Mesta afrek Halldóru

by Halldóra

Baksíða Morgunblaðsins: 25.10.2021

Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé byrjaði markvisst að hlaupa fyrir áratug og náði hápunktinum á dögunum, þegar hún tók þátt í 350 km fjallahlaupinu Tor Dés Geants á Ítalíu. Hún kynnti sér svæðið í Ölpunum í æfingaferð í ágúst og hljóp þá alls 210 km og þar af síðasta hlutann í keppnishlaupinu. „Sá undirbúningur hafði mikið að segja,“ segir Halldóra, sem var rúma sex daga að ná takmarkinu, hljóp samtals í 145 klukkustundir og 55 mínútur og svaf  í  rúmlega níu klukkustundir í heildina.

Laugavegshlaupið 2011 var frumraun Halldóru í keppni. „Árið áður byrjaði ég að hlaupa með Bibbu, Bryndísi Baldursdóttur, í hlaupahópnum Bíddu aðeins, sem tók fyrst íslenskra kvenna þátt í Ironman, og síðan hefur eitt leitt af öðru.“ Halldóra hefur til dæmis fimm sinnum keppt í Ironman, tvisvar hlaupið 100 mílna hlaup, einu sinni verið með í 200 km áfangahlaupi, sem tók sex daga, þrisvar hlaupið 100 km hlaup í Hong Kong og fimm sinnum verið með í Laugavegshlaupinu. „Mér telst til að ég hafi hlaupið 100 kílómetra hlaup eða lengri samtals tíu sinnum.“

Kyrrsetufólk veigrar sér oft við að standa upp og hreyfa sig, en Halldóra hvetur alla til þess að láta á það reyna. „Ég var algjör sófakartafla, hafði mest gengið á milli nokkurra ljósastaura, en þegar ég byrjaði að vinna í Glitni, nú Íslandsbanka, 2008, fór ég að reyna að hlaupa,“ rifjar hún upp. Stjórnendur bankans hvöttu starfsfólkið til þess að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu og styrkja gott málefni að eigin vali. „Ég gekk meira en hljóp hálft maraþon á rúmum þremur klukkutímum og var mjög glöð með það, þótt tíminn væri ekki góður og ég í engu formi. En hlaupabakterían var byrjuð að hreiðra um sig og eftir fyrsta Laugavegshlaupið hefur nær allur frítími farið í æfingar og keppni.“

Auk þess að æfa og keppa hefur Halldóra þjálfað aðra og þannig miðlað reynslu sinni. „Ég heillaðist af hlaupunum og geri það sem ég get til þess að reyna að hafa jákvæð áhrif á aðra. Það er líka mjög skemmtilegt.“

Hlaupið er um Ávaxtadalinn í Tor Dés Geants á Ítalíu. Það er skráð 330 km hlaup en Halldóra segir að það sé í raun 350 km með 30.000 m samanlagðri hækkun. Ljúka verði hlaupinu á innan við 150 klukkustundum, sex dögum og sex klukkustundum. Halldóra hafði ekki aðstoðarmann á svæðinu en fékk stuðning í síma og á netinu að heiman frá Stefáni Braga Bjarnasyni og Elísabetu Margeirsdóttir. „Þau fylgdust með stöðunni og héldu mér við efnið, hann vakti mig þegar ég lagði mig og ýtti mér áfram,“ segir hún. „Það er ekki til eftirbreytni að sofa eins lítið og ég gerði og það er erfitt að vera nánast sem ein í heiminum svona lengi, enda var ég farin að sjá álfa fólk og hús í steinum á leiðinni.“

Þrír aðrir Íslendingar hafa náð á leiðarenda í þessu fjallahlaupi. Þau eru Elísabet Margeirsdóttir, Stefán Bragi Bjarnason og Birgir Sævarsson. Að þessu sinni hófu 712 manns keppni og 431 komst í mark. Halldóra var í 9. sæti í aldursflokknum 50-59 ára, í 40. sæti í hópi allra kvenna og í 377. sæti þegar á heildina er litið.

„Ég er með áreynsluastma og átti ekki von á að ljúka keppni, því í hvert sinn sem ég fór yfir 2.100 metra hæð fékk ég hæðarveiki og astmakast. Ég þurfti því að gæta þess að fara ekki of hratt upp sem gerði það að verkum að ég varð að gefa í á niðurleið í keppni við tímann.“

Hlaupalífið heldur áfram og margt er á döfinni hjá Halldóru. „Það er velferðarmál að hreyfa sig og þar tala ég af eigin reynslu.“

You may also like

Leave a Comment