KEPPNISSAGA – VANSBROSIMNINGEN 2016

by Halldóra

Vekjaraklukkan í símanum hringdi klukkan 06:40. Ég fór samt ekki á fætur fyrr en 06:50, þegar það var einhver hreyfing í skólastofunni sem ég svaf í. Burstaði tennurnar og henti mér út með allt draslið mitt, sem var að sjálfsögðu allt tilbúið. Lagði svo af stað gangandi að finna svæðið þar sem morgunmaturinn var framreiddur. Fann ekki staðinn, svo ég snéri við og fór á bílnum, því í honum var ég með kort af svæðinu. Morgunmaturinn var borinn fram á tjaldstæðinu sem er í áttin að sundstartinu, en þetta er ekki mjög stór bær. Eftir morgunmat var klukkan ekki orðin átta, svo ég bara hvíldi mig aðeins í bílnum , náði nú samt ekki að dotta, ég var auðvitað allt of snemma í því. naglalakkidNáði samt að naglalakka mig með keppnislakkinu sem er alltaf mjög mikilvægt fyrir svona keppni, sjá mynd hér til hliðar 😉

RÁSTÍMI – einfalt mál eða hvað? Fyrsta sundræsing var klukkan 10:00, en þá voru PRO karlar eða atvinnumannaflokkur karla ræstir út. Klukkan 10:05 voru fatlaðir ræstir út og svo 5 mín síðar PRO konur. Ég átti svo að fara með næsta hóp sem var ræstur þar á eftir, þ.e. startgrúbba 2, klukkan 10:15, sem var merktur sem Elite 2 hópur.

Þegar ég sótti keppnisgögnin mín í gær, þá stóð rástími klukkan 11:18 á keppnisumslaginu mínu og númerið sem ég fékk var miðað við þann tíma. En það er ræst í númeraröð og allir sem eru ræstir saman eru með sama lit af sundhettu. IMG_3743 Ég fór reyndar í gær í “seednings-básinn” og spurðist fyrir um þetta og eftir að hafa skoða málið sagði starfsmaðurinn að ég ætti að fara með 10:15 IMG_3745hópnum. Þegar ég var komin á staðinn, klukkan 09:00 um morguninn, klukkutíma áður en ræsa átti út fyrstu menn og þulurinn byrjar að tala, þá segir hann að þessi hópur þ.e. 10:15 hópurinn sé bara Elite 2 karlar. Það fóru að renna á mig tvær grímur og ég fór og skoða bílana, en það eru bílar með kerrur, sem taka við pokunum, þ.e. með fötunum sem þú ert í og handklæði og slíkt, sem þú færð svo þegar þú kemur í mark niður í bæ.

Já mér leist sem sagt ekkert orðið á þetta. Í fyrsta lagi að ræsa með ELITE2 körlum (númer 201-400) klukkan 10:15, sem áætluðu að synda í 45 mín (sem er allt of hratt fyrir mig).IMG_3702 Í öðru lagi stóð ekki rétt númer á sundhettunni minni m.v. þennan hóp, en hann er númer 201-400, en ég var númer 1787 sem átti að ræsa klukkan 11:18 og ég vissi ekki hvaða litur væri á sundhettunni hjá þessum hópi, þ.e. 201-400. Fann loks bílinn, þ.e. kerruna með mínu miðanúmeri, lengst aftast í hópnum, og þar voru númerin IMG_37011701-1800 sem áttu að ræsa klukkan 11.18 sem sagt mitt númer.

Ég ákvað að hringja í Ásgeir, því ég hafði heyrt í honum í gær og þá heyrði ég að honum leist betur á 11 tímann, því starfsfólkið við bílana vissi ekki neitt og kynnirinn alltaf að tala bara um Elite 2 karlmenn sem myndu ræsa klukkan 10.15. Hringdi í Ásgeir til Noregs og vakti hann til að spyrja hann ráða hvað ég ætti að gera 😉 Mér leist ekkert á að vera eina konan og ekki með rétt númer og þá kannski ekki einu sinni réttan lit á sundhettunni. Ég hugsaði með mér ég verð eins og Kathrine Switzer að reyna að plata mig inn í þennan Elite2 karlahóp 😉

Við Ásgeir vorum sammála um að ég færi bara með 11:18 hópnum, svo ég bara sat áfram og beið, þ.e. klæddi mig ekki strax í wet-suit gallann, spurði hann hvort hann héldi ekki að tímaflagan myndi örugglega fara af stað þegar ég færi í gegnum hliðið og hann auðvitað hélt það eins og ég.

