Hreindýraveiðiferð 2018

by Halldóra

Við rifum okkur upp klukkan sjö, kom sér þá vel sjálfsaginn. Yfirgáfum Óskot rúmlega átta eftir ríkulegan morgunverð og mundum eftir nestinu.

Við byrjuðum að fara inn Fljótsdal, geystumst upp Bessastaðabrekku í 2 gír (Hilux réð ekkert við sig, var eins og stóðhestur á sterum), fram hjá Ingiríði, hún var tjásulaus þennan daginn (engin þoka).

Þegar inn á heiðina var komið, var beygt til norðurs (til hægri fyrir malbúa). Ekið sem slóð lá inn að Kofaöldu og skyggnt inn í Eyvindardal undir Eyvindarfjöllin. Eyvindarfjölldin ytri og fremri störðu hreindýralaus og tómum augum til baka. Óli og Stefán Geir rýndu mýrarnar svo gufan steig upp af, það eru svo sterk glerin í sjónaukunum þeirra.
Þegar þarna var komið var ljóst að ekki voru hreindýr á ytri hluta heiðarinnar. Skýringin líklega mjög sterk suðvestanátt. Hífandi helvítis rok.

Nú voru góð ráð dýr (ekki hreindýr) ekið var sem leið lá til baka. Haddý sofnaði svolítið og næstum því hálsbrotnaði, þar sem dýpsta holan er.

Hófust nú símhringingar nokkuð. Fjöldi leiðsögumanna var að berja á hjörðum sem fundnar voru og kaus því þessi litli veiðihópur að fara afsíðis og leita eigin dýra.

Lá nú leið um Laugafell austur yfir á, yfir á Múla, og datt leiðsögumanni sú fásinna í hug að fara inn í Geldingarfell.
Þeirri bjarmalandsferð lauk, með sömu niðurstöðu og um útheiðina, engin hreindýr.

Var nú brotist til baka, yfir urð og grjót. Dekk lifðu af túrinn, Haddý svaf og hálsinn orðinn nokkuð stúrinn.

Vakti það furðu leiðsögumanns hve þrautþálfuð og sinasterk kona, Halldóra, gat sveiflað höfði sínu í svefnförum sínum í takt við holur og hnúka sem yfir var hnoðast og dugði vart spegill bifreiðarinnar til að fylgjast með sveiflunum (brá fyrir einstaka sinnum í hliðarspegli).

Þegar þarna var komið höfðu borist fregnir af hjörð sem veitt hafði verið úr, við Nálhúshnjúka, kíkt var á helstu slóðir þar um kring, og ekkert sást.

Því næst var ekið inn með Snæfelli og Snæfellsskála og upp í Sauðahnúka, þar hittum við Eskfirskan leiðsögumann sem bauð upp á samneyslu á hjörð sem hann hafði fengið vitneskju um.

Leiðsögumaður orðinn úrkúla vonar og brotinn innst, sem yst, lét glepjast og elti Eskfirðinginn.

Eftir nokkuð léttan akstur, (ekki heilsusamlegt fyrir Haddý), þegar að hjörðinni var komið, reyndist hún standa friðsæl og saklaus inn í griðlandi við Snæfell. Leiðsögumaður reyndist ekki samviskulaus og lét þann Eskfirska um málið og fór.

Þá var slegið undir nára og ekið beinustu leið inn á Vestur Öræfi (þó ekki svo bein). Þarna uppgötvaðist að Halldóra var orðin úthvíld og til í allt. Til að gera langa sögu stutta þá fundust dýrin utan í Mýrarslakka, spök og róleg og biðu dauða síns af æðruleysi og stóískri ró. Eftir nokkurt skrið um fúafen mýrarinnar fannst fallegt barð. Á það lögðust þreyttir og hristir veiðimenn, færið reyndist ekki ákjósanlegt, en sakir óendanlegra hæfileika veiðimanna, þá ákvað leiðsögumaður að láta höfuðskjóta dýrin á 405 metra færi … undirbúningur hófst.

Dýr voru valin með tilliti til aðstæðna, ekki þótti rétt að hafa annað en barð í bak dýranna og tók því nokkra stund að sannfæra dýrin um að velja fulltrúa í málið sem bæði stæðu kjurrir, stæðu rétt og ættu örlög sín skilið.

Þegar þar var komið taldi leiðsögumaður í, veiðimenn lágu taugalausir með krossinn á réttum stað, tíminn stóð kyrr og dýrið líka.  Leiðsögumaður sem var orðinn nokkuð spenntur, þegar þarna var komið sagð i titrandi röddu, einn … og …tveir … og … BÚMM. Þessi undirfögru dýr sem höfðu verið valin til verksins, féllu ef svo má segja með sóma. Hin dýrin skeyttu engu um fórnfýsi systra sinna og hlupu og hafa ekki sést síðan. Nokkrir vitstola tarfar, komu þó hlaupandi úr annarri átt, en enn reyndist siðferðisvitund hópsins halda. Tarfarnir voru glæsilegir … hefðu farið vel í kistu – ekki líkkistu.

Satt að segja reyndist annað dýrið vera með höfuð ofan í maga og lét þó lífið. (lævísi þessara dýra er ótrúleg).

Þrátt fyrir að Halldóra væri útvhíld og þrautþhálfaður 1000 km hlaupari þá kaus hópurinn vegna stærðar dýranna að leiðsögumaður rölti eftir hjóli sínu. Það var gert og vegna glöggsýni hans og reynslu af fúafenjum og gróðurfari, þá komst hann að dýrunum með hjólið yfir óspillt land og gat svo þar að auki hjálpað öðrum veiðimönnum með sitt dýr og þeytt af á bílastæði þeirra veiðimanna.

Þegar þarna var komið var komið myrkur en heim rataði þessa litla saklausa veiðimannhjörð í bláleitu skyni ofurkastara Hilux bifreiðar leiðsögumanns. Þess má geta að Hilux var svo heimfús að þegar tekið var af stað þá kastaðist höfuð Halldóru og er það til marks um hversu liðug hún var orðin eftir daginn.

Þegar heim var komið biðu alvara lífsins, kusur voru úr kápu klæddar og vegnar, þvegnar og hengdar upp. Heldur fríkkuðu þær við að fara úr brókinni. Þessi sem hafði verið með höfuð ofan í maga þurfti nokkurrar lítaaðgerðar við.

Hjörtu og lifu hvíla nú frosin á botni kistu, en fætur tipla hljóðlaust í hjólbörum og bíða þess að verða skart á lopapeysum íslenskra kvenna.

Með hjartans kveðju ,,Veiðigengið, einn og tveir og …“

Höfundar: Halldóra Gyða veiðimaður, Stefán Geir, leiðsögumaður og Óli Svavar, veiðimaður. 

You may also like

Leave a Comment