Dagur 9: Hvanngil – Hjörleifshöfði

by Halldóra

Plan A Hjörleifshöfði: 90 km, hækkun +293 m, lækkun -854 m
Plan B Landeyjarhöfn: 71 km, hækkun +428 m, lækkun -928 m
Ákveðið var að kvöldi dags 8 að fara plan A, sem var að klára við Hjörleifshöfða.
RAUN: 95 km og 450 metra hækkun.

Við vöknuðum eins og alltaf klukkan 8, morgunmatur og svo var brottför klukkan 10:00. Við Óli sváfum í tjaldinu við hesthúsið í Hvanngili og ég svaf mun betur í nótt en síðustu nótt, þar sem það var minni rigning og því lak minna á okkur, dropaði aðeins á andlitið þegar ég fór að sofa, en svo stytti upp og ég svaf eins og engill. Hins vegar vaknaði ég aftur annan morguninn í röð, mjög bjúguð til augnanna, sem er örugglega bara þreyta eftir 8 daga hjólatúr, en ákvað að taka mynd af mér núna sem klárlega sýnir að það er álag á líkamann að hjóla svona mikið á hverjum degi í marga daga 🙂

Við vorum tilbúin til brottfarar klukkan 10:00. Bæði tjaldbúðarhópurinn sem og skálafólkið. Þar sem vetrar-fjallahjólaskórnir mínir voru orðnir mjög blautir og þungir og það áttu ekki að vera mörg vöð að vaða yfir þennan daginn, þá ákvað ég að vígja nýju Bontrager skóna mína, sem voru alveg frábærir. Sá mest eftir að hafa ekki notað þá fyrr, því þeir losa svo vel vatnið úr skónum í staðinn fyrir að halda því inni og þyngja skóinn eins og vetrarskórnir gera.

Framundan var 25 km hjól á Mælifellssandi, sem var alveg töff. Ég leiddi aftasta hópinn fyrstu 10 km og það var smá vindur á móti. Við vorum samt ótrúlega heppin með veður, því það hafði rignt mikið á sandinum í gær, svo hann var frekar þéttur og líka gott að þurfa ekki að vera að hjóla hann í rigningunni. Mælifellið er mjög fallegt og það er einstök tilfinning að hjóla á svona fallegri leið á sandinum og horfa á Mýrdalsjökul á leiðinni.

Svo tók við um 25 km kafli á mjög grýttum stíg, þar sem Leifur og Hilmar vöruðu okkur sérstaklega, þar sem það er mjög auðvelt að detta af hjólinu og lenda á stórgrjóti sem var þar allt í kring. Við vorum því beðin um að fara sérstaklega varlega á þeim hluta.

Við áðum eftir sandinn þ.e. 25 km og svo aftur eftir grýtta hlutann, þ.e. við Hólmsárfoss. Eftir það kom ágætis kafli, sem var auðveldara að hjóla en ein erfið brekka. Svo kom nokkuð þægilegur vegur að Þjóðvegi 1, en þá voru framundan 25 km á malbiki og um 5 km kafli niður að sjó, hjá Hjörleifshöfða.

Það var gott að hvíla sig aðeins fyrir malbikskaflann, taka inn orku, drekka og pumpa aðeins meira lofti í dekkinn. Hópnum var svo skipt upp í tvo hópa, hraðari og hægari og um 10 hjólarar í hvorum hóp. Ég var í hægari hópnum og þurfti Sigrún einu sinni að stoppa okkur til að samstilla hópinn, allir áttu að hjóla á hvítu línunni, en það var mikill mótvindur, þ.e. að suðvestan. Eftir stoppið gekk þetta vel, en það voru Sædís, Jónsi og Gummi sem skiptust á að leiða hópinn og Hilmar var aftast, með blikkandi ljós á bæði bakpokanum og hjólinu. Ég var búin að koma af mér bakpokanum í bílinn til Óla, sem ég var búin að bera allan daginn og auðvitað meira og minna alla níu dagana. En í honum var alltaf úlpa ,til að fara í, þegar við stoppum, auka drykkjarbrúsi með orku, nestið sem var smurt fyrir daginn, gel, súkkulaði og Haribo hlaup og flugnanetið var líka ómissandi. Svo voru yfirleitt alltaf auka peysur og buff komið í bakpokann þar sem ég fór yfirleitt allt of mikið klædd af stað 🙂

