Halldóra
Var á kynningarfundi fyrir næsta Náttúruhlaupanámskeið í kvöld. Það er svo gaman að fara aftur á kynningarfund núna nokkrum árum eftir að ég byrjaði sem aðstoðarmaður hjá Elísabetu í svarta hópnum.
Nokkru síðar stofnuðum við vínrauða hópinn sem ég fékk að leiða í upphafi og þetta ferðalag síðustu árin er búið að vera algjörlega einstakt.
Birkir framkvæmdastjóri og Elísabet kynntu námskeiðið og eftirfarandi puncta sem mig langar að deila með ykkur:
1. EIN BESTA LEIÐIN TIL AÐ SKOÐA NÁTTÚRUNA
Á náttúruhlaupaæfingunum löngu á laugardögum (og fimmtudögum á námskeiðinu) er alltaf farið á mismunandi staði og nýjar leiðir kynntar. Þetta er klárlega ein besta leiðin til að skoða náttúruna, því maður sér svo margt og kemst svo víða á mjög stuttum tíma.
2. NJÓTUM UMHVERFISINS OG HREYFINGARINNAR
Það er mikill munur að hlaupa á malbikinu eða í náttúrunni. Fyrir utan það hvað það fer mikið betur með mann að hlaupa á mjúku undirlagi. Auk þess gefur það manni mikla orku að hlaupa úti í náttúrunni.
3. RÖTUN OG UPPGÖTVUN
Á námskeiðinu höfum við lært að rata og höfum auk þess uppgötvað mikið og margar nýjar og skemmtilegar leiðir.
4. VILJUM HLAUPA SEM VÍÐAST
Við í Náttúruhlaupunum viljum hlaupa sem víðast og það sem kom mér mest á óvart þegar ég byrjaði í Náttúruhlaupunum er hvað það eru margar frábærar leiðir við bæjardyrnar. Nýir staðir sem ég hafði aldrei séð áður en hef nú uppgötvað, meira að segja í bakgarðinum heima hjá mér. 😊
5, KREFJANDI EN FJÖLBREYTT HREYFING
Náttúruhlaup eru krefjandi að því leiti að undirlag er mismunandi, stundum er grýtt, stundum rætur sem standa upp úr stígunum, oftast er undirlagið mjúkt, en stundum hart. Hreyfingin er því mjög fjölbreytt og skemmtileg.
6. GÓÐUR FÉLAGSSKAPUR
Góður félagsskapur er ómetanlegur og í dag eru bestu vinir mínir hlauparar. Við erum alltaf að njóta hreyfingarinnar, höfum gaman og erum stöðugt að læra. Náttúruhlaup eru frábær félagsskapur sem er algjörlega ómetanlegur.
7. FULLT AF SKEMMTILEGUM GRÆJUM
Þar sem ég er algjör græjufíkill, þá er mjög gaman að fá tækifæri til að eignast nýjar græjur t.d. í jólagjöf eða afmælisgjöf sem tengist þessu einstaka áhugamáli mínu og í raun lífsstíl, hlaupaskór, hlaupabakpoki, hlaupajakki, sokkar, hlaupastafir, höfuðljós eða hlaupaúr eru allt skemmtilegar græjur.
Tilgangurinn með Náttúruhlaupum er að bæta heilsu og auka hamingju fólks með því að leiða það inn í nýjan lífstíl og vera farvegur fyrir fólk til að stunda hlaup í náttúrunni í góðum félagsskap.
Náttúruhlaup er hlaupasamfélag þar sem pláss er fyrir alla getuhópa, allt frá algjörum byrjendum í vana, hraðskreiða hlaupara. Hvet þig til að taka þátt og vera með okkur í Hlaupasamfélagi Náttúruhlaupa með því að skrá þig á www.natturuhlaup.is
Vorum mætt á rásstað Pak Tham Chung óvenju snemma eða fyrir klukkan 07:00. Fórum öll með Ubernum, nema Siggi fór með Huldu, þar sem það var ekki pláss fyrir Huldu í Ubernum. Fór þrisvar á klósettið, ótrúlega stutt röð, fyrsta skipti sem ég fer á klósettið, þar sem við höfum alltaf verið frekar tæp á tíma og komið á rásstað rétt fyrir keppni.
Strákarnir, Siggi, Guðmundur Smári, Viktor og Þorsteinn voru ræstir klukkan 08:00. Við Rúna Rut og Hafdís vorum í ræsingunni klukkan 08:08, en Viggó var svo klukkan 08:15.
Við ákváðum að vera aðeins framar í ræsingunni, en ég var vön að vera, þar sem maður lendir alltaf í því að vera fastur í þröngum stíg í gegnum skóginn fyrstu 5 km.
