Ferðasagan – Bhutan The Last Secret

by Halldóra

Var með kynningu í hádeginu í dag á Rótarýfundi í Rótarýklúbbnum Görðum í Garðabæ um ferðina okkar til Bhutan.

Af því tilefni set ég kynninguna inn hérna:

Bhutan 2018 glærusettið.

FERÐADAGUR
Flugum út í gegnum London með British Airways alla leið til Deli. Þaðan flugum við áfram til Paro í Bhutan með Dragon Air.  Ferðalagið tók um 24 klst í heild sinni en við lentum í Buthan um klukkan 15:00 á staðartíma (þeir eru 6 klst á undan okkur), þannig að við vorum að lenda klukkan 9 á íslenskum tíma um sólarhring eftir að ferðalagið okkar hófst á Íslandi.

Það voru flottar móttökur sem við fengum á flugvellinum. Manni leið eins og maður væri komin til Egilsstaða. Þeir vildu henda okkur beint í rútu þegar við Guðmundur Smári komum, en við vildum að sjálfsögðu bíða eftir restinni af hópnum sem flaug í gegnum Bangkok.

Þegar allir voru lentir fórum við saman í mjög gamalli Toyota rútu í um klst akstur til Thimphu sem er höfuðborga Buthan.  Það var áhugavert fyrir mig að upplifa þetta ferðalag, því það voru engin öryggisbelti í þessari gömlu Toyota bifreið, en þar sem Buthan var einu sinni bresk nýlenda, er ekið á vinstri akgrein og  það er ekið mjög greitt. Á leiðinni sem var mjög falleg, var mikið að lausum nautgripum sem og hundum. En lausir hundar eru út um allt land og áttum við eftir að verða mjög mikið var við þá í þessu ferðalagi, hvort sem er dag eða nótt.

Þegar við komum á hótelið  sem við gistum á, í Thimphu, höfuðborg Buthan, aftur eins og kannski á Seyðisfirði, þá var tekið á móti okkur með silkiklút og starfsmenn sem báru töskurnar fyrir okkur upp á herbergi. Það var ágætt þar sem við Beta (Elísabet Margeirsdóttir) herbergisfélagi minn vorum með herbergi upp á 3 hæð og engin lyfta í húsinu.

Stefan Betzelt, framkvæmdastjóri og eigandi Global Limits tók á móti okkur og dagskipunin var að drífa sig upp á herbergi og koma strax með skyldubúnaðinn í skoðun sem og 10 kg töskuna sem átti að flytja á milli Camp staða, koma með frumritið af læknisvottorði og fá afhent keppnisgögn, þ.e. derhúfu, tvö keppnisnúmer og Global Limits merki sem við áttum að festa á stuttermabolinn okkar eða hlaupavestin.

Henti mér með Betu upp í herbergi að græja þetta dót. Sem betur fer höfðum við verið það skynsamar að vera með allan keppnisbúnaðinn í NorthFace DuffleBag minnsta stærð í handfarangri og svo aukabúnaðinn (10 kg taskan) í NorthFace Duffel Bag stærð Large, svo þetta var að mestu tilbúið. Ætluðum svo að setja hrein föt og það sem við ætluðum ekki með, eins og fötin sem við komum í, í handfarangurstöskuna og hún yrði strax flutt á hótelið þar sem við myndum gista s.ðustu nóttina.

Dreif mig svo niður í tékkið og lenti þá eins og allir hinir í því að 10 kg taskan var of þung. Niðurstaðan var að fara í NIÐURSKURÐ. Svo við tók að fara í niðurskurð. Síðan var kvöldmatur og fundur með Stefan þar sem hann fór yfir dagskrá morgundagsins sem og almennt um keppnina. Maturinn, hlaðborð, var svona la la. Eftir kvöldmat dreif ég mig út til að fylla á símakortið sem ég hafði keypt á flugvellinum sem og að skipta bandarískum dollurum í Ngultrum og cherrtum sem er gjaldmiðillinn í Bhutan.

Eftir kvöldmat, hélt svo niðurskurðurinn áfram, held ég hafi farið svo fimm ferðir upp og niður, þar sem Stefán Bragi og Iðunn voru á herbergi, þar sem ég var reglulega að fá vigtina þeirra lánaða til að vigta 10 kg töskuna. Þessi niðurskurðu var mjög erfiður og í ljós kom síðar að ég skar mjög vitlaust niður og margt sem ég skildi eftir, eins og t.d. hlírabolur, auka blaut tissue og t.d. hleðslubatterí, framlengingarsnúran til að geta hlustað á tónlist eða horft á Netflix í gsm símanum mínum, lenti allt í niðurskurði sem ég hefði alveg viljað hafa þegar leið á ferðina 😊

Þegar við vorum loksins orðnar klárar við Beta þá fórum við að sofa. Vaknaði reyndar nokkrum sinnum um nóttina við mikið hundsgelt, þó ég hafi verið með eyrnatappa sem og leppa fyrir augunum, en sem betur fer lenti þetta ekki í niðurskurðinum, því þetta var mikið notað alla ferðina 😊 😉

BHUTAN DAGUR 1 – SKOÐUNARFERÐ
Eftir morgunmatinn (fékk mér kornflex og svo hafragraut hjá Betu, sem hafði lenti í niðurskurðinum hjá henni), þá var að drusla töskunum niður þessar þrjár hæðir. Það var yndislegt að fylgjast með serpunum raða töskunum upp á þakið á gömlu Toyota rútunum. Eftir hópmyndatöku fyrir framan hótelið þá komum við okkur fyrir í einni rútunni og svo hófst bíltúrinn.

Fyrsta stopp var við Dochula Pass 108 og Druk Wangyal Lhakhang söguleg bygging sem var reist til minningar um stríð sem háð var 2003, en þetta minnismerki er gert af konungsmóðurinni Ashi Dorji Wangmo Wangchuck árið 2008 . Þann 13. desember á hverju ári, er haldið upp á að hafa sigrað þessa baráttu við uppreisnarmennina frá Indlandi.  Dochula Pass er í 3100 metra hæð. Þannig að tilgangurinn var ekki bara til að skoða þennan fallega stað, heldur var líka um hæðaraðlögun að ræða fyrir okkur.  Ég prófaði að hlaupa aðeins þarna uppi, og ég var mjög móð við það.    Næst stoppuðum við í litlum fallegum bæ, þar sem við borðuðum hádegismat.

Þriðja stoppið var við Punakha Dzong klaustrið (virkið), sem við fengum að skoða. En við urðum að vera bæði í síðbuxum og máttum ekki vera með berar axlir og urðum að taka niður derhúfur. Þurftum svo að fara úr skónum áður en við fórum inn í klaustrið sjálft, þ.e. í það allra heilagasta og þar máttum við ekki taka neinar myndir. Fengum leiðsögn um allt klaustrið.

