LAUGAVEGSHLAUPIÐ 2019 – er það eitthvað fyrir mig?

by Halldóra

Þegar ég byrjaði að hlaupa árið 2009 þá var draumurinn, þ.e. stærsta en jafnframt fjarlægasta markmiðið í mínum huga að hlaupa svokallaðan Laugaveg, eða Laugavegshlaupið, frá Landmannalaugum í Þórsmörk, samtals 55 km.  

Í mínum huga voru bara ofurhlauparar sem gátu hlaupið Laugavegshlaupið, enda er Laugavegshlaupið á ensku „Ultra Maraþon“ og öll hlaup yfir 50 km eru „Ultra“ eða ofurhlaup.   

Eftir að hafa hlaupið og gengið hálft Reykjavíkurmaraþon Glitnis árið 2008 og svo aftur hlaupið það árið 2009 og bætt mig um 50 mínútur á milli ára, þá ákvað ég í lok árs 2010 að skrá mig í Laugavegshlaupið og í Laugavegshlaupanámskeið hjá Sigga P og Torfa.

Námskeiðið var frábært, ég eignaðist yndislega vini, hljóp um náttúruna í kringum höfuðborgarsvæðið og í Laugardalnum. Ég byrjaði á svipuðum tíma að hlaupa með Bibbu og Bíddu aðeins hópnum sem hafði einstök áhrif á mig og mitt líf.

Til að gera langa sögu stutta, þá kláraði ég Laugavegshlaupið í frábærum félagsskap vina minna. Ég held við höfum tekið um 200 myndir á leiðinni, enda er útsýnið á þessari leið ofurfagurt, litadýrðin stórkostleg eins og allir vita, sem hafa hlaupið eða gengið þessa leið.

Komin í mark í Þórsmörk með langþráðan og gullfallegan verðlaunapening .

Ég kom sjálfri mér á óvart þetta ár, enda kláraði ég fyrsta götumaraþonið mitt, Laugavegshlaupið,  Jökulsárhlaupið og bætti mig aftur í ½ Reykjavíkurmaraþoni um 26 mínútur. Ég naut hverrar mínútu allt sumarið, bæði á æfingum sem og í keppnum í frábærum félagsskap.  

Ætlar þú að láta drauminn rætast ?
Nú eru kannski margir á sama stað og ég var á í upphafi árs 2011. Það eru allir að tala um þetta Laugavegshlaup og það eru allir að velta fyrir sér hvort það verði uppselt, hvort þeir geti þetta og hvort þetta sé yfir höfuð skemmtilegt 😊 

Laugavegshlaupið er klárlega ekki fyrir gangandi en það er fyrir hlaupara 18 ára og eldri sem hafa einhverja reynslu eru í mjög góðri líkamlegri þjálfun og geta þekkt sín takmörk og eru tilbúnir að leggja á sig þær æfingar sem þarf til að ná þessum árangri. Þá er ekki nóg að vera líkamlega sterkur heldur og alls ekki síður andlega til að takasta á við erfiðar aðstæður, því löng utanvegahlaup, ganga út á að vera vel æfður, bæði líkamlega og andlega.

Í fyrsta skipti núna er gerð krafa um að hlauparar séu með álteppi og flautu á sér. Erlendis í sambærilegum hlaupum, eru mun harðari kröfur um þann búnað sem hlauparar þurfa að hafa með sér.

Það eru tímatakmörk í hlaupinu sem eru 4 klst út af drykkjarstöðinni við Álftavatn (22 km) og 6 klst og 30 mín út af drykkjarstöðinni í Emstrum (38 km). Miðað er við að þátttakendur ljúki hlaupinu á innan við 9 klukkustundum og 15 mínútum.

Nú þegar 180 dagar og 17 klst í hlaup eru 587 þátttakendur skráðir, þar sem ég var að skrá mig og ég geri ráð fyrir að það verði uppselt mjög fljótlega.

Ef þú ætlar að láta drauminn þinn rætast, þá myndi ég skrá mig núna og skrá mig á námskeið til að fá aðstoð til að ná markmiðum mínum og eignast góða vini.  Það eru nokkrir aðilar að bjóða uppá slík námskeið, eins og Náttúruhlaup sem ég að sjálfsögðu get mælt með sem einn af þjálfurunum.

Hér er hægt að skrá sig á námskeið hjá Náttúruhlaupum.
Nánari upplýsingar um hlaupið og skráning
hér:

You may also like

Leave a Comment