Eftir ræsinguna er um 800 metra kafli á malbiki áður en komið er að skógarstígnum. Ég ákvað að gefa aðeins í svo ég myndi ekki lenda eins og tvö árin áður í kraðaki þegar leiðin fer inn á þrönga stíga og það gekk ágætlega.
Að sjálfsögðu var kraðak, þessa 5 km, en ekki eins mikið og verið hefur. Auk þess var hópurinn sem ég var að hlaupa með að fara aðeins hraðar heldur en fyrri árin, svo það var meira hlaupið en gengið.
Eftir um 5 km, lenti ég á eftir pari, sem tók allan stíginn, svo ég ákvað að reyna að taka fram úr þeim. Það tókst ekki betur en svo að ég flaug á hausinn og lenti illa á báðum hnjánum og lófunum, svo það blæddi mikið úr. En sem betur fer gat ég haldið áfram, stoppaði ekki einu sinni til að þurrka blóðið. En í hugann kom mynd sem ég setti inn í kynningu á árshátíðinni hjá Náttúruhlaupunum um síðustu helgi. „If you ain´t bleeding, you ain´t finished“ þ.e. ef þú ert ekki orðinn blóðugur í fjallahlaupum, þá ertu ekki búinn að klára hlaupið.
Eftir skógarkaflann, kom flatur malbikskafli, þar sem ég var bara fersk, þá hélt ég áfram á ágætu pace-i, og leið bara vel. Passaði bara að taka inn næringu, eftir 1 klst, þar sem ég hafði tekið eitt gel um 15-20 mín áður en ég lagði af stað.
SP EAST DAM 12 KM TÍMI: 01.18:30 OVERALL POSITION: 428 GENDER POSITION: 73
Kom að fyrstu drykkjarstöð eftir 1 klst og 18 mín eða klukkan 9:26 á staðartíma. Leið mjög vel og stoppaði bara stutt, eða nákvæmlega 59 sek. inni á drykkjarstöðinni, bætti vatni á brúsann og tók appelsínur til að hafa með og hélt svo áfram. Það reyndist mjög vel í hlaupinu að taka appelsínur með til að borða á milli stöðva. Framundan var smá brekka svo ég nartaði í appelsínurnar þar og hélt svo áfram.
Hitti Hafdísi rétt eftir seinni ströndina, og þá sagði hún mér að hún hefði farið fram úr Þorsteini. Ég hafði ekki séð hann svo ég hlýt að hafa farið fram úr honum þegar það kom tvískiptur stígur eftir strandarkaflann. Hafdís lagði af stað í hlaupið með slæma flensu, var komin með flensu þegar hún lagði af stað frá Íslandi, svo hún dældi í sig verkjalyfjum og harkaði af sér, algjör hetja.
CP1 HAM TIN 22 KM TÍMI: 02:49:22 OP: 432 GP: 71
Við fórum saman í gegnum CP1 og þá var tíminn kominn í 2 klst og 49 mín. Við stoppuðum ekki lengi þar, eða í um 2 mín, ég bara bætti á vatnsbrúsann, fékk mér appelsínur í pokann og einn banana. Hélt svo beint áfram út af stoppistöðinni, en fór ekki rétt út af stöðinni, og þá var frábært að Garmin úrið pípti á mig, OFF TRACK, svo ég snéri við og fór aftur ON TRACK og við Hafdís héldum áfram upp fjallið.
Verkjalyfin voru greinilega að virka hjá Hafdísi því hún var mjög glöð og hress og við fórum saman á Facebook live á hennar síma og hún tók myndir, því minn sími var kominn á Security Mode, þar sem ég hafði örugglega komið við símann óvart í magabeltinu og slegið inn rangt lykilorð 😊 Það var orðið mjög heitt, yfir 20 stiga hiti og sólin skein, svo ég var dugleg að drekka, en mér leið ekkert sérstaklega vel. Ég var samt dugleg að taka inn salttöflur og næringu til að halda orkustiginu gangandi. Hafdís var í góðum gír og hljóp á undan mér upp fjallið.
Þegar ég var rétt að byrja klifrið upp nýja fjallið (viðbót frá því í fyrra), þá hitti ég Guðmund Smára, sem var í vandræðum. Ég gaf honum Immodíum og Bhutan töfluna, til að reyna að hressa hann við og koma honum upp fjallið. Hann var bara alls ekki góður svo við stoppuðum hjá lækni eða aðstoðarfólki á vegum hlaupsins, sem gáfu okkur, magnesíum salttöflu, og þeir hjálpuðu mér að hreinsa óhreinindi og blóðið úr sárunum á hnjánum. Það voru nefnilega margir búnir að skamma mig og skipa mér að láta hreinsa sárið. Það var gott að fá smá hvíld, með Guðmundi og hann hélt áfram rólega með mér upp fjallið.
