Þessi dagur verður strembinn þar sem við förum yfir tvö skörð á leiðinni. Við höldum frá Champex og förum yfir les Bovines til smábæjarins Trient (1300 m). Hægt er að fá sér hressingu á leiðinni niður til Trient áður en við höldum áfram yfir næsta skarð, Col de Balme (2191m). Við endum daginn á langri brekku niður til bæjarins Vallorcine (1260 m) og eftir krefjandi dag borðum við góða máltíð og gistum á gistiheimili.
-Langur dagur á flottum stígum þar sem við förum frá Sviss yfir til Frakklands á ný.
-Kvöldverður, morgunverður og gisting á gistiheimili. Farangri skutlað frá Champex.
Daglegt líf
Í dag liggur leiðin yfir til Sviss og við höldum áfram inn dalinn að Ferret skarðinu (2537 m). Upplagt er að horfa til baka eftir Veny dalnum og yfir að Seigne skarði áður en við höldum niður samnefndan dal Sviss megin landamæranna. Útsýnið er talsvert annað en við eigum að venjast frá göngu undanfarinna daga og ekki laust við að minni ögn á heimaslóðir. Við gerum stuttan stans við La Peule (2071 m) og getum fengið okkur hressingu þar áður en við höldum áfram til bæjarins La Fouly (1610 m). Hópnum verður skutlað til Champex (1466 m) þar sem við fáum farangurinn okkar og gistum í nótt. Bærinn Champex er vel í sveit settur við lítið fjallavatn og umlukinn skógi.
-Dásemdar dagur þar sem við klífum yfir til Sviss í stórkostlegu landslagi Veny dalsins.
-Gisting á gistiheimili í tveggja manna herbergjum. Kvöldverður og morgunverður innifalinn.
Þessi dagur verður styttri og léttari en við þurfum að bera með okkur örlítið aukadót fyrir tvo hlaupadaga þar sem enginn vegur liggur til skálans sem við gistum í. Við njótum bróðurhluta dagsins í Courmayeur og stefnum á að vera komin í Bonatti fjallaskálann fyrir kl. 18. Hér gæti veðrið ráðið því hversu snemma við leggjum í hann. Hlaupið hefst úr bænum og við stefnum á Bertone skálann (1989 m) sem stendur á brekkubrúninni. Þar er hægt að fá sér hressingu áður en við skokkum eftir fjallshlíð Ferret dalsins. Við nemum staðar við Bonatti skálann (2025 m) og komum okkur fyrir. Skálinn er einn sá flottasti á TMB leiðinni með frábærri aðstöðu.
-Styttri hlaupadagur þar sem verður lögð áhersla á að njóta Ítalíu og útsýnis.
Gisting í Bonatti skálanum.
Við höldum upp Seigne skarðið en það skilur að Frakkland og Ítalíu. Kunnugir tindar eins og Mont-Blanc de Courmayeur, la Noire de Peutrey, les Grandes-Jorasses virðast vera rétt innan seilingar. Við höldum svo niður í Veny dalinn að og fáum okkur góða hádegishressingu í Elisabetta skálanum (2195 m). Skálinn stendur undir skriðjökli og gríðarfallegum tindum sem heita Pýramídarnir. Ef aðstæður eru góðar má taka krók í kringum Pýramídana en þeim spotta var bætt við Ultra-Trail du Mont Blanc hlaupið í fyrra. Við hlaupum næst niður í Veny dalinn framhjá Combal vatninu áður en við höldum upp í næsta skarð. Leiðin héðan og til Courmayeur er líklega ein sú mikilfenglegasta. Fyrir ofan Courmayeur (1226) er skemmtilegur skáli, Maison Veille (1956m), þar sem gott er að fá sér létta hressingu og slaka aðeins á áður en við brunum niður langa brekku í bæinn. Eftir gott bað á hóteli í Courmayeur er upplagt að rölta í bæinn, kíkja á útivistarbúðir og fá sér gourmet ítalska máltíð. Gisting á hóteli í Courmayeur.
