Var svo lánsöm að fá að vera fararstjóri með frábærum hópi farþega til Ítalíu, þar sem hjólað var um Gardavatnið.
Við gistum í bæ sem heitir Garda og er austan megin við vatnið og við hjóluðum um hæðirnar fyrir ofan vatnið, í gegnum bæina fyrir sunnan vatnið og fórum í vínsmökkun vestan við vatnið.
Hópurinn var eins og að framan greinir, algjörlega frábær og svo var auðvitað bónus að mamma ákvað að fara með sem farþegi, sem var líka virkilega skemmtilegt.
Hér er smá ferðasaga og myndir úr ferðinni:
Dagur 1: Ferðadagur
Við flugum frá Keflavík til Mílanó og ókum svo með rútu til bæjarins Garda sem er austan megin við vatnið. Aksturinn tók um 2,5 klst og við vorum komin rétt fyrir kvöldmat á staðartíma. Tókum kvöldfund með „local“ fararstjóranum okkar honum Fulvio, til að fara yfir hjólaleið morgundagsins og næstu daga.
Dagur 2: Hjóladagur 1
Á fyrstia hjóladeginum var hjólað við Mincino ánna og um héruðin sunnan við Gardavatn. Við fórum með rútu að sækja hjólin okkar í bæinn Pexchiera Del Garda, þaðan sem hjóladagurinn byrjaði. Samkvæmt upphaflegu plani átti fyrstu hjóladagur að vera 45 km, en Fulvio hafði planað 60 km hring. Ég bauð því hópnum uppá annan valmöguleika, það er að snúa við eftir um 16 km og hjóla með mér til baka í hjólaleiguna og taka þaðan rútu eða leigubíl heim.
Við vorum fjögur sem fóru þá leið en restin fór allan hringinn. Eftir að ég var komin til baka í hjólaleiguna með þá sem vildu styttri dagleið fyrsta daginn, þá hjólaði ég á móti hópnum og náði kaffi með þeim og að fylgja þeim til baka að hjólaleigunni, þar sem rúta sótti okkur og hjólin.
Dagur 3: Hjóladagur 2 – hjólað til Veróna
Á öðrum hjóladegi byrjuðum við hjóladaginn við hótelið okkar og hjóluðum yfir fjöllin til Veróna. Þetta var mjög falleg leið og margt fallegt að sjá á leiðinni. Við hjóluðum bæði á möl og malbiki og mættum mikið af hjóluðum á „racer-hjólum“ sem voru að hjóla meðfram ánni á frábærum hjólastíg.
Verona er elsta borg Norður-Ítalíu og við fórum í skoðunarferð um borgina með innlendum leiðsögumanni. Veróna er borg menningar og lista en frægust er hún sem sögusvið leikrits Shakespeare um Rómeó og Júlíu. Þar er þriðja stærsta hringleikahúsi veraldar og allur miðbærinn er skráður á heimsminjaskrá UNESCO.
Dagur 4: Hjóluðum um vínekrurnar við Bardolino
Við byrjuðum aftur hjólatúrinn á hótelinu og fórum upp í fjöllin. Fyrst skoðuðum við fallegan minningarreit um þýska hermenn sem létust í stríðinu. Þýskaland heldur þessum fallega garði og minningarreit við. Hjóluðum svo um vínekrurnar sem umlykja Gardavatnið og Bardolino. Fengum svo guðdómlegt útsýni yfir vatnið og hjóluðum í gegnum tvo fallega strandbæi á leið okkar til baka, Lazise þar sem við borðuðum hádegismat og Bardolino þar sem við fengum okkur kaffi eða ís. En þar sem það var sunnudagur og mjög gott veður, þá var mikið af fólki á göngustígnum og gekk hægt að þræða þá til baka. En guðdómlegt útsýni yfir vatnið og gaman að upplifa mannlífið í þessum fallegu bæjum.
Ég gat í hjólaferðinni, keypt nokkrar flöskur af „local“ léttvíni, en ég var búin að kaupa í matvörubúðinni óáfengan bjór, sódavatn og líka ólífur, snakk og plastglös.
Þar sem það var frídagur á morgun, þá héldum við smá partý, allur hópurinn og við fengum leyfi til að hafa það í lok dags á leikvellinum fyrir neðan sundlaugina, enda öll börnin farin að borða. Þetta var yndisleg stund og gaman að skála fyrir frábærum ferðafélögum og við eignuðumst góðan ítalskan vin, sem hafði verið að slá bolta á golfvellinum. Hann hélt það væri afmælisveisla og söng mikið og upphátt fyrir okkur, þannig að hundinum hans leist ekkert á. Við tökum æðislegar myndir, af öllum á þessum fallega stað með birtu kvöldsólar í fanginu.
