#5 Tor dés Geants, Gressoney Palazzetto – Cretaz (Valtournenche)

by Halldóra

Það var niðamyrkur þegar ég hljóp í gegnum bæinn frá Sporthöllinni í Gressoney (klukkan 02:10 aðfararnótt fimmtudags) og það var Ítali sem hljóp með mér frá drykkjarstöðinni. Hann hélt fyrir mig á bakpokanum þegar ég var að klæða mig í jakkann og sagði: „Mikið rosalega ertu með þungan bakpoka.“

Mér var hugsað til Sigga Kiernan vinar míns á þeim tímapunkti sem er alltaf að skamma mig fyrir hversu mikið drasl ég er með á mér þ.e. í bakpokanum á hlaupum. 😊

Svo hélt ég á stöfunum hans meðan hann klæddi sig í sinn jakka og þeir voru miklu þyngri en mínir ha ha ha svo hann fékk alveg að heyra það ha ha hvað stafirnir hans voru þungir 😊

Stuttu síðar kom Frank vinur minn frá Þýskalandi (#0549) (ég hugsaði hvaða útibú Íslandsbanka er það (Garðabær var 0546 og Fernandez Francisco Benjumea var með það númer) :-)). Frank býr í Bavaria héraði í Þýskalandi, man það svo vel út af bjórnum, þ.e. óáfengum Bavaria Weissbier var búin að ræða það við hann, þegar við hittumst á leggnum á undan 😊

Hann, nýi ítalski vinur minn og auðvitað allir aðrir fóru svo upp fjallið á undan mér. Ég ákvað bara að vera róleg, fara hægt, taka pústin mín og hætta að pirra mig á þessu þegar allir fóru fram úr mér upp fjallið. Í æfingaferðinni okkar í ágúst, hafði ég farið ein upp þetta fjall, þar sem Stefán Bragi og Iðunn þurftu að koma bílnum yfir í næsta dal. Þau kíktu á Monte Rosa fjallið og komu svo á móti mér í næsta dal.

Stefán Bragi var búin að segja mér að taka svo stuttan PowerNap í skálanum Rif. Alpenzu. Ég reyndi að hvíla mig þar á borðinu úti, en það var svo kalt að ég vildi bara frekar halda áfram. Ég þekkti leiðina, en fannst leiðin reyndar miklu auðveldari þegar ég fór hana í ágúst, heldur en núna, enda kannski orðin aðeins þreyttari þar sem ég var búin með 219 km 18.826 m hækkun. Var í Rif. Alpenzu klukkan 03:31 aðfararnótt fimmtudags (87 klst og 31 mín).

Það var auðvitað niðamyrkur þegar ég kom uppí Col Pinter skarðið, tók samt eina mynd, sem var ekkert sérstaklega góð 🙂

Á leiðinni niður fjallið þ.e. eftir Col Pinter skarðið uppgötvaði ég af hverju ég væri með svona mikinn verk í hægri öxlinni. Á Gressoney stöðinni hafði konan sem skipti um tímatökubúnað eins og ég sagði ykkur frá í síðasta bloggi, fest búnaðinn á Salomon vestið mitt öfugt. Hún setur sem sagt hörðu græjuna undir axlarbeltið á Salomon vestinu í staðinn fyrir að setja það ofan á, svo í hvert skipti sem ég hljóp þá þrýstist græjan niður í viðbeinið á mér og meiddi mig.

Ég var ekki með skæri eða hníf á mér, til að taka þetta af, enda var þetta rígfast, svo ég bara hélt einhvern veginn á Salomon vestinu í fanginu á mér niður allt fjallið því verkurinn var óbærilegur í hægri öxlinni.

Þegar ég kom svo inní Champoluc bæinn þá varð ég að stoppa aftur í fallegu kirkjunni sem blasir við þegar þú kemur inn í bæinn. Ég gaf „donation“ og kveikti á tveim kertum fyrir okkur mæðgurnar. Ég fór inn í þessa sömu kirkju og kveikti á einu kerti í æfingaferðinni minni fyrir mömmu. Nú voru kertin mín tvö einu kertin sem loguðu í þessari fallegu kirkju, en þarna átti ég yndislega stund.

Skokkaði svo í gegnum bæinn og kom við í súpermarkaðinum (mjög gott að vita núna hvar hann er staðsettur) þar sem ég fékk mér tvo Gatorade brúsa og meiri hálsbólgubrjótsykur. Ég var farin að hósta mjög mikið og orðin mjög þurr í hálsinum, bæði út af astmanum og svo bara álaginu almennt. Ástæðan fyrir því að ég varð að fá mér Gatorade brúsa var sú að það var komið svo mikið plastbragð af vatninu í Salomon skvísunum að ég gat ekki orðið drukkið úr þeim lengur og henti þeim á drykkjarstöðinni í Champolux. Notaðist bara við Gatorade brúsa eftir það.

