Skelltum okkur í frábæra fjallaskíðaferð í Bláfjöllin. Sáum fallegt sólarlag og Norðurljósin dönsuðu yfir okkur á leiðinni í bæinn.
Halldóra
Frábær ferð með góðum vinum í Skálfellið. Lögðum af stað við lyfturnar í Skálafelli og gengum uppá topp. Þar tókum við skinnin af og ég lenti í vandræðum með bindingarnar. Einhverra hluta vegna voru þær orðnar of víðar fyrir skóna og ég náði ekki festu. Þakka Hafliða fyrir lánið á tönginni inni í húsinu, en við gátum minnkað bilið með henni svo ég gæti haldið áfram. Skíðuðum svo niður norðurbrekkuna í Svínadalinn, þvílík færð, þvílík gleði. Þetta var algjörlega magnað. Finn ég er að ná tökum á skíðunum sem ég keypti mér í fyrra.
Fórum svo upp brekkuna hinum megin (við Sigga bara upp hálfa leið) og svo niður aftur. En strákarni fóru alveg upp og skíðuðu niður alla brekkuna. Þegar við vorum komin þar niður, mættum við nokkuð stórum hópi fjallaskíðara. En svo tók við gangan aftur upp norðurbrekkuna sem gekk mjög vel, algjörlega yndislegt.
Skíðuðum svo niður Skálafells brekkuna aðeins meira til hægri, séð ofan frá og færðin svo skemmtileg.
Algjörlega magnaður dagur – takk kæru vinir fyrir félagsskapinn og samveruna.
Ofboðslega fallegt kvöld á gönguskíðum með Siggu vinkonu. Við fórum seinnipartin, rétt undir kvöldmat. Vorum alveg ótrúlega heppnar með veður, því þegar við komum upp í Heiðmörkina, var nýbúið að ganga á með éljum, en sólin bryjaði að skína um leið og við stigum á skíðin.
Fórum fyrst 7-8 km stærri hringinn og við bara ljómuðum, eftir þunga viku og mikla Covid-19 umræðu. Lögðum svo af stað styttri hringinn þ.e. 4 km hringinn þegar við erum rétt um hálfnaðar lendi ég í vandræðum með bindingarnar á öðru skíðinu. Ég renn af skíðinu, ennþá með einn hlutann undir skónum. Sigga gafst ekki uppá að púsla þessu saman, en það vantaði eitt lítið stykki til að festa þetta.
Renndi mér því mjög rólega, eiginlega bara á öðru skíðinu á veginum niður í bíl. Fengum reyndar boð frá góðhjarta Audi bílstjóra að skutla mér niður eftir, en þetta gekk allt á endanum.
Þakklát fyrir þetta góða og fallega veður, og yndislegan félagsskap, takk elsku vinkona.
Upphaflegt plan var að fara á Utanbrautarskíðum (Stálkantaskíðum) frá Sigöldu inní Landmannalaugar.
Inga og Jói buðu okkur að gista í bústaðnum hjá sér í Árnesi og svo ætluðum við að leggja eldsnemma af stað á laugardagsmorgninum (7.3.2020).
En þar sem við búum á Ísland og allskonar litaðar veðurviðvaranir orðnar daglegt brauð, þá er nauðsynlegt að vera sveigjanlegur. Í stað þess að fresta ferðinni þá ákváðu þessir frábæru skipuleggjendur að gera smá breytingu á plani, ganga inn í Þjórsárdal í stað Landmannalauga.
Við lögðum af stað á laugardagsmorgni og gengum inn í Þjórsárdal í skógræktarlandinu hjá Skógrækt ríkisins, í skóginum í þokkalegu skjóli, eftir vegslóðum þar. Við áðum á Stöng, þar sem við settumst niður í skjóli, því það var svolítill mótvindur og borðuðum nestið okkar. Héldum svo áfram inn að Hólaskógi. Óli var á trússbíl og ætlaði að aka með dótið að skálanum í Hólaskógi, en vegna snjóalaga þá gat hann ekki farið á jeppanum að skálanum. Við urðum því að skíða með dótið frá bílnum upp í skála. Við fórum eina ferð með drykki og snakk og duffelbag töskur (aukaföt og svefpokar).