Eftir leiðsögnina um klukkan 16:00 ókum við aðeins út fyrir Punakha bæinn, þar sem búið var að koma upp tjaldbúðum þar sem við áttum að gista fyrstu nóttina.

Við Elísabet fundum okkur tjald og byrjuðu á að sprauta vel úr sterkasta Mosquito spreyinu sem við vorum með. Komum okkur svo fyrir, blésum upp dýnur og komum svefnpoka fyrir og byrjuðum að undirbúa fyrsta hlaupadaginn.

Við fórum svo í smá hlaupatúr (Beta, Siggi, Viktor, Guðmundur Smári og ég) heila 3 km, sem var samt ágætt til að koma sér bara aðeins í gírinn. Síðan kældum við okkur í ánni og fylgdumst með þeim sem voru í rafting á ánni. Hulda greyið var hundslöpp og svaf bara úti á túni með Ásgeiri sem svaf eða las í bók.

Rétt fyrir kvöldmat var fyrsta Race Briefing fyrir Stage 1 og svo kvöldmatur sem var ekki upp á marga fiska.  Búið var að moka holur á bak við tjöldin og tjalda upp svokölluðu klósett-tjaldi yfir þessar holur.  Glæsileg salernisaðstaða 😊 Reyndar voru 3 klósett með postulínsholu, á svæðinu, en þær voru eiginlega í verra ástandi en holurnar.

Eftir kvöldmat var kveikt upp í opnum eldi. Virkilega notalegt að sitja við opin varðeld og hugsa um fyrsta daginn sem var framundan.

Vorum samt komnar ofan í svefnpoka um klukkan 22.00 – en vorum ansi lengi andvaka við Elísabet. Það var kominn mikinn svefngalsi í okkur svo við hlógum mjög mikið.  Þegar ég ætlaði að fara að horfa á einhvern þátt sem ég hafði hlaðið niður af Netflix, þá komst ég að því að ég hafði skilið millisnúruna  eftir svo ég gat ekki tengt headsetin við símann, ein af mörgum mistökum sem voru gerð í „niðurskurðinum“ kvöldið áður.

Sofnuðum samt á endanum, en það var ekki mikill svefnfriður í tjaldinu, þar sem hundarnir villtu geltu alla nóttina 😊

BHUTAN – STAGE 1
Camp1: Punakha (1.209 m hæð – gistum í tjaldi) 
Stage 1: 30,7 km / hækkun 1.263m / lækkun 729 m
BUTHAN THE LAST SECRET 200 km hlaupið er ræst fyrir utan klaustrið Punakha Dzong sem hópurinn skoðaði í gær.
Það voru grunnskólabörn úr skólum í  Punakha héraðinu sem tóku á móti hlaupurunum og sungu fallega þjóðsöng Konungsdæmisins Bhutan rétt áður en hlaupið var ræst í sjötta skipti.

Yfirmaður Lama frá Punakha Dzong blessaði síðan hlauparana og óskaði eftir góðu veðri og bað fyrir öryggi hlaupara.  Eftir blessunina var hlaupið ræst. Framundan var 6 daga 200 km hlaup um hið stórkostlega og fallega landslag í BHutan.

Lengsta hengibrú Bhutan beið hlauparanna á fyrstu vatnsstöðinni, (check-point 1). Eftir 30,7 km hlaup dagsins beið Chorten Nyingpo Monastery  þeirra í 1756m hæð.

Það var einstaklega gaman í ræsingunni, virkilega hátíðlegt og algjört gæsahúðarmóment.  Þetta var samt allt öðruvísi ræsing en í öllum öðrum hlaupum sem ég hef tekið þátt í, þar sem ég vissi að það væru 6 heilir hlaupadagar framundan og um 11.000 metra hækkun.  Það var sól og hiti þegar við lögðum af stað og mikill raki í loftinu, þar sem það rigndi verulega um nóttina.

Það var yndislegt að leggja af stað og hlaupa fram hjá þessum fallegu, yndislegu og vel klæddu krökkum.

Framundan voru um 10 km á malbiki, svo ég fór vel hratt af stað.  Við hlupum meðfram á, inn eftir bænum og eftir 5 km fórum við yfir brú og fórum í raun til baka. Eftir aðra 5 km þá komum við að stærstu hengibrú Bhutan þar sem fyrsta drykkjarstöðin var (11,4 km búnir samtals). Rétt áður en ég kom að hengibrúnni, tók Díana (herbergisfélagi Bekku) fram úr mér og hvatti mig til að passa mig að drekka vel, því það væri mjög heitt og mikill raki. Ég var þá orðin eldrauð í framan og farin að fá svona kaldan svita, sem er afleiðing mikils hita og raka. Svo ég drakk allan líterinn sem ég var með af vökva var dugleg að taka inn salt og á fyrstu drykkjarstöðinni, fór ég úr stuttermabolnum svo ég var bara á toppnum og fyllti vel á brúsana.  Eina sem er í boði á drykkjarstöðvum í þessu Bhutan hlaupi er vatn, enginn orkudrykkur, né önnur orkua Það þarf að bera á sér öll gel, bari, salttöflur og annað sem þú vilt borða á leiðinni.

Mér leið mun betur eftir að vera komin úr stuttermabolnum, „bara á toppnum“og hélt áfram. Fram hjá fallega klaustrinu þar sem ræsingin fór fram, síðan hlupum í gegnum konungsgarðinn og svo áfram um 9 km leið á flatlendi, en samt ekki sem betur fer meira malbiki áður en við komum að síðari drykkjarstöð dagsins (vatnsstöð). Við urðum líka að tékka okkur inn á þessum drykkjarstöðvum, þar sem var merkt við okkur, því við vorum ekki með neinar tímaflögur á okkur.  Hlauparar hafa gleymt að láta vit af sér og þá hafa hlaupshaldarar hafið leit svo þetta var mjög mikilvægt atriði.

