Halldóra
Hjóluðum í dag á fjallahjólum um Hengilsvæðið. Keyrðum upp Nesjavallaveginn og lögðum þar á bílastæði við Dyradal.
Hjóluðum stíg inn að Múlaseli, áleiðis þar sem við Óli lögðum sl páska þegar við vorum á utanbrautargönguskíðum á þessu svæði. Inga tók þar rosalega byltu þar sem hún fór kollhnís á hjólinu, en slasaðist sem betur fer ekki. Frambremsu handfangið brotnaði samt, svo hún var bara með afturbremsuna það sem eftir lifði ferðar . EN við sem sagt snérum við þar sem hún hafði dottið og fórum að skála sem er í eigu Orkuveitunnar að Múlaseli, mjög flottur skáli, sem við skoðuðum, fórum inn og borðuðum nesti. Óli borgaði 1000 kr í skálasjóð. Fórum svo Marardals leiðina til baka, sem var mjög krefjandi sérstaklega með þungu rafmagns-fjallahjólin, þar sem klöngrast þarf með þau yfir kletta og hæðir. En falleg leið sem ég hljóp með Náttúruhlaupurum síðastliðið sumar.
Hér má sjá leiðina sem við fórum.
Var búin að bóka okkur Óla í ferð með Haraldi og Fjallafélaginu á stálkanta gönguskíðum á Geitlandsjökul. Út af Covid-19 og hertum sóttvarnaraðgerðum þá ákvað Haraldur að hætta við ferðina. Við ákváðum hins vegar að fara með Helgu Maríu vinkonu sem er vanur jöklaleiðsögumaður og fórum bara tvö og tvö í bíl til að tryggja sóttvarnir.
Veðrið var algjörlega magnað og þetta var ógleymanlegur dagur. Það var samt mjög erfitt að renna sér niður á gönguskíðunum (með hælinn lausan) í þessum nýfallna snjó og eftir á hefðum við frekar viljað vera á fjallaskíðunum, það hefði verið algjörlega magnað í þessum frábæra snjó 🙂
En frábær ferð í frábærum félagsskap, þar sem allt öryggi, bæði línur sem og sóttvörnum var fylgt.
Ég var beðin um að taka þátt í stjórnendadegi Reykjavíkurborgar 2020 og svara eftirfarandi spurningum. Svörin voru svo tekin upp og klippt/stytt í myndband. Yfirskriftin er stafræn framtíð.
- Hvað ertu búin að vinna lengi hjá Reykjavíkurborg?
Ég hóf störf hjá Reykjavíkurborg 1. maí 2019 – svo ég er búin að starfa í 17 mánuði. - Hvaða stafrænar lausnir eruð þið á þínum vinnustað að nota?
Til viðbótar við hefðbundinn Office pakka, þá erum við að nota Workplace. Við erum að nota Cisco Webex mjög mikið sérstaklega á fundum innan borgarinnar, höfum líka verið að nota MS Teams, bæði í verkefna vinnu og í fjarfundum. En erum núna að færa okkur meira yfir í KARA CONNECT, til að þjónusta notendur rafrænt. - Á hvern hátt sérð þú fyrir þér að nýta tækni og stafræna þróun í ljósi styttingar vinnuvikunnar?
Það er klárlega tækifæri að nýta tæknina til að bæta skipulag og skilvirkni sem er krafa með styttingu vinnuvikunar. Að taka fundi með notendum t.d. með Kara Connect styttir bæði akstur til og frá þjónustunotendum sem og tíminn sem fer í heimsóknina er styttri, það er bara staðreynd. Þeir sem hafa notað símtöl eða rafrænar heimsóknir, er mjög ánægðir með árangurinn.
- Hvaða framtíðarsýn hefur þú varðandi stafræna þróun á þínum vinnustað?
Ég hef MJÖG SKÝRA SÝN og mikinn metnað hvað varðar stafræna þróun.
Reykjavíkurborg á að vera í fararbroddi í þessum efnum.
Við eigum alltaf að hafa þarfir borgarbúands eða fjölskyldunnar í Reykjavík að leiðarljósi.
Til þess að geta veitt bestu og einstaklingsmiðuðu þjónustuna þá myndi ég vilja að hver einasta fjölskylda hefði aðgang að MÍNAR SÍÐUR í Reykjavík, þar sem fram koma allar upplýsingar um alla þjónustu sem er veitt til fjölskyldunnar og gagnvirk samskipti hvort sem er við leikskólann, grunnskólann, íþrótta- og tómstundastarf, starf og þjónustu við eldri borgara og að sjálfsögðu öll velferðarþjónusta og samskipti þar um. #StafrænReykjavík
Hvað varðar Keðjuna, þá leggum við mikla áherslu á að ná settum markmiðum varðandi okkar þjónustu og fylgjum þeim eftir með rafrænum mælingum í samstarfi við skrifstofu Velferðarsviðs.