RÆSING PRO FLOKKAR OG 10:15 HÓPURINN ELITE2
prokarlarÞað var gaman að fylgjast með ræsingunni, fyrst fóru PRO karlar, síðan þrír fatlaðir einstaklingar, svo fóru PRO konur. Síðan fór hópurinn sem ég átti að vera í klukkan 10:15. prokarlar2

Þá sá ég að það voru bæði Elite 2 karlar og konur og þulurinn fyrst núna farinn að tala um að það séu konur líka í hópnum. Sé líka að þau eru öll með hvíta sundhettu eins og ég, svo ég hefði ekki verið eins og litli svarti andarunginn (eða hvíti með hvíta sundhettu) í hópi með öðrum sem hefðu verið með annan lit á sundhettunni.

IMG_3720 Þarna sá ég líka konu með 1782 númer, tók meira að segja mynd af henni, þannig að ég IMG_3723hefði getað verið í þessum hóp.

Þessi hópur var mjög fjölmennur (201-400) auk þeirra sem voru umfram. Tók bæði myndir og myndbönd af honum fara af stað. Örugglega fólk þarna á mismunandi sundhraða, alla vega voru nokkrir mjög hægir þarna aftast sem fóru af stað bara á bringusundi, svo það hefði örugglega verið hægt að drafta einhvern úr þessum stóra hópi.

Á þessum tímapunkti hugsaði ég hversu gott það væri að fara ekki fyrr en 1 klst seinna, því þá væri áin örugglega orðin heitari, eða baðið eins og við Sjana kölluðum ferðina, þ.e. baðferðina 😉 Ég bara beið þennan klukkutíma og fylgdist með hverjum hópnum af fætur öðrum ræstan út.

Við hliðina á mér var kona sem átti að fara út í hópnum á undan mér. Hún var í vandræðum með að komast í ermarnar á gallanum sínum, svo ég lánaði henni og kenndi henni að nota Bónus pokann sem ég tók með mér til að klæða mig í minn.

Hafðist þetta hjá henni rétt í tæka tíð. Ég fór svo í gallann minn, reyndi að taka hann vel upp um mig eins og skilaboðin frá Ásgeiri voru. Sá svo þegar ég fór í ermarnar að það var komið smá gat á vinstri handlegg, sem ég vissi ekki af, en sem betur fer ekki í gegnum gallann, heldur sést í fóðrið. Horfði á “panic-shop” verslunina og spáði hvort ég ætti að fá lím og setja á gallann, en vissi að hann yrði ekki orðin þurr, svo ég ákvað bara að vona að þetta yrði allt í lagi, alla vega ekkert við þessu að gera núna ;-(

MIKIL STEMNING OG MIKIÐ EN MISMUNANDI SKIPULAG
Eins og komið hefur fram þá var hver hópur með sinn lit á sundhettunni og síðan var upphitun með íþróttakennara áður en hóparnir voru ræstur út. Þegar fyrstu hópar voru ræstir út, þ.e.bæði PRO-arar sem og hópurinn sem ég átti að vera í, þá fengu þau að fara ofan í ána, 5-8 mín fyrir ræsingu sem er algjör snilld til að hita aðeins upp áður en lagt er af stað. Tímaflagan var í armbandi sem þú er með á úlnliðnum og þú skannar á tveim stöðum armbandið áður en þú ferð út í ána. Tímakerfið miðast síðan við rástímann sjálfan, því það var enginn skanni við ráslínuna í sundinu sjálfu, heldur blöðrur sem voru teknar upp og þulurinn sagði “LYKKE TIL” sem þýddi að sundmenn mættu hefja sundið.

RÆSINGIN MÍN KLUKKAN 11:18
Hins vegar var orðin breyting á þegar við vorum ræst. Í fyrsta lagi var engin íþróttaupphitun, svo vorum við bara ræst klukkan 11:18. Fengum engan auka tíma í ánni, þ.e. fengum ekki að hita neitt upp, heldur var bara látið vaða klukkan 11:18. Sá að það voru margir blautir í kringum mig, sem höfðu greinilega haft vit á að fara einhvers staðar í ána fyrir ræsingu, en ég hélt við fengjum eins og hinir einhvern tíma áður en ræst yrði svo ég var bara róleg með þetta og var ekkert að fara í ána og hita upp eða bleyta mig.

