Frábæru ferðlagi með Víkingasveitinni 2020 er nú formlega lokið.
Þegar Einar Bárða auglýsti Járnvíkinginn og Víkingasveitina snemma á þessu ári, þá hugsaði ég strax þetta er eitthvað sem mig langar til að klára, þar sem ég er búin að klára Landvættinn og Sænska klassíkerinn sem eru svona íþrótta-seríur. Hins vegar var köttur í bóli bjarnar, þar sem ég var skráð í UTMB hlaupið í Chamonix sömu helgina í september og Eldslóðarhlaupið átti að fara fram, svo ég sá því miður ekki fram á að geta klárað hvorki Járnvíking né Víkingasveitina að þessu sinni, þar sem þú verður að klára allar fjórar þrautirnar á einu ári (tvö utanvegahlaup, ein fjallahjólakeppni og ein götuhjólakeppni).
Þann 20. maí var svo orðið ljóst að UTMB yrði ekki haldið í ár. Ég ákvað samt að vera bara með í Hengils hlaupinu (6. júní), þ.e. skrá mig í 25 km, sem var þá ágæt æfing fyrir Laugavegshlaupið.
Þegar Gullhringurinn var haldinn, laugardaginn 11.júlí var ég ekki bókuð fyrir utan hefðbundna Laugavegs-hlaupaæfingu sem ég kláraði um morguninn. Skellti mér svo í Silfurhringinn á Laugavatni seinnipartinn með Rúnu Rut vinkonu sem var að fara Gullhringinn og þá var ég búin með 2 þrautir af 4 í Víkingasveitinni. Var því orðin frekar spennt að klára allar fjórar þrautirnar.
Hins vegar þurfti Einar að fresta bæði Landsnets fjallahjóli og Eldslóðinni trail-hlaupi út af Covid-19, sem að endingu voru svo haldin þessa helgi.
Ég er ótrúlega glöð og þakklát að hafa fengið að taka þátt í þessum 4 skemmtilegu þrautum í frábærum félagsskap fjölskyldu og yndislegra vina. Út af Covid-19 þá var alls ekki sjálfsagt að maður gæti verið með, þar sem maður getur dottið í sóttkví eða einangrun hvenær sem er. Svo þarf maður líka að hafa góða heilsu til að geta tekið þátt og klárað og það er heldur ekki sjálfsagt
Runa Rut Ragnarsdottir vinkona var að klára Járn-víkinginn í dag og er eina konan sem kláraði þá fjórþraut, sem felur í sér lengri vegalengdir í Henglinum, Landsneti MTB og KIA gullhringnum. Ég óska henni innilega til hamingju með þann frábæra árangur, er súper stolt af henni, en við höfum tekið þátt í mörgum skemmtilegum keppnum saman.
Það voru 16 Víkinga sem fóru formlega í Víkingasveitina í dag eftir að hafa klárað Eldslóðina í dag.
Daglegt líf
Tók þátt í 28,5 km utanvegahlaupi, Eldslóðinni 2020 í Heiðmörk í dag í mjög krefjandi aðstæðum að því leiti að það var mikil rignin og mikil drulla á stígunum, sem voru því mjög hálir.
Hlaupið var ræst klukkan 12:00. Ákvað að fara mjög vel klædd, í vetrar Fusion buxunum mínum, í gömlu HOKA Speedgoat skónum sem ég er búin að hlaupa í allt sumar og fara Laugaveginn á (var ekki búin að hlaupa nýju skóna til, svo ég gat ekki farið á þeim), var svo í Grettispeysunni minni, í Salomon jakkanum og með vesti (1.2 l af vökva og 5 gel og 2 pakka af GU gúmmí). Var svo bara með eyrnband og sólgleraugu, sem fóru reyndar snemma í bakpokann.
Ræsti út í 2 hóp með Betu og Rúnu Rut vinkonu. Þær ásamt SprengjuKötu og Millu fóru eftir um 2 km fram úr mér og ég ákvað að slaka aðeins á, fór aðeins of hratt af stað. Hlaupið var ræst við Vífilsstaðavatn og það byrjaði á að hlaupa „inn með vatninu“ og þaðan upp mjóan, þröngan og grýttan og drullugan stíg uppá línuveg og svo þaðan að útsýnispallinum. Frá útsýnispallinum er skemmtilegur stígur aftur niður á línuvegl og þegar maður var búin að hlaupa hann niður, tóku VÍKINGAR úr Hafnarfirði á móti manni. Þar var líka fyrsta drykkjarstöð, en þar sem ég var með nóg af orku á mér, þá stoppaði ég ekki þar.