-Gríðarlega flottur alpadagur á leið sem er mjög hlaupanleg. Dásamleg fjallasýn allan tímann og skemmtilegt niðurhlaup til Courmayeur. Algjör gulrót að koma inn á hótel eftir langan dag á fjöllum og hér má verðlauna sig með 7 rétta ítalskri máltíð.
Við byrjum ferðina með trompi og skellum okkur strax upp lengsta klifrið í mögnuðu umhverfi alpanna. Hlaupið hefst við Notre Dame kirkjuna og við förum yfir Bonhomme (2329m) og Croix du Bonhomme skörðin (2433m). Á leiðinni fáum við okkur hádegishressingu í Bonhomme skálanum. Eftir hressingu hlaupum við niður í smáþorpið Chapieux (1549m) og þaðan tekur við þægilegur vegur inn Jökuldalinn og endum við daginn innst í dalnum í Mottets skálanum sem er staðsettur undir Col de la Seigne skarðinu (2516m).
-Tökum lengsta klifrið á ferskum fótum og upplifum dásemdir alpanna strax á fyrsta hlaupadegi.
-Kvöldverður, morgunverður og gisting í Mottets skálanum. Fáum farangur okkar í skálanum og getum ferðast mjög létt.
Við flugum frá Íslandi til Genf á laugardagsmorgni. Við vorum 22 í hópnum, en tveir úr hópnum höfðu farið fyrr. Fórum svo með Alpybus frá flugvellinum í Genf til Chamonix en sú ferð tekur um 80 mínútur.

Beta tók á móti okkur í Chamonix með Náttúruhlaupafánanum. Eftir að hafa hent farangrinum uppá hótelherbergi kíktum við í bæinn. Það var frekar skýjað svo það viðraði ekki vel til að taka kláfinn upp í Aiguille du Midi. Kíktum því bara í búðir og skoðuðum bæinn.

Borðuðum svo saman á Pizza stað nálægt hótelinu um kvöldið. Það er 2 klst tímamunur, svo við fórum bara snemma á hótelið, til að undirbúa fyrsta hlaupadaginn og fara yfir hlaupaleiðir næstu daga.

Við skelltum okkur á fimmvörðuháls í dag. Við Hildur notuðum „styttinguna“ og hættum 13:30 og fórum út úr bænum með Ingu, Guðmundi Smára og Kristínu. Beta, Siggi og Hilmar höfðu farið úr bænum um morguninn, en þau ætluðu að hlaupa Fimmvörðuhálsinn fram og til baka, þ.e. frá Þórsmörk yfir í Skóga. Beta og Siggi ætluðu svo til baka með okkur, en Hilmar á bílnum með Guðmundi Smára á bílnum inní Þórsmörk.
Við lögðum af stað frá Skógum klukkan 16:08 (skv.Garmin), þá var Beta komin inní Skóga, en Siggi og Hilmar á leiðinni niður eftir. Við ákváðum ekki að bíða eftir þeim, heldur leggja af stað, vissum að þau myndu ná okkur.
Ferðin upp gekk ótrúlega vel, auðvitað mikið af ferðamönnum í tröppunum að skoða fossana. Veðrið var frábært, sól og hlýtt og ég bara á hlýrabolnum. Var samt bæði með hnéhlífar og bakbelti þar sem ég var slæm í bakinu. Dóri sjúkraþjálfari í fæðingarorlofi 🙂
Beta og Siggi náðu okkur svo áður en við vorum komin að Baldvinsskála, en Hildur hafði farið á undan okkur og við hittum hana þar. Ég var fegin að það var mjög snyrtilegur kamar þar. Hafði gert þau mistök að fá mér Chia graut á N1 á Hvolsvelli, sem mér leist svo vel á 🙂
Ferðin áfram gekk vel, það var ótrúlega lítill snjór uppá jöklunum (Eyjafjallajökull og Mýrdalsjökull) við Magna og Móða, og snjórinn bara þægilegur yfirferðar. Kom sjálfri mér á óvart hversu óhrædd ég var yfir heljarkamb og Kattarhryggirnir voru bara þægilegir og fallegir.
