturtu og þau voru samt hissa hvað ég kom snemma í mark, enda var ég 30 mínútum á undan planinu sem Siggi hafði gert fyrir mig heima á Íslandi áður en við fórum af stað.

Vegalengd skv. Strava = 30,84 km Tíminn: 04:01:37.

Eftir ískalda sturtu (þar sem ég held ég hafi gengið alveg fram af grey munka strákunum) – enda skellti maður sér bara undir kranan, sem er notaðu í uppvaskið og hrein föt, var lagst út af á dýnu í smá sólbað, þar til fór að rigna. Fengum okkur líka smá að borða, kex og kaffi svo var bara slakað á þar til allir voru komnir í mark.

Komin úr kaldri „sturtu“ sem var reyndar bara kaldur krani sem er notaður við uppvaskið 🙂 Allt samt betra en ekkert 🙂

Á „Race-Briefing“ fengum við þær upplýsingar að við myndum örugglega öll verða fyrir barðinu á blóðsugum á þeirri leið sem við vorum að fara daginn eftir. Um er að ræða eins og mjög stóra orma, sem sjúga sig á húðina meira að segja í gegnum föt og sjúga blóð úr manni og stækka við það.  Maður á að gefa þessum blóðsugum, vænan selbita til að losna við þá af sér og helst áttum við að vera í síðbuxum og síðum ermum og svo að spreyja bæði Moskitóeitri með háu deeti og við áttum að fá einhverja tóbaks-salt blöndu morguninn eftir sem við áttum að bleyta og nudda á okkur.

Tjaldbúðirnar okkar við klaustrið.

Fallega upplýst um kvöldið / nóttina.

Get ekki sagt að ég hafi verið mjög spennt fyrir morgundeginum, enda hata ég pöddur 🙂

Eftir kvöldmat var okkur boðið að taka þátt í BUDDA guðsþjónustu í munkaklaustrinu sem við tjölduðum við og það var yndislegt. Reyndum svo að fara snemma að sofa, en get ekki sagt að ég hafi sofið mikið, þar sem ég var stöðugt að fara á klósettið alla nóttina 🙂

MYNDIR FRÁ DEGINUM HÉR:

You may also like

Leave a Comment