Eftir síðari drykkjarstöðina (20,9 km) hófst klifrið. Þá hitti ég nokkra hlaupara eins og Lynn og Martin. Ég tók eiginlega allar brekkurnar upp með Martin og tók fram úr Díönu á leiðinni upp.  Svo komu svissnesku hjónin Hans Jörg og Pia og tóku fram úr mér, ekki í eina skiptið sem þau gerðu það í brekkunum í þessari keppni  (Svisslendingarnir sterkir í brekkunum)

Þegar ég átti um 4 km eftir þá geng ég á Eric sem leið mjög illa og Rajiv frá Indlandi var að aðstoða hann. Þeir voru báðir orðnir vatnslausir og ég átti því miður ekkert mikið umfram það sem ég þurfti.  Ég var farin að finna mikið fyrir krömpum á leiðinni upp. Var búin að vera tæp í krömpum bæði í fluginu á leiðinni út, og hafði fengið slæma krampa bæði fyrstu nóttina á hótelinu sem og síðustu nótt í tjaldinu. Þannig að ég var mjög tæp og bað oft Afa Jóhannes heitinn (sem er alltaf með mér í keppnum erlendis) um aðstoð til að komast í mark.   Svo hélt ég áfram og rétt þegar ég var að fá mjög slæman krampa þá kom Rajiv og bauðst til að aðstoða mig, nuddaði á mér kálfana svo ég gat haldið áfram.  Ég gat þá gefið honum að drekka með mér þessa síðustu dropa sem ég átti, algjör win-win og sterkt vinasamband sem myndaðist. Skemmtilegt við svona margra daga hlaup er að maður er mikið að hlaupa með og í kringum sama fólkið á leiðinni.

Loksins sást í klaustrið og það var svolítil sérstakt að hlaupa að klaustrinu en jafnframt fallegt. Þegar ég kom í mark, voru Beta og strákarnir (Siggi, Viktor og Guðmundur Smári) búnir að fara í sturtu og þau voru samt hissa hvað ég kom snemma í mark, enda var ég 30 mínútum á undan planinu sem Siggi hafði gert fyrir mig heima á Íslandi áður en við fórum af stað.

Vegalengd skv. Strava = 30,84 km Tíminn: 04:01:37.

Eftir ískalda sturtu (þar sem ég held ég hafi gengið alveg fram af grey munka strákunum) – enda skellti maður sér bara undir kranan, sem er notaðu í uppvaskið og hrein föt, var lagst út af á dýnu í smá sólbað, þar til fór að rigna. Fengum okkur líka smá að borða, kex og kaffi svo var bara slakað á þar til allir voru komnir í mark.

Á „Race-Briefing“ fengum við þær upplýsingar að við myndum örugglega öll verða fyrir barðinu á blóðsugum á þeirri leið sem við vorum að fara daginn eftir. Um er að ræða eins og mjög stóra orma, sem sjúga sig á húðina meira að segja í gegnum föt og sjúga blóð úr manni og stækka við það.  Maður á að gefa þessum blóðsugum, vænan selbita til að losna við þá af sér og helst áttum við að vera í síðbuxum og síðum ermum og svo að spreyja bæði Moskitóeitri með háu deeti og við áttum að fá einhverja tóbaks-salt blöndu morguninn eftir sem við áttum að bleyta og nudda á okkur.

Get ekki sagt að ég hafi verið mjög spennt fyrir morgundeginum, enda hata ég pöddur 🙂

Eftir kvöldmat var okkur boðið að taka þátt í BUDDA guðsþjónustu í munkaklaustrinu sem við tjölduðum við og það var yndislegt. Reyndum svo að fara snemma að sofa, en get ekki sagt að ég hafi sofið mikið, þar sem ég var stöðugt að fara á klósettið alla nóttina 🙂

BHUTAN – STAGE 2
Camp2: Chorten Nyingpo (1.756 m hæð – gistum í tjaldi) 
Stage 2: 28,7 km / hækkun 2.428 m / lækkun 1.725 m 

YFIRLIT YFIR STAGE 2
Stage 2 er (29km) leið. Um 19 km upp á móti í áttina að Sinchula Pass í 3,400 m hæð. Þaðan er niðurhlaup í áttina að Thimphu dalnum þar sem við endum á heimili annars Bhutanska hlauparans, Zamba. Fjölskylda hans hefur hýst þátttakendur GlobalLimits’ frá fyrstu keppni.

Eftir morgunmat, var pakkað niður í trúss töskuna, dýnu, svefnpoka og fötum.  Ætlaði að fara aftur í skítugu fötin frá deginum á undan, en Bekka sagði mér að fara bara í hrein og þurr föt, enda gætum við þurrkað fötin þar sem við yrðum inni í húsi næstu nótt.

Það var því góð tilfinning að komast í hrein hlaupaföt, fínu UTMB CompressSport fötin mín, sem ég keypti í Chamonix síðasta haust.

Það var ræst fyrir utan klaustrið. Mér leið mjög vel og var alveg til í slaginn, þó ég kveið því svolítið að eiga möguleika á að hitta „blóðsugurnar“ en ég var búin að bera á mig tóbaksblönduna á fæturnar um morguninn og var með „ermahlífar“ svo þær myndu ekki sjúgast á hendurnar á mér og úðaði vel af moskító spreyinu á hnén á mér.

Ég var frekar framarlega í ræsingunni, svo tóku fremstu hlaupararnir ranga beygju svo við urðum að snúa við og einhvern veginn varð eitthvað kaos, og það snéru ekki allir við, svo á endanum var ég orðin öftust 😉 Þá var bara að gefa í og taka fram úr, þar til ég var komin að þeim hlaupurum sem ég var að hlaupa með í gær.

Leiðin er merkt með appelsínugulum flöggum og appelsínuguli spreyi, þ.e. steinarnir eru spreyjaðir á leiðinni.  Í eitt skipti  var ég næstum búin að missa af einni vinstri beygju, en fyrir tilviljun horfði ég til vinstri og sá flögg þar og hélt áfram.

SKömmu síðar sé ég hvar Guðmundur Smári er að koma fyrir aftan mig og ég hugsaði hvað gerðist af hverju er hann þarna. Hann sagði mér þá að hann hefði elt fremstu hlauparana sem allir tóku ranga beygju svo hann fór um 700 metra lengri en þurfti.  Skömmu síðar kom Siggi Kiernan líka og þar á eftir Beta.  Þetta var algjörlega „einstakt móment“ sem ég varð að festa á snappið ha ha ha að ég væri á undan þeim öllum í keppninni ha ha ha.

Guðmundi leið ekki mjög vel svo hann ákvað að láta mig „pace-a“ sig, þe. fara hægar upp brekkuna, svo í staðinn fékk ég góðan félagsskap.

Það var mjög góðtilfinning að komast á toppinn á Sinchula Pass í 3400 metra hæð og þar voru fimm heimamenn sem tóku á móti okkur og gáfu okkur vatn.