Við vorum komin inní Þórsmörk ca 19:45 en við vorum 3 klst og 36 mín á leiðinni, heildartími, en tími á ferð var 3 klst og 22 mín. Fór smá tími í að stoppa og taka myndir og njóta 🙂
Yndisleg ferð með frábæru fólki, takk Guðmundur Smári fyrir að skutla okkur að Skógum og sækja okkur í Þórsmörk, en hann hljóp á móti okkur upp að Magna og Móða.
Í dag tók ég MJÖG STÓRT skref út fyrir þægindahringinn, þegar ég synti í 2 klukkustundir (NB !!! 120 mínútur) í 14 gráðu heitum sjónum, bara í sundbol og með Speedo sundhettu og sundgleraugu, engir sokkar, vettlingar né neoprane hetta. Ástæðan fyrir þessu sundi í dag var sú að ég er ein af Marglyttunum, sem ætla að synda saman boðsund yfir Ermasundið 4. september næstkomandi og til að mega taka þátt verðurðu að sýna fram á að hafa synt í sjó í 2 klukkustundir samfleytt. Vottað plagg sem þarf að skila inn.
ÁHÖFN ÁSGEIRS
Ég var í Áhöfn Ásgeirs Elíassonar vinar míns, sem ætlaði að synda fyrstur Íslendinga fram og til baka Ermasundið, haustið 2015. Ásgeir náði ströndum Frakklands 7. september og hafði þá synt í 17 klst og 16 mín og lét aðra leiðina duga. Ég var þar í frábærum félagsskap, Bibbu, Benna og Viggós. Í þeirri ferð ákvað ég að ég myndi ALDREI synda Ermasundið, enda ógeðslegur sjórinn, öldur miklar, báturinn (dallurinn) ekki uppá marga fiska og það var EKKERT sem heillaði mig við þetta og ég bara sárvorkenndi Ásgeiri að vera í sjónum, allan tímann.
AÐDRAGANDINN
Þórey Vilhjálmsdóttir, frænka mín, (fyrir áhugasama þá erum við fjórmenningar í Proppé ættina, langafar okkar voru bræður) hafði samband við mig í lok apríl eða byrjun maí og var að leita að sundkonum til að taka þátt í Ermasundinu, með henni, Birnu og Brynhildi sem allar eru Landvættir eins og ég. Ég var greinilega búin að gleyma september 2015, því ég hugsaði mig ekki lengi um, held ég hafi svarað játandi strax sama kvöldið, eða allavega daginn eftir. Einu áhyggjurnar sem ég hafði var kuldaþolið, en ég hugsaði að ég hefði nú góðan tíma til að æfa sjósundið og þá byggja upp kuldaþolið.
FRÁBÆR FÉLAGSSKAPUR OG FYRSTA ÆFINGIN
Ég hitti stelpurnar og leist mjög vel á hópinn, en auk Þóreyjar og Birnu voru Gréta (framkvæmdastjórinn okkar) og Karen og Soffía PR/markaðsstjórarnir okkar líka í hópnum, auk mín Sigrúnar og Sillu sem reyndar kom inn fyrir ekki svo löngu síðan. Alltaf var ég á leið á æfingu í sjósundið, en fann allar afsakanir í bókinni, það var of kalt, of mikill öldugangur, ég að þjálfa Stjörnuna, Breiðablik eða Náttúruhlaup eða bara lokað í Nauthólsvík. En fór loksins á mína fyrstu æfingu í sjónum 19. maí. Náði fimm æfingum í sjónum í maí (flestar reyndar í wet-suit galla), fjórum æfingum í júní gallaluausar og er búin að ná 9 æfingum í júlí en 10 æfingin var í dag. Svo ég náði 18 æfingum fyrir þetta 2 klst próf.