Tíminn þegar ég kem í Champoluc var klukkan 08:40 á fimmtudagsmorgni (92 klst 40 mín) komin með 230,8 km.

(Halldóra var að koma inn á Champoluc, en GPS staðsetningin hennar er enn í Gressoney. Eitthvað klikkað þar. En frábært hjá henni. Markmiðið var að ná þangað á milli 9 og 10 en hún datt inn þar 8:40 og er því núna búin að vinna sé inn 5 klst. og 20 mínutur á tímamörkin. Frábærlega vel gert. Eins og er er hún sambandslaus þannig að frekari fréttir koma síðar. Hún var bara 6,5 tíma yfir en hafði 12. Hún stoppar væntanlega ekki lengi í Champoluc og stefnir næst upp í Rifugie Grand Tournalin þar sem er gott að hvílast í einhvern tíma, Stefán Bragi.)

(Samkvæmt þeim upplýsingum sem sjást er hún í sæti 415 af 471 hlaupara og því búin að taka vel framúr á þessum legg. Það eru núna 56 hlauparar á eftir henni. Frekari fréttir þegar samband næst, Stefán Bragi.)

Ég kvartaði við starfsmanninn á Champoluc stöðinni yfir því hvernig tímatökuxbúnaðurinn hafði verið festur og lét klippa hann af og festa hann aftan á bakpokann, svo hafði búnaðurinn ekki einu sinni virkað frá því ég lagði af stað og ég kvartaði líka yfir því. Ég hitti Frank aftur á stöðinni og við ákváðum að leggja okkur á beddum þar. Var auðvitað ekki með gulu töskuna eða neinn auka búnað, en lagðist bara á bedda og bað um að ég yrði vakin eftir 20 mín, svo þegar konan vakti mig þá bað ég hana um aðrar 20 mín enda var ég að ég hélt bara á góðum tíma.

Skildi ekkert af hverju ég hafði ekki fengið nein skilaboð frá Stefáni Braga en fattaði svo þegar ég vaknaði að ég var með símann stilltan á Airplane mode, var að spara batteríið 🙂

(Til þess að hækka aðeins spennustigið í hlaupasögunni… þá er síminn hennar ekki að svara. Hún gæti hafa lagt sig og slökkt á honum, eða misst hann og hann bilað eða brotnað. Eða Vodaphone er í slæmum málum. Það hefur ekkert heyrst til hennar í 50 mín frá því hún kom til Champoluc sem er sæmilega stór bær. Spennandi ? Stefán Bragi.)

(Og niðurstaðan var…….. Halldóra lagði sig og setti símann á AirPlain mode. 🙂 Hún er í topp málum, var að borða heita samloku með skinnku og osti í einhverri sjoppu í Champoluc. Búinn að ná svefni og er lögð af stað upp í Grand Tournalin skálann. GPS tækið er eitthvað bilað og það mun ekki nást að laga það fyrr en í næsta lifebase í Valtourence. En þangað ætti hún að koma í kvöld. Hún ætti að vera um 3 klst. upp í skálann, stoppar þar í stuttan tíma til að nota dagsbirtuna og heldur svo áfram. Næsta Cut er í Valtourence Inn kl. 19:00 í kvöld (ísl) sem er LIFEBASE og hún ætti að ná því vel innan tímamarka. Stefán Bragi.)

Eftir að ég vaknaði var ég búin að ákveða að kíkja á líkamsræktarstöðna við hliðina á þar sem ég hafði fengið svo góða samloku „toast“ með skinku og osti þegar ég var með Iðunni og Stefáni, en nú var líkamsræktarstöðin lokuð.

Gekk fram á apótek sem var opið og keypti sterkar STREPSILS eða sambærilegar töflur sem komu sér heldur betur vel þegar leið á ferðina. Þegar ég er svo að leggja í hann sé ég svona veitingaskúr sem selur pylsur og samlokur og þar var yndislegur drengur að vinna, sem grillaði fyrir mig samloku, setti kodda á stólana úti svo ég fékk mér sæti og ég keypti samloku með skinku og osti og Sprite og fékk mér líka íspinna í desert.