Þá beið okkar um 10 km niðurhlaup. Guðmundur Smári er mjög sterkur þar og ég mátti hafa mig alla við að reyna að hanga í honum. Ef honum hafði liðið eitthvað illa á leiðinni upp, þá var það klárlega liðið 🙂

Við náðum þrem hlaupurum á leiðinni og ég fann að þá var ég farin að missa orkuna. Hafði gert þau mistök að taka ekki inn gel á toppnum eins og Guðmundur hafði gert og fann að orkan var að þverra. Ég hvatti því Guðmund til að fara á undan mér áfram niður eftir og nota orkuna og kraftinn og koma þá alla vega í mark á undan þessum þrem strákum.

Svo tókvið bæði malbiksniðurhlaup sem og smá malbikskafli þar sem við hlupum í gegnum heimabæ Zamba vinar okkar.

Það var góð tilfinning að koma í mark á degi 2 og að sjálfsögðu tók ég Haddýjar hoppið í markinu.

STRAVA: 28,97 km TÍMI: 05:51.10

Eftir að ég kom í mark var farið í krana sturtu og fór svo í búðina og keypti áfengislítinn bjór og núðlusúpu. Siggi hafði fært mér FANTA virkilega kærkomið þegar ég kom í mark og það var yndislegt að komast í búðina og fá sér núðlusúpu. Orðin ansi þreytt á vondu pasta 🙂

Haldið var Race-briefing eftir að allir voru komnir í mark og í raun eftir matinn.

Siggi hafði náð hjónarúmi og sér herbergi og bauð mér að deila með honum hjónarúminu. Mér fannst ég vera að svíkja Betu herbergisfélaga minn, en var samt þakklát fyrir að fá að komast í rúm.

BHUTAN STAGE 3
Camp3: Thimphu Valley (2.495 m hæð – gistum í bóndabæ) 
Stage 3: 27,8 km / hækkun 1.968 m / lækkun 824 m
STAGE 3 LEIÐIN er 29 km vegalengd, þar sem hlaupið er fallega Thimphu dalinn áður en haldið er í klifur upp að annarri vatnsstöð (checkpoint 2). Það er magnað útsýni að Konungshöllinni og Stjórnarráðsbyggingunni.  Leiðin endar á 9 km mjög bröttum kafla, þar til komið er að Phajoding Klaustrinu sem er í 3600 metra hæð, þar sem 85 munkar taka á móti hlaupurunu. Hlaupararnir gista í húsnæði munkanna.  Í dag er líka vegleg Búdda hatíð, þar sem margir tilbiðjendur leggja það á sig að ganga þessa leið upp á klaustri til að taka þátt í Búdda athöfn.

Í Phajoding klaustrinu, þá keppa hlauparar GlobalLimits árlega í fótbolta við munkana.  Næstum hver einasti hlaupar á að taka þátt og vera á vellinum í nokkrar mínútur.  Á morgun munu hlaupararnir síðan halda til Paro dalsins.

Ræst var í hlaðinu heima hjá Zumba. Við hlupum í gegnum bæinn og upp með honum dágóða vegalengd, drykkjarstöð eitt var eftir 10,5 km.  Svo byrjaði létt klifur, sem var samt alveg krefjandi. Það var virkilega fallegt útsýni. Rétt áður en ég kom að drykkjarstöð 2 (19 km) hitti ég Viktor sem leið mjög illa.  Hann var ekki búin að borða neitt, var að reyna að drekka vatn og kastaði því bara upp. Ég gaf honum eina ógleði/hæðarveikis töflu og hvatti hann til dáða. Hélt svo áfram og hitti hann aftur á drykkjarstöðinni.

Svo hélt áfram smá klifur, í gegnum einstakt umhverfi, þar sem var magnað útsýni yfir borgina sem og allt í lituðum Himalaya fánum. Magnaður staður.

Síðustu 9 km voru mjög brattir. Frakkinn Ch tók fram úr mér og hvatti mig til að taka salttöfur, ekki í fyrsta skipti og ekki í síðasta. Honum fannst ég eitthvað reikandi. Man ég tók þá upp símann og spurði vini mína á SNAPPINU hvort ég liti mjög illa út hahha og fékk bara jákvæð comment 😉 😉 Sem ég sá reyndar ekki fyrr en daginn eftir 🙂

En í þessu síðasta klifri var ég einstaklega glöð að þar var fólk, maður og kona, geri mér ekki grein hvort þau voru par eða mæðgin sem voru að ganga upp á sama tíma og ég. Mér leið eins og þau væru að passa mig, þar sem þau voru á nákvæmlega sama hraða og ég, en mér fannst ég varla hreyfast ha ha ha – fór alla vega mjög hægt upp og leið ekki vel. Hans og Pia tóku fram úr mér eins og ávallt á uppleiðinni, enda Svisslendingar með góð og brött fjöll til að æfa svona brattar fjallgöngur 😉

Var virkilega glöð þegar ég kom í mark, var ekki uppgefin, en það var ekkert Haddýjar hopp tekið í þetta skipti, enda í 3.600 metrum.

Samkvæmt Strava= 28,04 km = Tími= 05:01:13

Engin sturta, bara kattaþvottur, með blaut-tissuei – og svo farið í ullarföt og allan hlýjan fatnað sem ég var með og reynt að þurrka hlaupafötin, sem gekk ekki vel þar sem það var mjög kalt í húsinu sem við gistum í.

Eftir að hafa reynt að borða eitthvað (fegin að hafa tekið Fanta flösku með í Trússið), en NB við vorum látin létta á þeirri tösku fyrir þennan dag, þar sem það var mikil burðu fyrir Serpana að bera, ekki hægt að keyra þarna upp eftir. Var því miður ekki með núðlu-súpu, en Bekka gaf mér sína, wow hvað það var vel þegið.

Fórum fyrir matinn í messu með Munkunum og það var mikið af gestum sem kom inn og færði klaustrinu pening. Það var gaman að sjá hvernig þau leggjast í gólfið og tilbeiða búdda á ákveðinn hátt, en þau stoppuðu mjög stutt í athöfninni. Við fengum te, saltkex og svo tyggjó (sælgæti) sem var verið að gefa litlu strákunum, virkaði allt mun frjálslegra hér en í hinu klaustrinu.

Fyrir kvöldmat var svo fótboltamótið, þar sem við hlaupararnir kepptum við munkana, sem spiluðu á opnum skóm, eða sandölum. Ásgeir og Hulda björguðu okkur með því að fá á sig sitt hvort markið svo munkarnir myndu örugglega vinna okkur. Nokkrir aðrir hlauparar voru með of mikið keppnisskap og ætluðu að sigra sem var ekki alveg í okkar anda. Ég náði að skalla boltann tvisvar og þetta var mjög skemmtilegur viðburður.

Svaf í öllum ullarfötunum og þakkaði fyrir að vera með hlýjan svefnpoka þessa nóttina.

