nóvember 2020
Það er alltaf gaman að fagna árangri og fá útskriftarskírteini. Þegar ég skráði mig á þetta námskeið, þá gerði ég mér ekki grein fyrir því hvað ég væri að fara út í, né að þetta námskeið myndi enda með prófi og útskrift.
Þegar ég kom á námskeiðið var ég líka einstaklega glöð að hafa tekið tvö skipti í undirbúning með Bjarti í Öskjuhlíðinni. Því þetta er mjög krefjandi námskeið, bæði það að setja upp allt kerfið, akkeri, línur, sigtól og prússbönd til að júmma sig upp og svo „doblunin“, já ég veit þetta er eins og nýtt tungumál. Einnig var mjög krefjandi að leiðsegja á jöklinum, en jafnframt mjög skemmtilegt.
Ég er einstaklega ánægð með ummælin sem ég fékk frá kennurunum (sjá hér að neðan), og ég er líka mjög ánægð með þjálfunina frá Tindaborg. Þakka frábæru vinkonum mínum fyrir yndislegar samverustundir á námskeiðinu og í Kartöflugeymslunum, það var einstaklega gaman hjá okkur og mikið hlegið á línuæfingum á kvöldin.
Day 4: A morning meeting and a student weather briefing. On the ice we will cover remaining topics if any and then each student will perform a full crevasse rescue.
Við keyrðum að Breiðamerkurjökli, komum við í Jökulsárlóni, þar sem veðrið var gordjöss og við vorum aðeins á undan hópnum. Tókum nokkrar myndir þar áður en við héldum áfram og beygðum inn að Breiðarmerkurjökli. Ótrúlegt að sjá hversu ólíkur hann er hinum þremur jöklunum sem við vorum búin að vera á, þar sem hann var KOLSVARTUR. Ástæðan fyrir því að við vorum hér í dag, var sú að eftir prófið, þ.e. sprungubjörgunina ætluðum við að fara í Íshellinn, sem Einar kallar „Sapphire“ eða Safírinn.
Við fengum aftur frábært veður, sólin skein og það var logn og engin úrkoma. Gangan að jöklinum er um 30 mín svipað og að ganga að Fjalljökli. Búið er að brúa á snyrtilegan hátt eina á, sem er þarna á leiðinni. Við fórum svo uppá jökulinn og undirbjuggum sprungubjörgunina. Við Milla vorum saman í teymi eins og í gær. Hún var til í að byrja eins og í gær, sem mér fannst frábært, og svo skiptum við og ég tók við. Það gekk allt eins og í sögu og við náðum að klára innan 30 mín sem var svona A krafa, ég kláraði rétt innan við 25 mín og Milla á enn betri tíma, enda algjör reynslubolti og vanur leiðsögumaður og frábært að hafa hana og leita til hennar á öllu námskeiðinu.
Eftir sprungubjörgunina fórum við í Íshellinn sem er ofboðslega fallegur og í raun stórkostlegt fyrirbæri, algjörlega magnað. Mæli 100% með því að fólk geri sér ferð og skoði hann. Það er ekki auðvelt að finna innganginn og hann sést ekki vel, svo það er skiljanlegt að fólk sé að fara þangað með leiðsögn og Einar og Öræfaferðir (From Coast to Mountain) fara þangað oft með hópa. Sjá nánar hér:
Takk elsku vinkonur Inga og Milla fyrir yndislega samveru alla fjóra dagana. Takk elsku Inga fyrir að hvetja mig til að skrá mig og koma með mér og takk Milla fyrir að redda okkur undirbúningsnámskeiði í Öskjuhlíðinni með Bjarti. Þetta var frábært námskeið og skóli í frábærum félagsskap. Er vel úthvíld og ánægð og til í veturinn eftir svona frábært fjögurra daga frí 🙂
Day 3: A morning meeting and a student weather briefing. On the ice we will focus on guiding on easy to moderate terrain and practice top rope ice climbing.
Á degi 3 fórum við á Fjallsjökul við Fjallsárlón. Mjög fallegt veður þegar við gengum fram hjá lóninu uppá jökulinn, sólin skein og selurinn Snorri heilsaði okkur úr lóninu. Þetta var svo magnað þar sem það var brjálað veður og gular og rauðar veðurviðvaranir um allt land, en við vorum í frábæru veðri þarna og skjóli undir jöklinum.
