#1 Tor dés Geants Courmayeur – Valgrisenche

by Halldóra

Hlaupið Tor dés Geants 330 (https://www.tordesgeants.it/en) er 330 km fjallahlaup þar sem hlaupið er hringinn í kringum Aosta Valley (Ávaxtadalinn), með 24.000 metra samanlagðri hækkun (12 sinnum upp og niður á Hvannadalshnúk á sex dögum). Tímamörk til að klára hlaupið eru 150 klst og það eru reglulega tímavörður á leiðinni. Hver hlaupari ræður því hversu oft og mikið hann sefur á leiðinni, en á u.þ.b. 50 km fresti færðu „drop-bag“ töskuna þína. Hver hlaupari á sína tösku, sem er eins og stór íþróttataska, þar sem koma þarf fyrir aukafatnaði, svefnbúnaði, snyrtivörum, aukaskóm og aukamat/orku. Mjög margir eru með aðstoðarmenn, sem mega aðstoða inn á drykkjarstöðvunum, og eru oft með aukabúnað með sér. Ég fór ein í hlaupið, með engan aðstoðarmann, svo það var mikil áskorun að koma öllum búnaði fyrir í „gulu töskunni“ eins og ég kallaði drop-bag tökuna.
Var samt ótrúlega heppin að fá góða og mikla aðstoð í gegnum gsm og messenger að heiman, frá reynsluboltunum Stefáni Braga og Elísabetu Margeirs sem bæði hafa klárað Tor dés Geants 330.

Hlaupið var ræst út í tveimur hópum, þeir sem voru með lægra BIB númer, þ.e. frá 0001 til 0399 voru ræstir klukkan 10, en við sem vorum með frá 0400 – 0890 vorum ræst klukkan 12.00. Þú fékkst BIP númer eftir því hversu hátt þú ert skráður hjá ITRA; þ.e. með ITRA punkta og ég var númer 0827 og ég held það hafi verið 15 manns sem voru með lægri ITRA punkta en ég, þ.e. með hærra BIB númer.

Ræsingin í Courmayeur, klukkan 12:00.
Var á Facebook live til að deila með ykkur allri hvatningunni sem við fengum þegar við hlupum út úr bænum á sunnudeginum.

Hlaupið er ræst í miðbæ Courmayeur og hlaupið göngugötuna þ.e. í gegnum miðbæinn og þaðan í áttina að Col Arp og Baite Youlaz. Stuttu eftir að maður er búin að hlaupa út úr bænum, kemur strax fyrsta brekkan. Þegar ég var rétt nýkomin í hana kemur til mín maður sem segir „Hi Iceland“ (hann sá íslenska fánann aftan á Salomon hlaupavestinu mínu) og kynnir sig sem Tomma frá Finnlandi, en hann var eini keppandinn frá Finnlandi „self-supported“ (þ.e. án þess að vera með aðstoðarmenn) eins og ég.

Stuttu síðar hitti ég hann Tomma aftur með Matta frá Svíþjóð. Ég var svo reglulega að hitta þá á leiðinni, þar sem þeir fóru mun hraðar en ég upp fjöllin, svo stoppuðu þeir lengur á drykkjarstöðunum og fóru hægar en ég niður fjöllin.

Leiðin upp fyrsta fjallið var alveg hræðileg fyrir mig, mér leið mjög illa af astmanum, fann fyrir einkennum háfjallaveiki á leiðinni upp, bara um leið og ég var komin í 2100 metra hæð og það fóru allir fram úr mér, sem er ekki góð tilfinning. Ég hugsaði „Shit, þetta er fyrsta fjallið af fjölmörgum, hvernig á ég að klára þessa 330 km og 26.000 metra hækkun ;-( “ mér leist ekkert á þetta og í raun leið bara mjög illa, enda skein sólin og það var mjög heitt. Ég tók samt bæði astma lyfin, sem ég var með á mér, þ.e. bæði Symbicort og Ventolin, sem léttu aðeins á, en samt alls ekki nóg. Svo þegar ég komst á toppinn og fór að hlaupa niður leið mér mun betur.

Fyrsta drykkjarstöð var Baite Youlaz, ég rétt hoppaði inn og fyllti á vatnið og hélt svo áfram. Tíminn þar sunnudagur klukkan 15:12 og ég búin að vera á hlaupum í 3 klst 12 mín.

Fyrsta alvöru drykkjarstöðin er í bænum La Thuile, það var ágæt brekka sem ég hljóp ágætlega hratt niður í bæinn, búið að vera mjög heitt allan daginn, klukkan orðin 16:15 þegar ég kom í bæinn. Tímamörkin í La Thuile voru klukkan 17:30. Um leið og ég kom inn í bæinn hljóp ég fram hjá veitingastað þar sem ég keypti mér eina Fanta dós. Notaði köldu dósina til að kæla á mér ennið, bringuna og fæturnar, en það var búið að vera mjög heitt allan daginn. Þegar ég kom inn á drykkjarstöðina, var mikil röð í mat og drykk, ekkert annað að gera en að bíða í röðinni og settist svo niður og fékk mér að borða, brauð, ost og skinku enda var ég orðin frekar svöng. Var komin með 18,7 km (1.751 m samanlögð hækkun) í La Thuile. Eftir La Thulie fór ég á Instagram Story, ætlaði reyndar ekki að fara inn á samfélagsmiðla fyrr en ég væri búin með 30 km (um 10%) en ákvað samt að fara inn, því það var eitthvað sem mér fannst merkilegt sem ég ætlaði að deila með vinum mínum sem ég man núna ekki einu sinni hvað var 🙂

(Hún er komin í Gegnum La Thuile 18,7 km í sæti 630 af 711 hlaupurum – innskot frá Stefáni Braga).