Um morguninn reyndi ég svo að þurrka mesta rakann úr hlaupaskónum með því að nota svona einnota „hitapúða“ og setti fötin mín, röku, ofan í dúnsvefnpokann þegar ég vaknaði og vonaðist til að þau myndu aðeins þorna við það 🙂

Sjá nánar í næsta Stage …

BHUTAN – STAGE 4
Camp 4: Phajoding Monastery (3.605 m hæð – gist í klaustri) 
Stage 4: 38 km / hækkun 1.928 m / lækkun 3.266 m
STAGE 4 YFIRLIT
Framundan voru 38 km. Byrjuðum á að klifra að hæsta punkti keppninnar í  3.712 m hæð. Svo tók við niðurhlaup í  2.600m og upp aftur í 3.400 m þar sem er aftur lækkun niður í Paro dalinn (glæsilegt útsýni yfir dalinn). Þar beið okkar heitt Buthanískt steina bað sem var góður undirbúningur fyrir  morgundaginn sem er lengsti dagurinn í fjölda kílómetra.

Það var frekar kalt þegar við vöknuðum um morguninn. Ég hafði reynt að þurrka hlaupafötin mín í dúnsvefnpokanum og var með einnota hitapoka í skónum til að þurrka rakann úr þeim. Eftir morgunmat og blessun frá munkinum þá var haldið af stað.

Við tók klifur upp í 3.712 metra hæð sem gekk frekar hægt hjá mér en hafðist. Svo tók við ágætis niðurhlaup sem gekk mjög vel, fyrsta drykkjarstöð eftir um 11, 8km. Þar á eftir var mikil hækkun upp í 3.400 metra. Það klifur var mér mjög erfitt.  Önnur drykkjarstöð svo eftir 21 km.  Þegar ég átti eftir um 150 metra upp á topp, þá var ég orðin ansi buguð.

Mér leið ekki vel, var með hausverk og rásaði, en var ekki flökurt. Á þessari stundu hugsaði ég hvort ég hefði átt að taka „töfluna“ fyrir hæðarveiki, sem var einhver ógleðitafla. EN mér fannst ansi lítið eftir, svo ég hélt áfram. Mig langaði mikið að henda mér í götuna og bara leggja mig.  Ég fór á Snappið og velti þessu fyrir og endaði á að segja huxi, huxi, hux.. og þá fann ég bara hvernig kökkurinn kom í hálsinn og tárin fóru að flæða.  Ég ákvað bara að leyfa þessari flotgátt að opnast og losa þannig um tilfinningarnar. Mikið sem það var gott. Á endanum komst ég á toppinn og hvað ég var glöð. Þar voru brjálaðir lausir hundar eins og út um allt, sem geltu mikið á mig.

Nú vissi ég að framundan var bara 13 km niðurleið.  Þar var ég í góðum málum og henti mér niður fjallið. Ég fór fram úr fimm hlaupurum á leiðinni, 4 karlmönnum og 1 konu, Píu frá Sviss (enn og aftur sem leiðir okkar lágu saman), en þau hjónin höfðu tekið fram úr mér á uppleiðinni.

Pia reyndi að hlaupa á eftir mér og skildi Hans eftir, þá gaf ég bara í, og var komin á pace 5:10 og sá þá að hún hætti að elta. Strákarnir voru mjög hissa þegar ég kom á fljúgandi ferð niður og því miður var Zamba vinur minn einn af þeim, en hann var með verk í fætinum. Ég bauð honum verkjalyf sem hann þáði ekki.

Eftir að við komum á jafnsléttuna, þá var virkilega skemmtileg leið sem við hlupum, meðfram hrísgrjónaakrinum.  Ég ákvað að stoppa ekkert og taka engar myndir og engin snöpp, því ég ætlaði sko ekki að láta taka fram úr mér aftur 🙂

Það var skemmtilegt að koma í mark við bóndabæinn í Paro og wow hvað „Fantað“ (appelsín) sem Siggi var búin að kaupa fyrir mig var gott.

Fór svo í þetta yndislega steinabað. Var þrifin af bóndakonunni hátt og lágt með sápu og Pia var með mér í herbergi í sínu steinabaði. Eftir baðið þá gat ég látið þvo hlaupafötin mín og þau voru sett í þurrkara. Eftir að vera komin í hrein föt, þá labbaði ég með Betu, Sigga og Guðmundi Smára í kaupfélagið (kaupmanninn á horninu) og eftir búðarferðina, leituðum við að bar eða veitingastað okkur langaði svo að panta okkur pizzu og bjór, en Stefan heimilaði okkur ekki að bóka leigubíl og fara í það. Fundum bar í nágrenninu, en þar var enginn pizza, gátum keypt áfengislítinn bjór samt þar.

Fórum svo og tókum á móti síðustu íslensku hlaupurunum og tókum myndir af fallegu hrísgrjónaakrinum.

Um kvöldið var svo í boði djúspteiktur kjúklingur með beini, sem var sá skásti ég hafði borðað hingað til, eins og að borða KFC með beini 🙂

Á race-briefing fundinum fengum við þær upplýsingar að hópurinn færi af stað á tveim mismunandi tímum, þ.e. klukkan 6 og klukkan 7. Ég var mjög ánægð að vera í fyrri hópnum, þ.e. ræst klukkan 6, enda 54 km framundan og langur dagur, þar sem hlaupa á í kringum flugvöllinn í Paro og út um allt.

Sváfum öll íslenska liðið saman í sama herbergi

Strava = 36,66 km Tími: 06:40:25 

BHUTAN – STAGE 5
Camp5: Paro (2.280 m hæð – gistum í bóndabæ) 
Stage 5: 53,5 km / hækkun 2.048 m / lækkun 1.745 m
YFIRLIT YFIR STAGE 5
Stage 5 er lengsta leiðin í kílómetrum eða 54 km og í raun líka lengsta dagleiðin fyrir flesta í klukkustundum og mínútum. Hlaupið er í gegnum dalinn í Paro (2.280 m).  Hópnum var skipt í tvennt. Átján fremstu hlaupararnir eftir fyrstu fjórar dagleiðirnar voru ræstir klukkan sjö en hinir klukkan sex.  Farið er fram hjá virkilega fallegu virki í Paro „The  Paro fortress“, flugvellinum og vænum hrísgrjónaökrum, auk þess að fara fram hjá, fótspori Tiger’s Nest.  Endamark dagsins er við Drukyal virkið (2.582 m). Virkið var byggt til að fagna sigri Bhutan á innrásarher þeirra, en það er verið að gera það upp núna. Drykkjarstöð 1= 10,7 km. Drykkjarstöð 2 eftir 10,3. Drykkjarstöð 3 eftir 10 km. Drykkjarstöð 4 eftir 10 km. Lokamarkið eftir 11.7 km. 

