KEPPNISSAGA HK100 Ultra 14. janúar 2017

by Halldóra

Vekjaraklukkan hringdi klukkan 05:50. Fengum okkur góðan morgunmat, ristað brauð með banana og sultu og kaffi á fastandi maga, alveg klassískt. Svo voru tærnar plástraðar (hefðbundið), vaselíni smurt á tærnar áður en farið var í sokka. Ég var næstum því búin að gera byrjendamistök, þ.e. fara í nýjum sokkum. Fór í þá, en fékk strax bakþanka, því ég veit maður á ekki að fara í nýjum, óþvegnum sokkum, sem maður hefur aldrei prófað áður, en ég keypti þá í gær og fannst þeir eitthvað svo þægilegir, en ákvað að vera skynsöm og fara bara í gamalt sokkapar og var mjög sátt með þá ákvörðun mína þegar ég lagði af stað. 

Var búin að taka saman keppnisfötin kvöldið áður, var í Compressport fatnaði frá toppi til táar, legghlífum, trail buxum, trail stuttermabol og ermahlífum og svo með Salomon vestið mitt, stóra þ.e. 12 lítra.  Sami fatnaður og ég notaði í Lavaredo og í CCC, er orðin mjög vanaföst með klæðnað, enda virkilega þægilegur fatnaður frá Compressport.

Siggi gerði mikið grín að okkur Rúnu með vestið mitt og bakpokann hennar út af þyngdinni. Björgunarsveitarkonan í mér var sko við öllu búin, ætlaði ekki að verða vatnlaus (ef stöðvarnar yrðu illa búnar eins og á Spáni) svo ég bar á mér meira og minna um 1,5 lítra af vatni allt hlaupið ha ha ha 😉  Okkar rök voru: Ef við getum borið 5 auka kíló á okkur þá getum við alveg borið nokkra auka lítra af vatni og næringu á okkur 😉

Ég var sem sagt með 1 ½ l blöðru á bakinu, og svo tvær 500 ml Salomon soft flöskur í sitthvorum vasanum framan á vestinu. Var búin að kreista 11 stk. High Five gel í annan brúsann, sem ég er alltaf með í vinstri vasanum og svo var ég með Zero töflu í vatninu í hægri brúsanum. Í blöðrunni á bakinu var bara vatn sem ég reyndar fyllti ekki alveg. Auk þess var ég með skyldubúnaðinn, sem var álpoki, gsm sími, súkkulaðibör eða einhver næring og höfuðljós. Tók reyndar með mér léttara auka ljós sem ég á og hafði Petzl ljósið mitt í 50 km „drop“ pokanum.   Annað sem ég var með á mér var: Asmapúst (var búin að vera mjög lasin síðustu vikur), verkjalyf og Lansino krem, GO-Pro myndavél, auka zero töflur, Magnesíum duft og töflur, súkkulaði og regnjakki.

KEPPNISSVÆÐIÐ
Við tókum Über leigubíl á keppnissvæðið en þangað var um 40 mín akstur.  Þegar við komum á keppnissvæðið, voru auðvitað langar raðir á salernin. Við notuðum því bara eins og margir aðrir stóra klósettið í skóginum. Svo fundum við svæðið þar sem við gátum skilað af okkur pokunum, þ.e. hvítur poki sem átti að fara í endamarkið og blár poki sem var á 52 km stöðinni.

Í hvíta pokanum var ég með þurr föt og sandala og setti svo úlpuna sem ég var komin í, þar sem það var frekar kalt þarna um morguninn. En í bláa pokanum var ég með síðar hlaupabuxur, ullarpeysu, húfu og vettlinga, ljósið mitt og fleiri hrein föt. Þar var ég með bakbeltið mitt og fleiri gel og súkkulaði og alla vega fatnað sem myndu örugglega duga fyrir fleiri fleiri hlaupara 😉 Björgunarsveitarkonan klikkar aldrei ha ha ha 😉

Tók að sjálfsögðu myndir á GO PRO myndavélinnni til að fanga stemninguna, tók líka myndir á símann og tók áskoruninni sem Gutti hafði sent mér, þ.e. að taka upp myndir á Facebook Live, sem var virkilega skemmtilegt.