Varð því smá stressuð á þessum tímapunkti, aðallega varðandi viðbrögðin við kalda vatninu. Málið var nefnilega að ég hef ekkert synt OPEN WATER sund síðan í Ironman í Flórída í nóvember í fyrra og þá synti ég ekki einu sinni í gallanum í keppninni sjálfri, þar sem sjórinn var það heitur.

TAKMARKAÐAR ÆFINGAR
Ég ætlaði alltaf að fara í Nauthólsvíkina og æfa mig fyrir þessa keppni. Fyrst hafði ég ekki tíma, því ég var alltaf að æfa fjallahlaup. Svo fór ég til Svíþjóðar í Vätternrundan hjólakeppnina, svo til Ítalíu í fjallahlaupið og svo þegar ég ætlaði að fara að æfa mig eftir Ítalíuferðina, þá var bara árshátíðarpartý hjá marglyttunum í Nauthólsvík, svo mig langaði ekki þangað.

Þá ætlaði ég reyndar að fara í Hafravatn, eða eitthvað annað, en það varð aldrei tími í það og ég gaf mér heldur ekki tíma til að prófa gallann í sundlauginni í Kópavogi eins og ég var mikið að velta fyrir mér. Fyrir þá sem lásu ekki blogg gærdagsins, þá fór gærkvöldið (kvöldið fyrir keppni) í því að velta fyrir mér hvort
A) gallinn passaði á mig
B) hvort gallinn læki nokkuð eða eitthvað væri að honum
C) hvort ég fengi nokkuð svona oföndunar-einkenni þegar ég færi í kalda ána eins og ég fékk í Meðalfellsvatni í fyrra.

Nú var búið að segja LYKKE TIL og mér leið alls ekki illa. Held ég hafi verið búin að taka út stressið um morguninn og fann að ég hafði róast þessa klukkustund sem ég fylgdist með hverjum hópi á fætur öðrum fara í ána.

Markmiðin voru alltaf kýrskýr.
Markmið #1 var að klára (þess vegna vildi ég ekki fá krampa eða oföndunareinkenni)
markmið #2 að hafa gaman af þessu og njóta. Tíminn skipti engu máli, á hvort eð er ekki mettíma í Vasaloppet né Vätternrundan 😉

BAÐFERÐIN
Út í ána fór ég klukkan 11:18 með hóp sem var bæði með bláar sundhettur og hvítar. Þeir sem voru með bláar sundhettur voru að fara þetta í 7. skipti og fengu sérstakar bláar medalíur þegar þeir komu í mark. Eftir að ég kom út í þá byrjuðu gleraugun að leka. Fékk mikið vatn inn í vinstra augað. Ég tróð marvaðann tvisvar og reyndi að laga þau, þ.e. losa vatnið úr og herða en alltaf kom vatnið aftur inn. Hugsaði: Það er ekkert við þessu að gera, þetta er bara eins og annað sem er vont, það bara versnar og venst og hélt bara áfram og vandist því að vera með fullt vinstra augað af vatni 😉 Að öðru leyti leið mér bara mjög vel, fann ekki fyrir kuldanum, já ég gleymdi að segja frá því að í biðröðinni á leiðinni út í ána, sá ég tvo keppendur sem voru að fara að synda á sundfötunum einum saman, svo ég hugsaði að vatnið getur ekki verið svo kalt, ef þau ætla 3 km á sundfötunum, svo ég róaðist líka við það.

Vatnið var um 17 gráðu heitt, sama hitastig og á Ermasundinu sem Ásgeir synti án sundfata í um 17 klst. Annað sem kom mér á óvart var að hópurinn sem ég var í, var mjög lítill, miklu minni en stóri Elite B hópurinn sem ég átti að vera í. Það voru nokkrir miklu hraðari sundmenn en ég, sem ég missti alveg fram úr mér þegar ég fór að troða marvaðann og reyna að laga sundgleraugun og svo voru einhverjir fyrir aftan mig. Ég synti þetta sund, því bara ein sem er líka ágætis tilbreyting frá kraðakinu í sjósundinu í Ironman keppnunum.