Þolinmæði er dyggð og/eða þolinmæði þrautir vinnur allar.  Ég fann ég var í góðum gír, þegar ég lagði af stað. Ég var komin í „spari-hlaupafötin“ mín, þ.e. Salomon pils-dressið mitt. Var búin að ákveða að hlaupa í því síðasta daginn, en þar sem ég vissi að  þessi dagur íyrði líka langur og heitur, ákvað ég að skella mér í það og ég sá sko ekki eftir því, þar sem hitinn var mikill.

Siggi var orðin mjög slappur, þegar ég lagði af stað og ég hafði áhyggjur af því að hann myndi ekki komast að ráslínunni þennan morguninn, en hann átti ekki að fara fyrr en klukkan 07:00.  Hulda fékk í hnéð á degi 3 og varð því miður að hætta keppni þá.  Svo það vorum við Bekka, Ásgeir, Iðunn, Stefán Bragi og Viktor sem ræstum klukkan 06:00.

Sólin var að koma upp og það var ekki orðið of heitt, svo það var bara yndislegt að leggja af stað. Hlupum samt mjög mikið á malbiki. Fyrsta drykkjarstöð var eftir 10,7 km.  Hlupum svo í gegnum hrísgrjónaakrana, þar tókst mér að villast, ekki einu sinni heldur tvisvar. Sem betur fer var ég með leiðina í úrinu, þannig að þegar ég var komin mikið af leið þá pípti úrið á mig og ég snéri við.

Ég hitti Charles frakkann vin minn, sem bauð mér salttöflur, sá sami og hafði tekið fram úr mér í klifrinu og fannst ég rása mikið og var stöðugt að minna mig á saltinntöku.  Hann sagði mér að Ipodinn hans virkaði ekki og ég var svo heppin að vera með auka Ipod – svo ég lánaði honum annan minn.

Hélt svo áfram að hlaupa og hlustaði á Aqua (Barbie Girl, I´m happy o.s.frv.) og á Adele.  Rétt áður en ég kom að drykkjarstöð 2, eftir 21 km drykkjarstöðinni, hitti ég Viktor sem var orðin ansi örmagna. Hann hafði hlaupið deginum á undan í 10 klst án þess að taka inn neina orku né morgunmat.  Hann hafði því ákveðið um morguninn að leggja af stað og sjá svo til. Á þessum tímapunkti var hann búin að komast að því að hann myndi ekki klára þessa 54 km, NB!!!! við vorum búin að hlaupa 130 km síðustu fjóra daga.  Hann var því búin að taka ákvörðun um að hætta á næstu drykkjarstöð. Ég reyndi ekki að fá hann til að skipta um skoðun, virti algjörlega þetta mat hans og lét lækninn vita þegar ég kom á drykkjarstöðina að hann væri á leiðinni og búin að taka ákvörðun um að hætta. Læknateymið í þessu hlaupi var einstaklega gott og þau fylgdust vel með öllum og aðstoðuðu þá sem glímdu við einhvern vanda. En þau voru ekki þarna til að aðstoða okkur við að sprengja blöðrur eða gera um smásár en buðust til að kenna okkur það ef við þurftum.

Eftir drykkjarstöð 2, hélt ég áfram, reyndar villtist aðeins, fannst ekki alveg nógu góð merking þarna, fann einhverjar tröppur og fór að þvælast þær upp og niður 😉

Fann svo loksins réttu leiðina og hljóp út á flugvöll. Leiðin lá svo meðfram flugvellinum og þar áfram inn í skóg. Þar fór ég að leika mér á Facebook live, svo ég villtist aðeins aftur. Ekki gott að vera ekki að fylgjast með 🙂

Við endann á flugbrautinni og þessum skógi var ég ég hálfnuð með dagleiðina og það var orðið ansi heitt og rakt. Fyrstu karlhlauparar sem höfðu ræst klukkustund á eftir mér og Beta tóku þarna fram úr mér.  Það var gaman að hitta Betu sem var á fleygiferð. Á næstu drykkjarstöð eftir 31,8 km þá hellti ég vatni yfir mig alla eins og í Texas. Ég var farin að halda að þetta væru álögur á mér að hlaupa erlendis í svona miklum hita, enda bara 4 vikur frá Ironman Texas, þar sem ég hljóp maraþonið í 32°Celsíus.

Framundan voru langur malbikaður kafli, sem virkaði endalaus. Þá var bara að „halda haus“ og passa sig að detta ekki í að  labba. Ég tók upp ákveðinn rithma, gekk t.d. 10 skref og hljóp 30, gekk svo 10 og reyndi að hlaupa 40 o.s.frv. reyndi þannig að fjölga hlaupaskrefunum og fækka gönguskrefunum. Hljóp fram hjá Bobby, sem var bara að ganga, enda að berjast við verk í hnénu, og var búin að duck-teipa Hoka hlaupaskóna sína, sem höfðu rifnað.

Kom svo loksins að hengibrúnni sem lá í áttina að einhverjum bæ, þar sem yndislega Hulda mín tók fagnandi á móti mér. Hún var í svo fallegu Bhútönsku pilsi. Ryan læknir var þarna líka og ég fann ég var bara í góðum gír, þetta var síðasta drykkjarstöðin eftir 41,8 km.  Man ég hélt upp á það í hausnum að ég væri búin með eitt stk maraþon, 42,2 km eftir að hafa hlaupið 130 km síðustu fjóra daga og það í milli hækkun. Það var sko eitthvað til að halda upp á og fagna.  Auk þess var ég ánægð að þó þessi dagleið væri LÖNG, þá var ég ekki í yfir 3000 metra hæð, svo mér leið bara vel.  Aðalmálið var bara að halda haus og halda stöðugt áfram. Hulda keypti handa mér Fanta í búðinni, wow hvað það var gott. Ég hélt svo áfram minni leið.

Loksins endaði malbikið og við fórum virkilega fallega leið meðfram á. Sara og Tom Sawyer komu þá og tóku fram úr mér. Stuttu eftir það sá ég hvar Sarah missti fótanna og datt í ána, á bólakaf með rassinn. En hún var ótrúlega fljót upp aftur og þessi kæling gerði henni greinilega gott því eftir það var eins og hún hefði fengið vítamínsprautu, hún bara þaut áfram og á undan Tom, skildi hann bara eftir.

