#3 Tor dés Geants, Cogne – Donnas

by Halldóra

Lífið er fullt af tilviljunum. Þegar ég vaknaði þá hitti ég Michele aftur, hann var búin að pakka dótinu sínu og tilbúin en fékk sér að borða á meðan hann hinkraði eftir mér og við gengum saman út úr Cogne. Ég hefði viljað hlaupa, en hann gekk bara, svo ég gekk bara með honum (hann lagði sig lengur en ég í fjallaskálanum kvöldið áður og fór auðvitað hægar niður brekkuna, svo hann hefur örugglega bara sofið í um 1 klst í Cogne), eins og við svo sem höfðum planað, en ég náði 2 klst og bara 10 mín í fjallaskálanum uppfrá, en ég náði sturtu áður en ég lagði mig og veit að hann fór ekki í sturtu.

Undirlagið var mjög hlaupalegt þarna út úr bænum og mér leið mjög vel eftir nóttina. Fór af stað með nýja ljósið sem var allt annað heldur en varaljósið. Þegar við erum að leggja af stað sjáum við hlaupara sem eru að koma inn í bæinn á stöðina og þá eru bara um 30 mín eftir af tímamörkunum inn og 2,5 klst eftir af tímamörkunum út. Man ég hugsaði hvað ég væri fegin að vera ekki í sporum þessara hlaupara, að vera svona tæpir í tímamörkin.

(Eftir 2,5 klst. hvíld í Cogne hélt Halldóra af stað aftur í morgun í næsta legg til Donnas. Sá leggur er mun auðveldari myndu margir halda en seinni hlutinn er á kortinu 30 km langt niðurhlaup. Það er samt ekki allt niður og það merkilega við TOR er að flestir sem hætta gera það vegna þess að þeir geta ekki meira niðurhlaup. En Halldóra er fersk eftir hvíldina og fer inn í flottan dag á Ítalíu þar sem hæðin er lægst og hitinn mestur. Það er skýjað í Donnas þannig að hitinn fer sem betur fer bara í 24 gráður og smávægileg úrkoma, nánast ekkert – frá Stefáni Braga).

Eftir sturtu og tveggja klst svefn í Cogne, eldhress um miðja nótt og Michele, ítalski vinurinn í humátt á eftir.
MJÖG RUGLINGSLEGT MYNDBAND, ERU SNAP CHAT BROT … 🙂

Fyrsta tékkinstöð eftir Cogne var í Goiles, þar fengum við okkur te, ofboðslega sykrað og héldum svo áfram. Mér leið mjög vel en Michele var í vandræðum, ég gaf honum verkjatöflur og hálsbólgutöflur, en hann hóstaði líka mjög mikið, einhver skítur í hálsinum á honum.

Svo var bara þægilegt hlaup upp að Rifugio Sogni, alls ekki bratt og mjög hlaupanlegt, en M var í vandræðum, illt í maganum, svo ég gaf honum eplið mitt sem ég hafði tekið með mér frá Cogne drykkjarstöðinni. Eitt skipti vildi ég reyndar stoppa sjálf til að fara úr sokkunum og sá þá að ég var að fá blöðru sem var reyndar sprungin, svo ég setti hælsærisplástur yfir sárið.

(Hún er alveg að detta inn í Rifugio Sogno og er þá komin 125 km og 10.919.- metra hækkun. Þegar til Donnas er komið er hún komin 156 km. og 12.242.- þannig að það er hófleg hækkun í dag. Hún á eina góða brekku eftir áður en að 30 km niðurhlaupið hefst. Staðan núna í TORX er sú að það eru 556 hlaupara eftir, 156 hættir og Halldóra er í sæti 505. Frá Stefáni Braga.)

Það var eitt af góðu ráðunum sem ég fékk frá reynsluboltunum, að ef þú finnur einhver blöðrueinkenni að stoppa strax og sprengja þær og gera strax að fótunum, því það er ekki aftur tekið að hlaupa með fæturna alla í sárum í sex daga.