TVEGGJA KLUKKUSTUNDAPRÓFIÐ
Þegar að Sigrún Ermasundskappi Geirsdóttir, þjálfarinn okkar var farin að tala um að við yrðum að klára þetta 2 klst sund í lok júlí, fóru að renna á mig tvær grímur. Ég hélt ég hefði tíma alveg út allt sumarið þ.e. til loka ágúst með að klára þetta. Mér stóð ekki alveg á sama, var orðin frekar stressuð, því ég er alls ekki með gott kuldaþol og hef haft mestar áhyggur af þessu. Ég treysti mér til að synda endalaust í sjónum, eins og ég hef gert í mörgum Ironman keppnum áður, óttast ekki öldur eða sjóveiki, er reyndar ekkert sérstaklega hrifin af marglyttum, en hafði áhyggjur af kuldaþolinu. Dagsetningin var ákveðin 22. júlí, þar sem Silla var að fara til Spánar og við yrðum að klára þetta áður en hún færi. Ég viðurkenni að mér kveið verulega fyrir. Æfingum fjölgaði í júlí sem og tímalengdin í sjónum. Ég þakka Guði fyrir gott veður í sumar því mér finnst auðveldara að synda í sjónum ef lofthitinn er hærri og sólin skín, en í kulda, roki og rigningu. Fyrstu æfingarnar í maí voru að mestu í galla, en ég fór yfir í Kópavoginn tvisvar í galla og jók mínúturnar í sjónum í sundbol, byrjaði mjög fáar mínútur. Náði að synda fimm sinnum yfir í Kópavoginn á sundbol, sem er svokallað Fossvogssund, en þær æfingar voru allar í júlí. Ég lagði ríka áherslu á sjósundið, þó ég hefði líka fylgt æfingaplani fyrir Laugavegshlaupið sem ég hljóp 13. júlí.
#GRJÓTHÖRÐ OG #JÁKVÆÐ
Það styttist í 22. júlí og eins og að framan greinir var ég orðin frekar stressuð. Notaði alltaf myllumerkin á Strava #grjóthörð og #jákvæð því góður vinur minn tjáði mér um daginn að ég væri bæði , þ.e. grjóthörð og jákvæð. Hann var þá að vísa í reynslu mína í fjallahlaupum, svo ég ákvað að nota það sem möntru, sagði við mig í hvert skipti sem ég fór í sjóinn að ég væri grjóthörð og jákvæð og ég er fullviss um að það hefur hjálpað.
Fyrir síðustu helgi, fylgdist ég með spánni á hverjum degi. Var líka farin að lengja tímann, náði 45 mín æfingu 6. júlí, 52 mín æfingu föstudaginn síðasta 19.júlí og stefndi á að ná 90 mín æfingu á laugardeginum 20. júlí.
Ég hringdi í Benna Ermasundskappa vin minn til að fá góð ráð, því 90 mínútur eru langt frá 52 mín. (Hinar Marglytturnar voru búnar að ná þessu 90 mín sundi, en þá komst ég ekki). Benni bauðst til að koma og aðstoða mig, gefa mér heitt að drekka og gaf mér góð ráð. Hann sagði mér t.d. að halda mig bara við ströndina og synda fram og til baka fyrir framan víkina, þar væri hlýrra. Ég óhlýðnaðist Benna og fór með Sillu yfir í Kópavog (það er mun kaldara á leiðinni yfir). Eftir 1 klst kvaddi Silla mig og ég var komin á skjálftavaktina. Ég synti í um 30 mín í viðbót var sem sagt komin með 90 mín sem var met og markmiði dagsins náð. Mig langaði til að kanna hvort ég gæti ekki verið 120 mín, þ.e. bætt 30 mín við. Ég færð mig nær Víkinni þar sem sjórinn var hlýrri og ég kláraði síðust 30 mínúturnar þar (meðalhiti samt 16 gráður). Eftir þessa æfingu var ég mun rólegri, þar sem ég var búin að sýna og sanna fyrir sjálfri mér að ég gæti þetta, þ.e. synt í 2 klst. Takk kæri Benni fyrir góðu ráðin og að fylgjast með mér.