Hlaupið endaði í fallegu virki, en það sem var erfitt við endamarkið var að  þegar maður hélt að maður væri kominn í mark, sá alla hlauparna og matartjaldið þá var eftir að klifra upp í virkið, sem var þó nokkuð mikil brekka, lengri leiðina í kringum bygginguna. Alla vega tók þetta á þegar maður var búin að hlaupa 54 km 🙂  En endamarkið var virkilega fallegt og skemmtilegt að koma þangað. Að sjálfsögðu var Haddýjar hoppið tekið í markinu.

Beta var ennþá í markinu þegar ég kom, ennþá í hlaupafötunum, en orðið mjög kalt, og var mjög þreytt. Læknirinn skipaði henni að fara niður og í hrein föt, svo ég og VIktor fórum með henni. En Viktor tók líka á móti mér í markinu.

Við fórum niður í hús, þar sem Siggi lá mjög lasinn fyrir og við skiptum um föt. Þarna var engin leið að þvo sér nema með kattaþvotti sem ég og gerði og klæddi mig vel.   Dældi amerískum flensulyfjum í Sigga og dúðaði Betu sem var ennþá kalt. Siggi hafði hætt á sama stað og Viktor þ.e. drykkjarstöð tvö og var orðinn hundlasinn.

Við vorum þarna í stóru herbergi með einhverjum gömlu munki og í fyrsta skipti síðan við lögðum af stað sáum við sjónvarp, en munkurinn var að horfa á CNN 🙂  Við Viktor fórum svo aftur upp að taka á móti Guðmundi Smára (misstum reyndar af honum) en náðum Bekku og Ásgeiri, veit ekki hvað ég fór margar ferðir upp að markinu eftir að ég kom í mark, enda var ég alltaf ótrúlega hress þegar ég var búin með mína dagleið.  Við gengum svo á móti Iðunni og Stefáni og fórum í matarbúðina og keyptum okkur fullt af áfengislitlum bjór og núðlusúpum.

Um kvöldið var svo Race-briefing fyrir síðasta daginn, kvöldmatur og svo var bara að koma sér snemma í rúmið eins og vanalega.

Ástandið á hópnum var ekki mjög gott, Siggi og Viktor báðir frekar slappir, og Hulda var ennþá með verk í hnénu. Viktor tók samt ákvörðun um að hlaupa síðasta daginn, síðasta legginn, en Siggi og Hulda ætluðu með bílnum og taka á móti okkur í Tigers Nest.

STRAVA = 54,03 km – T’ÍMI:  08:05:08

BHUTAN – STAGE 6
Camp 6: Drukyal Dzong (2.582 m hæð – gistum hjá munkunum/bóndabær) 
Stage 6: 14,6 km / hækkun 1.205 m / lækkun 691 m
YFIRLIT = SÍÐASTA DAGLEIÐIN
Síðasta dagleiðin, um 14,6 km voru frá Drukyal virkinu (2.582 m) að  Tiger’s Nest. Farið var í gegnum fallega dali og meðfram ánni, áður en komið var að rótum  Tiger’s Nest. Eina drykkjarstöðin var þar, eftir 10,7 km og þá tók við mjög mikið og bratt klifur 3,9 km upp í Tigers Nest.

Hópurinn var ræstur í þrem hollum þennan morguninn. Klukkan 06:00, 06:30 og 07:00. Ég var í öðrum hópnum, þ.e. ræst klukkan 06:30 og eini Íslendingurinn þar. Mér fannst þessi leið mjög fallegað.  Þar voru mjög margir ferðamenn að klífa þessa 4 km, þ.e. frá bílastæðinu (þar sem fyrsta drykkjarstöðin var) og mikið af hestum, sem voru notaðir til að flygja farþega sem ekki treystu sér til að ganga alla þessa leið upp eftir.

Ryan læknir sagði mér að fylgjast vel með hæðarmælinum til að komat að því í hvaða hæð ég væri komin þegar mér færi að líða illa. Hann vildi ekki gefa mér neitt við þessu, en hann vildi meina að þetta væru nokkrir samverkandi þættir. Hæðin, hitinn, rakinn og vatnsleysi í líkamanum. Ég átti því að drekka mjög mikið kvöldið áður og helst vatn með zero töflu, þ.e. steinefnum sem ég og gerði.

Það var eins og það væri skrifað í bók, þegar ég var komin í 3000 metra hæð þá var mér farið að líða illa, en þar sem ég vissi og sá stöðugt Tigers Nest, þá var uppgangan auðveldari heldur en fyrri tvö skiptin, þegar ég var komin í þessa hæð, og leið illa og sá ekki endamarkið.

Þetta er algjörlega mögnuð leið og þegar ég sé að ekki var mikið eftir, sótti ég íslenska fánann minn í hlaupabakpokann og gerði mig tilbúna til að hlaupa og taka Haddýjar hoppið í markinu og fagna vel og innilega. Enda ekki annað hægt eftir sex daga hlaup, 200 km og um 11.000 metra samanlagða hækkun.

Hins vegar þegar ég kom í markið þá sussaði Stefan á mig og sagði mér að það væri stranglega bannað að vera með þennan hávaða í klaustrinu hahah 🙂 Þá kom þessi mjög svo fyndni svipur á andlitið á mér. (Siggi náði þessari stórkostlegu mynd) 🙂

En þetta var mögnuð stund og það var gaman að vera þarna þegar Beta og allir hinir vinir mínir komu í mark.

Fyrsti karlmaður í mark var frakkinn Alan Zagury, sem setti brautarmet 1:51 upp að Tigers Nest. Lokaniðurstaða í keppninni var að Tommy Chen frá Taiwan var fyrstur, Guillaume Degolet frá Frakklandi annar og Alan Zagury, varð þriðji.

Hjá konunum, var Beta okkar Elísabet Margeirsdóttir, í fyrsta sæti,  Angela Zäh frá Þýskalandi varð önnur og Sarah Sawyer frá Bretlandi varð þriðja.

Eftir að hafa tekið á móti öllum. Þá fórum við í skoðunarferð um þetta fallega klaustur sem er byggt inn í fjallið / klettana. Við skokkuðum niður (ég syngjandi glöð Barbie Girl). Fengum okkur hádegismat á veitingastað sem var þarna á leiðinni niður.   Þegar við komum að bílastæðinu (rætur Tigers Nest) þá gengum við í gegnum markað, í raun eina verslunin sem ég sá í Buthan og vorum svo keyrð á hótelið.

Meira um lúxusinn sem beið okkar í næstu færslu ….

