Eftir Laugavegshlaupið tjölduðum við í Þórsmörk og áttum yndislega kvöldstund með Völsurum og fórum í góðan recovery göngutúr daginn eftir í Mörkinni.
Sjá nánar í myndbandinu hér að neðan.
xxx
xx
Ákvað að skella mér í Eco Trail Reykjavík, 22 km hlaup í kvöld. Var reyndarf fyrst skráð í 12 km vegalengdina, þar sem það er bara vika í Laugavegshlaupið, en svo langaði mig svo mikið til að hlaupa aðeins lengra og upplifa lengri vegalengdina, svo ég bað Ívar Trausta að breyta skráningunni.
Við Gunnur vinkona fórum fyrst með einn bíl niður í Nauthólsvík og fórum svo upp eftir að Borgarstjóraplani uppí Heiðmörk, Rauðhólamegin, þar sem ræsingin á 22 km hlaupinu átti að fara fram klukkan 22:00.
VIð vorum komnar þangað upp eftir til að aðstoða Ívar við að afhenda rásnúmerin klukkan 20:30 og svo var hlaupið ræst klukkan 22:00.
Planið hjá mér var að fara rólega af stað og hlaupa þetta bara létt. Var því öftust í ræsingunni, en svo leið mér bara svo vel, svo ég gaf aðeins í og hljóp fram hjá fullt af hlaupurum. Hitti Kristjönu og fékk vatnsglas og knús á vatnsstöðinni sem var eftir 12 km.
Hljóp svo með Arndísi sem er með mér í Náttúruhlaupunum, restina af hlaupinu. Við spjölluðum meira og minna allan tímann, svo tíminn flaug, en við kláruðm hlaupið á 2 klst 4 mín og 46 sek, skv. Strava og vegalengdin var 22,63 km.
Var mest svekkt yfir að fá enga bikara í Strava, því þegar ég setti upp leiðina í course, þá kom það inn sem „workout“ í staðinn fyrir „run“ og þá komu engnir bikarar á leiðinni 🙂 Þarf að komast að því hvernig hægt er að laga þetta 🙂
Fór með Laugavegshópi Náttúruhlaupa til Vestmannaeyja í morgun. Veðurspáin alla vikuna var mjög góð, breyttist samt á síðustu stundu, í rigningu og þoku.
Sameinuðumst í bíla í Olís við Rauðavatn og fórum með Herjólfi frá Landeyjahöfn og það gekk mjög vel.
Ferðin yfir tók bara um 35 mínútur. Þar tóku á móti okkur eðalhjónin Róbert Marshall og konan hans Brynhildur Ólafsdóttir, sem bæði eru fararstjórar hjá Ferðafélagi Íslands og hafa leitt Landvættahóp Ferðafélagsins.
Við byrjuðum svo á að hlaupa frá höfninni í gegnum bæinn og upp á Eldfell. Eftir það fórum við upp á Helgafell og Sæfjall. Eftir Sæfjall tókum við aukakrók upp á Stórhöfða. Síðan var hlaupið að golfvellinum og inn í Herjólfsdal.
Upp úr Herjólfsdal var farið upp á Dalfjall. Við slepptum Blátind i vegna veðurs, en héldum áfram eftir Eggjum, á Molda og niður um Sprönguna. Þar sýndi Róbert Marshall okkur hvernig á að spranga. Hlupum svo um hafnarsvæðið að Heimakletti sem var síðasta fjallið og ansi bratt.
Þegar við komum niður af Heimakletti, hlupum við í sund, þar sem sundtaskan beið okkar.
Eftir sund var kíkt á ölhús Vestmannaeyja og svo borðuðum við saman á Slippnum.
Fórum svo með bát til baka klukkan 19:30.
Frábær dagur í Vestmannaeyjum, en ég þarf klárlega að koma aftur til að upplifa þennan fallega og skemmtilega hring í betra veðri.
Það er alltaf góð tilfinning þegar skotprófið er komið í hús, enda þarf að klára það og skila því inn fyrir 1. júlí.
Við Óli fórum til Keflavíkur í kvöld og tókum æfingaskot og skotprófið en dómarinn í Keflavík er einstaklega þægilegur og þses vegna höfum við alltaf farið þangað.
Búið er að ákveða veiðihelgi, þ.e. fyrstu helgina í september.
Það er alltaf skemmtilegt að fara austur á hérað á veiðar, enda erum við með einstaklega góðan og skemmtilegan hreindýraleiðsögumann.