Við vorum svo nokkur sem fórum aðra ferð þegar Tóti og Hilmar komu með púlkurnar og þá fékk ég tækifæri í fyrsta skipti að draga púlku á gönguskíðum. Hugsaði mikið til afreks Vilborgar Örnu vinkonu minnar þegar ég dró þungu púlkuna þessa stuttu leið sem ég dró hana. Hversu mikið afrek þetta var hjá henni og fylltist þvílíku stolti að þekkja þessa mögnuðu konu.
Strákarnir grilluðu svo stórkostlegan mat, lambafile og bakaðar kartöflur. Meðlæti var salat og sósur, auk snilldar rjómasósu. Eftir kvöldmat, var smá súkkulaði desert og yndislegt spjall og spil að hætti Ísbjarna.
Á sunnudagsmorgninum var eldaður frábær hafragrautur og efir frágang á salnum, uppvask og þrif og pökkun fórum við öll eina ferð á gönguskíðunum í bílana sem nú voru orðnir tveir með farangurinn. Frá bílnum genguð við svo inn að gili og meðfram ánni niður að Stöng. Hópurinn samanstóð af 17 Ísbjörnum og 3 Ísbjarnarhúnum. Leiðin var stórkostlega falleg og það var gaman að sjá stóran rjúpnahóp fljúga yfir svæðið, ekki einu sinni heldur tvisvar.
Við áðum svo aftur að Stöng í skjóli, þar sem það var ennþá meira rok á sunnudeginum en á laugardeginum. En sem betur fer var um meðvind að ræða. Eftir áningu að Stöng, var tekin ákvörðun að reyna að komast yfir árnar að gömlu sundlauginni í Þjórsárdal. Það voru 50% líkur á að það myndi takast, því bæði var frekar takmarkaður snjór og spurning hvort árnar væru nógu frosnar. Þetta gæti stoppað för okkar í átt að sundlauginni og því ákváðum við bara að prófa, við yrðum þá bara að snúa við ef þetta gengi ekki.
Ferðin var mikið ævintýri. Það var alveg töff fyrr nýliða á utanbrautarskíðum að láta sig vaða yfir frosnar árnar, tala nú ekki um þegar rokið var jafnmikið og það var í dag, svo maður fauk yfir ísilagða ána og átti í erfiðleikum með að stoppa sig, líka þegar maður var kominn yfir og mikið af grjóti, þar sem snjórinn var takmarkaður.
Mér stóð ekki alveg á sama í eitt skiptið, þegar okkur var sagt að við yrðum að losa allar festingar á bakpokunum (þ.e. sem er bundinn við okkur) og hafa gönguskíðastafina lausa í höndunum á okkur, þannig að við gætum verið snögg að henda af okkur bakpokanum og stöfunum, ef við myndum falla ofan í vökina.
En við fórum yfir þessa á eins og allar hinar, bara eitt okkar í einu og það gekk mjög vel. Ég fór með möntruna mína, ég er grjóthörð og jákvæð og gaf svo bara í með stöfunum og það kom mér yfir, það var erfiðast að ná að stoppa mig hinum megin við ána. Enda fékk ég tvær byltur á leiðinni í dag. Eitt skipti þegar ég var búin að fara yfir eina ána, þar sem það var eina leiðin til að stoppa sig, að lenda á rassinum og nota svo bakpokann sem bremsu, en í hitt skiptið skíðaði ég óvart yfir grjót (sem ég sá ekki), sem var eins og bremsa og ég lenti á báðum hnjánum sem var aðeins verra 🙂
Við fórum svo í sund klukkan rúmlega 13 í gömlu lauginni í Þjórsárdal. Frábært að hafa búningsklefa til að verjast vindi, í þessari annars frábæru náttúrusundlaug. Eftir góðan „sundsprett“ var bara að taka síðasta spölinn frá lauginni niður að þjóðvegi, um 5,5, km leið, þar sem Óli og Tóti biðu okkar með trússbílana.
Frábær helgi með yndislegum Ísbjarnarvinum er að baki. Gengum samtals um 35 km leið í mjög krefjandi færi og þó nokkru roki. Leiðin var falleg og ofboðslega skemmtilegt að prófa þetta nýja sport, sem utanbrautar- eða stálskantaskíðin eru. Takk kæru vinir fyrir yndislega samveru alla helgina.