Þegar við vorum komin upp þá vildi hann endilega að ég héldi áfram, en held hann hafi verið búin að skipa mér þrisvar sinnum að halda áfram. Ég neitaði alltaf þangað til á þessum tímapunkti. Hélt svo áfram og var orðin spennt að hitta CREW ICELAND, þ.e. stelpurnar Huldu, Bekku og Ástu.
CP2 HAU TONG KAI 34 KM TÍMI: 04.56:31 OP: 439 GP: 77
Það er eiginlega ólýsanleg tilfinning og erfitt að útskýra með orðum hversu magnað það er að hitta Crew Team Iceland stelpurnar, þær Huldu, Bekku og Ástu. Þær tóku á móti mér í fallegu appelsínugulu peysunum, með íslenska fánann blaktandi og sungu „Öxar við ána“. Það var ekki hægt annað en að taka undir með þeim, svo ég söng hástöfum þegar ég gekk upp brekkuna í átt að þeim og CP2 drykkjarstöðinni.
Þar sagði ég þeim hvernig ástandið hafði verið á Guðmundi Smára og að ég hefði bannað honum að hætta og þær mættu alls ekki leyfa honum að hætta. Hulda hreinsaði sárin á hnjánum á mér aftur, þó það væri nýbúið að því og setti plástur og svo fór ég úr HOKA skónum mínum og setti upp hnéhlífarnar. Ásta sótti plástur og vatn á brúsana og Bekka fann viðbótarnæringuna mína fyrir mig í pokann minn og hita-spreyið til að reyna að spreyja á lærin og kálfana sem voru orðin frekar steikt og stíf eftir alla krampana.
Ég stoppaði samt ekki lengi þarna kannski rúmlega 6 mínútur, snéri samt aðeins við og fékk mér sprey á innanverð lærin líka, því þau voru líka orðin aðeins steikt. Hugsaði þarna og mjög oft í hlaupinu að ég hefði nú átt að vera duglegri í styrktarþjálfun og hefði átt að vera búin að finna mér annan þjálfara í staðinn fyrir Bjössa sem sagði okkur upp 1. desember síðastliðinn. En það eru ekki alltaf jólin 😊
Ég hljóp samt léttari út af þessari drykkjarstöð, eftir þessar yndislegu móttökur.
Þegar ég var komin nákvæmlega 36,6 km (skrítið hvernig maður man svona tölur), þá flaug ég aftur á hausinn og lenti aftur á bjáðum hnjánum, en núna sem betur fer með hnéhlífar á báðum, svo ég skrámaðst ekki neitt, var bara aum, en engar skrámur 😊 Ástæðan fyrir þessari byltu, var krampi sem ég fékk í hægri fótinn og þá bara gaf hann sig svo hnén fengu skellinn 😊
Þegar ég var komin 39 km þá hitti ég Viktor þar sem hann sat á steini og leit ekki vel út. Ég stoppaði og spurði hann hvort ég gæti eitthvað aðstoðað hann, t.d. með verkjalyf, næringu eða eitthvað. En hann sagðist bara ekki vera góður og þetta væri bara búið og ég gæti ekkert reddað honum ☹ Ég kvaddi hann og reyndi þá að hringja bæði í Bekku og Huldu til að láta þær vita, en báðir símarnir voru utan þjónustusvæðis.
Hélt áfram og kom næst að CP3 drykkjarstöðinni.
CP3 PAK SHA O 43 KM TÍMI: 06:26:20 OP: 444 GP: 77
Það var yndislegt að koma inn á CP3 stöðina, þar sem það stóð hópur sjálfboðaliða og söng og sló saman hvatningarblöðrum og fánar þátttökulandanna voru í tröppunum þegar maður kom inn. Maður er alltaf stoltur að sjá íslenska fánann. Það var búið að breyta stöðinni frá því í fyrra, nú hljóp maður niður tröppur, inn í garðinn og svo út hinum megin, inn á göngustíg. Í fyrra var þessi drykkjarstöð bara rétt við götuna og maður fór inn og út á sama stað og labbaði áfram upp malbikuðu götuna. En ég ákvað að stoppa bara stutt, fékk mér vatn á brúsana, nokkrar appelsínur í pokann og hélt svo áfram. Var aftur í smá vandræðum að finna réttu leiðina út af drykkjarstöðinni. Framundan var um 8 km kafli og ekki mikil hækkun.
CP4 YUNG SHUE O 51 KM TÍMI: 07:46:10 OP: 396 GP:73
CP4 Yung Shue O sem var áður 45km stöð en var núna orðin 51 km. Það tóku yndislegar krakkar á móti mér og buðu mér uppá kók sem ég þáði í bollann minn. Fór svo inn og bætti á vatnsbrúsana, ég var með hreint vatn í hægri brúsanum og með smá GU orku í vinstri brúsanum. Fyllti á báða brúsana og fann að ég var komin með smá ógeð á orkubragðinu. Fékk mér aftur smá appelsínur í poka, en núna voru þær í berkinum, þ.e. bara niðurskornar í báta, en höfðu verið skrællaðar alveg og skornar í báta fram að þessum tíma. Á þessari drykkjarstöð fór ég í læknatjaldið í fyrra og bað um hitasprey á fótleggina, en núna stoppaði ég ekki lengi, heldur hélt bara áfram. Framundan var um 6 km, þó nokkuð brattur kafli.