STRAVA = 15,39 km – T’ÍMI:  02:36:21

LOKAATHÖFN BHUTAN THE LAST SECRET
Við vorum keyrð á lúxushótelið Zhiwa Ling Hotel í Paro í Buthan. Hótelið er skráð sem „Unique Lodges of the World“ í National Geographic, enda einstaklega fallegt.  Bekka sagði okkur Betu að hringja strax og panta nudd, sem var einstaklega gott ráð, því það varð uppbókað á svipstundu.  Það var starfsmaður sem fylgdi okkur Betu á herbergið og við fengum hana til að aðstoða okkur og hún bókaði bæði heilnudd og „body scrub“ fyrir okkur, samtals 90 mín tíma.

Eftir að hafa sofið í tjaldi, á gólfinu í mishreinum húsum í 5 nætur með mjög takmarkaða salernisaðstöðu og ekki séð baðvask eða sturtu,  þá var það ólýsanlega góð tilfinning að komast loksins í almennilega sturtu, risastórt hótelherbergi, með tveim queen size hjónarúmum, sófasetti, sjónvarpi og með gott sjampó og hárnæringu. Eftir heita og góða sturtu settum við Beta djúpnæringu í hárið og fórum svo á hreinum hvítum baðsloppi í nuddið.  Það var yndislegt að komast í nudd og body scrub eftir að hafa hlaupið 200 km, með um 11.000 metra hækkun á 6 dögum.

Við fengum aftur handfarangurstöskurnar okkar, þ.e. töskurnar sem við skyldum eftir á hótelinu fyrsta daginn. Það var gaman að sjá allt sem skyldum eftir. Mikið af þessu dóti hefði ég aldrei skilið eftir, ef ég væri að leggja af stað núna.

Eftir frábært nudd, skoðuðum við hótelsvæðið, tehúsið, bókasafnið og allt fallega umhverfið í kringum hótelið. Síðan fórum við aftur upp á herbergi og fórum að hafa okkur til.

Það var danssýning og skemmtun á hótelinu klukkan 17:00 og svo byrjaði verðlaunaafhendingin klukkan 18:00.

Heiðursgestur kvöldsins var fyrrum dómsmálaráðherra Bhutan, háttvirtur hr. Sonam Tobgye. Hann gaf okkur öllum stjórnarskrá Bhutan: „The constitution of the Kingdom of Bhutan“.

Við fengum einstaklega góðan kvöldmat á hótelinu og þegar dagskráin var búin fórum við niður á hótelbarinn. Það voru svo hörðustu djammararnir sem skelltu sér á diskótekið í miðbænum Paro með leigubíl og að sjálfsögðu klikkaði ég ekki á því,  þó ég yrði að vakna eldsnemma þar sem ég átti eftir að pakka niður og koma mér í flug.

Það var mikið stuð á diskótekinu, en músíkin var eiginlega meira fyrir fólk í yngri kantinum. Náði þó að drekka tvo Red Bull á staðnum, til að halda uppi orkustiginu og dansa við nokkur vel valin lög.  Zamba vinur minn var í banastuði í íslenska landsliðsbúningnum sínum 🙂  Leigubílarnir sem við fórum með í bæinn, áttu að bíða eftir okkur og við vorum búin að borga fyrir bílinn fram og til baka. Þegar við hins vegar komum út voru þeir að sjálfsögðu farnir svo við urðum að finna einhvern heimamann, til að keyra okkur til baka uppá hótel. Bobby var með okkur og reddaði okkur einhverjum bílstjóra.

Við vorum því komin aftur upp á hótel um eitt leytið, þannig að því miður gat ég ekki sofið nema örfáar klukkustundir í þessu hreina og stóra og yndislega rúmi. Beta var ennþá vakandi þegar ég kom heim, svo ég dreif mig bara í það að klára að pakka. Mæli 200% með þessu hóteli ef þú ert á leið til Bhutan.

HEIMFERÐARDAGUR
Við Guðmundur Smári áttum bókað flug klukkan 09:20 frá Paro til Deli. Rútan átti að sækja okkur á hótelið klukkan sjö, henni seinkaði reyndar aðeins. Við fengum morgunmat klukkan 06:30. Það var besti morgunmatur sem ég hafði fengið í MJÖG langan tíma.

Einhverra hluta vegna vorum við bókuð á Saga Class í fluginu frá Paro til Deli og fengum því  að bíða í betri stofu eftir fluginu og fengum betri sætum og mjög góðan mat á dúkalagt borð í fluginu sem var yndislegt.

Flugið til Deli gekk hratt og vel og við sáum Everest út um gluggann.

Við höfðum tékkað farangurinn alla leið, en þegar við komum á flugvöllinn í Deli, þá kom í ljós að við urðum að bíða, þ.e. vorum ekki tékkuð inn fyrr en ljóst var að töskurnar okkur væru örugglega komnar. Öll skjöl handskrifuð á blað með kalkipappír (já við erum að tala um kalkipappír sem ég sá síðast á Íslandi í kringum 1980).

Biðum svo í Deli í um 2 klst, ekki nægur tími til að fara út af flugvellinum.  Þegar ég sá McDonalds merkið langaði mig mikið í Big Mac. Komumst svo að því að það er ekki hægt að fá nautakjöt á hamborgara í Indlandi, auvitað ekki, þar sem kýr eru heilagar. Fengum því einhverja útfærslu af kjúklingakjöti í hamborgarann sem var bara fínt, allt gott þegar maður er svangur 🙂

Fórum svo með Air India flugi til Deli. Held ég hafi horft á 3 bíómyndir, samt enga Bollywood bíómynd, þó það væru margar í boði. Flugið þar yfir var mjög langt og þröngt á milli sæta, enginn lúxus hjá okkur í því flugi. Lentum svo á sama terminali og við áttum að fljúga heim með Icelandair, sem var mjög þægilegt.

Fengum okkur aftur að borða (já vorum borðandi allan daginn) á einhverjum hollustustað, pizzu og salat og gátum tekið því mjög rólega því það var 2 klst seinkunn á vélinni heim.

Síðasta flugið gekk vel og við vorum að lenda í Keflavík um klukkan 02:00 á íslenskum tíma, eftir um 24 klst ferðalag.

Farangurinn okkar skilaði sér ekki til Íslands, svo við urðum að fylla út eyðublöð og láta tollinn stimpla þau.

Yndislegu ferðalagi með frábærum ferðafélögum til Bhutan var þar með lokið hjá okkur Guðmundi Smára, en restin af hópnum átti eftir 2ja daga djamm í Bangkok 🙂 Við sáum svolítið mikið eftir að hafa ekki tekið þátt í því á þessum tímapunkti.

Þakka samferðamönnum mínum fyrir yndislegar samverustundir – það var algjörlega einstakt að vera með ykkur og stundirnar í Bhutan munu lifa í minningunni að eilífu. Þið eruð yndisleg kæru vinir.

You may also like

Leave a Comment