Þórður í Papco sem tók þátt í þessu sundi í fyrrasumar, sagðist hafa reynt að fylgja línunni sem er dregin um miðja ánna til að reyna að synda sem beinast svo ég ákvað að gera það líka. Var þannig alveg út í miðri á og hafði alltaf augastað á línunni. Þessi leið sem við syndum er virkilega falleg. Sundleiðin liggur undir tvær brýr og leiðin er vel merkt, þ.e. hversu mikið er eftir. Fyrst kom stór bauja sem á stóð 2500 m, man ég hugsaði, þetta líður hratt bara 1/6 búinn, nákvæmlega eins og ég gerði í Vätternrundan og í Lavaredo. Svo var bara allt í einu komin 2.000 m rauð stór bauja eða blaðra. Þá hugsaði ég bara 1 km eftir áfram áður en við tökum beygjuna til hægri upp ána á móti straumnum. Áfram synti ég ein og bara enginn í kringum mig. Enda hópurinn mjög fámennur og áin nokkuð breið og stór. Svo var 1750 m og síðan 1500 m baujan og þá styttist í að við beygjum. Vatnið var áfram að trufla mig í vinstra auganu, en ég var farin að venjast því, enda andaði ég bara hægra megin (er sterkari þar) og línan sem ég var að fylgja var líka hægra megin við mig, svo það kom sér líka vel þá að þessi leki var í vinstra augað en ekki hægra. Nota bene þessi sundgleraugu voru súper fín á mér þegar ég synti í Kópavogslauginni 2,5 km á miðvikudaginn, til að kanna hvort ég kæmist þetta ekki krampalaus sem ég og gerði, þá var ekkert að þeim, enginn leki og súperfín stillt, var reyndar ekki mað hárið í taglið þá (gleymdi hárteygju), sem getur hafa munað í stillingu á bandinu að aftan.

SÍÐASTI 1 KM Á MÓTI STRAUMI
Svo kom 1 km skiltið og beygjan til hægri. Þá sá ég tvo menn með rauða eða bleika sundhettu á bringusundi sem voru þá í hópnum á undan mér og ég tók fram úr þeim. Svo hélt ég áfram, þá var Þórður búin að segja mér að maður á að reyna að halda sig sem næst bakkanum, þar er víst minni straumur, en það er þó nokkur straumur þarna á móti. Ég fann ekki fyrir neinum “með”-straumi fyrstu 2 km (er það ekki eins og á hjólinu, maður finnur alltaf mótvind, en aldrei meðvind – ok sjaldan) en fann greinilega strauminn á móti um leið og ég fór upp ána. Ég tók þvínæst fram úr næstu tveim körlum sem voru alveg við bakkann og að synda bringusund og hélt áfram upp ána. Það voru mjög góðar merkingar alla leið, fyrst kom 750 m eftir. Þá fann ég mikið fyrir þessum straumi og hugsaði með mér hvort ég hefði kannski átt að setja á mig ¼ sjóveikisplástur, hvort ég yrði nokkuð sjóveik í þessum straumi, ok of seint að velta því fyrir sér núna, enda bara 750 metrar eftir.

Mann rak aðeins út á miðjuna og þurfti því að einbeita mér að því að synda aftur í átt að bakkanum til að reyna að halda mig nær honum. Velti líka fyrir mér hvort maður myndi nokkuð synda á bakkann úaahhh ha ha ha. Það er um nóg að hugsa á svona sundi 😉 En svo sá ég skilti 400 m eftir, og hugsaði bara einn hlaupahringur á brautinni, það er ekki neitt.

Þá kemur ein sundkona með hvíta sundhettu og tekur fram úr mér, finnst líklegt að hún hafi verið kannski bara fyrir aftan mig og draftað mig allan tímann, en ég gaf í og reyndi að hanga í henni svo kom önnur sem ætlað fram úr mér hægra megin við bakkann, ég gaf það pláss nú ekki eftir. Svo kom einhver karl á mikilli ferð og ég náði að hanga í honum þessa síðustu 400 metra, en missti báðar konurnar fram úr mér. Gaf vel í til þess að hanga í manninum og var meira að segja orðin tæp að lenda í krömpum á hægra fæti, þar sem ég var farin að setja kraft í sundið, þ.e. notaði líka fætur sem ég nota yfirleitt ekki þegar ég syndi í galla. Það hefði verið gaman að eiga LAP tíma fyrir hverja 100 m, en hef alltaf gleymt að stilla garmin úrið þannig í sundi, enda kannski ekki mikið verið að synda 😉

MARKIР
Það var virkilega gaman að koma með höndina við “skannann” sem maður gerir þegar maður kemur í mark og svo er maður aftur skannaður þegar maður kemur á land. Tíminn 53:42 á garmin úrinu mínu, kom mér verulega en skemmtilega á óvart, sérstaklega þar sem ég náði ekki að drafta neinn eins og ég er vön að ná að gera yfirleitt í Ironman keppnum.