Kennarar voru aftur búnir að skipt um hóp og við komin með Bjart og Árni farinn í hinn hópinn. Við vorum búin með allt bóklegt, svo nú var bara að halda áfram að leiðsegja, við Inga áttum eftir að leiðsegja á jöklinum, þ.e. velja réttu leiðina, lesa í landið og sprungurnar, svo við fengum það hlutverk sem gekk mjög vel hjá okkur báðum og fórum svo í ísklifur.
Það var mjög skemmtilegt, smá ógnvekjandi „scary“ þegar maður lét sig falla niður, þar sem línan var ekki alveg stíf, þar sem fyrst hélstu í akkerið, sem línan var bundin í, þannig að þetta var ekki alveg eins og við höfum gert þetta áður, en góð æfing. Svo klifum við 4-5 sinnum upp grjótharða jökulveggina. Fyrst bara með tveim ísöxum sem við notuðum jafnharðan. Næsta æfing var með tveim, en þú notaðir bara eina í einu, þ.e. tókst svona þríhyrning með fótunum, smá tækni. Þriðja æfing var bara með annarri ísöxinni hin var skilin eftir niðri og fjórða æfingin var að fara án ísaxar, en þá var Bjartur búinn að setja upp ísaxa stiga, sem var mjög skemmtilegt að prófa.
En aðal-lærdómurinn fyrir mig, var að vera á öryggislínunni niðri, þ.e. að hífa upp og slaka, fyrir þann sem var að klifra, eins og leiðsögumenn gera, og svo að losa þegar viðkomandi sígur niður. Það var ákveðin tækni sem þarf við þetta og mjög skemmtilegt og nauðsynlegt að prófa þetta og læra.
Eftir Ísklifrið (orðin smá þreytt í höndunum) þá gengum við aðeins til baka, fundum fínan stað til að æfa björguninan, þ.e. allt set-uppið og við skiptumst á að vera sá sem bjargar og svo sá sem er að bjarga og það gekk mjög vel. Var mjög ánægð að fá að setja þetta upp einu sinni og prófa sjálf fyrir prófið á morgun en við Milla vorum saman í teymi, fyrst bjargaði hún mér og svo bjargaði ég henni.
Hittum svo Óla þegar við gengum til baka, en hann hafði keyrt úr bænum í morgun og gengið einn upp á jökulinn en komst ekki alla leið upp eftir til okkar, þó hann hafi séð okkur, þar sem Jökullinn er mjög sprunginn og ekki einfalt að komast. Auk þess er það ekki skynsamlegt að vera einn að þvælast á jöklinum. En hann gekk með okkur til baka.
Day 2: A morning meeting and a student weather briefing. On the ice we will focus on terrain classification, guiding on easy terrain, pulley systems and simple crevasse extraction. A full crevasse rescue demonstrated.
Dagur 2 byrjaði líka með bóklegri kennslu inni í Lambhaga. Árni eigandi Tindaborgar var núna með okkur og Bjartur með hinum hópnum í næsta húsi. Við fórum áfram yfir búnað, mismunandi línur og leiðsögn. Auk þess sem farið var yfir sprungur og hvernig þær myndast á mismunandi hátt eftir því hvernig skriðjökullinn liggur eða færist.
Fórum svo á jökulinn, þ.e. á Virkisjökul, en leiðin að honum er í gegnum Falljökul, þar sem við vorum í gær. Ég var smá stressuð fyrir deginum, þ.e. munnlegt próf, í formi leiðsagnar, en við sem sagt fórum í hlutverkaleik og áttum að leiðsegja hvort öðru. Hvað er best að gera þegar maður er kvíðinn, að mínu mati er besta leiðin að bjóða sig fram strax í byrjun sem ég og gerði – og hóf sem sagt leiðsögnina. Bauð fólk velkomið og kenndi því að setja á sig hjálm, klæða sig í klifurbeltið og fór með hópinn að Jökulbrún, þar sem ég var með einhverjar staðreyndir um Öræfajökul, brúna sem við fórum yfir og hellinn sem mátti ekki fara inní. Inga tók svo við, þegar við vorum komin að jökulbrún og þurftum að fara í broddana.
Árni var með okkur, og gaf okkur svörun (feedback) jafnóðum, þ.e. hvað gekk vel og hvað mátti betur fara. Svo var farið í leiðsögn á jöklinum sjálfum, þ.e. velja leið í öllum sprungunum, kenna fólki að nota broddana á jöklinum, sbr. jafnsléttu, fara upp, fara niður og svo í halla.