Hélt bara áfram stíginn í átt að Búrfellsgjánni, svo er farið niður tröppurnar og góði, nýi stígurinn að Búrfelli hlaupinn og uppá Búrfellsgjána. Þaðan var svo búið að breyta leiðinni, fórum beint niður þar, þ.e. sunnan megin og einhvern stíg þaðan í átt að Helgafelli sem ég hafði ekki farið áður og á stundum var maður eiginlega ekki á stig. Kom svo að næstu drykkjarstöð þar sem Börkur Brynjarsson, var að skanna númerin okkar. Þurfti ekki heldur að bæta á mig orku þar, enda ennþá með nóg að bíta og brenna 🙂
Hélt svo áfram og stuttu seinna kom Snorri Björnsson á mikilli ferð fram úr mér og ég velti fyrir mér hvert er hann að fara, því ég hélt við ættum að fara sömu leið til baka, en hann var eiginlega að fara annan hring í kringum fjallið, eða ætlaði sér gömlu leiðina til baka, veit það ekki. En hann hljóp eins og hann væri á sprettæfingu, ekki í 28 km utanvegahlaupi.
Ég hélt áfram hringinn í kringum Helgafellið, sá svolítið eftir því að hafa ekki tekið með mér headset eða airpods, gleymdi þeim heima í hleðslu, þar sem ég var mikið að hlaupa ein. Svo reyndar náði ég Nonna vini hans Bertels og hljóp og spjallaði við hann, restina af Helgafells hringnum, en hann var líka að stefna að því að klára Víkingamótaröðina. Við drykkjarstöðina, þ.e. komin hringinn, þá náði ég Rúnu Rut, þar sem hún var að fylla á brúsa, en ég þurfti ekkert að stoppa (ennþá með nóg á mér) svo ég hljóp bara áfram, svo náði RRR mér og við hlupum saman inn að Búrfellsgjá. Þegar við vorum komnar þar niður, var RRR hressari en ég og ákvað að gefa í, svo ég hélt bara áfram á mínum pace-i ca í kringum 6 – 6:10 og leið bara vel.
Rétt áður en ég kom að bröttu brekkunni í Vífilsstaðahlíð, þar sem Víkingarnir voru þá var verið að spila Vangelis „Conquest of Paradise“ sem er lagið sem er spilað í ræsingunni í UTMB, ákkúrat hlaupinu sem ég átti að vera að keppa í, fyrstu helgina í september, þegar Eldslóðin átti að fara fram. Smá gæsahúðarmóment þar. Stoppaði samt ekkert á drykkjarstöðinni, og labbaði bara rólega upp brekkuna, notaði hana til að taka inn síðasta gelið og drekka restina af Powerade úr brúsanum mínum. En ég var með einn brúsa af UCAN orku, sem mér finnst æðisleg og svo einn af Powerade.
Eftir brekkuna, var bara að klára stíginn að útsýnispallinum og svo reyndar þröngan stíg og línuveg, áður en við komum að síðustu brekkunni niður. Hún var MJÖG SLEIP, drullu og stórhættuleg. Ég var næstum því tvisvar dottin á hausinn sem bjargaðist rétt fyrir horn.
Hljóp svo stíginn í mark, þar sem Óli tók á móti mér og ég að sjálfsögðu tók Haddýjar hoppið í markinu.
Var mjög glöð þegar ég komst að því að ég var í 3 sæti í aldursflokki (af 8 konum) á eftir Þórdísi og Brynju og varð 13 kona overall af 38 konum sem tóku þátt. Tíminn var 03:10.50 sem í raun var miklu betri tími en ég átti von á.
Siggi kom með þá hugmund fyrir nokkrum mánuðum að BHUTAN hópurinn myndi fara saman í helgarferð í Fljótin, i fjallahlaupaferð, fjallahjólaferð og yoga með Helgu Maríu og Íslandsferðum.
Úr varð að úr Bhutan hópnum, fóru Siggi, Stetán Bragi, Bekka og ég ásamt mökum. Svo fóru Sævar og Sía vinir Sigga líka og í hópnum var Rúna Rut og Sigga Sara. Svo var eitt utanaðkomandi plan einnig þar.
Við Óli náðum ekki að keyra úr bænum fyrr en um fjögur leytið, svo við misstum af fyrsta yoga tímanum, en vorum mjög glöð að ná kvöldmatnum á Sótis lodge, það var þríréttuð kvöldmáltið, salat, lambafile og búðingur í desert.