Þegar við vorum búnar að skila pokunum, fundum við ekki strákana. Ég reyndi að hringja í Sigga í ofurlitla símann hans, en hann svaraði ekki. Við gerðum ráð fyrir að þeir væru þarna einhvers staðar fremst við ráslínuna. En við stilltum okkur upp miðað við að vera í þeim hópi sem myndi klára á um 20 klst., þ.e. önnur ræsing, klukkan 08:05.

RÆSING
Svo var hlaupið ræst klukkan 08:00 að staðartíma. Þá voru strákarnir örugglega að leggja af stað. Það var skrítið að ná ekki að kveðja þá, en virkilega skemmtilegt að fanga stemninguna og  að taka þetta upp á FB live og fá rauntíma kveðjur að heiman. Eftir að fyrsti hópur var lagður af stað klukkan 08:00 þá sá ég íslenska fánann aðeins neðar svo ég kallaði TEAM ICELAND  og þá komu stelpurnar, þ.e. Hulda og Rebekka og vorum báðar í flottu rauðu 66¨norður peysunum og með buff með íslenska fánanum. Við auðvitað stoppuðum og knúsuðum þær, tókum FB live myndband af þeim og þær tóku myndir af okkur. Ótrúlega mikil stemming og gaman að hitta þær þarna strax í ræsingunni.  Hulda vaknaði klukkan 05:00 með okkur í morgun og útbjó hafragraut handa okkur og græjaði og gerði. Ótrúlega flott þjónusta sem við fengum og systkinin eru algjörlega yndisleg eins og sjá má í þessari keppnissögu.

Við kvöddum svo stelpurnar og ætluðum að halda áfram og fara af stað með hóp 2, þ.e. annarri ræsingu klukkan 08:05.  En rétt áður en við komum að hliðinu þá var því lokað og við fengum ekki að halda áfram. Vorum þannig komnar í þriðja ráshópinn, sem stefndi á 24 klst hlaup.  Vorum svo sem ekkert ósáttar við það, enda var markmiðið alltaf númer eitt að klára hlaupið og númer tvö að hafa gaman af því.

Ég var bara einstaklega þakklát að vera komin að ráslínu þar sem ég var búin að vera mjög lasin síðustu 4 vikur, þ.e. með slæma kvefpest sem endaði í lungnabólgu eða bronkítis og ég var búin með tvo pensillín skammta og komin með stera- og asma púst, ætlaði sko ekki að missa af þessu hlaupi, þó ég hefði misst af lokahnykknum í æfingunum þ.e. í rúmar þrjár vikur.

Klukkan 08:10 var svo þriðji hópurinn ræstur við mikinn fögnuð þátttakenda og áhorfenda. Við Rúna Rut hlupum saman af stað og það var gaman að hlusta á THE ICELANDIC CREW, stelpurnar Huldu og Bekku kalla ÁFRAM ÍSLAND.

Fyrsti helmingur leiðarinnar fer um strendur Sai Kung skagans. Það gekk vel að hlaupa fyrstu 800 metrana á malbikinu, en eftir það var hægri beygja inní Sheung Yiu Country Trail, um 5 km leið með flottu útsýni út í eyjarnar á suður Kínahafi. Þessi kafli var mjög hægfara og við eiginlega gengum bara rösklega þennan hluta, mikil stífla enda stígurinn mjög þröngur. Það var ótrúlega fyndið að sjá marga reyna að troða sér og taka þarna fram út. Við tókum þessu bara rólega enda um 100 km sem biðu okkar.

Svo komum við aftur á malbikið og við tók um 5 km kafli á malbiki, fram hjá fyrri stíflunni og upp á fyrstu hæðina. Þar stoppuðum við og RRR fór á klósettið, ég ákvað að nota tímann og pissaði líka bara úti í skógi. Svo héldum við áfram og nutum þessa fallega útsýnis en vorum í raun að hlaupa á vegum sem eru bílfærir.

SUPPORT POINT= EAST DAM 11 km Tími: 01:45:34 Klukkan 09:55:49
Fyrsta drykkjarstöðin, samkvæmt planinu var þessi stöð bara nefnd Support Point, en ekki Check Point veit ekki alveg af hverju. Það var yndislegt útsýni að hlaupa þarna yfir brúna og horfa á eyjarnar fyrir utan. Áður en ég stoppaði varð ég að taka aftur myndir, bæði á GoProp myndavélina sem og á Facebook Live.