Þegar ég var komin aðeins áleiðis, langaði mig að henda mér á FB, klukkan orðin rúmlega 16:00 (rúmlega 08:00 á Íslandi) svo ég fór á Facebook live. Heyrði í Siggu Sig vinkonu á FB live og spjallaði aðeins en það var mjög skemmtilegt, flott tilbreyting. Ákvað svo að einblína á klifrið svo ég myndi ekki detta aftur á hnén 😊
Í klifrinu fékk ég enn og aftur geðveikan krampa í hægri legginn, þ.e. kálfann og fóleggurinn festist alveg, svo ég varð að stoppa og teygja. Rétt á undan mér var hlaupari, líka búin að stoppa og var að teygja. Hann spurði mig hvort ég væri með krampa og hann sagðist vera í sama vanda. Við teygðum bæði á fótunum og reyndum svo að halda áfram upp tröppurnar og fjallið. Ég ákvað bara að setja allt álag á vinstri fótinn, þ.e. setja hann alltaf á undan upp tröppurnar svo ég myndi ekki festast aftur. Við Mike (Michael Van Ryswyck) fórum að spjalla, hann sagði mér að hann væri frá Suður-Afríku, en hann býr á Spáni og var að taka þátt í HK100 með vini sínum sem býr í Hong Kong. Þeir ætluðu svo í frí til Tælands eftir hlaupið. Hann sagði mér líka að hann hefði tvisvar tekið þátt í Lavaredo 120 km og hann á pottþétt sæti í UTMB á næsta ári eins og ég. Hann sagðist hafa tekið eftir glæsilega og glaðlega íslenska stuðningsliðinu í ræsingunni og í CP2.
Fjallahlaup eru yndisleg og skemmtileg á margan hátt. Eitt af því er að eignast yndislega vini í hlaupinu og spjalla við fólk hvaðeina af úr heiminum. Þegar við vorum komin uppá topp, þakkaði Mike mér kærlega fyrir spjallið og að hafa dregið sig uppá fjallið með spjallinu. Svo þaut hann fram hjá mér á niðurleiðinni, því bremsuvöðvarnir í lærunum á mér leyfðu mér ekkert að gefa í og hlaupa á eftir honum.
CP5 KEI LING HA 57 KM TÍMI: 09:11:39 OP: 393 GP: 73
Eins og alltaf er yndislegt að komast í CP5. Hlaupið hálfnað og íslenska stuðningsliðið á staðnum. Þegar ég kom inn á stöðina var Mike búin að láta Ástu vita að ég væri að koma inn og hann þakkaði fyrir spjallið og kvaddi.
Nú var allt íslenska stuðningsliðið á CP5, ekki eins og í fyrra þegar Pétur var einn þar. Ég skipti um föt, fór úr blautum íþróttatoppnum, rennandi blautum bolnum og pilsinu, og fór í fersk og hrein UTMB Compression fötin mín. Skipti samt ekki um sokka, kálfahlífar eða skó þar sem ég var bara í góðum málum. Elska HOKA SPEEDGOAT2 skóna mína, var með auka skópar með mér, alveg eins, þ.e. HOKA SPEEDGOAT 2, ef ég þyrfti að skipta þá hefði ég skipt aftur í HOKA; en þurfti ekkert að skipta.
Ég fékk mér súpu, sótti viðbótar orku sem ég setti í vestið, höfuðljósið, hlýja ullarpeysu, vindjakka og fékk smá nudd á lærin frá Huldu minni. Viktor var komin á stöðina og ég hélt að hann væri búin að ná mér, eins og Börkur í fyrra, nákvæmlega á þessum stað, en þá hafði Bekka sótt Viktor á CP3 svo hann var hættur.
Fékk fréttir af öðrum félögum og var glöð að heyra að Guðmundur Smári hefði haldið áfram og að Rúna Rut og Hafdís væru í góðum málum og að Siggi og Viggó væru eitthvað að glíma við krampa eins og ég. Stoppaði í um 15-20 mínútur á CP5 og hélt svo áfram.
