Day 3: A morning meeting and a student weather briefing. On the ice we will focus on guiding on easy to moderate terrain and practice top rope ice climbing.
Á degi 3 fórum við á Fjallsjökul við Fjallsárlón. Mjög fallegt veður þegar við gengum fram hjá lóninu uppá jökulinn, sólin skein og selurinn Snorri heilsaði okkur úr lóninu. Þetta var svo magnað þar sem það var brjálað veður og gular og rauðar veðurviðvaranir um allt land, en við vorum í frábæru veðri þarna og skjóli undir jöklinum.
Kennarar voru aftur búnir að skipt um hóp og við komin með Bjart og Árni farinn í hinn hópinn. Við vorum búin með allt bóklegt, svo nú var bara að halda áfram að leiðsegja, við Inga áttum eftir að leiðsegja á jöklinum, þ.e. velja réttu leiðina, lesa í landið og sprungurnar, svo við fengum það hlutverk sem gekk mjög vel hjá okkur báðum og fórum svo í ísklifur.
Það var mjög skemmtilegt, smá ógnvekjandi „scary“ þegar maður lét sig falla niður, þar sem línan var ekki alveg stíf, þar sem fyrst hélstu í akkerið, sem línan var bundin í, þannig að þetta var ekki alveg eins og við höfum gert þetta áður, en góð æfing. Svo klifum við 4-5 sinnum upp grjótharða jökulveggina. Fyrst bara með tveim ísöxum sem við notuðum jafnharðan. Næsta æfing var með tveim, en þú notaðir bara eina í einu, þ.e. tókst svona þríhyrning með fótunum, smá tækni. Þriðja æfing var bara með annarri ísöxinni hin var skilin eftir niðri og fjórða æfingin var að fara án ísaxar, en þá var Bjartur búinn að setja upp ísaxa stiga, sem var mjög skemmtilegt að prófa.
En aðal-lærdómurinn fyrir mig, var að vera á öryggislínunni niðri, þ.e. að hífa upp og slaka, fyrir þann sem var að klifra, eins og leiðsögumenn gera, og svo að losa þegar viðkomandi sígur niður. Það var ákveðin tækni sem þarf við þetta og mjög skemmtilegt og nauðsynlegt að prófa þetta og læra.
Eftir Ísklifrið (orðin smá þreytt í höndunum) þá gengum við aðeins til baka, fundum fínan stað til að æfa björguninan, þ.e. allt set-uppið og við skiptumst á að vera sá sem bjargar og svo sá sem er að bjarga og það gekk mjög vel. Var mjög ánægð að fá að setja þetta upp einu sinni og prófa sjálf fyrir prófið á morgun en við Milla vorum saman í teymi, fyrst bjargaði hún mér og svo bjargaði ég henni.
Hittum svo Óla þegar við gengum til baka, en hann hafði keyrt úr bænum í morgun og gengið einn upp á jökulinn en komst ekki alla leið upp eftir til okkar, þó hann hafi séð okkur, þar sem Jökullinn er mjög sprunginn og ekki einfalt að komast. Auk þess er það ekki skynsamlegt að vera einn að þvælast á jöklinum. En hann gekk með okkur til baka.