Ég lét fylla vatn á blöðruna sem var á bakinu á mér, fékk reyndar allt of mikið, held hann hafi fyllt alla 1,5 lítrana og fyllti líka á skvísuna, þ.e.bætti bara útí vatnið sem var með zero töflunni. Tók tvo banana bita og svo héldum við áfram.

Eftir þessa drykkjarstöð tók við klifur á Sai Wan Shan (314 m) þar sem við fórum yfir strendurnar Sai Wan og Ham Tin. Gaman að hlaupa þessar strendur og hitta fólk sem var þarna í útilegu, svaf í tjaldi og var að njóta.  Þessi hluti leiðarinnar virkar mjög flatur á kortinu, en í raun og veru tók þetta vel á. Leiðin upp Sai Wan Shan voru steyptar tröppur, þá var reyndar gott að hafa tekið eina æfingu í „Halldóru tröppunum“ í Norðurturni 😉 Það voru allir búnir að segja við mig að ég þyrfti ekkert að vera með stafina mína á þessum fyrri hluta, þ.e. ég þyrfti þá ekkert fyrr en eftir 52 km. Rúna Rut ákvað að vera með sína en ég lét tilleiðast og lét Huldu hafa mína með aukadótinu sem hún tók, en á þessum tímapunkti sá ég mjög mikið eftir því. Ég hefði átt að vita það, brjósklos manneskjan, hversu mikil léttir og minna álag á bakið það er að nota stafina. En það er alltaf gott að vera vitur eftir á 😉 Ákvað alla vega þarna að Mt.Fuji myndi ekki henta mér, en þar er bannað að vera með stafi.

CHECK POINT 1= Ham Tin (21 km) Tími: 03:34:06  Klukkan: 11:44:21
Eftir að hafa skokkað Ham Tin ströndina komum við að Check Point 1. Ég labbaði bara þar í gegn, var ennþá með nóg af vatni á mér, tók bæði FB live og GoPro myndir, en Rúna Rut fyllti á báða brúsana hjá sér og fékk sér að borða. Mig langaði ekki í neitt og vissi að The Icelandic Crew myndi hitta okkur á næstu stoppistöð, svo ég vildi bara halda áfram.

Leiðin frá Ham Tin að Wong Shek liggur í gegnum nokkur mjög lítil en falleg þorp. Leiðin er mjög flöt að sjá á korti, en er alveg tæknileg, bæði mikið um grjót og rætur á stígnum, en virkilega fallegt útsýni til hægri handar á leiðinni. 


CHECK POINT 2= Wong Shek 28 km Tími: 04:48:36  Klukkan: 12:58:51 Það var virkilega skemmtilegt að hlaupa niður að Check Point 2. Þarna hittum við The Icelandic Crew stelpurnar, Huldu og Bekku. Það var virkilega skemmtilegt. Þær voru búnir að leggja einangrunardýnu á jörðina sem við gátum sest á. Bekka var svo snögg að taka af mér brúsana og var næstum búin að taka gel brúsann til að fylla hann af vatni, en ég reif hann af henni aftur 😉 😉 Frábær þjónusta, fengum heimasmurðar samlokur og kók. Svo var sótt fyrir okkur vatn í brúsana. Rúna Rut fór úr skónum var komin með eitthvað nudd sár og ég fékk vaselín til að bera á lærin, þau nudduðust aðeins saman á hlaupunum, hafði gleymt að smyrja þau áður en ég lagði af stað. Mikið var gott og gaman að sjá þessar yndislegu systur og fá bæði líkamlega og andlega hvatningu.

Ég tók stafina mína með mér og þvílíkur léttir að fá þá, svo héldum við gleðipinnarnir áfram.

CHECK POINT 3= Hoi Ha (36 km) Tími: 06:33:46 Klukkan: 14:44:01
Hoi Ha er víst einstakur sjávarútsýnisstaður, helgidómur. Ef maður hefði hent af sér hlaupaskónum fyrir sundgleraugu og snorkl pípu þá hefðu við séð mjúkan kóral, fallega appelsínugula anemones og garoupa fiska. (verðið bara að googla þessa fiska, þekki ekki íslensku heitin).

