Minning: Guðríður Jóna Pétursdóttir

by Halldóra

Minningargrein birt í Morgunblaðinu: 09.02.2022

Gurrý frænka eða Gurrý tanta eins og hún kallaði sig þegar ég var krakki átti heima með ömmu Halldóru (Höllu) og afa Pétri í Drápuhlíðinni.

Við Jói bróðir nutum æskuáranna í heimsóknum og næturgistingu á rauðum bedda í Drápó. Þar kenndi Gurrý mér að prjóna, hún og amma kenndu mér Faðir vorið og allar bænirnar, ég lærði á píanó, að baka kleinur og að teikna en Gurrý var einstakur listamaður, málaði svo fallega postulínsplatta með bænunum og bollasett sem mér þykir vænt um. Við Gurrý og amma grétum saman yfir „Húsinu á sléttunni“ á sunnudögum.

Gurrý var alltaf vel til höfð, átti fallega skartgripi, fór reglulega í hárlagningu og var með fallega lakkaðar neglur. Hún elskaði að ferðast og fór í fjölmargar ferðir með vinkonu sinni til Spánar og Grikklands.

Gurrý þekkti öll flottustu tískumerkin og elskaði að kaupa sér töskur og skó og hún átti fallegt úr frá Gucci (G-ið) sem hún notaði í tugi ára.

Gurrý frænka starfaði hjá sama vinnuveitanda alla sína starfstíð, Sjúkrasamlagi Reykjavíkur sem varð síðar Tryggingastofnun ríkisins og ég var svo lánsöm að fá að vinna tvö sumur í Sjúkrasamlaginu með henni.

Gurrý var einstaklega umhyggjusöm og góð, hún var svo stolt af okkur systkinunum og börnum okkar. Þegar amma fékk Alzheimersjúkdóminn hugsaði hún um hana, þangað til hún fékk inni á Droplaugarstöðum. Þá sótti hún afa eftir vinnu og þau fóru saman daglega í heimsókn til ömmu. Eftir að Einar, eiginmaður Gyðu ömmusystur minnar, féll frá, flutti Gyða inn í Drápuhlíðina þar sem Gurrý hugsaði þá bæði um hana og afa sem var orðin heilsuveill, enda komin með Parkinsonsjúkdóminn.

Gurrý útbjó sér fallegt heimili í Ásbúð með pabba og Möggu 1988. Pabbi og Magga búa uppi og Gurrý á neðri hæðinni. Sama ár fórum við öll í eftirminnilega ferð til Flórída með fjölskyldunni. Við fórum í fleiri skemmtilegar ferðir m.a. til Tenerife og aftur til Flórída. 

Eftirminnilegust er ferðin okkar Gurrýjar saman til Láru vinkonu hennar í Washington DC 1995. Þar sáum við m.a. Hvíta húsið og Víetnamvegginn, auk þess að fara á hesta-veðreiðar og í „nokkrar búðir“ með Láru.

Sælla er að gefa en þiggja er orðatiltæki sem átti svo vel við um Gurrý, en hún elskaði að kaupa og gefa gjafir.

Gurrý var mjög dugleg, sjálfstæð og þrjósk. Hún gafst aldrei upp. Ég get, ég ætla og ég skal eru orð sem eru lýsandi fyrir Gurrý, því þrátt fyrir heilsuskort og fötlun, lét hún það aldrei stoppa sig, enda var Gurrý aldrei fötluð í huga okkar systkinanna. Hún var mjög sjálfstæð alla tíð og þess vegna ekki alveg sátt við að fara inn á Hjúkrunarheimili Hrafnistu að Sléttuvegi fyrir tveimur árum. Hún sagði að þar væri bara fyrir gamalt fólk. Gurrý var alltaf svo ung í anda.

Elsku pabbi þú varst stoðin og styttan í lífi Gurrýjar og vinátta ykkar og systkinakærleikur einstakur. Þú heimsóttir hana oft. Missir þinn er mikill og okkar systkinanna og barna okkar því uppáhaldsfrænka er nú farin til himna. Ég veit að amma og afi og Gyða hafa tekið vel á móti henni.

Takk fyrir allt elsku tanta
Þín Halldóra Gyða

You may also like

Leave a Comment