Hermannsgangan 2020

by Halldóra

Við Óli vorum búin að bóka helgarskíða-ferð norður á Akureyri viku fyrir jól, en þar sem veðurspáin var leiðinleg og ekki líklegt að opið yrði í Hlíðarfjalli ákváðum við að fresta ferðinni þangað til í janúar og Óli bókaði bara einhverja helgi, eða helgina 24-26.janúar, en föstudagurinn var bóndadagur.

Við plötuðum svo Siggu og Pétur með okkur. Sigga komst svo að því að það yrði skíðaganga fyrir norðan þarna um helgina, þ.e. Hermannsgangan 2020, sem er hluti af Íslandsgöngunum, svo við ákváðum bara að skrá okkur.

Við lögðum af stað snemma á föstudagsmorgni norður, þar sem ekki var fært til að aka á fimmtudagskvöldinu. Vorum komin norður rétt rúmlega 13 sem hentaði vel, þar sem fjallið opnaði klukkan 14:00. SKíðuðum í frábæru færi á föstudeginum og sóttum svo gögnin fyrir gönguna seinnipartinn. Spurði svo ráða hvort ég ætti að vera á skinnskíðunum eða klístur og fékk upplýsingar að klísturskíðin væru betri, svo ég rétt náði að hendast með þau í Skíðþjónustu Akureyrar fyrir klukkan 18:00 til að fá prepp á þau, ætlaði svo bara að nálgast þau daginn eftir.

Fórum um kvöldið (bóndadagskvöldið) út að borða á RUB23, frábæran Bóndadagsmatseðil.

Óli greyið veiktist svo um nóttina, fékk flensu og gat ekki skíðað meira, en við Sigga og Pétur fórum uppí fjall. Við Sigga í gönguna og Pétur í fjallið. Ganga eru tveir 12 km hringir uppá heiðina, en það var mikill skafrenningur og þó nokkuð hvasst. Á tíma héldum við að ganga yrði ekki ræst vegna veðurs.

En gangan var ræst og við grjótharðar og jákvæðar lögðum auðvitað af stað, en aðstæður voru vægast sagt erfiðar. Það var ekkert spor og uppá heiðinni sáum við ekki einu sinni, nema rétt meter fyrir framan okkur. Þegar fyrri hringurinn var að verða búið, hugsaði ég, þeir hljóta að stytta keppnina um helming. En nei, þeir gerðu það ekki og áfram skíðaði maður seinni hringinn, eiginlega án þess að sjá neitt. Það var frekar sorglegt, því þetta er örugglega falleg leið og örugglega mikið útsýni yfir fjörðinn þarna uppfrá 😉

En það var gott að koma í mark og ég kom sjálfri mér á óvart, varð í 2.sæti í aldursflokki og í 4.sæti kvk overall á tímanum 2:29:48.

Eftir skíðagönguna var frábært kaffisamsæti í VMA algjörlega glæsilegt, þar sem verðlaunaafhending fór fram og ég var líka dregin út í útdráttarverðlaunum, fékk frídaga á gönguskíði í Hlíðarfjalli. Tækifæri til að koma aftur og nota það, sem og þá daga sem við eigum eftir af skíðapassanum. En Óli gat ekki notað 2 daga og ég á inni 1 dag, þar sem við skíðuðum ekki á laugardeginum. En skíðuðum smá á sunnudegi, í afar slæmu skyggni.

Hlakka til að koma aftur norður til að prófa nýja stólinn í Hlíðarfjalli sem verður vonandi búin að opna næst þegar við komum.

You may also like

Leave a Comment