Dagur 1 – albúm
Dagur 2 – albúm
Við Óli vorum búin að bóka helgarskíða-ferð norður á Akureyri viku fyrir jól, en þar sem veðurspáin var leiðinleg og ekki líklegt að opið yrði í Hlíðarfjalli ákváðum við að fresta ferðinni þangað til í janúar og Óli bókaði bara einhverja helgi, eða helgina 24-26.janúar, en föstudagurinn var bóndadagur.
Við plötuðum svo Siggu og Pétur með okkur. Sigga komst svo að því að það yrði skíðaganga fyrir norðan þarna um helgina, þ.e. Hermannsgangan 2020, sem er hluti af Íslandsgöngunum, svo við ákváðum bara að skrá okkur.
Við lögðum af stað snemma á föstudagsmorgni norður, þar sem ekki var fært til að aka á fimmtudagskvöldinu. Vorum komin norður rétt rúmlega 13 sem hentaði vel, þar sem fjallið opnaði klukkan 14:00. SKíðuðum í frábæru færi á föstudeginum og sóttum svo gögnin fyrir gönguna seinnipartinn. Spurði svo ráða hvort ég ætti að vera á skinnskíðunum eða klístur og fékk upplýsingar að klísturskíðin væru betri, svo ég rétt náði að hendast með þau í Skíðþjónustu Akureyrar fyrir klukkan 18:00 til að fá prepp á þau, ætlaði svo bara að nálgast þau daginn eftir.
Fórum um kvöldið (bóndadagskvöldið) út að borða á RUB23, frábæran Bóndadagsmatseðil.
Óli greyið veiktist svo um nóttina, fékk flensu og gat ekki skíðað meira, en við Sigga og Pétur fórum uppí fjall. Við Sigga í gönguna og Pétur í fjallið. Ganga eru tveir 12 km hringir uppá heiðina, en það var mikill skafrenningur og þó nokkuð hvasst. Á tíma héldum við að ganga yrði ekki ræst vegna veðurs.
En gangan var ræst og við grjótharðar og jákvæðar lögðum auðvitað af stað, en aðstæður voru vægast sagt erfiðar. Það var ekkert spor og uppá heiðinni sáum við ekki einu sinni, nema rétt meter fyrir framan okkur. Þegar fyrri hringurinn var að verða búið, hugsaði ég, þeir hljóta að stytta keppnina um helming. En nei, þeir gerðu það ekki og áfram skíðaði maður seinni hringinn, eiginlega án þess að sjá neitt. Það var frekar sorglegt, því þetta er örugglega falleg leið og örugglega mikið útsýni yfir fjörðinn þarna uppfrá 😉
En það var gott að koma í mark og ég kom sjálfri mér á óvart, varð í 2.sæti í aldursflokki og í 4.sæti kvk overall á tímanum 2:29:48.
Eftir skíðagönguna var frábært kaffisamsæti í VMA algjörlega glæsilegt, þar sem verðlaunaafhending fór fram og ég var líka dregin út í útdráttarverðlaunum, fékk frídaga á gönguskíði í Hlíðarfjalli. Tækifæri til að koma aftur og nota það, sem og þá daga sem við eigum eftir af skíðapassanum. En Óli gat ekki notað 2 daga og ég á inni 1 dag, þar sem við skíðuðum ekki á laugardeginum. En skíðuðum smá á sunnudegi, í afar slæmu skyggni.
Hlakka til að koma aftur norður til að prófa nýja stólinn í Hlíðarfjalli sem verður vonandi búin að opna næst þegar við komum.
Keðjan er ný starfseining innan velferðarsviðs Reykjavíkurborgar sem borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, opnaði formlega í Þönglabakka 4 í dag. Hlutverk hennar er að veita stuðningsþjónustu fyrir börn og unglinga.
Haldin var samkeppni um nafn á nýju starfseiningunni og afhenti Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs vinningshafanum, Þóru Jónsdóttur, glaðning fyrir bestu tillöguna. .