Þegar við komum í Rifugio Sogno skálann var orðið bjart og ég fékk bæði Fanta og Sprite, nú í fyrsta skipti í boði hússins 🙂 Nú voru aukaverkanirnar af Díamoxinu farnar að segja til sín, þar sem FANTAÐ sem ég elska var orðið ógeðslegt á bragðið en SPRITE drykkurinn var ennþá allt í lagi. Ótrúlegt hvað gosdrykkir geta gefið manni mikla orku þegar maður er lystarlaus í svona löngu hlaupi.

Í þessum skála var mjög gott brauð og ég fékk mér súpu, eða sem sagt bara súpuseyði og brauð með skinku. M lagði sig á bekkinn, enda mjög slappur, ég beið bara róleg í um 10-15 mín. Svo vakti ég hann og sagðist vilja halda áfram, en bauð honum að sofa lengur en hann var orðin skárri og vildi koma með. Toppurinn á næsta fjalli var rétt undir 3000 metrum og gekk ferðin betur en áður. Nú var ég farin að nota „HÓSTA AÐFERÐINA“ þ.a. ég ræskti mig og hummaði mikið þegar ég var komin svona hátt og náði með því að opna lungnaberkjurnar. Ótrúlegt hvað þetta munaði miklu, en ég hafði byrjað á þessu í 3000 metra fjalli númer tvö.

Leiðin niður var fín, en M vildi ekki hlaupa, næsta stopp var í Rifugio Dondena, þangað vorum við komin um klukkan 13:16 komnar 49 klst og 16 mín. Áfram hélt leiðin niður og ennþá gat M ekki hlaupið, þó ég væri stöðugt að segja honum að fara á undan mér upp, svo ég gæti hlaupið og náð honum niður, þá gengum við bara og vorum komin í Chardonney klukkan 15:24 (51 klst 24 mín).

Þar sem ég var alltaf að bíða eftir honum og bara að ganga þá fór ég bara á FB live, og á Instagram og ég var bara að spjalla og dóla mér, enda ekkert hlaupið þennan samt frábæra niðurkafla leið.

Um vináttuna, aftur komin á FB live. Svo datt allt út sem ég bætti við út af nettengingu, en M var búin að hjápa mér og ég var búin að aðstoða hann allan daginn, þar sem hann var mjög slappur, en vissi og fann að við vorum að brenna upp tíma, með öllu þessu labbi niður hlaupanlega kaflann sem Stefán Bragi var búin að segja mér að væri svo hlaupanlegur og hentaði mér vel.

Við fengum okkur svo hreint pasta og skinku í Champorcher skálanum (þar keypti ég líka vina-armbönd handa okkur Iðunni) og við vorum bara í frekar góðum málum. M var farin að velta fyrir sér hvort við værum orðin með þeim síðustu niður af fjallinu, þar sem allir fóru fram úr okkur og hann auðvitað gekk niður og ég bara í humátt á eftir honum.

(Halldóra var að koma til Pontboset sem er í tæplega 3 klst. fjarlægð frá Donnas. En nú er spennan að magnast. Tíminn er ekki alveg að vinna með henni og hún mun koma inn á Donnas stöðina á ca. 56:30 klst. Tímamörkin eru 62 tímar inn og 64 tímar út. Halldóra mun því eiga ca. 5,5 tíma á tímamörkin inn og 7,5 tíma á tímamörkin út. Það er heldur minna en ákjósalegt væri á þessum stað í hlaupinu. Hún verður að nota af því 3-4 tíma í Donnas til að hvílast. Eins og staðan er núna er Halldóra í sæti 531 af 551 sem eru enn inni í hlaupinu. Í Donnas er talað um að hlaupið sé næstum hálfnað, minna en hálfnað í kílómetrum en meira en hálfnað í hæðarmetrum. Seinni hlutinn verður æsispennandi því þar mun Halldóra virkilega þurf að berjast við Cut off tímana……….Það eru ennþá 8 Cut off stöðvar eftir. Brútal, en skemmtilegt  – frá Stefáni Braga. )

