D2: Frá Laugafelli að Snæfellsskála

by Halldóra

Trússbíllinn skutlaði okkur uppá veg, þ.e. upp fyrstu brekkuna með púlkurnar, en við vorum búin að koma fjallaskíðunum og fjallaskíðaskónum fyrir í þrem púlkum í gærkvöldi.

Gengum svo að Snæfelli (þ.e. komum norðan megin að fjallinu) um 8 km leið, áður en við skiptum yfir á fjallaskíðin. Óli fór ekki á fjallaskíðin, svo hann tók eina púlkuna með þrem ferðaskíðum og skóm með sér áleiðis í skálann yfir sléttuna.

Við hin skelltum okkur upp fjallið á fjallaskíðunum.

Þegar við vorum komin upp í um 1500 metra hæð, var orðið alveg blint, þ.e. það lágskýjað að ekki var neitt útsýnið og mikill bratti og glerhálka. Tóti sem var fyrst búin að hvetja allan hópinn til að snúa við, manaði mig að halda áfram svo við héldum áfram í um 1600 m hæð. þá hringdi Milla og henni leist ekkert á að við héldum áfram, enda orðið alveg blind, sáum ekki 1 meter fram fyrir okkur.

Við vorum samt bæði komin með brodda undir skíðin, enda ekki annað hægt. Það voru tveir útlendingar á undan okkur sem voru búnir að setja brodda undir skíðin hjá sér, en voru komnir af þeim og komnir á brodda undir skíðaskóna og skíðin komin á bakpokana. Þeir hundskömmuðu Tóta, sögðu honum að færið væri mjög hart og það var mjög bratt og hann ekki einu sinni með hanska 😉 Þessi stund þarna uppi var mjög fyndin, bæði samtalið okkar Tóta sem og þegar útlendingarnir töluðu við Tóta eins og hann væri algjörleg amatör ha ha ha – sem hann er sko ALLS ekki 🙂

En við tókum samt þá skynsömu ákvörðun að snúa við. Tóti tók þá upp skóflu og bjó til „tröppu“ í hallanum, þar sem við gátum lagt frá okkur bakpokanna og skíðin á meðan við tókum skinnin undan og klæddum okkur í úlpu, enda hallinn mjög mikill.

Tóti var reyndar búinn að hvetja mig til að fara bara upp með útlendingunum, því ég var með bæði ísexi og brodda undir skóna á mér, þ.e. í bakpokanum. En ég hafði ekki mikinn áhuga á því 🙂

Við fórum því niður, það var vel hart færið til að byrja með en svo fengum við meiriháttar skíðafæri. Ég lét Tóta hafa DJI græjuna mína og hélt ég hefði kennt honum nóg á hana til að taka upp, en myndbandið var mjög fyndið, þar sem við sjáum mjög fallegan himininn og stundum smá í hausinn á mér ha ha ha 🙂 Gengur betur næst 🙂

Við náðum svo hópnum niðri, sóttum púlkuna sem Óli hafði skilið eftir í skarðinu og skíðuðum svo á fjallaskíðunum niður í Snæfellsskála. Þegar ég kom þangað fékk ég mér smá að borða og svo dreif ég mig til baka á lánsskíðum og skóm frá Hafdísi til að aðstoða Millu og Ingu sem höfðu farið að sækja ferðaskíðin og púlkurnar tvær sem urðu eftir.

Fengum svo gómsæta kjötsúpu í kvöldmat í skálanum og sólsetrið var algjörlega magnað.

Frábær dagur og kvöld á fjöllum 🙂

You may also like

Leave a Comment