Við stoppuðum bara stutt á þessari drykkjarstöð, fengum okkur ávexti, banana og appelsínu og héldum svo áfram upp götuna. Tók samt stutt FB live brot á drykkjarstöðinni.

Leiðin frá Hoi Ha að Yung Shue O er blanda af malbikaðri gangstétt meðfram ströndinni og svo grófum utanvegastígum.  Það er virkilega flott útsýni þarna á leiðinni í áttinni að Ma On Shan.

Við stoppuðum þegar við vorum komnar 42 km. Þá var ég nýbúin að næstum því rota mig. Það atvikaðist þannig að ég var að fá mér gel og horfði því ekki fram fyrir mig, heldur niður og bara hljóp á þykka trégrein sem hékk yfir göngustígnum. Það heyrðist mikið BONK og fólk í kringum mig spurði mig hvort ég væri ekki örugglega í lagi. Var heppin að rotast bara ekki og hélt áfram hálf vönkuð. Þegar við stoppuðum settist ég niður á meðan Rúna Rut setti á sig hælsæris plástur. Ég notaði tækifærið og fór á FB Live, enda klukkan um 08.00 heima á íslenskum tíma og nokkrir farnir að fylgjast með okkur og commenta á LIVE feedið, sem var virkilega skemmtilegt.

CHECK POINT 4= Yung Shue O (45 km) Tími: 08:13:58 Klukkan: 16:24:13
Við stoppuðum ekkert lengi á Check Point 4, fylltum bara á vatnsbrúsana okkar og gengum í gegnum þorpið Yung Shue. Rúna Rut prófaði að fá sér Sushi-grjóna bita sem var víst ágætt. Við sendum svo skilaboð á The Icelandic Crew og létum þau vita að við værum búin að fara þarna í gegn og báðum þau um að koma með „tape“ þar sem hælsærisplásturinn hennar Rúnu hélst ekki á sínum stað og hún var búin að ákveða að skipta um skó á næstu drykkjarstöð.

Eftir að við yfirgefum Yung Shue þá byrjar klifrið. Framundan er Kau Kung Shan (Hana hæðin) (399 m) sem við fórum yfir. Áframhaldandi steyptar tröppur voru upp þessa hæð, sem ég tók mynd af.  Toppurinn var nákvæmlega í 399 m hæð skv. fína Garmin Fenix3 úrinu sem ég fékk lánað fyrir hlaupið.

Brekkan niður eftir toppinn, var að okkar mati endalaus. Það voru miklar og erfiðar tröppur. Þær voru óreglulegar og ef maður gat þá reyndi maður að hlaupa við hliðina á þeim. Einnig hljóp ég þær frekar með því að zikk zakka þær niður til skiptis vinstra megin og hægra megin til að minnka álagið á framanverð lærin.  Minnug þess að hafa eiginlega alveg klárað bremsuvöðvana í Lavaredo hlaupinu í sumar, þegar ég lét mig vaða á mjög miklum hraða niður brekkurnar eftir Dólómítana með Jason í sumar.

CHECK POINT 5= Kei Ling Ha (52 km) Tími: 09:56:36 Klukkan: 18:06:51
Það var yndislegt að sjá íslenska fánann þegar við komum í bæinn Kei Ling Ha og þá var það Bjarki sem tók á móti okkur, en við knúsuðum hann, þó við værum að hitta hann í fyrsta skipti, bara svo glaðar að fá svona flottar móttökur.  Það var komið myrkur þegar við komum í drykkjarstöðina, svo við vorum nákvæmlega á réttum tíma að komast í bláu pokana okkar, þar sem við vorum með Petzl ljósin okkar, var bara með eitthvað gamalt ljós frá Óla á mér.