Eftir að hafa farið yfir umferðargötuna og byrjað að klifra var „GEAR CHECK“ eða búnaðarskoðun, þ.e.verið að kanna hvort þátttakendur séu með skyldubúnaðinn á sér. Það sem allir þurfti að sýna núna var álpokinn og gsm sími. Ég að sjálfsögðu gat sýnt það (skátinn með allan skyldubúnað og meira til á sér) og hélt svo áfram. Fór aftur á Facebook live á þessum tímapunkti til að þakka íslenska stuðningsliðinu kærlega fyrir, þeim Huldu, Bekku, Ástu, Pétru og Helgu (vinnufélagi Huldu). Það byrjaði að rigna stuttu eftir að ég fór út af CP5, en ég ákvað að fara ekkert í peysu eða jakka, þar sem mér leið vel, var fersk eftir að hafa komist í þurr og hrein föt.
Framundan var um 13 km kafli, þó nokkur hækkun sem byrjaði á brattri malbiksbrekku. Heyrðum apaöskur í skóginum allt í kring á leiðinni en sá ekki apa á þessum tímapunkti. Það var komið niðamyrkur eftir um 30 mínútur frá CP5 og því gott að ég var búin að setja upp góða ljósið mitt.
CP 6 GILWELL CAMP 70 KM TÍMI: 12:05:19 OP: 359 GP:69
Gilwell stöðin CP6 er skátastöð og þar eins og annars staðar voru yndislegir sjálfboðaliðar, krakkar sem voru boðnir og búnir að aðstoða. Þau fylltu á vatnsbrúsana hjá mér og ég fékk mér appelsínur, smá kók og hélt svo áfram. Mundi núna eftir stöfunum mínum, þar sem það var mér ofarlega í huga að í fyrra hafði ég gleymt stöfunum á þesari drykkjarstöð og þurfti að snúa við til að sækja þá, sem var ekki góð tilfinning 😊
Frá Gilwell að BeaconHill er um 8 km kafli, sem er svona upp og niður kafli. Á einkum kaflanum hleypur maður niður malbikaða brekku þar sem er snilldar útsýni yfir alla borgina, ólýsanlega fallegt. Á þeim tímapunkti fannst mér ég hlaupa mjög hratt niður brekkuna. Kíkti svo á úrið mitt og sá að ég var á 8:20 pace og hugsaði, kemst ég ekki hraðar ? Reyndi að gefa í, en komst hraðast í 7:20 pace en datt fljótlega aftur í 8:20. Greinilegt að maður var komin yfir 70 km og allir kramparnir farnir að hafa áhrif og bremsuvöðvarnir í lærunum hættir að virka. Ég man að ég hugsaði líka, ég er þó alla vega að hlaupa ennþá en ekki ganga og þakkaði Afa mínum Jóhannesi heitnum sem er alltaf með mér á hlaupum fyrir stuðninginn.
Tilfinningin núna eins og í fyrra, var að mér fannst ég alltaf ,,alveg að vera komin“ að Beacon Hill. Var orðin svo spennt að heyra partý tónlistina, sem ég vissi að biði mín í CP7.
CP7 BEACON HILL 78 KM TÍMI: 13:50:59 OP: 344 GP:67
Beacon Hill er partý stöðin sem klikkar ekki. Arineldur, sæti, partýtónlist og skemmtun. Var búin að hlakka mikið til að komast þangað og fá mér fransbrauðs samloku (án skorpu) með rjómaosti, sveppasúpu, kaffi og kók. Það er mjög fyndið hvernig þú ert búin að ákveða í hausnum, hvað þig langar í og ætlar að fá þér og þannig líka búin að undirbúa ekki bara hausinn, heldur líka magann fyrir þeirri næringu sem koma skal. Svo þegar ég kom á CP7, þá var ekki til samloka með rjómaosti, heldur bara sultu, hnetsmjöri og túnfiski og mig langaði ekki í það 😊 Fékk mér þá smá SUSHI grjón og súpu og að sjálfsögðu, kaffið, kók og fyllti á vatnið. Tók með mér appelsínur sem ég borðaði svo þegar ég gekk hægt í burtu út og niður af stöðinni. Það er líka ótrúlegt hvað kókið hjálpar manni, ég t.d. drekk ekki kók dagsdaglega, mér finnst það virkilega vont og get ekki drukkið það, en í fjallahlaupum, þá er það mjög kærkomin orka.