GALLINN OG VANGAVELTUR
Gallinn var fínn og þetta gat á vinstri hendi kom ekki að sök. Auðvitað velti ég mikið fyrir mér hvort ég hefði gert mistök að fara ekki með hraða hópnum. Þá hefði ég kannski getað draftað einhvern, þá hefði ég líka getað æft mig áður en við lögðum af stað og þá kannski ekki þurft að synda með vinstra augað fullt af vatni.

Hins vegar hefði sá hópur kannski verið of hraður fyrir mig og ég sprengt mig með því að fara of hratt af stað. Einnig voru örugglega meiri slagsmál sem ég losnaði við og stress-faktorinn var mun hærri á þessum tímapunkti, svo það þýðir ekkert að velta fyrir sér EF og HEFÐI.

Ég var ánægð með sundið mitt, mér leið vel og skemmti mér vel svo markmið A og B voru klárlega uppfyllt. Mæli samt ekki með að fólk fari óæft í svona keppni eins og ég gerði. Hugsaði mikið í gærkvöldi, þegar ég las um æfingar fyrir sjósund í sjósundstímaritinu hversu klikkað þetta væri og alls ekki til eftirbreytni.

Ég held að ég hafi verið heppin í dag, en ég geri þetta ekki aftur, fyrir andlega heilsu að fara í keppni án þess að hafa æft í keppnisgallanum, eða synt neitt sjósund.

FLOTT AÐSTAÐA
Eftir sturtu, þá fékk ég mér að borða. Aðstaðan er til algjörrar fyrirmyndar. Það er stór úti búningsklefi með fullt af sturtum. Það er stórt veitingatjald, þar sem boðið var uppá bayon skinku með kartöflusalati og hrásalati og hrökkbrauð og smjör og kaffi. Svo kíkti ég aðeins aftur á “expoið” til að kaupa lím til að gera við gallann minn. Þá kom alveg úrhellidempa, rigningin var á stærð við haglél svo ég ásamt flestum öðrum sátum það af okkur inn í tjaldinu, annað hvort Expo tjaldinu eða skráningartjaldinu eða matartjaldinu, það var alla vega ekki hundi út sigandi og miklar þrumur sem fylgdu þessari rigningu.

DIPLOMA
Ég notaði tækifærið og lét prenta út Diploma eða viðurkenningarskjalið mitt. Þegar búið var að prenta það út, stóð að ég hefði verið 1 klst og 56 mín á leiðinni. Ég bað hana nú að skoða það, því þetta væri ekki rétt. Ég hefði farið með 11:18 hópnum og skannað mig þar á leið út í ána. Hún fór og kíkti á þetta. Ég hafði greinilega verið skráð með 10:15 hópnum og fékk því þennan langa tíma. Hún gat auðvitað séð á skannanum hvenær ég fór og því fékk ég svo réttan tíma 00:53:49.

Svo stytti loksins upp svo ég gat labbað og sótt bílinn sem ég hafði skilið eftir þar sem sundið er ræst. Fór svo aftur á Expoið og sótti vörur sem ég hafði sett í körfu eftir keppnina.

Sólin fór svo að skína á okkur aftur og þá var yndislegt að sitja bara í Coca cola tjaldinu og njóta þess að fylgjast með fjölskyldum samgleðjast sundmönnum sem voru að koma í mark. Það var mjög mikið af fólki, mikið af barnafólki og greinilegt að Svíarnir fara bara í langa útilegu, gista í tjaldi eða húsbílum og mikil skemmtileg stemning í kringum þessa flottu keppni.

Nú er þrjár þrautir af fjórum búnar í Svenska Klassiker. Síðasta þrautin verður 24. september, 30 km utanvegarhlaup sem heitir Lidingöloppet.

You may also like

Leave a Comment