Mér leið svo vel eftir þessa samloku, því ég var eiginlega hætt að borða á þessum drykkjarstöðvum. Tala nú ekki um ísinn, var alveg tilbúin að takast á við næstu fjöll. Heyrði svo í Stefáni Braga sem var farin að hafa verulegar áhyggjur af mér hann hélt að síminn minn væri bara ónýtur eða að Vodafone væru búnir að loka á mig. Hann vissi að ég var fyrir löngu komin inná stöðina.

Hann var svo glaður að heyra í mér og að ég hefði náð að hvíla mig að að hann sagði mér bara að fá mér aðra samloku og taka með í nesti ha ha ha – sem ég kannski hefði átt að gera, því hún var miklu betri en samlokann sem ég fékk mér svo uppi í fjallaskála 😊

Vantar aðeins í endann, en er sem sagt að segja frá tækinu sem var sett rangt á Salomon vestið mitt.

Við Iðunn og Stefán Bragi höfðum einmitt áð í Rif. Grand Tournalin í sumar, en ég var kominn þangað klukkan 12:58 fimmtudagur, (96 klst 58 mín) , búin með 239,1 km og 21.172 m í samanlagðri hækkun.

Það var mjög gott að hafa farið þangað og þekkt leiðina upp eftir. Ég fékk frábærar móttökur þegar ég kom í skálann, frábærar þessar háværu kúabjöllur, sjá myndband.

Frábærar móttökur í Grand Tournalin skálanum.

(16/9 11:23 Halldóra er komin upp í Grand Tournalin skálann, var að detta inn núna rétt áðan kl. 10:58. Hún missti nokkra fram úr sér vegna þess að hún ákváð að fá sér aðra samloku með skinku og osti í Champoluc. 🙂 og það VAR RÖÐ. Svona er þetta, það þarf að kynda kolaofninn og allt sem brennur skilar þér orku. Hún ætlar að stoppa stutt, megnið af hækkuninni búið í dag. Ekki eftir nema 350 metra hækkun og svo allt niðri í móti eftir það í næsta Lifebase í Valtourence. Hún ætlar frekar að eiga meiri tíma þar og ná aftur í + 2 klst. við að fara inn á stöðina. Eins og er á hún 5 klst. á tímamörkin og er að halda því. Stefán Bragi.)

Ég ætlaði ekki að stoppa lengi en þeir voru mjög lengi að hita samlokuna í kolaofninum þarna upp frá svo ég fékk mér bæði Cappuccino og alvöru ítalskt súkkulaði með rjóma, sem var eins og að drekka kakósúpu. Spjallaði þar við ungt par, sem var algjörlega gáttað á þessu TOR ferðalagi mínu 🙂 Í skálanum sá ég hlaupara sem var með Tor dés Geants tattoo, merkt 2018-2019, tók mynd af því, bara svona til að spyrja, á maður að fá sér svona TATTOO á kálfann ? uhhh leyfðu mér að hugsa málið … nei held ekki 🙂

Ég hitti líka danska teymið, Flenning og Allan, á leið minni upp í skálann, en það voru tveir Danir saman sem ég var svo að rekast á, nokkrum sinnum eftir þetta. Þeir sögðu mér að bæði Tommi, frá Finnlandi vinur minn hefði hætt eftir brekkuna niður í Niel, ég hafði einmitt hitt hann þegar hann var þar að teipa á sér hnéð. Þeir sögðu mér líka að Matti vinur okkar sænski hefði fallið á tímamörkum líka á leiðinni niður í Niel. Ég var búin að sjá á trackinu að Michael vinur minn #424 var líka hættur, svo það voru ansi margir sem ég þekkti hættir í hlaupinu ;-(

Annar Daninn sagði mér að hann hefði verið búinn að reyna áður við TORINN, en var þá líka með partner með sér sem lenti í meiðslum og þeir urðu að hætta. Ég er ekki alveg viss um að ég myndi vilja fara í svona langt hlaup með svona skuldbindingu, þ.e. að fara í samfloti alla leiðina með einhverjum öðrum, nema viðkomandi hefði nákvæmlega sömu styrkleika og veikleika og ég. Það var t.d. alveg ljóst með vini mínum Michele að það gekk alls ekki upp, þar sem styrkleikar okkar og veikleikar voru algjörlega andstæðir.

Leiðin eftir fjallaskálann Rif. Grand Tournalin er krefjandi yfir skarðið Col di Nana og Col des Fontaines.

Við skarðið Col de Nannaz, Alta Via 1.