Því myndi ég vilja hafa ennþá betra mælaborð fyrir stjórnendur með upplýsingum um alla þjónustu sem notendur eru að fá frá borginni þvert á sviðin. Þarna eru þá uppfærðar lykiltölur, til að fylgjast með stöðunni á allri veittri þjónustu sem og málum á bið. Þetta mælaborð stjórnandans er þá lifandi skjal með rauntímaupplýsingum og með Mínum Síðum inn á reykjavik.is –og við fáum rauntímasvörun þ.e. einkunnagjöf á veittri þjónustu hverju sinni og gagnvirk samskipti.
- Hvernig hvetur þú starfsfólk í þínum teymum til að nýta stafrænar lausnir í starfi?
Það má segja að Covid-19 hafi komið okkur vel af stað í að nýta stafrænar lausnir í starfi, samanber reglulega fundi á WEBEX með öllu starfsfólki.
Við hringdum í allar st.fjölskyldur og tímavinnustarfsmenn í Covid-19 fyrstu bylgju með það fyrir augum að kanna hvernig við gætum bætt þjónustuna við starfsmenn sem eru í tímavinnu eða verktakar fyrir okkur.
Þær hugmyndir sem við fengum var að vera með námskeið fyrir þennan markhóp á netinu t.d. með Youtube myndböndum eða Podcöstum, þar sem fólk getur fundið hentugan tíma til að hlutsta/horfa.
Við erum nú þegar búin að taka upp eitt fræðslumyndband í samstarfi við ADHD samtökin, þar sem koma fram mjög góð ráð til að vinna með börnum sem eru með ADHD greiningu. Er það vistað á YOUTUBE síðu Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.
Hvað varðar hvatningu til starfsmanna, þá höfum við bent á tíma- og orkusparnað sem er fólgin í því að nota stafræna tækni. Einnig höfum við verið með góða fræðslu eins og til dæmis frá KARA CONNECT til að hjálpa fólki að komast yfir hindranir og erum líka að velja superusera sem eru í fararbroddi í nýtingu tækninnar og þá stuðningur við aðra starfsmenn.
Við setjum gildi Velferðarsviðs alltaf í öndvegi en þau eru VIRÐING, VIRKNI og VELFERÐ.
Frábæru ferðlagi með Víkingasveitinni 2020 er nú formlega lokið.
Þegar Einar Bárða auglýsti Járnvíkinginn og Víkingasveitina snemma á þessu ári, þá hugsaði ég strax þetta er eitthvað sem mig langar til að klára, þar sem ég er búin að klára Landvættinn og Sænska klassíkerinn sem eru svona íþrótta-seríur. Hins vegar var köttur í bóli bjarnar, þar sem ég var skráð í UTMB hlaupið í Chamonix sömu helgina í september og Eldslóðarhlaupið átti að fara fram, svo ég sá því miður ekki fram á að geta klárað hvorki Járnvíking né Víkingasveitina að þessu sinni, þar sem þú verður að klára allar fjórar þrautirnar á einu ári (tvö utanvegahlaup, ein fjallahjólakeppni og ein götuhjólakeppni).
Þann 20. maí var svo orðið ljóst að UTMB yrði ekki haldið í ár. Ég ákvað samt að vera bara með í Hengils hlaupinu (6. júní), þ.e. skrá mig í 25 km, sem var þá ágæt æfing fyrir Laugavegshlaupið.
Þegar Gullhringurinn var haldinn, laugardaginn 11.júlí var ég ekki bókuð fyrir utan hefðbundna Laugavegs-hlaupaæfingu sem ég kláraði um morguninn. Skellti mér svo í Silfurhringinn á Laugavatni seinnipartinn með Rúnu Rut vinkonu sem var að fara Gullhringinn og þá var ég búin með 2 þrautir af 4 í Víkingasveitinni. Var því orðin frekar spennt að klára allar fjórar þrautirnar.
Hins vegar þurfti Einar að fresta bæði Landsnets fjallahjóli og Eldslóðinni trail-hlaupi út af Covid-19, sem að endingu voru svo haldin þessa helgi.
Ég er ótrúlega glöð og þakklát að hafa fengið að taka þátt í þessum 4 skemmtilegu þrautum í frábærum félagsskap fjölskyldu og yndislegra vina. Út af Covid-19 þá var alls ekki sjálfsagt að maður gæti verið með, þar sem maður getur dottið í sóttkví eða einangrun hvenær sem er. Svo þarf maður líka að hafa góða heilsu til að geta tekið þátt og klárað og það er heldur ekki sjálfsagt
Runa Rut Ragnarsdottir vinkona var að klára Járn-víkinginn í dag og er eina konan sem kláraði þá fjórþraut, sem felur í sér lengri vegalengdir í Henglinum, Landsneti MTB og KIA gullhringnum. Ég óska henni innilega til hamingju með þann frábæra árangur, er súper stolt af henni, en við höfum tekið þátt í mörgum skemmtilegum keppnum saman.
Það voru 16 Víkinga sem fóru formlega í Víkingasveitina í dag eftir að hafa klárað Eldslóðina í dag.
Tók þátt í 28,5 km utanvegahlaupi, Eldslóðinni 2020 í Heiðmörk í dag í mjög krefjandi aðstæðum að því leiti að það var mikil rignin og mikil drulla á stígunum, sem voru því mjög hálir.