Um kvöldið var svo farið yfir plan morgundagsins. Gaman að hitta
Hér að neðan er að finna samsett „Relive“ myndband af Ísbjarnarferðinni – Úr fjöru til fjöru 2020, þar sem við þveruðum Ísland á fjallahjólum, frá norðri til suðurs, yfir hálendið. Eins og sjá má á yfirlitinu, þá voru þetta 569 km og 7.312 m hækkun. Nákvæmar upplýsingar úr GPS tæki frá Hilmari er að finna hér að neðan.
Dagur | Km | Tími | Hækkun í metrum | Lækkun í metrum | Hæst í metrum |
1 | 47.2 | 5:00:15 | 604 | 258 | 363 |
2 | 60.5 | 7:55:50 | 767 | 812 | 597 |
3 | 66.6 | 7:35:51 | 582 | 214 | 650 |
4 | 72.2 | 9:33:21 | 911 | 640 | 1156 |
5 | 37.6 | 5:03:23 | 366 | 498 | 912 |
6 | 55.7 | 4:04:33 | 653 | 849 | 820 |
7 | 79.8 | 6:11:30 | 892 | 908 | 647 |
8 | 50.3 | 6:55:53 | 1017 | 1072 | 964 |
9 | 94.6 | 7:30:04 | 451 | 1011 | 611 |
564.5 | 59:50:40 | 6243 | 6262 | 6720 | |
2d 11t 50mín |
Plan A Hjörleifshöfði: 90 km, hækkun +293 m, lækkun -854 m
Plan B Landeyjarhöfn: 71 km, hækkun +428 m, lækkun -928 m
Ákveðið var að kvöldi dags 8 að fara plan A, sem var að klára við Hjörleifshöfða.
RAUN: 95 km og 450 metra hækkun.
Við vöknuðum eins og alltaf klukkan 8, morgunmatur og svo var brottför klukkan 10:00. Við Óli sváfum í tjaldinu við hesthúsið í Hvanngili og ég svaf mun betur í nótt en síðustu nótt, þar sem það var minni rigning og því lak minna á okkur, dropaði aðeins á andlitið þegar ég fór að sofa, en svo stytti upp og ég svaf eins og engill. Hins vegar vaknaði ég aftur annan morguninn í röð, mjög bjúguð til augnanna, sem er örugglega bara þreyta eftir 8 daga hjólatúr, en ákvað að taka mynd af mér núna sem klárlega sýnir að það er álag á líkamann að hjóla svona mikið á hverjum degi í marga daga 🙂
Við vorum tilbúin til brottfarar klukkan 10:00. Bæði tjaldbúðarhópurinn sem og skálafólkið. Þar sem vetrar-fjallahjólaskórnir mínir voru orðnir mjög blautir og þungir og það áttu ekki að vera mörg vöð að vaða yfir þennan daginn, þá ákvað ég að vígja nýju Bontrager skóna mína, sem voru alveg frábærir. Sá mest eftir að hafa ekki notað þá fyrr, því þeir losa svo vel vatnið úr skónum í staðinn fyrir að halda því inni og þyngja skóinn eins og vetrarskórnir gera.
Framundan var 25 km hjól á Mælifellssandi, sem var alveg töff. Ég leiddi aftasta hópinn fyrstu 10 km og það var smá vindur á móti. Við vorum samt ótrúlega heppin með veður, því það hafði rignt mikið á sandinum í gær, svo hann var frekar þéttur og líka gott að þurfa ekki að vera að hjóla hann í rigningunni. Mælifellið er mjög fallegt og það er einstök tilfinning að hjóla á svona fallegri leið á sandinum og horfa á Mýrdalsjökul á leiðinni.
Svo tók við um 25 km kafli á mjög grýttum stíg, þar sem Leifur og Hilmar vöruðu okkur sérstaklega, þar sem það er mjög auðvelt að detta af hjólinu og lenda á stórgrjóti sem var þar allt í kring. Við vorum því beðin um að fara sérstaklega varlega á þeim hluta.
Við áðum eftir sandinn þ.e. 25 km og svo aftur eftir grýtta hlutann, þ.e. við Hólmsárfoss. Eftir það kom ágætis kafli, sem var auðveldara að hjóla en ein erfið brekka. Svo kom nokkuð þægilegur vegur að Þjóðvegi 1, en þá voru framundan 25 km á malbiki og um 5 km kafli niður að sjó, hjá Hjörleifshöfða.