Fór þessa helgina (23.-24. júní 2018) Laugaveginn (frá Landmannalaugum í Þórsmörk) á tveimur dögum með Náttúruhlaupurum.
Ferðin hófst í Reykjavík klukkan 08:00 þar sem við fórum 19 manna hópur saman í rútu inn í Landmannalaugar.
Við lögðum af stað rétt um hádegisbil, en þá vorum við búin að græja okkur taka hópmynd, fara á salernið og skila af okkur „trúss“ töskunni sem var keyrð í Hvanngil þar sem við gistum.
Veðrið inní Landmannalaugum var ágætt. Svo fór að rigna og kólna og leiðin upp að Hrafntinnuskeri var orðin ansi blaut og köld.
Verð að viðurkenna að það voru farnar að renna á mig tvær grímur, hvort við yrðum hreinlega að snúa við og láta sækja okkur aftur inn í Landmannalaugar, þar sem Gunnur hafði sagt við mig stuttu eftir að við lögðum af stað, að við yrðum að vera tilbúnar í það.
Þegar við komum í skálann að Hrafntinnuskeri var fremri hópurinn búinn að vera þar dágóða stund til að hlýja sér og ákvað að drífa sig út, þegar við í síðara hollinum komum þar inn, enda ekki mikið pláss fyrir marga í anddyrinu í skálanum.
Það var mikill snjót á leiðinni frá Hrafntinnuskeri að Álftavatni og mikið rok, rigning og bara verulega kalt.
Eftir að við komum niður Jökultungurnar, minnkaði rokið og veðrið var mun skárra.
Þá var bara að koma sér að Álftavatni og svo þaðan að Hvanngili þar sem við gistum.
Elduðum hakk og spaghettí með fullt af grænmeti og Royal búðingur með mangói.
Á sunnudeginum fengum við bongóveður, meira að segja sól og þurrt.
Áttum því yndislegan dag frá Hvanngili niður í Þórsmörk og nutum hans alla leið.
Á leiðinni í bæinn frá Þórsmörk komum við – við í Miðgard á Hvolsvelli og fengum okkur frábæran hamborgara og smælki, allt virkilega gott.
Þakka frábærum ferðalöngum mínum fyrir yndislegar samverustundir í þessari tveggja daga ferð um Laugaveginn.
Tók þátt í hálfu maraþoni í Miðnæturhlaupi Suzuki í kvöld. Hlaupaleiðin er virkilega falleg en um leið mjög krefjandi í veðri eins og var í kvöld, þ.e. roki og rigningu.
Hlaupið er ræst í Laugardalnum fyrir framan Laugardalshöllina, bæði 10 km og 21 km hlaupið á sama tíma þ.e. klukkan 21:00. Hlaupið er fram hjá Glæsibæ, yfir göngubrúnna yfir Miklubrautina og upp Elliðaárdalinn. Yfir brúnna hjá Árbæjarlauginni og áfram norður upp með hesthúsunum. Það í brekkunni var mikill mótvindu og rigndi aðeins á okkur. Ég náði ekki að hanga í neinum þar og var því að berjast á móti vindinum ein upp brekkuna 🙂
Síðan var hlaupið í átt að Rauðavatni, meðfram því að Morgunblaðshúsinu og farið í gegnum golfvöll GR og áfram niður Grafarvoginn. Haldið áfram fram hjá Ingvari Helgasyni og nýja stíginn aftur inn að Sprengisandi og svo göngubrúnna til baka, Glæsibæ og niður í Laugardal, þar sem hlaupið endaði fyrir framan Húsdýragarðinn.
Ég var ekki með Garmin úrið á mér, heldur hljóp ég bara með gsm símann stilltan á Strava, svo ég var ekki með púls upplýsingar en þar sem ég var að hlusta á tónlist á sama tíma, þá heyrði ég allaf á 500 metra fresti hvað ég var komin langt o hver meðalhraðinn var á síðasta km 🙂 Skemmtilegt að prófa það 🙂
Hlaupið gekk vel hjá mér, annars besti tími mínn í maraþoni, eða 1 klst 51 mín og 36 sek. flögutími.
17 af 106 konum í mínum aldursflokki sem kláruðu hálft maraþon.
37 af 281 allar konur sem kláruðu hálft maraþon.
