Halldóra hljóp 350 km nær stanslaust í rúma 6 daga eða í 145 klst og 55 mín.

by Halldóra

Birtist á hlaup.is í dag.
https://hlaup.is/hlaup-i-utloendum/ferdasoegur/tor-330-tor-des-geants-halldora-hljop-350-km-stanslaust-i-ruma-6-daga-eda-i-145-klst-og-55-min/

Hlaupið TOR330-TOR DÉS GEANTS er 350 km fjallahlaup þar sem hlaupið er hringinn í kringum Aosta Valley (Ávaxtadalinn) á Ítalíu, en hlaupið er með 30.000 m samanlagðri hækkun skv. ITRA.

Tímamörk til að klára hlaupið eru 150 klst (6 dagar og 6 klukkustundir) og það er reglulega tímavörður á leiðinni. Hver hlaupari ræður því hversu oft og mikið hann sefur á leiðinni. Á u.þ.b. 50 km fresti færðu „drop-bag“ tösku á svokallaðri „Live-Base stöð“ þar sem eru hermannabeddar og hlauparar geta lagt sig. Taskan er eins og stór íþróttataska, þar sem koma þarf fyrir öllum aukafatnaði, svefnbúnaði, snyrtivörum, aukaskóm, USB hleðslum og aukamat/orku.

Margir hlauparar eru með aðstoðarmann með sér í hlaupinu, sem mega aðstoða inni á drykkjarstöðvunum. Aðstoðarmenn geta verið með aukabúnað með sér. Á ár var Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé eini Íslendingurinn sem tók þátt í hlaupinu og kláraði hún hlaupið á 145 klst og 55 mín.

„Ég fór ein í hlaupið, með engan aðstoðarmann, svo það var mikil áskorun að koma öllum búnaðinum fyrir í „gulu töskunni“ eins og ég kallaði „drop-bag“ töskuna mína. Einnig barðist ég við áreynsluasma, þannig að í hvert skipti sem ég var komin yfir 2.000 metra hæð þá fékk ég slæm asmaköst og einkenni háfjallaveiki.  Hæstu tindarnir í Tor Dés Geants hlaupinu eru yfir 3300 metrar,“ segir Halldóra og bætir við: „Ég var einstaklega heppin að fá góða og mikla aðstoð frá vinum mínum Stefáni Braga Bjarnasyni og Elísabetu Margeirsdóttur, í gegnum síma og með tölvuskilaboðum frá Íslandi. Þau eru miklir reynsluboltar og hafa bæði klárað Tor dés Geants 300. Auk þess fékk ég góðan styrk frá Ölpunum í formi Salomon búnaðar sem nýttist mjög vel í þessu hlaupi sem og í æfingaferð sem ég fór í á sömu slóðir í ágúst síðastliðinn.“

Æfingavikan hjá Halldóru Gyðu endaði með þátttöku í OCC hlaupinu 56 km þann 26. ágúst, sem er  í UTMB seríunni, svo hún náði 210 km æfingaviku í Ölpunum.

Halldóra heldur úti heimasíðunni https://halldora.is/ en þar er að finna ítarlega lýsingu á Tor des Geants hlaupinu. Þess má geta að Halldóra var í 9. sæti í aldursflokki V2, af 18 sem hófu keppni, í 40. sæti kvenna af 78 sem hófu keppni og í 377 sæti af 712 sem hófu keppni. Brottfall í hlaupinu var 40%, þannig að það voru 431 hlauparar sem luku keppni í ár.

Þrír Íslendingar hafa klárað TOR 330-TOR DÉS GEANTS hlaupið fyrir utan Halldóru, þau Elísabet Margeirsdóttir, Stefán Bragi Bjarnason og Birgir Sævarsson.

Hægt er að lesa ítarlega lýsingu á hlaupinu á heimasíðu Halldóru.

You may also like

Leave a Comment