Það var gott að hvíla sig aðeins fyrir malbikskaflann, taka inn orku, drekka og pumpa aðeins meira lofti í dekkinn. Hópnum var svo skipt upp í tvo hópa, hraðari og hægari og um 10 hjólarar í hvorum hóp. Ég var í hægari hópnum og þurfti Sigrún einu sinni að stoppa okkur til að samstilla hópinn, allir áttu að hjóla á hvítu línunni, en það var mikill mótvindur, þ.e. að suðvestan. Eftir stoppið gekk þetta vel, en það voru Sædís, Jónsi og Gummi sem skiptust á að leiða hópinn og Hilmar var aftast, með blikkandi ljós á bæði bakpokanum og hjólinu. Ég var búin að koma af mér bakpokanum í bílinn til Óla, sem ég var búin að bera allan daginn og auðvitað meira og minna alla níu dagana. En í honum var alltaf úlpa ,til að fara í, þegar við stoppum, auka drykkjarbrúsi með orku, nestið sem var smurt fyrir daginn, gel, súkkulaði og Haribo hlaup og flugnanetið var líka ómissandi. Svo voru yfirleitt alltaf auka peysur og buff komið í bakpokann þar sem ég fór yfirleitt allt of mikið klædd af stað 🙂
Það dugði flesta dagana að vera bara í brynjunni góðu utan yfir vind-stuttermabolinn „hjóla“ sem ég keypti á Tenerife fyrir nokkrum árum, algjör snilld.
Malbikskaflinn gekk eftir þetta eina stopp mjög vel. Þegar við vorum komin að afleggjaranum að Hjörleifshöfða, hitti ég Óla sem var loksins kominn á sitt hjól, en hann hafði keyrt niður eftir og hjólað upp að afleggjara. Það var mjög mikil stemning að hjóla niður eftir og þegar við komum að höfðanum þá bættust fleirir hjólarar í hópinn og það var stór hópur sem hjólaði niður á strönd. Það var erfitt að hjóla í sandinum eins og áður, þar sem ég spólaði svolítið í mjúka sandinum á of mjóum dekkjum.
Það var stórkostleg STUND að setja svo framhjólið í sjóinn, suðurstrandarmegin og hugsa til sunnudagsins fyrir rúmri vikusíðan, þegar við settum afturdekkið í sjóinn á norðurlandi. Algjörlega mögnuð stund og margir sem fengu gæsahúð og tár í hvarma á þessum tímapunkti.
Ég er einstaklega þakklát að hafa fengið að vera þátttakandi í þessu frábæra ferðalagi. Því það er ferðalagið allt frá A-Ö sem var algjörlega magnað og vel heppnað. Frábær félagsskapur, frábært skipulag, það gekk allt upp. Maturinn var góður alla dagana, aðstaðan fín og bara allir svo jákvæðir og skemmtilegir í þessum yndislega hóp. Ég var líka ótrúlega glöð að frábæra TREK SUPERFLY hjólið mitt stóð sig alla leið á þessu erfiða undirlagi, það bilaði aldrei og sprakk ekki einu sinni á því. AUðvitað þurfti maður að þrífa sand og smyrja keðju á hverjum degi því oft var erfitt að skipta á milli stóra og litla tannhjólsins að framan út af sandi og drullu. En wow hvað ég elska hjólið mitt. Ég var líka mjög ánægð með brynjuna sem ég fékk í afmælisgjöf og notaði allan tímann og fínu fjallahjólafötin sem Óli gaf mér í afmælisgjöf voru ofboðslega þægileg.
Takk kæru vinir sem skipulögðu ferðina, takk kæru leiðsögumenn, Leifur og Hilmar, takk allir Ísbirnir fyrir frábæra samveru allan tímann. Takk elsku Óli fyrir að koma með mér norður og vera með í byrjun og koma svo aftur og taka þátt í trússinu á suðurlandinu og fyrir alla aðstoðina við undirbúninginn.
Að þvera Ísland á fjallahjóli á 9 dögum, hjóla samtas 568 km með 6.250 metra hækkun, á 59 klst og 59 mín. sem eru rúmir 2 sólarhringar eða 2 sólarhringar og 11 klst og 50 mín.