Svo komu skilaboð frá Stefáni Braga um að ég væri búin að tapa um fjórum klst eftir þennan dag og hann var mjög svekktur að ég hefði ekki nýtt mér þessa hlaupanlegu niðurleið. Skilaboðin voru skýr: „EKKI EYÐA EINNI MÍNÚTU Í FACEBOOK ef þú ætlar að reyna að klára þetta hlaup :-)“

Ég ákvað bara að hringja í hann og útskýra fyrir honum að ég væri alltaf að bíða eftir M, sem væri ástæðan fyrir því að ég væri á FB til að nota tímann á meðan ég biði. Hann sagði að nú yrði ég að hætta á samfélagsmiðlum og einbeita mér að hlaupinu.

Stefán skrifaði í messenger skilaboðum: Muna tékklistann, vinna eftir honum hratt og fumlaust og ná lágmarki tveggja tíma svefni. Svefnloftið er á efri hæðinni. Eftir Donnas ert þú komin á kunnulegar slóðir og það mun hjálpa þér mikið. Fulla ferð …

Skilaboðin voru skýr. Í símtalinu sagði Stefán Bragi að ég ætti ekki að bíða. Þetta væri mitt hlaup og ef ég ætlaði að klára þá yrði ég að gefa í. Ég dreif mig því bara af stað og henti mér niður restina af fjallinu og hljóp á undan M alla leið niður í Donnas. Náði ekki einu sinni að kveðja hann eða láta hann vita, en hann hafði svo sem sjálfur tvisvar farið á undan mér og látið mig ekki vita, annað skiptið leitaði ég að honum (eins og af Berki um árið) svo ég hugsaði ég bara fer niður eftir og alla leið niður í Donnas og hitti hann þar.

Við vorum búin að ræða fyrr um daginn hvað það yrði frábært að fá sér pizzzu í Donnas og ég var búin að segja honum að mig langaði í óáfengan bjór og pizzu með hráskinku og ruccola. Þegar ég svo kem í Donnas fann ég bar og keypti mér Sprite (ekki Fanta) og hálstöflubrjóstsykur. Hljóp fram hjá pizzastað en vissi að ég hafði ekki tíma til að stoppa og panta mér pizzu þó mig dauðlangaði í hana, þar sem ég var að hlýða Stefáni og gefa bara í.

Kem svo inná Donnas stöðina, sem er alveg hinum megið við bæinn, klukkan 20:21 (56 klst og 21 mín), en þar voru tímamörkin inn 02:00 um nóttina og út 04:00 um nóttina. Þurfti reyndar að hringja í Stefán því ég hafði áhyggjur að ég hefði hlaupið fram hjá stöðinni, því ég var búin að hlaupa í gegnum allan bæinn, en stöðin var hinum megin við kastalann, en þar var einmitt tekin „myrkurmynd“ af mér, þ.e. ljósmynd í myrkrinu og mér bara brá við flassið sá fólkið ekki sem beið og tók myndina 🙂

Skilaboðin frá Stefáni voru að ég ætti að sofa í tvær klst á Donnas stöðinni og ég þurfti fyrst að láta kíkja á tærnar á mér þar sem það væru komnar blöðrur. Mér var boðið að láta teipa allan fótinn sem ég þáði, þar sem ég var líka komin með sigg, á vinstri jarkann og svo þurfti að teipa sérstaklega nokkrar tær. Þarna tengdi ég við það sem Biggi hafði sagt við mig áður en ég fór út, að maður gæti látið teipa alveg á sér fæturna, meira að segja í Courmayeur fyrir hlaup, en ég fann þegar ég fór af stað hvað þetta teip gerði mikið gagn.