PRÓFDAGURINN
Mánudagurinn rann upp bjartur og fagur eins og allir aðrir dagar þetta sumarið. Mér leið vel og var ekki stressuð í vinnunni um morguninn. Það var gaman að hitta stelpurnar í Nauthólsvík í hádeginu og Brynhildur var svo yndisleg að fara með okkur í Wim Hof öndun fyrir sundið. Hef aldrei gert það áður, og er ekki frá því að það hafi hitað líkamann og hjartað. Mér leið vel bæði andlega og líkamlega þegar ég henti mér til sjós. Silla „sprettarinn“ okkar hentist á stað og ég á eftir henni. Sigrún var búin að segja okkur að hvert þ.e. hvaða leið við ættum að synda og að við ættum alls ekki að bíða eftir hvor annarri, þá yrði okkur bara kalt, við ættum að synda á okkar eigin hraða. Jóhannes hennar Sigrúnar elti Sillu á kajak, Róbert elti mig og Óli hennar Brynhildar elti stelpurnar til að gefa okkur heitt að drekka og kanna hvort við værum OK.
SUNDIÐ
Við syntum inn Fossvoginn, þ.e. í átt að N1 bensínstöðinni. Hafði aldrei synt þangað áður, svo það var bara skemmtilegt. Reyndi að halda mér nálægt landi, en þar var mjög mikill gróður, svo maður varð að synda aðeins út úr honum. Syntum svo til baka, hitti þá Þórey, Birnu og Brynhildi, en þær höfðu farið aðeins hægar af stað en við af stað. Synti alla leið til baka út að prammanum, þar sem við hittum Sigrúnu, en hún var ekki með í sundinum, þar sem hún var að fara í Vestmannaeyjasund um nóttina (hún er sko ROSALEGUR NAGLI OG MEISTARI MEISTARANNA). Við fórum svo aftur inn voginn og ég ákvað að fylgjast þá bara með klukkunni, gefa mér 30 mín í að komast til baka, þ.e. synda 30 mín inn og 30 mín til baka. Það stemmdi ca m.v. að ég var búin að vera 60 mín þegar ég hitti Sigrúnu við prammann. Á leiðinni til baka, var mér orðið svolítið kalt, fann ég var aðeins farin að zona-út, eins og maður gerir þegar maður verður þreyttur. Man samt að Róbert spurði mig hvað ég væri gömul og hvar ég ætti heima, ég svaraði því mjög kurteislega og rétti honum báðar hendurnar og sagði: „hér eru tíu fingur“ og hló 🙂
Sundið til baka var samt aðeins erfiðara, það var á móti öldu og ég var að festa mig miklu meira í gróðrinum, sem var orðinn vafinn um hálsinn á mér, enda krafturinn farinn að dvína. Mér fannst bæði pramminn og stelpurnar svolítið langt í burtu. Svo kom Silla á fullri ferð fram úr mér og gaf bara í. Ég var mjög ánægð með áætlunina mína, því þegar ég kem aftur að prammanum og hitti stelpurnar þá voru bara 3 eða 4 mín eftir. Svo það var bara að synda saman í land þar sem frábær móttökunefnd tók á móti okkur.