Frá CP7 að CP8 er um 8 km kafli fyrst mjög bratt niður og svo aðeins upp. Ég fór bara rólega niður. Nú var maður komin á apaslóðir. Um leið og ég komst á malbikaða kaflann, þá sá ég nokkra apa. Ákvað að horfa ekki í augun á þeim, en þegar ég leit til þeirra, glömpuðu í þeim augun, þegar sterka ljósið mitt skein á augun í þeim. Ef ég gat þá reyndi ég nú alltaf að taka smá „detour“ eða sveig til að þurfa ekki að fara mjög nálægt þeim. Ekki eins og Siggi sem sagði mér eftir hlaupið að hann hefði gefið einum apanum, banana og kastað berkinum út í skóg og sá þá hvar annar api stökk á eftir berkinum 😊
Á leið okkar er svo farið yfir göngubrú, til að komast yfir umferðargötu, og á miðri brúnni voru tveir apar sem hreyfðu sig ekki en horfði kröftuglega á mig. Ég ákvað að slökkva á höfuðljósinu til að minnka glampann frá augunum þeirra sem var ógnvekjandi og gekk yfir brúnna í staðinn fyrir að hlaupa, því ég var alein á brúnni með öpunum 😊
Aparnir eru ekki mikið að ráðast á mannfólkið, nema þeim sé ógnað. Við vorum reyndar hvött til að taka ekki ljósmyndir af þeim og vera ekki með skrjáfpoka því þá eiga þeir það til að stökkva á mennina og taka af þeim myndavélina eða pokann. Það er líka stranglega bannað að gefa öpunum að borða, en fyrir tveim árum, var búið að dreifa mjög mikið af mat á leiðinni handa þeim, veit ekki af hverju eða hverjir gerðu það.
Guðmundur Smári tók á móti mér í brekkunni fyrir ofan CP8 og hljóp með mér niður. Þá komst ég að því að hann hefði hætt í CP4, maginn ekki verið góður. Guðmundur spurði mig hvar ég hefði tekið fram úr Hafdísi og Sigga, en ég hafði ekki séð þau og ég hélt þau væru bara á þessum tímapunkti búin að klára.
CP8 SHING MUN DAM 86 KM TÍMI: 15:17:05 OP: 331 GP:65
Ég fékk mér appelsínur, þurrkaðar apríkósur, smá kaffi og sódavatn á CP8. Skipti um rafhlöðu á höfuðljósinu mínu og fékk mér hlýrri peysu í hlaupavestið, þar sem framundan voru hæstu fjöllin og punktarnir í hlaupinu. Þegar ég er að fara að leggja af stað kemur Hafdís inn á CP8 og ákveður að halda áfram með mér.
Flensan hjá Hafdísi sagði til sín í hlaupinu og á CP7 stoppaði hún extra lengi til að næra sig vel og þar voru lærin á henni og annar kálfinn líka orðin pikkstíf. Hún var skynsöm og hægði á sér og nærði sig til að koma í veg fyrir vanlíðan.
Við hlupum því saman af stað og þar sem ég var hraðari á slétta kaflanum, fór ég aðeins á undan henni og sagði henni að hún myndi pottþétt ná mér á leiðinni upp, annars pottþétt á leiðinni niður, þar sem hún er miklu hraðar hlaupari en ég, bæði upp og niður fjöllin.
Frá CP8 að CP9 er um 7 km kafli, brattur malbikaður kafli upp og svo niður og upp fjöllin. Þarna er oft mjög kalt og mikið rok, þar sem þú ert að hlaupa eftir fjallabrún og mikið útsýni, en í þetta skiptið var alls ekki kalt og eiginlega blankalogn. Ég t.d.fór ekki í langermapeysu, var bara á stuttermabolnum og leið mjög vel, ótrúlega heitt ennþá þó klukkan væri orðin langt gengin í miðnætti.
CP9 LEAD MINE PASS 93 KM TÍMI: 16:57:19 OP: 295GP: 57
Leið mjög vel þegar ég kom inn í CP9, fyllti vatnsbrúsana og fékk mér appelsínur og hélt svo áfram. Framundan var hæsti toppurinn á leiðinni og um 10 km í mark. Fannst ég ótrúlega fersk (þrátt fyrir stífa vöðva) og gekk ein upp fjallið. Það var enginn í kringum mig. Ég var fyrir alllöngu búin að ákveða að taka upp IPOD tónlistina mína á þessum tímapunkti, því ég hélt þetta yrði það erfitt fyrir hausinn, þetta klifur, en á þessum tímapunkti fannst mér ég ekki þurfa né langa til að hlusta á tónlist, svo ég bara hélt áfram og setti aldrei tónlist eða sögu í eyrun allt hlaupið.
Aðstæður á fjallinu voru miklu betri en í fyrra og árið á undan. Það var engin þoka og merkingar mun betri. Ógleymanleg þegar við Rúna Rut vorum að villast á þessum kafla fyrir tveim árum síðan. Ég hélt því bara áfram, passaði áfram næringuna, en ég hafði látið klukkuna hringja á 59 mín fresti, en var samt í raun að taka inn næringu á um 45 mín fresti allt hlaupið. Þá var samt gott að láta klukkuna hringja og minna sig á, en mun stilla á 45 mín næst. Eftir að hafa toppað fjallið og svo malbikaða bratta kaflann, þá var bara niðurhlaup eftir. Fyrst zikk zakk á malbiki og svo fjallastígur inni í skógi. Mér leið ótrúlega vel á þessum tímapunkti og hljóp fram úr hlaupurum á leiðinni niður, þó lærin væru að sjálfsögðu frekar steikt.