Ég fékk mér harðsoðin egg og kartöflu að borða. Strákurinn sem nuddaði svo aðeins á mér lærin sagði að ég yrði að fá mér líka eitthvað sætt 😊 Hann var greinilega var ekki búin að kíkja ofan í Salomon vestið mitt, sem var fullt af súkkulaði og sætindum. Þegar ég hafði komið inn á Donnas stöðina hitti ég Chiara dóttir M sem var að bíða eftir okkur. Ég sagði henni að hann væri rétt á eftir mér. Svo þegar ég var á bekknum í teipi og nuddi þá komu þau inná stöðina og hún kom til mín og sagði mér að M væri mættur á staðinn. Ég fór svo að spjalla við hann, eftir að ég var búin að fá teipið og þá var hann frekar fúll út í mig og sagði að hann hefði nú bara komið 10 mín á eftir mér sem var rétt hjá honum (en ég hugsaði nú samt um þessar fjórar klst sem ég hafði tapað um daginn með því að geta ekki hlaupið niður) en sagði ekki neitt.

Þau feðginin fengu sér svo pizzu og bjór. Chiara bauð mér sneið, þegar hún opnaði pizzakassann, þá sá ég að þarna var pizza með skinku og ruccola sem hann hefur þá örugglega pantað fyrir mig , en hann var frekar fúll útí mig og bauð mér ekki, en C var svo almennileg að bjóða mér eina sneið 😊

Meðvirka Halldóra fékk auðvitað massa móral yfir að hafa stungið af, en ég bara varð að hlíða Stefáni, þetta var mitt hlaup og ég var búin að tapa allt of miklum tíma á þessari leið sem hefði hentaði mér mjög vel og ég hefði getað hlaupið hratt. Sá þau voru líka með óáfengan bjór sem mér var ekki boðinn ha ha ha en ég átti Sprite-ið og drakk það með pizzusneiðinni alein á öðru borði 😊

Eftir að hafa fengið mér smá að borða, skipti aftur um buxur, fór í Salomon buxurnar sem ég byrjaði í og fór í hreinan topp og hreinan þurran bol, þá fór ég uppá aðra hæð, þar voru beddarnir og þar lagði ég mig í 2 klst.

(Komin til Donnas á 56:21 og nú þarf að fylgja tékklistanum. Komnir rúmir 2 sólarhringar og 2-3 tíma svefn. Nú þarf allt að vera skrifað niður og skipulagt. Halldóra ætlar út aftur fyrir 22:00 hér heima, miðnætti í Donnas og eiga fjögurra tíma lágmark á tímamörkin við brottför. Næsta Cut er við Rifugie Barma kl. 13 (ísl) á morgun. Það verður töff. Framundan er ógnvænleg hækkun 2.800 metrar upp í Rifugi Coda skálann en bara 18 km. þangað, þannig að þetta er bratt upp. Nú er líka fjallaveðrið að versna. Byrjar að rigna snemma í fyrramálið og rignir allan daginn, en ítalskt sólskyn í hverjum dropa. Nú þekkir Halldóra leiðina því við Iðunn fórum með Halldóru næstu 150 km í æfingaferðinni í ágúst. Nú mun sú reynsla kikka inn – frá Stefáni Braga)

Við ákváðum að Stefán myndi hringja í mig og vekja mig þar sem það var enginn þarna til að vekja mann. Ákvað að fara ekki í sturtu, búin að brenna of miklum tíma, en gott að skipta um fötin. Greip svo bara snilldarpokann, með öllu svefndótinu, svefnpoki, koddi, augnhlíf og eyrnatappi og hélt uppá aðra hæð til að leggja mig.

Það tók mig smá tíma að ná að sofna, móralinn hafði neikvæð áhrif á mig, en að lokum steinsofnaði ég og vaknaði svo þegar Stefán Bragi hringdi tveimur klst síðar. Þá var bara að ganga frá öllu dótinu í gulu töskuna og koma sér ein af stað út í myrkrið.

ÞRIÐJUDAGSKVÖLD 23:52 (59 klst og 52 mín búnar) 4 klst í tímamörk –
156,3 km búnir – 12.242 metra samanlögð hækkun.

You may also like

Leave a Comment