Bjarki fylgdi okkur að dýnunum rétt fyrir utan stoppustöðina þar sem Hulda, Rebekka og Leó biðu okkur. Bjarki er bróðir stelpnanna og Leó er vinur Barkar og var staddur í Hong Kong og ákvað að hitta á hann í hlaupinu.  Við fengum eins og áður súper flotta þjónustu. Stelpurnar sóttur fyrr okkur núðlusúpur og fylltu á vatnsbrúsana. Rúna Rut skipti um sokka og skó og smurði á sér fæturna og skipti líka um bol. Ég fékk nudd á kálfana þar sem hægri kálfinn var orðinn frekar stífur, fékk líka hitakrem. Svo fórum við á salernið áður en við lögðum í það og þá fann ég að það var orðið frekar kalt og við sveittar eftir daginn, svo ég ákvað að skipta líka um bol, bæði topp og bol og fór í uppáhalds langermabolinn minn frá 66 norður. Samt smá hrædd um að það yrði of heitt, því okkar beið heilmikið klifur.

Kvöddum THE ICELANDIC CREW, tókum eina sjálfu með þeim og héldum svo á stað glaðar í bragði. Ég hafði ekki haft tíma til að fara á FB live, svo ég gaf mér tíma í það eftir að við lögðum á stað aftur í myrkrinu. Hringdi líka heim í Óla, því hann er ekki á FB, en náði að láta hann vita að við værum bara í góðum málum. Enda leið mér betur í kálfunum eftir nuddið og hitakremið.

Framundan er samkvæmt leiðarlýsingu lengsti og erfiðasti kaflinn, en virkilega fallegur. Það er víst glæsilegt útsýni eftir Ma On Shan yfir Sai Kung og hundruði eyja í suður Kínahafi. Við sáum þetta því miður ekki, enda komið myrkur, en við sáum samt fallega appelsínugula trail slóðann sem við hlupum á með ljósunum okkar.  Á leiðinni upp fyrsta fjallið vorum við og allir þátttakendur stoppaðir og beðnir um að sýna skyldubúnað í hlaupinu, þ.e. álteppið, ljósið (sem var komið á hausinn á okkur) og gsm símann. Þetta var eina tékkið á þessum búnaði í öllu hlaupinu.

CHECK POINT 6= Gilwell Camp (65 km) Tími: 13:39:08  Klukkan: 21:49:23
Þegar við komum að Gilwell skátabúðunum fórum við á klósettið aftur.  Maður verður frekar samdauna ógeðslegum salernum í svona fjallahlaupum, en þetta var sérstaklega ógeðslegt. Gat á gólfinu eins og svo oft áður en svo mikill skítur eitthvað í kringum allt og enginn salernispappír. Sá strax eftir að hafa ekki bara farið út í skóg að pissa 😉

Það var orðið frekar kalt, kannski smá þreyta farin að segja til sín og maður hafði líka svitnað á uppleiðinni. Við fórum því bara í vindjakkann og flísvettlingana. Tók svo myndir af tjaldbúðunum sem voru þarna allt um kring. Fengum okkur svo heitt te, sem aðeins hlýjaði okkur.

Þegar við komum út úr skóginum, lá leiðin á malbikið aftur. Á þessari leið okkar niður eftir var útsýnið yfir borgina algjörlega magnþrungið, fyrir aftan Lion Rock, þar sem við horfum yfir Kowloon, þvílíkur fjöldi háhýsa og neon ljósin á Hong Kong eyjunni. Við urðum að stoppa og reyna að taka myndir. Náði þessari flottu mynd hérna.

ATH MYND !!! 

Fundum salerni sem okkur leist vel á svo við fórum aðeins út af stígnum til að henda okkur á alvöru salerni með klósettpappír og vaski 😉

Svo tók við klifrið upp á Beacon Hill. sem við stoppuðum og tókum myndir. Vorum orðnar frekar þreyttar og okkur fannst þessi brekka engan enda ætla að taka og samkvæmt úrinu mínu áttum við að vera komnar að Check Point 7.

CHECK POINT 7= Beacon Hill (73 km) Tími: 16:18:15 Klukkan: 00:28:20
Stemningin í huga okkar umbreyttist þegar við komum á check-point 7, þar var hávær tónlist og mikil skemmtun. Opinn eldur, mjög góðar veitingar og stólar og teppi. Þarna voru skátakrakkar að bjóða upp á veitingar og þau voru yndisleg. Þarna var líka pasta í boði, en ég hafði ekki mikla lyst á því, en fékk mér þrjár samlokur með rjómaosti. Við skemmtum okkur vel þarna, hvíldum okkur aðeins, drakk vel af kínversku tei, sem var mjög gott og tók langt Facebook live myndband.