Þegar Einar var að leiðsegja þá lentum við í eitt skipti í þannig aðstæðum að annað hvort urðum við að snúa við, eða setja niður ísskrúfur og línu og láta hópinn festa sig og fara yfir bundið við línuna. Mér fannst frábært að hann skildi gera það, þ.e. þá fékk maður kennslu í því, þ.e. að setja upp línu á jafnsléttu og binda alla við línuna, en auðvitað fór bara einn yfir í einu.
Svo héldum við áfram upp allan jökulinn að jökulbrún þar sem við ætluðum að kíkja á Íshelli sem er frekar ofarlega á jöklinum, en við gátum ekki farið inn í hann þar sem myndast hafði lón sem lokaði innganginum í hellinn.
Í lok dags fór Árni yfir sprungubjörgun, allt frá mjög einfaldri björgun ef þú ert með marga til að hjálpa til við að draga upp, í mjög flókna „doblun“, þar sem við notum micro traxion og hjól og prússika. Frábært að sjá þetta frá A-Ö því við tökum próf í þessari flóknu (en samt einföldu þegar þú kannt það) sprungjubjörgun. á degi 4.
Day 1: A course introduction, introduction of the AIMG, course structure explained and a short lecture on mountain weather and a weather briefing. On the glacier we will focus on properly equipping our guests, crampon techniques, walking in basic terrain, setting anchors, abseiling and ascending.
Inga Björg vinkona hafði samband við mig snemma í haust og spurði mig hvort ég væri ekki til í að fara með sér á JÖKLA 1 námskeið, þar myndum við læra sprungubjörgun hjá Tindaborg Mountain Guides. Mér fannst það tilvalið þar sem við vorum búin að fara í nokkrar skemmtilegar jöklaferðir með Helgu Maríu og fleiri vinum okkar, sem og allar fjallaskíðaferðirnar með Ísbjörnunum. Milla sem er einstaklega reyndur leiðsögumaður bættist svo í hópinn. Námskeiðið átti að vera í september en því var frestað út af Covid, en úr varð að það var haldið núna, og að sjálfsögðu allar sóttvarnarreglur virtar. Hópnum var til að mynda skipt upp í tvo hópa, þ.e. 5 þátttakendur í hvorum hóp með einum kennara í hvorum hóp og vorum við öll með sóttvarnarmaska á námskeiðinu inni og úti þegar við gátum ekki fylgt 2 m.reglunni.
Við gistum í uppgerðum Kartöflugeymslum á Svínafelli, mjög fínni íbúð. Dagur 1 byrjaði í Lambhaga í Svínafelli þar sem við fórum í bóklega kennslu, farið yfir mismunandi veðurspár og allan búnað.
Fórum svo á Falljökul í Öræfajökli. Fimm manna hópurinn okkar var með Bjart sem kennara þennan daginn. Hann kenndi okkur að leiðsegja fólki með búnað, eins og t.d. hjálm, klifurbelti og brodda. Einnig að finna réttar leiðir á skriðjöklinum, þar sem sprungur eru mjög greinilegar og ef þú vilt forðast að eiga möguleika á að detta þar sem fallið er mikið (1 og 1/2 mannhæð er mjög hættulegt fall á jökli). Þá þarf oft að snúa við. Einnig var okkur kennt að leiðsegja fólki með að ganga á broddum á jöklinum, þ.e. bæði á jafnsléttu, upp brekku, niður brekku og í hliðarhalla og hvernig beita á Ísexi. Í lok dags fórum við líka í að setja upp línu með ísskrúfum og bæði sigum og júmmuðum (klifum) upp bratta Jökulveggi. Þetta var mjög skemmtilegt, þó við værum orðin frekar blaut, þar sem það rigndi MJÖG MIKIÐ þennan daginn, og vindur kom í kviðum.
Mér gekk mjög vel í klifrinu, mundi nákvæmlega hvað ætti að gera með prússikinn og sigtólið og hvernig við breyttum því svo þegar við vorum komin niður og notuðum til að júmma okkur upp. Ég var svo glöð þegar ég kom upp að ég heimtaði að fá að fara aðra umferð og fór þá í brettari vegginn 🙂 Æfingarnar tvær með Bjarti í Öskjuhlíðinni voru klárlega að skila sér.
Frábær dagur á fallegum jökli í frábærum félagsskap. En við vinkonurnar vorum svo heppnar að fá að vera í hópi með feðgunum Einari Rúnari Sigurðssyni og Matthíasi Einarssyni frá Hofsstöðum, en Einar hefur farið 312 sinnum á Hvannadalshnúk sem leiðsögumaður frá því 1989, sjá viðtal við hann hér:.