(16/9 14:06 Halldóra er rétt að fara að koma inn í Lifebase stöðina Valtourence. Hún er búin að ná að senda Location sharing á Facebook. Hún er búin að vinna sér inn meiri tíma og á núna 7 klst. á tímamörkin út af stöðinni. Hún ætlar að nota 3 klst í svefn og annað. Nú eru fæturnir farnir að kvarta og bara níu tær eftir enda langt niðurhlaup til Valtourence. En vonandi verður tíunda táin komin á aftur eftir svefninn. Til að setja ykkur aðeins inn í hugarheim Halldóru á þessu andartaki þá sendi hún mér mynd af úrinu sínu og spurði hvort að það væri einhver geðveik brekka eftir. Ég hafði sent henni að þetta væri allt niður í móti til Valtourence. Ha.Ha, úrið snéri vitlaust…… Þetta verður spennandi alveg til enda. Hún er núna búin að leggja að baki 248 km og 21.547- metra hækkun og það er svo stutt eftir – en samt svo langt. Í hvaða sæti hún er verður ljóst þegar hún er komin inn á stöðina. Stefán Bragi)

Innskot HGMP: Man ekki eftir þessu með úrið … ha ha ha en það kannski lýsir ástandinu á manni 🙂

Ég kom svo niður í Valtournenche klukkan 16:16 fimmtudagur (100 klst 16 mín) samtals 248,2 km og 21.547 km. Tímamörk eru þar klukkan 21:00 inn og 23:00 út. Live-Base stöðin er einmitt við hliðina á Pizza-stað sem við stoppuðum á í sumar, þá í frábæru veðri, en nún var bara rigning og þoka í Valtournenche.

Ég var orðin mjög kvalin þegar ég kom í Valtournenche aftan á hálsinum, gat varla haldið hausnum uppi. Ég reyndi að nota stafina til að nudda mig aftan á hnakkanum og eða halda þeim beint upp í loft til að rétta úr bakinu. Ég var búin að taka mjög mikið af verkjalyfjum og rúllaði DEEP HEAT kreminu á hnakkann reglulega, en án mikils árangurs , það deyfði aðeins sársaukann, þar sem ég var mjög kvalin, en náði samt að hlaupa niður brekkuna.

Ég bað strax um að komast í biðröð í nuddið, sat á fremsta bekk í bíósal og nuddararnir voru á sviðinu. Fékk svo góðan nuddara sem reyndi að losa um hnakkann (aftan á hálsinum) á mér, þetta eru festingar sem voru bara búnar að gefa sig. Ég fékk líka sjúkraliða til að kíkja á teipið á fótunum á mér, en þeir voru eitthvað að meiða mig, plástrarnir sem ég fékk í Neil en hún hafði náð að losa aðeins um þá.

Skilaboðin frá Stefáni voru að sofa í 90 mín. Fór fyrst á klósetið, á myndinni í albúminu hér að neðan, má sjá hvernig ítölsk salerni eru, bara eins og sturtubotn, ekkert klósett og NB þetta var frekar hreint 🙂 🙂

(16/9 14:28 Kominn tími inn í Valtourence Samtals 100,16 klst. að baki. Hún er í sæti 426 af 465 hlaupurum. Stefán Bragi.)

Tók með mér pokann með svefndótinu, þ.e. svefnpoki, primaloft úlpan, augnhlífar og eyrnatappar og fór inní íþróttahúsið og steinsofnaði eftir nuddið. Stefán hringdi svo eftir 90 mínútur og ég dreif mig í að ganga frá öllu og koma mér af stað, ennþá samt frekar kvalinn í hnakkanum. Ég talaði við einhverja yfirmenn út af GPS græjunni sem virkaði ekki neitt, en þeir gátu ekki skipt henni út eða komið henni í gang því miður.

Á stöðinni í Valtournence var yndislegur ungur drengur sjálfboðaliði (man ekki hvað hann heitir) sem hjálpaði mér að pakka í gulu töskuna og koma henni á réttan stað. Ég þakkaði honum kærlega fyrir aðstoðina og hrósaði honum í hásterti við yfirmann sem var þarna á staðnum, sem var að reyna að græja fyrir mig GPS græjuna.

Ég borðaði ekki neitt á LIVE-BASE stöðinni, en fyllti á vatnsbrúsana mína og hélt svo áfram.

Tékkaði mig út klukkan 19:04 fimmtudagskvöld (103 klst 4 mín).

FIMMTUDAGUR 19:04 – 248,2 km búnir og 21.547 m samanlögð hækkun – Tímamörk 21:00 inn og 23:00 út.

You may also like

Leave a Comment