Það dugði flesta dagana að vera bara í brynjunni góðu utan yfir vind-stuttermabolinn „hjóla“ sem ég keypti á Tenerife fyrir nokkrum árum, algjör snilld.

Komin á Þjóðveg 1 – við salernisaðstöðu og nokkurs konar biðskýli. Með Sædísi ofurfjallahjólara.

Malbikskaflinn gekk eftir þetta eina stopp mjög vel. Þegar við vorum komin að afleggjaranum að Hjörleifshöfða, hitti ég Óla sem var loksins kominn á sitt hjól, en hann hafði keyrt niður eftir og hjólað upp að afleggjara. Það var mjög mikil stemning að hjóla niður eftir og þegar við komum að höfðanum þá bættust fleirir hjólarar í hópinn og það var stór hópur sem hjólaði niður á strönd. Það var erfitt að hjóla í sandinum eins og áður, þar sem ég spólaði svolítið í mjúka sandinum á of mjóum dekkjum.

Það var stórkostleg STUND að setja svo framhjólið í sjóinn, suðurstrandarmegin og hugsa til sunnudagsins fyrir rúmri vikusíðan, þegar við settum afturdekkið í sjóinn á norðurlandi. Algjörlega mögnuð stund og margir sem fengu gæsahúð og tár í hvarma á þessum tímapunkti.

Dekkið komið í sjóinn suðurstradnarmegin.
Mögnuð tilfinning að klára eftir 9 daga hjólatúr.

Ég er einstaklega þakklát að hafa fengið að vera þátttakandi í þessu frábæra ferðalagi. Því það er ferðalagið allt frá A-Ö sem var algjörlega magnað og vel heppnað. Frábær félagsskapur, frábært skipulag, það gekk allt upp. Maturinn var góður alla dagana, aðstaðan fín og bara allir svo jákvæðir og skemmtilegir í þessum yndislega hóp. Ég var líka ótrúlega glöð að frábæra TREK SUPERFLY hjólið mitt stóð sig alla leið á þessu erfiða undirlagi, það bilaði aldrei og sprakk ekki einu sinni á því. AUðvitað þurfti maður að þrífa sand og smyrja keðju á hverjum degi því oft var erfitt að skipta á milli stóra og litla tannhjólsins að framan út af sandi og drullu. En wow hvað ég elska hjólið mitt. Ég var líka mjög ánægð með brynjuna sem ég fékk í afmælisgjöf og notaði allan tímann og fínu fjallahjólafötin sem Óli gaf mér í afmælisgjöf voru ofboðslega þægileg.

Takk kæru vinir sem skipulögðu ferðina, takk kæru leiðsögumenn, Leifur og Hilmar, takk allir Ísbirnir fyrir frábæra samveru allan tímann. Takk elsku Óli fyrir að koma með mér norður og vera með í byrjun og koma svo aftur og taka þátt í trússinu á suðurlandinu og fyrir alla aðstoðina við undirbúninginn.

Frábær félagsskapur Ísbjarna.

Að þvera Ísland á fjallahjóli á 9 dögum, hjóla samtas 568 km með 6.250 metra hækkun, á 59 klst og 59 mín. sem eru rúmir 2 sólarhringar eða 2 sólarhringar og 11 klst og 50 mín.

Dagur 9: Hvanngil – Hjörleifshöfði – 95 km 450 metra hækkun.
Leiðin sem Ísbirnir hjóluðu frá fjöru til fjöru – frá norðri til suðurs.

You may also like

Leave a Comment