Er bara nokkuð ánægð með þetta, þar sem ég hef venjulega verið um miðbik í svona samanburði.
Á leiðinni í sundlaugina, heyrði ég þar sem einhver va rað syngja BonnieTyler lagið, Total Eclipse of the Hearth, á Secret Solstice tónleikunum, en komst svo að því síðar að hún var sjálf að syngja 🙂 Mjög skemmtilegur markhópa-munur á þeim sem voru að djamma í Laugardalnum og þeim svo voru að hlaupa, skemmilega ólíkir hópar 🙂
Þessir hlupu með víkingahjálminn allt hlaupið. Stór hópur frá Manchester sem tók þátt.
Þessi 49 ára afmælisdagur byrjaði með yndislegu morgunsundi í Kópavogslauginni með mömmu. Eftir sundið fór ég heim og þeytti rjóma á marengsbomburnar sem ég bakaði í gærkvöldi til að taka með í vinnuna.
Það var nóg að gera í vinnunni, hádegisfundur með viðskiptavini og svo var sungið fyrir mig afmælissönginn þegar ég bauð upp á marengskökurnar með kaffinu.
Eftir vinnu tók ég þátt í skemmtilegri Biathlon skotkeppni og sigraði kvk flokkinn, sem var auðvitað mjög skemmtilegt.
Eftir hlaupaæfinguna kíkti ég á kynningu sem Laugavegshópur Náttúruhlaupa var með í Úthaldi í Hafnarfirði og gat „aðeins“ verslað þar.
Fórum svo út að borða á Hamborgarafabrikkuna með Óla, Kristó og Heklu, þar sem ég fékk óskalag og ís og tilkynnt var í míkrófón hvað ég væri gömul ha ha ha 🙂
Endaði svo þetta fallega kvöld við Sólfarið þar sem við létum taka mynd af okkur. Var svo langt fram á nótt að lesa og þakka fyrir allar afmæliskveðjurnar sem ég fékk á Facebook. Algjörlega yndislegt að fá allar þessar afmæliskveðjur þar <3
Fór í frábæra æfingu með Laugavegshópi Náttúruhlaupa í kvöld. Það var „þurrt“ til tilbreytingar, en mikið rok og blés vel á móti okkur á leiðinni upp. Mikið er gott og gaman að æfa með fólki sem er í betra hlaupaformi en maður sjálfur, því þá tekur maður aðeins á því og ég átti mjög góðan tíma upp að Steini í kvöld og sólin skein á okkur.
Fór mjög varlega niður og hljóp eiginlega bara á vinstri fæti niður, þar sem hægra hnéð er ennþá hálf laskað eftir byltuna á laugardaginn. Skilaboðin frá Halldóri sjúkraþjálfara í morgun voru að hvíla svolítið hlaupin, alla vega fram að helgi, þar sem Laugavegurinn á 2 dögum er framundan. En hann setti lazer á bólgurnar á hnéð í morgun. Freystingin fyrir hreyfíkilinn að fara Esjuna var samt meiri en skynsemin og því var bara niðurhlaupið tekið af skynsemi 😉
Búið að vera mikil HM hátíð alla helgina, tvöföld þjóðhátíð, 16. og 17. júní. Öll þjóðin að sjálfsögðu horfði á fótbotlaleikinn, Ísland – Argentína í sjónvarpinu í gær 16. júní og maður var stressaður fyrir allan peninginn.
Í dag var svo 17. júní og það rigndi og rigndi í allan dag. Var ekki mjög spennandi að taka þátt í hátíðarhöldum, svo það var áfram bara legið yfir sjónvarpinu.
Þegar leið á daginn, var hreyfiþörfin komin á mjög hátt stig, hjá hreyfifíklinum og hana langaði mikið á Esjuna eða út að hjóla, enda hefur hún ekkert farið út að hjóla eftir IM Texas og varla synt heldur.
Úr varð að hún plataði Irinu vinkonu út að hjóla eftir kvöldmat og við hjóluðum í kaffi til Siggu upp í Mosó. Ég fór fyrst smá Garðabæjarhring og kom svo við hjá Irinu og þaðan fórum við upp í Mosó. Klukkan var langt gengin í ellefu þegar við lögðum í hann heim.
Ég var svo um miðnætti við Arnarnesvoginn og útsýnið var algjörlega stórkostlegt. Náði því þegar sólin var að setjast og það klukkan 00:00. Verð að deila þeirri mynd með ykkur hérna.