Dagur 5:Frídagur – siglt á Gardavatninu
Dagur 5 var frídagur og við mamma fengum að slást í för með norðlensufjórmenningum sem ætluðu að leigja sér bát og sigla á Gardavatninu. Ég var búin að sjá svona bátaleigu í Lazise og komst að því að fólk sigldi bátnum sjálft, þurfti engin réttindi til þess. Það var samt mikið öryggi að vera í fylgd tveggja skipstjóra og ég fékk meira að segja að stýra bátnum sjálf.
Yndislegt að upplifa það að sigla á vatninu, þó við færum hvergi í land.
Dagur 6: Rigning og þrumur, rútuferð til Sirmione og í vínsmökkun
Á degi sex vaknaði ég upp með andfælum þar sem fararstjórinn (local) hringdi í mig og sagði mér að það væri breytt veðurspá, úrhellisrigning, þrumur og eldingar og hann mælti alls ekki með því að við myndum hjóla í dag. Samkvæmt plani áttum við að taka rútu til Sirmione, sem er mjög frægur og fallegur bær við suðurhluta vatnsins og hjóla þaðan til Calvagese þar sem er vínsmökkun.
Vegna veðurs, þá spurði ég í þessu símtali ég var vakinn upp með, hvort við gætum ekki fengið rútuna til að skutla okkur til Sirmione og svo þaðan í vínsmökkunina og heim, þar sem rútan átti hvort eð er að sækja okkur. Sem betur fer var þessu reddað svona, svo ég þurfti að ná á alla farþega og láta vita, að við brottfær væri seinkað aðeins og að vegna veðurs, þá færum við bara í rútuferð til Sirmione og með rútu til og frá Calvagese.
Bærinn Sirmione stóð alveg undir væntingum. Þar fékk ég einn besta ísinn sem ég fékk í ferðinni og bæði sagan og menningin og þessi fallegi bær er algjörlega stórkostlegur. Mæli 100% með ferð þangað ef þú ert á leið til Garda.
Vínsmökkunin var líka mjög áhugaverð og skemmtileg og við fengum mjög góðar veitingar, brauð og gott pestó og æðislega olíu og salt. Að sjálfsögðu keyptum við okkur þarna beint af býli, olíur og einhverjir áfengi.
Dagur 7: Hjólað um Valpolicella hæðirnar
Á síðasta hjóladeginum okkar hjóluðum við um frægu Valpolicella hæðirnar. Við tókum rútu með hjólin til San Pietro í Cariano og hjóluðum þaðan um hæðirnar. Við skoðuðum tvær algjörlega magnaðar kirkjur, önnur er byggð inní klettunum.
Við fengum svo síðbúin hádegismat í bænum xxx, ofboðslega gott ítalskt hlaðborð, pizzur, hráskinka, brauð og fleira góðmeti, sem var virkilega gott og skemmtilegt að smakka.
Áður en við héldum niður síðustu brekkuna, varð ég að spila fyrir hópinn „Top of the World“ með Carpenters, sem ég spila oftast þegar ég kem á toppinn á einhverju fjallinu. Algjörlega við hæfi að spila þetta núna, þar sem þetta var síðasti hjóladagurinn okkar og heimferðardagur á morgun.
Við fórum svo með rútu til baka frá xxx á hótelið. Þar kvöddum við fararstjórann okkar, hann Fulvio Trentini og færðum honum þjórfé sem ég var búin að safna saman og við gáfum honum líka litla Lunda fígúru. Fulvio var mjög þakklátur og sagðist vera mjög hrifinn af íslenska fánanaum sem ég var alltaf með aftast í bakpokanum mínum svo ég ákvað að gefa honum hann líka.
Dagur 8: Heimferðardagur
Við fórum með rútu frá Garda sem við kvöddum eftir yndislega viku til Mílanó flugvallarins. Þægileg og ekki of löng rútuferð, þar sem við t.d. ókum fram hjá borginn Monsa sem er fræg fyrir að halda F1 kappaksturskeppni.
ÞAKKIR
Ferðafélagar mínir í þessari ferð voru algjörlega einstakir. Það var auðvitað mjög gaman að fá fjórmenningana sem voru með mér í hjólaferðinni í fyrra að koma aftur. En ALLUR hópurinn, var svo yndislegur, umhyggjusamur, skemmtilegur og þægilegur í alla staði. Ég gæti ekki hugsað mér betri ferðafélaga. TAKK TAKK og aftur takk öll sömul.
Það var einnig yndislegt að hafa mömmu með, við höfum ferðast mjög víða saman og þægilegri herbergisfélaga er ekki hægt að finna. Takk elsku mamma fyrir að koma með, það var svo yndislegt að hafa þig með í ferðinni.
Að lokum langar mig að þakka Bændaferðum fyrir að treysta mér til að vera fararstjóri í þessari ferð sem og öðrum, það er ekki sjálfsagt og kann ég ykkur bestu þakkir fyrir.