ÞAKKIR OG GLEÐI
Ég er einstaklega þakklát og stolt að hafa klárað þetta. Því eins og einn góður vinur minn sagði réttilega við mig: „Halldóra, þú ert meira stressuð fyrir þetta, heldur en 100 mílna fjallahlaup,“ Ég held hann hafi alveg hitt naglann á höfuðið þar.“ Ég er einstaklega þakklát Marglyttunum vinkonum mínum fyrir allan stuðninginn og umhyggjuna. Ég er líka glöð að þær hafi trú á mér og boðið mér með í hópinn. Takk kæri Róbert fyrir að fylgja mér eftir á kajakinum og fylgjast svona vel með mér og gefa mér að drekka.
TILHLÖKKUN
Eftir að hafa klárað þessar 2 klst í dag, þá veit ég að ég mun standa mig vel í Ermasundinu og er farin að hlakka mikið til. Þá syndum við 1 klst í einu til skiptis og þurfum að ná á okkur hita á milli í bátnum. Næst er að þjálfa líkamann í að skjálfa sér til hita, þar sem enginn heitur pottur eða gufa er í bátnum, bara ullarföt og heitur drykkur. Gufan, potturinn og heitt kaffi voru kærkomin eftir æfinguna í dag

Laugavegshlaupið er 55 km utanvegahlaup en Laugavegurinn tengir saman Landmannalaugar og Þórsmörk á sunnanverðu hálendi Íslands, tvær sannkallaðar náttúruperlur. Göngugarpar eru venjulega 4 daga á leið sinni um Laugaveginn en hröðustu hlaupararnir fara leiðina á 4-5 klukkustundum.
Laugavegurinn kallast gönguleiðin milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Er hún um 54 km löng og fer hæst í um 1050 m.y.s. við Hrafntinnusker. Leiðin er afar vinsæl meðal innlendra sem erlendra göngumanna enda þykir hún ægifögur og bjóða upp á brot af flestu því sem íslensk náttúra hefur upp á að bjóða.
Áfangar á gönguleiðinni eru látnir ráðast af skálum sem á henni er. Ef gengið er frá Landmannalaugum eins og algengast er verður fyrst á vegi manna skálinn í Hrafntinnuskeri, svo Álftavatni, Hvanngili og Emstrum (Botnum), en allir skálarnir eru í eigu Ferðafélags Íslands. Endar gönguleiðin í Þórsmörk þar sem gengið er í Húsadal, Langadal eða Bása (í Goðalandi). Algengast er að skipta leiðinni upp í 3-4 dagleiðir þó svo það sé stundað að hlaupa leiðina á allt frá fimm klukkustundum.
Gönguleiðin milli Landamannalauga og Hrafntinnuskers eru 12 km. Áætlaður göngutími er 4-5 klukkustundir. Hækkunin er mest á þessum kafla leiðarinnar eða 470 metrar. Oftast er þetta fyrsta dagleiðin en sumir leggja snemma af stað og ganga alla leið inn að Álftavatni. Vegalengdin milli Hrafntinnuskers og Álftavatns eru einnig 12 km og er lóðrétt hækkun 490 metrar. Þessi hækkun er jafnari en á fyrsta degi. Áætlaður göngutími er 4-5 klst. Þriðja göguleiðin er inn í Emstrur. Þangað er 15 km ganga og lítil hækkun, 40 m. Göngutíminn er 6-7 klukkustundir. Síðasti dagurinn fer svo í að ganga inn í Þórsmörk og er vegalengdin og áætlaður göngutími sá sami og á þriðja degi. Hækkunin er þó meiri eða 300m.
Fyrsta ferðin sem skráð var á vegum Ferðafélags Íslands á Laugaveginum var 30. september 1978. Árið 1979 var í fyrsta sinn sem Ferðafélag Íslands auglýsti fjögurra daga ferð um Laugaveginn og Þórsmörk og var sú ferð farin 13.-18. júlí 1979. Eftir það hefur fjöldinn allur af fólki og ferðamönnum farið Laugaveginn á vegum Ferðafélags Íslands.
Hér að neðan er að finna myndir af þessari gullfallegu leið sem var tekin í hlaupinu 13. júlí 2019.