Árlega fá 1.100 börn og fjölskyldur þeirra fjölbreytta stuðningsþjónustu frá velferðarsviði. Um er að ræða aðstoð inn á heimili, t.d. í formi uppeldisráðgjafar, félagslegs stuðnings til að efla börn og unglinga í leik og starfi, fjölbreytts hópastarfs, námskeiða fyrir foreldra og börn, dvalar hjá stuðningsfjölskyldum, í unglingasmiðjum og í skammtímavistun.
Með tilkomu Keðjunnar verður framkvæmd stuðningsþjónustu veitt frá einum starfsstað í stað fimm áður. Aðgengi notenda að þjónustunni verður eftir sem áður í gegnum þjónustumiðstöðvar velferðarsviðs.
Í Keðjunni verður lögð áhersla á þróun úrræða og nýsköpun í samstarfi við þjónustumiðstöðvar, Barnavernd, skóla- og frístundasvið og aðra mikilvæga aðila í samfélaginu sem veita börnum og fjölskyldum þeirra þjónustu. Leiðarljós Keðjunnar er að tryggja bestu þjónustuna hverju sinni á forsendum barna og fjölskyldna þeirra.
Dagur B. Eggertsson segir þetta mjög ánægjuleg tímamót: „Með samstilltu átaki allra þeirra starfsmanna sem sinna þessum störfum í dag skapast aukin tækifæri til að efla þjónustuna enn frekar og auka fjölbreytni í þjónustu, óháð búsetu barna innan borgarinnar“.
Í Keðjunni munu starfa um 190 fagaðilar í um 50 stöðugildum. Framkvæmdastjóri Keðjunnar er Halldóra Gyða Matthíasdóttir.
Fréttatilkynning send 15. janúar 2020.
Hélt þessar ræðu (svona um það bil) á formlegri opnun Samstarfsnetsins sem fékk svo nafnið Keðjan í Þönglabakka 4, í gær miðvikudag 15. janúar klukkan 11:00.
Borgarstjóri, formaður velferðarráðs, velferðarráð, kæru samstarfsmenn og gestir.
Til hamingju með daginn, ég tek undir orð borgarstjóra – þetta er gleðilegur dagur fyrir okkur öll því við erum skrefi nær að samræma, auka þjónustuframboð og þar með bæta þjónustuna fyrir börn og fjölskyldur þeirra í Reykjavík.
Við erum mjög ánægð með þetta húsnæði, það er opið og skemmtilegt og markmiðið að ýta undir frjóa hugsun, fá nýjar hugmyndir að leiðum til árangurs, sem við svo að sjálfsögðu mælum.
Við höfum séð það og upplifað síðustu daga, þegar við komum öll saman hingað í Þönglabakkann, að það er mjög góður andi í hópnum og mikil samvinna og markmið okkar allra er að veita bestu mögulegu stuðningsþjónustu til barna og fjölskyldna þeirra í Reykjavík.
Við höfum gert með okkur vinnusamning, sem er skrifaður hérna á vegginn:
- Við sýnum hvort öðru stuðning, erum til staðar og hlustum af virðingu.
- Styrkleiki allra og sérstaða skiptir máli.
- Höfum gaman saman.
Mig langar að þakka verkefnastjórn sem var skipuð með erindisbréfi í mars 2019, kærlega fyrir þeirra framlag og samstarfs. En um var að ræða þverfaglega verkefnastjórn, þvert á allar þjónustumiðstöðvarnar og barnavernd sem mun starfa áfram út 2020.
Það eru fjölmargir starfsmenn velferðarsviðs sem hafa tekið virkan þátt í undirbúningi, bæði af skrifstofu velferðarsviðs, barnavernd og frá þjónustumiðstöðunum. Einnig hafa starfsmenn SFS tekið virkan þátt. Takk kærlega fyrir ykkar framlag.
Gildi velferðarsviðs, VIRÐING, VIRKNI og VELFERÐ verða ekki bara skrifuð hér á veggina, heldur ætlum við að lifa gildin og þjónustunotendur og samstarfsmenn okkar munu sjá að við berum virðingu fyrir hvort öðru, hvetjum til virkni allra og velferð allra barna og fjölskyldna þeirra verða að sjálfsögðu höfð að leiðarljósi.
Við hlökkum til samstarfsins við ykkur öll.