Sjáum það hér:

Eftir La Thuile stoppið …

Eftir La Thuile fórum við upp á næsta fjall og næsta tékkstöð er Rif. Deffeyes, var þar eftir 7 klst 8 mín eða klukkan 19:08. Þar fór ég inn í skálann á klósettið og keypti mér Fanta, eða einhverja tegund af appelsínugosi. Klæddi mig í hvíta þunna Salomon jakkann yfir stuttermabolinn og setti upp höfuðljós. Það var reyndar orðið mjög kalt þarna úti og margir að klæða sig mjög vel sem þurftu svo að létta aftur af fötunum á sér, svo ég var fegin að hafa farið inní skálann, bæði til að halda á mér hita á meðan ég græjaði mig fyrir nóttina sem og að fá mér aðra gosdós, því það var orka í því.

(Hún er komin í gegnum Rifugie Deffeiers 28,2 km. í sæti 615, 7 hættir. Komin upp um 15 sæti. innsk. frá Stefáni Braga)

Þarna fékk ég mér í fyrsta skipti heita súpu með hrísgrjónum í, eins og saltað kjúklingaseyði og sett voru fullt af hrísgrjónarnúðlum á diskinn með súpunni. Það var mjög kalt þarna úti og því fínt að fá sér smá seyði og hita í kroppinn.

Næsta tékk var í Bivacco Promoud, þar var ég kominn niður fjallið og samanlagður tími kominn í 9 klst 11 mín (klukkan orðin 21:11) og eftir það aftur upp eitt fjall og niður aftur í Planaval 12 klst 36 mín (klukkan orðin 00:36).

(Halldóra er komin til Planaval 48 km og er komin í sæti 540. 6 km í fyrsta Lifebase – St. Bragi.)

Sú leið var eins og leggjabrjótur, ég hefði ekki trúað hversu krefjandi þessi hlaupaleið var í myrkrinu en ég hljóp samt mjög hratt og tók fram úr mjög mörgum á niðurleiðinni. Var búin að sjá það að ef ég ætti að eiga möguleika á að komast í gegnum tímahindranir yrði ég að fara hratt niður brekkurnar og á flötu köflunum.

Komin á FB LIVE eftir um 45 km (næstum því 1/7 LOL ) – frekar steikt læri, en á leið í fyrsta LIVE BASE-ið.

Kom svo í Valgrisenche fyrsta LIVE BASE-ið eftir 13 klst og 45 mínútur, aðfararnótt mánudagsins klukkan 01:45 um nóttina. Stoppaði þar í nákvæmlega 56 mínútur. Fór út klukkan 02:41 eftir 14 klst og 41 mín. Tímamörkin í Valgrisenche voru klukkan 07:00 „inn“ um morguninn og klukkan 09.00 „út“. Svo ég var alveg góð hvað varðar tímamörkin þarna. Á drykkjarstöðinni, hlóð ég Garmin úrið, hlóð gsm símann og ég skipti um rafhlöðu í höfuðljósinu. Fékk mér eitthvað smá að borða, hafði samt ekki mikla lyst, en fékk mér jógúrt og vínber. Lagðist svo á bakið á gólfið með fæturna uppá bekk, kíkti á fæturna undir sokkunum, þurfti að henda plástrum sem ég hafði teipað á mér tærnar, en fór svo af stað áfram í sömu skítugu sokkunum og fötunum, en fór í hlýja ullarpeysu, því það var orðið mjög kalt úti (nennti ekki að opna pokann sem ég hafði vacumpakkað fötunum mínum í, sá það yrði svo erfitt að loka honum aftur). Endaði líka með því að þurfa að hengja auka hlaupaskóna sem ég var með í gulu töskunni í plastpoka utan á töskuna. Enda gula taskan mín mun minni en taskan hans Stefáns Braga sem ég hafði gert ráð fyrir að fá og því mikill hausverkur að koma öllu fyrir í töskuna (hafði skorið mikið niður á hótelinu áður en ég skilaði henni inn, en ég fékk að geyma ferðatöskuna mína á hótelinu á meðan ég var í hlaupinu).

(Komin á fyrsta Life base, 54 km. Og 4.586 metra hækkun komin á 13:45. Er í sæti 534 og hækkar á hverri stöð. Stefán Bragi)

Náði ekkert að leggja mig á drykkjarstöðinni, enda var ég ekki syfjuð, en það tók tímann að sækja gulu töskuna og að ganga frá henni aftur (þar hefði verið munur að vera með aðstoðarmann sem hefði séð um þetta fyrir mann og getað komið með eitthvað sem manni langaði í að borða). En ég var samt mjög ánægð með aðstoðarmanninn minn Stefán Braga, sem ég var með ONLINE, þ.e. í gsm eða á messenger 😉

FYRSTI LEGGUR BÚINN 50 km – 4.586 m. samanlögð hækkun –
KLUKKAN 02:41 AÐFARARNÓTT MÁNUDAGS 14 klst 41 mín.

You may also like

Leave a Comment