Planið: 52 km, hækkun +900 m, lækkun -940 m
Rauntölur: 52 km – 1.071 m hækkun
Við Óli sváfum í North Face 4 árstíða tjaldinu okkar við Landamannahelli. Við notuðum þetta tjald í tveggja vikna ferðalaginu okkar í sumar í mjög góðu veðri uppá hvern einasta dag. Í nótt rigndi MJÖG MIKIÐ og því miður þá hélt tjaldið ekki vatni, það lak á nokkrum stöðun inn í það á saumunum. Við vorum því bæði að vakna við það að fá dropa í andlitið, svo við sváfum ekki mjög vel þessa nóttina. Fengum síðar upplýsingar hjá Leif að það er til efni sem á að bera á saumana, innanfrá á ytra tjaldið, sem við höfum aldrei gert. Leifur segir þetta tjald annars eitt besta tjald sem framleitt hefur verið.
Hefðbundin ræsing klukkan 08:00, morgunmatur og svo brottför klukkan 10:00. Borðaði hafragraut eins og venjulega, en mikið var gott að fá ferskt epli og bláber ofan á grautinn.
Eins og kom fram í pistli gærdagsins þá fóru Gísli og Leifur fóru með bílinn hans Gísla um 30 km af leiðinni í gærkvöldi fyrir matinn og gerðu könnunarleiðangur, hvora leiðina við ættum að fara. Niðurstaðan varð sú að fara Pokahryggsleiðina.
Við hjóluðum frá Landmannahelli til baka og um fjallveginn sem liggur um og yfir Pokahrygg, niður í Reykjadali og hálfhring í kringum Laufafell áður en við komum að Fjallabaksleið syðri þar sem við komum niður að Álftavatni og svo áfram alla leið inn í Hvanngil. Við fórum nokkrum sinnum yfir kvíslar Markarfljótsins og meðal annars hjóluðum eftir farvegi Laufalæks.
Leiðin er mjög krefjandi, það voru nokkrar mjög brattar brekkur, svo brattar að sterkustu hjólarar gátu ekki hjólað þær upp, þar sem þær voru bæði mjög brattar og undirlagið, þ.e. sandurinn mjúkur. Þegar búið var að fara yfir bröttustu brekkurnar þá fengum við verðlaunin sem var guðdómlegt útsýni yfir Reykjadalinn. Útsýni yfir Hrafntinnuskerið, þar sem við stoppuðum í nestispásu. Af mörgum stórglæsilegum nestis-stoppistöðum þá held ég að þetta hafi toppað öll önnur stopp. (Hér að neðan er smá saga um Pokahryggi),
Annar kostur við brattar og langar brekkur er að svo kemur niðurkafli og það var gaman að taka smá „downhill“ eftir nestisstoppið. Svo var ekki leiðinlegt að þvera Markarfljótið nokkrum sinnum. Í fyrsta skipti við upptökin, þ.e. við Hrafntinnuhraunið og svo nokkrum sinnum á leið okkar að Álftavatni.
Óli fór ekki alveg sömu leið á bílnum, þ.e. ekki upp þessa bröttu leið, en mér skilst að Pokahryggsleiðin sé oft farin af trússurum, sem eru að trússa fyrir göngufólk. Við hittum sem sagt Óla og aðra bílstjóra á barnum við Álftavatn, þar sem sumir fengu sér bjór en aðrir kaffi, áður en haldið var áfram að Hvanngili.
Það var mjög gaman að koma að Álftavatni, reyndar frá annarri leið, en hefðbundna „Laugavegsleiðin“ en eftir Álftavatn, fórum við leiðina sem ég þekki vel úr Laugavatnshlaupinu að Hvanngili.
Þegar við komum í Hvanngil þá aðstoðaði ég Sigrúnu við súpugerð og svo ferjuðum við súpupottana í Hesthúsið, þar sem Óli var búin að tjalda, tjaldinu okkar. Hittum Gunna Óla (Náttúruhlaupa leiðtoga) á tjaldstæðinu og Bryndísi systur hans og Sævar í Bændaferðum, en þau voru á sama tjaldstæði.
Á efri hæðinni í skálanum í Hvanngili voru hestamenn, sem voru á sömu leið og við daginn eftir. Systurnar Sara og Sólveig og þeirra fjölskyldur voru svo með kvöldmáltíð dagsins, hamborgara og meðlæti sem Óli hafði komið með úr bænum. Mjög góðir grillaðir borgarar og út af rigningu var gott að Óli og Óli Már voru með gasgrill, svo það einfaldaði grillun. Um kvöldið var svo dansað og sungið í risinu á hesthúsinu, enda „aðalkvöldið“ eins og reyndar öll kvöldin.