FINISH ROTARY CLUB PARK 103 KM TÍMI: 18:43:56 OP:271 GP: 53
Rétt þegar ég er að koma að markinu, heyri ég Huldu kalla á mig, fáninn Halldóra fáninn. Ég kasta af mér stöfunum, gríp íslenska fánann og hleyp í mark. Hulda tók af mér video og hvatti mig svo að sjálfsögðu til að taka „Haddýjar-hoppið“ sem ég og gerði þó ég væri mjög stressuð yfir því að fá krampa í hoppinu 😊
Þessi tilfinning og gleði þegar maður kemur í mark eftir rúmlega 103 km fjallahlaup með 5.400 metra hækkun og verulegri bætingu er ólýsanleg. Að hafa yndislega vinkonu að taka á móti sér í markinu er líka ómetanlegt og ég veit ekki hvor okkar var glaðari. Við sóttum Finisher peysuna mína og silfur styttuna og svo skipti ég um buxur, legghlífar og peysu og skreið undir svefnpoka og lagðist á dýnu. Þar biðum við eftir og sáum Sigga og Hafdísi koma í mark, virkilega flott saman.
Við biðum svo þar til Bekka kom (hún hafði verið með Rúnu og Steina í CP8). Okkur langaði líka mikið til að bíða eftir Rúnu Rut og Steina, en skynsama Bekka skipaði okkur að fara heim í sturtu þar sem Hafdís var lasin og Hulda líka orðin mjög þreytt og Bekka bauðst til að bíða eftir Rúnu og Steina.
FINISH TIME: 18:43:56
Lokatíminn minn var 18 klst 43 mín og 56 sek. sem er ágætis bæting frá fyrra ári (19:20:17) sérstaklega í ljósi þess að búið er að lengja hlaupið um 6 km og viðbótarhækkun og lækkun um 500 m. Hér að neðan er að finna tímana mína og sæti frá 2017.
ÁR | TÍMI | SÆTI ALLS | SÆTI KVK |
2019 | 18:43:56 | 271 | 53 |
2018 | 19:20:17 | 600 | 103 |
2017 | 23:22:54 | 1.166 | 203 |
ÞAKKIR
Elsku Hulda og Bekka takk fyrir ómetanlegan stuðning bæði fyrir hlaup, í hlaupinu og eftir hlaup. Þið eruð ástæðan fyrir því að maður kemur og tekur þátt í þessari skemmtilegu uppákomu ár eftir ár, þið eruð svo yndislegar, gefandi og skemmtilegar. Takk elsku Hulda fyrir að hýsa okkur og allar yndislegu kvöldstundirnar. Virkilega gaman að hitta sendiherra Íslands í Kína í glæsilegu matarboði heima hjá þér.
The Icelandic Crew eða íslenska stuðningsliðið var umtalað sem flottasta og besta stuðningsliðið í hlaupinu. Takk elsku systur Hulda og Bekka, Ásta, Pétur og Helga fyrir aðstoðina í hlaupinu, gleðina og sönginn þið eruð einstök.
Kæru ferðafélagar, Rúna Rut, Hafdís, Siggi, Guðmundur Smári, Viktor, Steini og Viggó og Ásta, takk fyrir yndislegar samverustundir allan tímann í Hong Kong sem og allar þær frábæru æfingar sem við tókum saman fyrir hlaupið. Því svona keppni er bara eitt langt ferðalag. Það hefst með skráningu í hlaup, svo eru allar skemmtilegu æfingarnar fram að hlaupi og þær hindranir sem við verðum fyrir á leiðinni, allt í þá átt að styrkja okkur hvert og eitt fram að því að við komum í mark.
Takk kæru vinir fyrir ógleymanlegar stundir.
Innilega til hamingju með ykkar frábæra árangur Rúna Rut, Hafdís og Steini og Siggi til hamingju með að klára HK100 fjórða árið í röð.
ÞAKKIR HEIM
Það er ómetanlegt að eiga frábæra æfingafélaga, bæði í Hlaupasamfélagi Náttúruhlaupanna, í Hlaupahópi Breiðabliks og Þríkó. Takk fyrir skemmtilegar æfingar og hvatninguna kæru vinir.
Elsku Beta mín, takk fyrir stuðninginn og hvatninguna og frábæru æfingarferðina okkar til La Palma, ég er fulviss um að hún hefur hjálpað mér mikið til að ná þessari bætingu.
Takk fyrir alla hvatninguna og ,,commentin“ kæru vinir og fésbókarvinir, hvatningin er ómetanleg og ég vona að þessi keppnissaga geti nýst einhverjum í framtíðinni.
Elsku Óli og Kristó, þið eruð BAKLANDIÐ, takk fyrir allan stuðninginn og þolinmæði gagnvart æfingum og keppnisferðalögum. LUV JU.