Svo þurftum við að halda áfram. Við vorum örugglega 20 kg léttari á okkur andlega eftir þetta stopp, því við hlupum eins og hérar og tókum fram úr örugglega fjörutíu manns á leiðinni.

Leiðin var frekar slétt eða niður á við og við stoppuðum varla á leiðinni þar sem okkur leið báðum vel, enda var meðalhraði þennan kafla um 5,4 km á klst.

Þarna á milli er Apalandið (monkeyland) og var fólk vinsamlegast beðið um að gefa ekki öpunum að borða. Það var búið að vara okkur við því að horfa beint í augun á öpunum og vera ekki með plastpoka sem skrjáfar í, en við sáum enga apa þarna.  Leiðbeiningarnar voru þær að ef þú ætlar að stoppa þarna til að fá þér að borða, vertu þá tilbúinn að gefa með þér, hvort sem þér líkar betur eða verr 😉

CHECK POINT 8= Shing Mun Dam (83 km) Tími: 18:09:23 Klukkan: 01:51:08
Rétt áður en við komum að check point 8 var ég búin að vera í sambandi við Huldu, en þær voru komnar í markið að taka á móti Sigga. Fengum stöðugt jákvæða orkustrauma og hvatningu frá Huldu allan tímann, var klárlega með okkur í anda.

Þegar við komum inn í Check Point 8, kallaði ég bara TEAM ICELAND og þá kom Bjarki eins og kallaður, en hafði beðið eftir okkur þar sem stelpurnar voru komnar í markið að taka á móti strákunum, NB klukkan að verða tvö um miðja nótt og við vorum að hitta Bjarka í fyrsta skipti i hlaupinu, er þetta ekki magnað? Hann var bæði með bláu pokana sem þau tóku eftir 52 km og svo töskuna með dóti sem við höfðum látið Huldu hafa um morguninn. Ég ákvað að skipta um skó þarna og Rúna Rut, fór úr sínum skóm og sokkum og plástraði sig betur og smurði með vaselíni. Ég var aðeins farin að fá núningssár á vinstri hælinn og svo var ein táin á vinstra fæti eitthvað farin að pirra mig, en ég ákvað að skipta ekkert um sokka en plástraði aðeins á núningssárið á hælnum án þess að fara alveg úr sokkunum 😉

Fengum okkur heitt te, fórum á salernið og fengum fréttir af strákunum. Gripum harðfiskinn með okkur og samloku og ég gleypti banana og appelsínubita áður en við héldum áfram. Tók auðvitað smá upp á Facebook Live, en það eiginlega sést ekkert þar sem það er niðamyrkur og held hljóðið hafi eitthvað klikkað líka.

Bjarki sagði okkur að framundan væru síðustu þrjú fjöllin. Við vorum alveg í gírnum í það, þökkuðum Bjarka fyrir og héldum af stað.  Á þessari leið okkar hittum við tvo apa og mig dauðlangaði að taka upp gsm símann og taka myndir af þeim, eða taka FB live. Rúna Rut bannaði mér að gera það og minnti mig á það sem okkur hafði verið sagt, að þeir myndu þá bara stökkva á okkur og taka af okkur símann 😉  En mikið var það freistandi. Þetta eru mjög stórir apar og það var fólk sem sat inni í bílum og var að fylgjast með þeim, en þeir létu okkur alveg vera, enda horfðum við ekki í augun á þeim, vorum ekki með skrjáfandi poka og ég lét ekki tilleiðast að taka ljósmynd með flashi 😉

Fyrsta fjallið sem við urðum að klífa var Needle Hll (532 m), það var frekar bratt og samkvæmt leiðarlýsingu er mjög fallegt útsýni til hægri að einum glæsilegasta kappreiðavelli, Sha Tin og tilvinstri var Tai Mo Shan, hæsta fjallið í Hong Kong og síðasta fjallið sem við klífum áður en við komum í mark.