Planið: 52 km, hækkun +900 m, lækkun -940 m
Rauntölur: 52 km – 1.071 m hækkun
Við Óli sváfum í North Face 4 árstíða tjaldinu okkar við Landamannahelli. Við notuðum þetta tjald í tveggja vikna ferðalaginu okkar í sumar í mjög góðu veðri uppá hvern einasta dag. Í nótt rigndi MJÖG MIKIÐ og því miður þá hélt tjaldið ekki vatni, það lak á nokkrum stöðun inn í það á saumunum. Við vorum því bæði að vakna við það að fá dropa í andlitið, svo við sváfum ekki mjög vel þessa nóttina. Fengum síðar upplýsingar hjá Leif að það er til efni sem á að bera á saumana, innanfrá á ytra tjaldið, sem við höfum aldrei gert. Leifur segir þetta tjald annars eitt besta tjald sem framleitt hefur verið.
Hefðbundin ræsing klukkan 08:00, morgunmatur og svo brottför klukkan 10:00. Borðaði hafragraut eins og venjulega, en mikið var gott að fá ferskt epli og bláber ofan á grautinn.
Eins og kom fram í pistli gærdagsins þá fóru Gísli og Leifur fóru með bílinn hans Gísla um 30 km af leiðinni í gærkvöldi fyrir matinn og gerðu könnunarleiðangur, hvora leiðina við ættum að fara. Niðurstaðan varð sú að fara Pokahryggsleiðina.
Við hjóluðum frá Landmannahelli til baka og um fjallveginn sem liggur um og yfir Pokahrygg, niður í Reykjadali og hálfhring í kringum Laufafell áður en við komum að Fjallabaksleið syðri þar sem við komum niður að Álftavatni og svo áfram alla leið inn í Hvanngil. Við fórum nokkrum sinnum yfir kvíslar Markarfljótsins og meðal annars hjóluðum eftir farvegi Laufalæks.
Leiðin er mjög krefjandi, það voru nokkrar mjög brattar brekkur, svo brattar að sterkustu hjólarar gátu ekki hjólað þær upp, þar sem þær voru bæði mjög brattar og undirlagið, þ.e. sandurinn mjúkur. Þegar búið var að fara yfir bröttustu brekkurnar þá fengum við verðlaunin sem var guðdómlegt útsýni yfir Reykjadalinn. Útsýni yfir Hrafntinnuskerið, þar sem við stoppuðum í nestispásu. Af mörgum stórglæsilegum nestis-stoppistöðum þá held ég að þetta hafi toppað öll önnur stopp. (Hér að neðan er smá saga um Pokahryggi),
Annar kostur við brattar og langar brekkur er að svo kemur niðurkafli og það var gaman að taka smá „downhill“ eftir nestisstoppið. Svo var ekki leiðinlegt að þvera Markarfljótið nokkrum sinnum. Í fyrsta skipti við upptökin, þ.e. við Hrafntinnuhraunið og svo nokkrum sinnum á leið okkar að Álftavatni.
Óli fór ekki alveg sömu leið á bílnum, þ.e. ekki upp þessa bröttu leið, en mér skilst að Pokahryggsleiðin sé oft farin af trússurum, sem eru að trússa fyrir göngufólk. Við hittum sem sagt Óla og aðra bílstjóra á barnum við Álftavatn, þar sem sumir fengu sér bjór en aðrir kaffi, áður en haldið var áfram að Hvanngili.
Það var mjög gaman að koma að Álftavatni, reyndar frá annarri leið, en hefðbundna „Laugavegsleiðin“ en eftir Álftavatn, fórum við leiðina sem ég þekki vel úr Laugavatnshlaupinu að Hvanngili.
Þegar við komum í Hvanngil þá aðstoðaði ég Sigrúnu við súpugerð og svo ferjuðum við súpupottana í Hesthúsið, þar sem Óli var búin að tjalda, tjaldinu okkar. Hittum Gunna Óla (Náttúruhlaupa leiðtoga) á tjaldstæðinu og Bryndísi systur hans og Sævar í Bændaferðum, en þau voru á sama tjaldstæði.
Á efri hæðinni í skálanum í Hvanngili voru hestamenn, sem voru á sömu leið og við daginn eftir. Systurnar Sara og Sólveig og þeirra fjölskyldur voru svo með kvöldmáltíð dagsins, hamborgara og meðlæti sem Óli hafði komið með úr bænum. Mjög góðir grillaðir borgarar og út af rigningu var gott að Óli og Óli Már voru með gasgrill, svo það einfaldaði grillun. Um kvöldið var svo dansað og sungið í risinu á hesthúsinu, enda „aðalkvöldið“ eins og reyndar öll kvöldin.
En það er alltaf stuð og gleði þar sem Ísbirnir koma saman og mikið sungið og dansað, enda útbúinn sérstakur Ísbjarnalisti á Spotify fyrir ferðina.