NOKKRAR TÖLFRÆÐIUPPLÝSINGAR ÚR GARMIN ÚRINU MÍNU
Meðalhiti 26 °C
Lágmarkshiti 19°C
Hámarkshiti 32°C
Kalóríur 6.357
Meðalhjartsláttur 134 bpm
Hámarkshjartsláttur 201 bpm
Heildartími 18:43
Tími á hreyfingu 17:05
Average moving pace: 10:12
Average pace: 11:10
HVAÐ MYNDI ÉG GERA ÖÐRUVÍSI EF ÉG VÆRI AÐ FARA AFTUR ?
*Láta næringar-klukkuna pípa á 45 mín fresti ekki 59 mín.
*Fara jafn hratt af stað til að komast í skóginn, en fara svo aðeins hægar eftir skóginn.
*Muna eftir frábæra ráðinu hans Sigga að vera með Zip-loc poka og taka með mér appelsínur af drykkjarstöðvunum.
*Annars myndi ég ekki gera neitt annað öðruvísi, skipta aftur um föt ef ég er orðin svona sveitt, stoppa stutt á drykkjarstöðvunum, nema þar sem stelpurnar eru, hafa gaman alla leið, skipuleggja næringaplan vel fyrir hlaup og áætla tímaplan. Vera í frábæru HOKA Speedgoat 2 skónum mínum.
*Gaman …. gaman … gaman …
*Fyrir keppnina myndi ég vilja vera duglegri í styrktarþjálfun, til að minnka líkur á krömpum og styrkja lærin (bremsuvöðvana) sem voru svolítið að svíkja mig núna, en ekki í fyrra.
Hér að neðan er tölfræði eftir Vibram Hong Kong 100 2019 hlaupið og samanburður við 2018 frá hlaupahöldurum.
HK100 hlaupið var núna haldið í 9 skiptið.
Fjöldi sem ræstu: 1842 (2019); 1862 (2018)
Fjöldi sem kláruðu: 1292 (70.1%) (2019); 1518 (81.5%)(2018)
DNF (Did Not Finish): 549 (29.8%) (2019); 344 (18.5%) (2018)
„Elites“ undir 13.5 klst menn: 33 (2019); 79 (2018)
„Elites“ undir 16 klst konur: 27 (2019); 44 (2018)
Gull styttan (undir 16 klst): 142 (7.7%)(2019); 308 (16.5%)(2018)
Silfur styttan (undir 20 klst): 240 (13.0%)(2019); 418 (22.4%)(2018)
Brons styttan (undir 24 klst): 404 (21.9%)(2019); 506 (27.2%)(2018)
Medalía (undir 30 klst): 504 (27.4%)(2019); 286 (15.4%)(2018)
Hlutfall karla og kvenna: 75:25 (2019); 77:23 (2018)
Sjálfboðaliðar: 1000
Lönd/svæði sem tóku þátt: 57 (2019); 60 (2018)
Ný, endurbætt og erfiðari leið og mikill hiti, gerði það að verkum að það varð meira brottfall en árið á undan.
TOPP 10 KARLMENN
1 Shen Jiasheng (China) 10:22:02 Columbia (NEW RECORD)
2 Liang Jing (China) 10:35:50 探路者飛越隊/ toread
3 Zhang Zhenlong (China) 10:41:46 探路者飛越隊/ toread
4 Deng Guo Min (China) 10:52:19 SALOMON
5 Scott Hawker (New Zealand) 10:53:34
6 Gediminas Grinius (Lithuania) 11:11:10 Team vibram
7 Li Kuo (China) 11:40:06 Columbia
8 Li Bo (China) 11:47:19 Hoka one one & vibram
9 Patrick O’Leary (Ireland) 11:51:37 The North Face
10 Wong Ho Chung (Hong Kong) 11:52:39 The north face adventure team
TOPP 10 KONUR
1 Lu Yangchun (China) 11:43:20 adidas TERREX (NEW RECORD)
2 Xiang Fuzhao (China) 12:17:32探路者飛越隊
3 Yang Guangmei (China) 12:43:19 Toread & vibram
4 Xu Meiling (China) 13:02:24
5 Ekaterina Mityaeva (Russia) 13:03:46 adidas TERREX
6 Jasmin Nunige (Switzerland) 13:19:21 adidas TERREX
7 Mariya Nikolova (Bulgaria) 13:51:08
8 Leung Ying Suet (Hong Kong) 14:01:22 MIZUNO
9 Lou Clifton (Australia) 14:33:33
10 Lucy Cant (New Zealand) 14:50:53 Gone Running Joint Dynamics
Hér er myndband eftir hlaupið frá hlaupahöldurum.
2019 香港100赛事视频高清版
2019 vibram香港100赛事视频高清版,制作Lloyd Belcher Visuals