Hlaupið var ræst klukkan 12:00. Ákvað að fara mjög vel klædd, í vetrar Fusion buxunum mínum, í gömlu HOKA Speedgoat skónum sem ég er búin að hlaupa í allt sumar og fara Laugaveginn á (var ekki búin að hlaupa nýju skóna til, svo ég gat ekki farið á þeim), var svo í Grettispeysunni minni, í Salomon jakkanum og með vesti (1.2 l af vökva og 5 gel og 2 pakka af GU gúmmí). Var svo bara með eyrnband og sólgleraugu, sem fóru reyndar snemma í bakpokann.
Ræsti út í 2 hóp með Betu og Rúnu Rut vinkonu. Þær ásamt SprengjuKötu og Millu fóru eftir um 2 km fram úr mér og ég ákvað að slaka aðeins á, fór aðeins of hratt af stað. Hlaupið var ræst við Vífilsstaðavatn og það byrjaði á að hlaupa „inn með vatninu“ og þaðan upp mjóan, þröngan og grýttan og drullugan stíg uppá línuveg og svo þaðan að útsýnispallinum. Frá útsýnispallinum er skemmtilegur stígur aftur niður á línuvegl og þegar maður var búin að hlaupa hann niður, tóku VÍKINGAR úr Hafnarfirði á móti manni. Þar var líka fyrsta drykkjarstöð, en þar sem ég var með nóg af orku á mér, þá stoppaði ég ekki þar.
Hélt bara áfram stíginn í átt að Búrfellsgjánni, svo er farið niður tröppurnar og góði, nýi stígurinn að Búrfelli hlaupinn og uppá Búrfellsgjána. Þaðan var svo búið að breyta leiðinni, fórum beint niður þar, þ.e. sunnan megin og einhvern stíg þaðan í átt að Helgafelli sem ég hafði ekki farið áður og á stundum var maður eiginlega ekki á stig. Kom svo að næstu drykkjarstöð þar sem Börkur Brynjarsson, var að skanna númerin okkar. Þurfti ekki heldur að bæta á mig orku þar, enda ennþá með nóg að bíta og brenna 🙂
Hélt svo áfram og stuttu seinna kom Snorri Björnsson á mikilli ferð fram úr mér og ég velti fyrir mér hvert er hann að fara, því ég hélt við ættum að fara sömu leið til baka, en hann var eiginlega að fara annan hring í kringum fjallið, eða ætlaði sér gömlu leiðina til baka, veit það ekki. En hann hljóp eins og hann væri á sprettæfingu, ekki í 28 km utanvegahlaupi.
Ég hélt áfram hringinn í kringum Helgafellið, sá svolítið eftir því að hafa ekki tekið með mér headset eða airpods, gleymdi þeim heima í hleðslu, þar sem ég var mikið að hlaupa ein. Svo reyndar náði ég Nonna vini hans Bertels og hljóp og spjallaði við hann, restina af Helgafells hringnum, en hann var líka að stefna að því að klára Víkingamótaröðina. Við drykkjarstöðina, þ.e. komin hringinn, þá náði ég Rúnu Rut, þar sem hún var að fylla á brúsa, en ég þurfti ekkert að stoppa (ennþá með nóg á mér) svo ég hljóp bara áfram, svo náði RRR mér og við hlupum saman inn að Búrfellsgjá. Þegar við vorum komnar þar niður, var RRR hressari en ég og ákvað að gefa í, svo ég hélt bara áfram á mínum pace-i ca í kringum 6 – 6:10 og leið bara vel.
Rétt áður en ég kom að bröttu brekkunni í Vífilsstaðahlíð, þar sem Víkingarnir voru þá var verið að spila Vangelis „Conquest of Paradise“ sem er lagið sem er spilað í ræsingunni í UTMB, ákkúrat hlaupinu sem ég átti að vera að keppa í, fyrstu helgina í september, þegar Eldslóðin átti að fara fram. Smá gæsahúðarmóment þar. Stoppaði samt ekkert á drykkjarstöðinni, og labbaði bara rólega upp brekkuna, notaði hana til að taka inn síðasta gelið og drekka restina af Powerade úr brúsanum mínum. En ég var með einn brúsa af UCAN orku, sem mér finnst æðisleg og svo einn af Powerade.
Eftir brekkuna, var bara að klára stíginn að útsýnispallinum og svo reyndar þröngan stíg og línuveg, áður en við komum að síðustu brekkunni niður. Hún var MJÖG SLEIP, drullu og stórhættuleg. Ég var næstum því tvisvar dottin á hausinn sem bjargaðist rétt fyrir horn.
Hljóp svo stíginn í mark, þar sem Óli tók á móti mér og ég að sjálfsögðu tók Haddýjar hoppið í markinu.
Var mjög glöð þegar ég komst að því að ég var í 3 sæti í aldursflokki (af 8 konum) á eftir Þórdísi og Brynju og varð 13 kona overall af 38 konum sem tóku þátt. Tíminn var 03:10.50 sem í raun var miklu betri tími en ég átti von á.