VI. Efnistaka á Hrafntinnuhrygg
Í júlí 1941 berst Kristjáni í Vogum pöntun á bílfarmi af hrafntinnu, sem hann skyldi afla á Hrafntinnuhrygg, sem liggur miðja vegu milli Kröflu og Jörundar. Þar sem Þ-11, hinn glænýi Ford-vörubíll, var bíla öflugastur í Mývatnssveit, þá réðumst við Hallgrímur Þórhallsson (1914-1982) bróðir Kristjáns til þessarar farar með honum. Þannig er Hrafntinnuhrygg lýst í Landið þitt Ísland: „Brattur fjallshryggur, 685 m.y.s. á Mývatnsöræfum austur og suðaustur af Kröflu. Efst í honum kemur fram gangur úr hrafntinnu, en hrafntinnumolar og brot finnast hvarvetna í grenndinni. Óvíða eða hvergi á landinu er eins fögur hrafntinna og hér. Hrafntinnuhryggur er að mestu leyti úr hrafntinnu og er talið að hann hafi orðið til við gos undir jökli.“ Pöntun þessi var frá byggingarmeistara á Akureyri og ætluð í húsbyggingu þar, áferð skyldi vera svipuð og á Þjóðleikhúsinu í Reykjavík. Þannig er hrafntinnu lýst í Íslensku alfræðiorðabókinni: „Hrafntinna, svart, glerkennt afbrigði af líparíti, stökkt og brotnar líkt og tinnusteinn, myndað við hraða kólnun hraunkviku, t.d. við gos undir jökli.“ Við höfðum meðferðis mikið af strigapokum og gengum nú upp eftir hryggnum og hófum að fylla pokana. Nokkra klukkutíma tók það okkur að ná fullfermi á bílinn, en ég fullyrði, að þetta er versta vinna, sem ég hefi nokkurn tíma stundað. Að ganga niður fjallshrygg með fullan poka af hrafntinnu, þar sem hver þynna skar sig inn í bakið á mér, þannig að ég hálfhljóp undan pokanum mest af leiðinni niður að bílnum. Loks var fullfermi komið á Þ-11 og við hugðumst leggja af stað heim að Vogum.
En þá kom babb í bátinn, bíllinn var orðinn svo þungur, að hann stóð fastur í sandinum: „Þetta er eins og ægisandur,“ man ég eftir að Hallgrímur mælti. Eigi man ég gerla, hvort við urðum að létta einhverjum pokum af bílnum og bera þá síðan á hann, þar sem fastara var undir, en alla vega komumst við í Voga undir kvöld og fór Kristján með farminn til Akureyrar daginn eftir. Örugglega prýðir hrafntinnan erfiða einhver hús á Akureyri ennþá, en hvaða hús? Glögga menn fyrir norðan bið ég nú að senda mér línu um þetta mál, þótt „aðeins“ 60 ár séu nú liðin frá þessum flutningum. Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson komu í Mývatnssveit árið 1752 og skoðuðu nágrenni sveitarinnar, einkum brennisteinsnámurnar og umhverfi Kröflu. Fyrst rannsökuðu þeir brennisteininn í Hlíðarnámum og fóru síðan á Hrafntinnuhrygg. Þeir segja að hrafntinnan sé í þremur lögum efst í hryggnum, og sé miðlagið best og um alin á þykkt (63 cm). Af hrafntinnunni sendu þeir tvö stykki til Kaupmannahafnar og vógu þau 103 og 93 pund (51,5 kg og 46,5 kg).
Sumir hafa talið, að hrafntinnan utan á Þjóðleikhúsinu sé úr Hrafntinnuhrygg á Mývatnsöræfum, en svo mun ekki vera. Húsið er pússað með blöndu úr kvartsi og hrafntinnu og mun hrafntinnan vera úr Hrafntinnuhrauni á Landmannaafrétt í Rangárvallasýslu. (Landið þitt Ísland, H-K, bls. 122-3.)
HEIMILD: https://www.mbl.is/greinasafn/grein/652842/
ÁÆTLAÐ: 80 km, hækkun +900 m, lækkun -785 m
RAUN: 80 km og 892 m hækkun
Skálinn í Versölum er í eigu 4×4 félagsins. Við vorum með allan skálann svo það sváfu allir inni, nema Milla, Tóti og Margrét, en það var samt alveg pláss fyrir þau inni. Skálinn er mjög stór og auðvelt fyrir alla að borða inni á sama tíma. Það var morgunmatur klukkan 08:00 og brottför klukkan 10:00, mjög hefðbundið.
