Hekla á fjallaskíðum (21.maí 2020)

by Halldóra

Það hefur lengi verið á „bucket-list“ að ganga á fjallið Heklu. Hef einhvern tíma keyrt að fjallinu, en aldrei látið verða að því að ganga á fjallið. Hef alltaf hugsað um orð Kollu vinkonu sem er þvílíkur fjallagarpur, en segist aldrei ætla að ganga á fjallið Heklu, enda er eldfjallið mjög virkt og búið að vera að bíða eftir gosi síðustu 10 árin.

Hekla er 1.491 m hár eldhryggur og er eitt virkasta og þekktasta eldfjall á Íslandi og gjarnan kölluð Drottning íslenskra eldfjalla. Fjallið er í Rangárvallasýslu og sést víða að og er auðþekkjalegt – eins og bátur á hvolfi með breiðar axlir og háan toppgíg. Síðast gaus Hekla í febrúar 2000. Þá var spáð fyrir um eldgosið 15 mínútum áður en það hófst. Hekla er fremur ungt eldfjall og er meginhluti hennar, þ.e. allt háfjallið, talinn vera yngri en 7.000 ára. Fjallið stendur á fremur þykkri jarðskorpu þar sem Suðurlandsbrotabeltið og Suðurlandsgosbeltið mætast. Þarna er því mikil virkni í jarðskorpunni, spenna er hlaðinn í brotbeltinu en undir gosbeltinu liggja kvikuhólf og -þrær. Allstór sprungurein er undir fjallinu sem bendir til þess að gosið hafi á gossprungum áður en fjallið hlóðst upp og kvikuhólf þess myndaðist. Þessi sprunga sést vel á yfirborðinu og hefur oft gosið úr henni, en þó líka úr öxl fjallsins, s.s. utan sprungunnar. Þessari Heklugjá tengjast fleiri gígar sem hafa gosið í áranna rás, sumir einu sinni, aðrir oftar. Fjallið sker sig frá öðrum íslenskum eldfjöllum að því leyti að kvikuhólf hennar er mun dýpra en í öðrum fjöllum landsins, eða á um 11 km dýpi í jarðskorpunni.

Það var draumur að komast loksins á Heklu í dag. Við þurftum reyndar svolítið að hafa fyrir því að keyra að fjallinu, þó við værum á fjallabílnum hans Guðmundar Smára.

Þar sem það var MJÖG mikið rok á fjallinu og frekar lágskýjað reyndar bara yfir toppnum, þá fórum við ekki alla leið í dag.
Því er klárlega ástæða til að koma aftur seinna í sumar, enda var frábært að skíða niður þetta stórkostlega fjall sem Heklan er.

You may also like

Leave a Comment