En það er alltaf stuð og gleði þar sem Ísbirnir koma saman og mikið sungið og dansað, enda útbúinn sérstakur Ísbjarnalisti á Spotify fyrir ferðina.
VI. Efnistaka á Hrafntinnuhrygg
Í júlí 1941 berst Kristjáni í Vogum pöntun á bílfarmi af hrafntinnu, sem hann skyldi afla á Hrafntinnuhrygg, sem liggur miðja vegu milli Kröflu og Jörundar. Þar sem Þ-11, hinn glænýi Ford-vörubíll, var bíla öflugastur í Mývatnssveit, þá réðumst við Hallgrímur Þórhallsson (1914-1982) bróðir Kristjáns til þessarar farar með honum. Þannig er Hrafntinnuhrygg lýst í Landið þitt Ísland: „Brattur fjallshryggur, 685 m.y.s. á Mývatnsöræfum austur og suðaustur af Kröflu. Efst í honum kemur fram gangur úr hrafntinnu, en hrafntinnumolar og brot finnast hvarvetna í grenndinni. Óvíða eða hvergi á landinu er eins fögur hrafntinna og hér. Hrafntinnuhryggur er að mestu leyti úr hrafntinnu og er talið að hann hafi orðið til við gos undir jökli.“ Pöntun þessi var frá byggingarmeistara á Akureyri og ætluð í húsbyggingu þar, áferð skyldi vera svipuð og á Þjóðleikhúsinu í Reykjavík. Þannig er hrafntinnu lýst í Íslensku alfræðiorðabókinni: „Hrafntinna, svart, glerkennt afbrigði af líparíti, stökkt og brotnar líkt og tinnusteinn, myndað við hraða kólnun hraunkviku, t.d. við gos undir jökli.“ Við höfðum meðferðis mikið af strigapokum og gengum nú upp eftir hryggnum og hófum að fylla pokana. Nokkra klukkutíma tók það okkur að ná fullfermi á bílinn, en ég fullyrði, að þetta er versta vinna, sem ég hefi nokkurn tíma stundað. Að ganga niður fjallshrygg með fullan poka af hrafntinnu, þar sem hver þynna skar sig inn í bakið á mér, þannig að ég hálfhljóp undan pokanum mest af leiðinni niður að bílnum. Loks var fullfermi komið á Þ-11 og við hugðumst leggja af stað heim að Vogum.
En þá kom babb í bátinn, bíllinn var orðinn svo þungur, að hann stóð fastur í sandinum: „Þetta er eins og ægisandur,“ man ég eftir að Hallgrímur mælti. Eigi man ég gerla, hvort við urðum að létta einhverjum pokum af bílnum og bera þá síðan á hann, þar sem fastara var undir, en alla vega komumst við í Voga undir kvöld og fór Kristján með farminn til Akureyrar daginn eftir. Örugglega prýðir hrafntinnan erfiða einhver hús á Akureyri ennþá, en hvaða hús? Glögga menn fyrir norðan bið ég nú að senda mér línu um þetta mál, þótt „aðeins“ 60 ár séu nú liðin frá þessum flutningum. Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson komu í Mývatnssveit árið 1752 og skoðuðu nágrenni sveitarinnar, einkum brennisteinsnámurnar og umhverfi Kröflu. Fyrst rannsökuðu þeir brennisteininn í Hlíðarnámum og fóru síðan á Hrafntinnuhrygg. Þeir segja að hrafntinnan sé í þremur lögum efst í hryggnum, og sé miðlagið best og um alin á þykkt (63 cm). Af hrafntinnunni sendu þeir tvö stykki til Kaupmannahafnar og vógu þau 103 og 93 pund (51,5 kg og 46,5 kg).
Sumir hafa talið, að hrafntinnan utan á Þjóðleikhúsinu sé úr Hrafntinnuhrygg á Mývatnsöræfum, en svo mun ekki vera. Húsið er pússað með blöndu úr kvartsi og hrafntinnu og mun hrafntinnan vera úr Hrafntinnuhrauni á Landmannaafrétt í Rangárvallasýslu. (Landið þitt Ísland, H-K, bls. 122-3.)
HEIMILD: https://www.mbl.is/greinasafn/grein/652842/