Leiðin er um Sprengisand, er ágætlega þjappaður vegur en hins vegar minnir vegurinn mest á „þvottabretti“. Því er mjög erfitt að hjóla þennan veg og maður reynir að halda sér sem mest úti í kanti, en þá er sandurinn oft mjög mjúkur, sem er erfitt að hjóla, sérstakleg fyrir mig, þar sem ég var með mjórri dekk en flestir aðrir.
Ferðin gekk samt mjög vel og leiðin mjög falleg. Við hjóluðum fram hjá Þórisvatni. Á þeirri leið hittum við Óla minn og fleiri Ísbirni eða Húna sem voru að bætast í hópinn í dag, en Sóley Ólafs kom með Óla úr bænum. Fleiri bættust því í hjólahópinn á leiðinni. Tókum svo stutt stopp við Sigöldu virkjunina og svo aftur við Krókslónið, áin var mjög vatnsmikil þar sem við stoppuðum við mörkin inná Friðland að Fjallabaki.
Leifur fararstjóri er mjög sniðugur að skipta leiðinni upp, eins og í dag. Þegar um 45 km voru búnir sagði hann einmitt, næsta stopp eftir 10 km og svo aftur 10 km og svo síðustu 15-16 km eftir það. Svona skipulag virkaði mjög vel á mig. Eins og þegar 70 km dagurinn var, þá var planið að stoppa stutt á 7 km fresti, þ.e. þegar 10% var búið, svo 20% o.s.frv. það brýtur leiðina vel upp og styttir daginn og maður veit hvenær næsta stopp er, sem er mjög gott. Leifur er líka mikill reynslubolti.
Sandurinn inn á Friðlandi var aðeins erfiðari þar sem hann var oft aðeins mýkri.
Þegar við komum inn að Landmannahelli, þá tjölduðum við NorthFace tjaldinu okkar, það var reyndar ennþá mikil rigning og hafði rignt á okkur mikið allan daginn. Svo ég hjólaði bara í 66north Goretex jakkanum mínum. Það kom mér á óvart hversu gott var að hjóla í þessum jakka, en þar sem hann er úr Goretex þá andar hann mjög vel, mun betur en hefðbundnir hjólaregnjakkar.
Við, þ.e. ég, Bryndís og Jónsi áttum kvöldmatinn þetta kvöldið. Á matseðlinum var Dale Brie ostur með kexi, ólífum og vínberjum í forrétt. Svínahnakki, kartöflur og ferskt salat með bláberjum, jarðarberjum, fetaosti og hnetum í aðalrétt og Brownies, appolló lakkrís og rjómasúkkulaði í desert. Við vorum svo heppin að Óli var að vinna alla vikuna, svo hann fór bara með mér norður síðustu helgi í heimsóknina til Sjönu og Atla og fylgdist með okkur þegar við hófum ferðalagið. Svo kom hann aftur hingað þ.e. á suðurlandið og var með okkur, laugardag til mánudags. En það var mjög gaman að fá hann aftur í hópinn og frábært að fá nýjan og ferskan mat, bæði í grillveislu kvöldsins sem og bara nesti.
Fyrir kvöldmat fóru Gísli og Leifur með bílinn hans Gísla um 30 km hluta af leiðinni og tóku þá ákvörðun um hvaða leið ætti að fara daginn eftir. En það voru tveir möguleikar í boði.
Við Óli sváfum svo í tjaldinu um nóttina, en það rigndi mikið og tjaldið lak, þ.e. voru pollar inni þegar við fórum að sofa, svo ég get ekki sagt að ég hafi sofið vel þessa nóttina 🙂 🙂
PLANIÐ: 56 km, hækkun +370 m, lækkun -568 m
RAUN: 56 km og 653 m hækkun.
Veðurspáin „gul viðvörun“ gekk eftir. Fór í nótt á klósettið bara rétt rúmlega eitt og þá var frábært veður, falleg kvöldsólin og þó nokkuð myrkur. Hins vegar vaknaði ég oft við brjálað veður síðar um nóttina, mikið rok og rigning, kviður yfir 20 m.á sek.
Tommi var sá eini sem tjaldaði í Nýjadal í gærkvöldi, en um klukkan fimm í morgun flúði hann inn, þar sem súlurnar voru orðnar beyglaðar í tjaldinu og svefnpokinn og allt orðið gegnblautt. Þurfti svo að fara aftur á klósettið í morgun og það var varla stætt að ganga þessa nokkra metra niður í klósetthúsið.