Eftir Needle Hill klifum við Grassy Hill (647 m) sem var mjög vindasamt, máttum hafa okkur allar við að halda okkur á stígnum og það var mikil lækkun, tröppur og brekka niður að síðustu drykkjarstöðinni CP9, Lead Mine Pass 90 km.

CHECK POINT 9= Lead Mine Pass (90 km) Tími: 20:42:47 Klukkan: 04:53:02
Rétt áður en við komum að CP 9, þ.e. drykkjarstöðinni, sáum við hvar maður á undan okkur, riðaði á götunni, það var eins og hann væri ofurölvaðir. Við vorum hins vegar í góðum málum, mér leið vel orkulega, var ekki kalt og ekki svöng, var bara góð. Fór á salernið í Lead Mine Pass og fékk mér engiferte að drekka, sem var mjög sterkt, svo gróðurinn var vökvaður með því og ég fékk mér bara venjulegt te sem var mjög gott.

Við sendum skilaboð með FB live skilaboðum heim, enda síðasta drykkjarstöðin. Nú var bara eitt fjall eftir, þ.e. stærsta fjallið í Hong Kong, Tai Mo Shan (957 m).

Eina vandamálið var að það var auðvitað niðamyrkur og komin frekar mikil roka og aðeins suddi. Eftir stutt stopp héldum við á fjallið. Það gekk vel framan af, en svo kom að það voru engar merkingar á stignum og í raun nokkrir stígar upp fjallið. Við misstum af hópnum sem við höfðum fylgt þegar Rúna ætlaði að skipta um rafhlöðu á höfuðljósinu hjá sér, en rafhlaðan hafði ekki hlaðist svo hún hélt bara áfram með gömlu rafhlöðuna. Við vorum greinilega ekki einar um að vera óöruggar um hvaða stíg ætti að fara, svo ég fór aðeins til baka til að vera viss. Í millitíðinni komu tveir hlauparar sem sögðu við Rúnu að þeir þekktu leiðina og við ættum bara að elta þá sem og við gerðum, sem betur fer. Þurftum aðeins að gefa í, til að halda í við þá, en það var samt ekkert mál. Rétt áður en við komum á toppinn, er mjög brött malbikuð brekka. Þar voru til dæmis hjón á undan okkur og við sáum hvar maðurinn hélt konunni uppi, greinilega orðin alveg orkulaus. Orkustigið hjá okkur var mjög gott en ég fann í bröttustu brekkunni þarna og í nokkrum á undan að lungun voru ekki alveg í lagi, kvefpestin hafði setið i mér, svo ég tók tvisvar á leiðinni bæði asma- og sterapústið sem gerði brekkurnar þolanlegri, en út af þessu svitnaði ég óeðlilega mikið á uppleið og púlsinn var frekar hár. Fann mikinn mun á mér miðað við æfingarnar áður en ég veiktist þar sem ég náði að hlaupa með strákunum upp á fjöllin.

Þegar við vorum búnar að ná toppnum og vorum byrjaðar að fara niður aftur, vorum við ekki alveg vissar um hvort við ættum að fara upp aftur ? Við náðum aldrei alveg 957 m á úrinu, það vantaði alveg nokkra metra upp á topp. En upp fórum við ekki aftur og við tók 4 km brekka niður, sem var sem betur fer í S-um, ekki beint niður 😉 Þetta var í raun malbikaður vegur sem við hlupum en út af þokunni, þá bara rétt sást í hvítu línuna á miðjunni og við hlupum bara hana.

FINISH= Tai Mo Shan Rd / Route Twisk (100 km) Tími: 23:22:54 Klukkan: 07:33:09
Það var virkilega gaman að heyra hlátrasköllinn, klappið og smá tónlist koma úr markinu og ótrúlegt að við værum að koma í mark. Við tókum upp fánana okkar, þegar það var um 1 km í mark, ég var með íslenska fánann minn og Rúna Rut með Hörkuform fánann sinn, sem er Boot Camp hópurinn hennar.