Ákveðið var að hópurinn yrði að bíða af sér versta veðrið, fyrst átti að bíða til klukkan 13:00 sem frestaðist svo til klukkan 14:00. Leifur hvatti alla foreldra til að fara með börnin í trússbílum í Versali, þar sem þetta veður bauð ekki upp á hjólaferð fyrir börn.
Margir tóku ákvörðun strax um að fá far með trússbílunum, en ég tók ákvörðun að ég ætlaði að reyna að bíða veðrið af mér með hópnum, þar sem ég ætlaði mér alltaf að hjóla alla leið, ég var persónulega alveg tilbúin að bíða fram á kvöld eða nótt, til að geta samt klárað að hjóla dagleiðina 🙂
Klukkan 14.00 er ákveðið að láta reyna á þetta. Gunni „bróðir“ aðaltrússarinn kom inn og sagðist eiga eitt sæti laust, fyrir hjólara og hjól í bílnum. Það var ennþá brjálað rok úti og rigning og mér leist eiginlega ekki á þetta, er með mjög létt hjól og hrædd um að fjúka bara á hjólinu. Leifur sagði svo við hópinn að það yrði ekki beðið eftir neinum, hópurinn færi af stað og sá sem yrði síðastur yrði að taka þetta sæti hjá Gunna. Ég bauð mig því bara strax fram og ákvað að taka sætið. Guðrún og Sigga Bryndís tóku svo líka ákvörðun um að fara í bíl og það voru tvö laus sæti hjá Sigrúnu hans Hilmars, nema taka þurfti dekkin af hjólinu hennar Guðrúnar og setja í kerruna.
Hjólararnir lögðu svo af stað, þurftu að reiða hjólin, upp fyrsta hlutann, þar sem rokið var svo mikið. Við lögðum svo af stað á bílunum, eftir um 3 km leið þá sáum við hvar Gísli og Leifur voru úti í kanti og biðu eftir okkur. Ég fékk strax í magann, hélt það væri eitthvað að, en NEI, þá voru skilaboðin þau að við ættum að koma út úr bílnum, því veðrið væri ekki eins slæmt. VIð fórum því öll út úr bílunum, Sigga Bryndís og Stefán sonur hennar, Guðrún, Ísabella og ég og ákváðum að hjóla með Leif og Gísla. Það gekk mjög vel, var mikill meðvindur sem hjálpað verulega upp brekkurnar og stundum var reyndar smá hliðarvindur.
Sprengisandur er eins og nafnið bendir til mikill sandur og eini gallinn við hann var að vegurinn er eins og þvottabretti og því erfitt að hjóla hann. Mikið álag fyrir axlir og hendur. Ég er mjög ánægð með fulldempaða TREK Superfly hjólið mitt. En þegar ég fer upp brekkur, sérstaklega í sandinum þá festi ég demparana svo það fari minni orka í dempunina og þægilegra að fara upp brekkurnar þannig. Því er líka frábært að geta fest demparana á ferð. Eina sem ég hefði viljað vera með á hjólinu var „Dropper-Seatpost“ þ.e. að geta hækkað og lækkað sætið á ferð. Var að spá í að kaupa svoleiðis fyrir ferðina, en fannst það ansi dýrt. Reyndar voru nokkrir í hópnum að lenda í vandræðum með drop-seatpostinn þar sem mikill sandur festist inná milli og þurftu þá að festa bara sætispóstinn.
Við hittum hópinn sem hafði lagt af stað á undan okkur fljótlega, þar sem þau voru í nestispásu. Við tókum stutta nestispásu með þeim og ég var aldrei síðustu þennan daginn:-) Hugsaði alltaf til þess að ég hefði þá fengið sætið ha ha ha 🙂 Fengum góðar móttökur í Versölum þegar við komum þangað. Signe, Halldóra, Guðrún og Arnar voru með kvöldmatinn, mjög góða kjötsúpu, rúgbrauð og annað brauð. Góðan brie ost í forrétt og súkkulagði og lakkrís í eftirrétt. Allt mjög gott.
Við sváfum öll í skálunum að Versölum, ég var í dömu-herberginu með Signe og Dóru nöfnu minni. Um kvöldið fór Sigrún með okkur í mjög skemmtilegan leik, þar sem við vorum látin svara spurningum með tannstöngul á milli tannanna í munninum, einn fulltrúi úr hverri fjölskyldu tók þetta. Virkilega skemmtilegur leikur. Alltaf gleði og gaman með Ísbjörnum á ferðalagi.