Það var yndislegt að heyra og sjá Huldu og Rebekku þegar við komum í mark og knúsið þeirra yndislegt. Þær voru búnar að vera á fótum frá því klukkan 05:00 um morguninn þegar Hulda eldaði hafragraut ofan í hópinn og svo fylgdu þær okkur alla leið.  Tók að sjálfsögðu upp FB live feed þegar við vorum komnar í mark og svo fórum við upp á pall þar sem þær tóku myndir af okkur og við létum taka myndir af okkur öllum fjórum. 

Þegar ég kom í mark sýndi úrið 99,6 km svo ég varð að taka smá niðurskokk á bílaplaninu áður en ég fór í bílinn með stelpunum til að ná 100 km á úrið. Vildi ekki fá bara 99,6 km á Strava. Svo sýndi Strava mikið meira, en úrið, aldrei þess vant eða yfir 102 km, svo þetta niðurskokk var óþarfi m.v. Strava, en 100 km eru talan á Garmin Connect.

ÞAKKIR
Elsku Rúna Rut, Guðmundur Smári, Siggi og Börkur takk fyrir yndislegar samverustundir, bæði í æfingum fyrir Hong Kong, sem og allt ferðalagið. 

Besta stuðningslið í heimi, The Icelandic Crew, Hulda, Bekka og Bjarki (og Leó) takk kærlega fyrir allan stuðninginn og hvatninguna alla leiðina. Ekki nóg með að fá frábæra þjónustu á þessum drykkjarstöðum, þá fékk maður líka andlega hvatningu með jákvæðum skilaboðum í gegnum símann. Þið voruð mögnuð.

Elsku Hulda og Starri takk fyrir að taka svona vel á móti okkur og opna heimili ykkar fyrir okkur öllum, halda stórglæsilega veislu, nuddið og bara að gera þessa ferð svona einstaka. Þið eruð algjörlega yndisleg og falleg fjölskylda.

ÞAKKIR HEIM
Ef ekki væri fyrir skemmtilega og frábæra æfingafélaga í Þríkó, Náttúruhlaupum og hjá Bjössa, þá myndi maður ekki nenna að mæta á æfingar. Takk öll líka fyrir hvatninguna. Auk þess er alveg magnað að fá frábæra hvatningu og stuðning frá reynsluboltunum í utanvegahlaupum og vinkonum mínum þeim Sjönu og Siggu. Takk mínar kæru 😉

Halldór Víglunds sjúkraþjálfari og Bjössi gera líka kraftaverk að halda bakinu á mér í lagi fyrir öll þessi verkefni. Takk fyrir það 😉

Allir skemmtilegu fésbókarvinir mínir, sem nennið að fylgjast með ævintýrum mínum, takk fyrir hvatninguna og Like-in þar 😉

Elsku Óli og Kristó, þið eruð BAKLANDIÐ, takk fyrir allan stuðninginn alltaf og þolinmæði ykkar gagnvart öllum æfingunum og keppnisferðalögum eru ómetanleg. LUV JU.

Myndir úr HK100 ferðinni er að finna hér:

Map 地圖 1 : Start (Pak Tam Chung) – CP1 (Ham Tin) / 起點 (北潭涌)  – 檢查站1(鹹田灣)

Map 地圖 2: CP1 (Ham Tin) – CP2 (Wong Shek) – CP3 (Hoi Ha) / 檢查站1(鹹田灣)  -檢查站2 (黃石) – 檢查站3 (海下)

Map 地圖 3: CP3 (Hoi Ha) – CP4 (Yung Shue O) – CP5 (Kei Ling Ha) / 檢查站3 (海下) – 檢查站4 (榕樹澳 ) – 檢查站5 (企嶺下)

Map 地圖 4: CP5 (Kei Ling Ha) – CP6 (Gilwell Camp) / 檢查站5 (企嶺下) – 檢查站6 (基維爾訓練營)

Map 地圖 5: CP6 (Gilwell Camp) – CP7 (Beacon Hill) – CP8 (Shing Mun Dam) / 檢查站6 (基維爾訓練營) – 檢查站7 (筆架山) – 檢查站8 (城門水塘)

Map 地圖 6: CP8 (Shing Mun Dam) – CP9 (Lead Min Pass) -Finish (Rotary Club Park) / 檢查站8 (城門水塘) -檢查站9 (鉛礦坳) – 終點 (大帽山扶輪公園)

You may also like

Leave a Comment