Við fórum á fætur klukkan 7:00. Bílstjórinn okkar Símon frá Póllandi ætlaði að sækja okkur klukkan 08:30. Flugið heim var áætlað klukkan 11:00. Fengum okkur góðan morgunmat, enda fullt til ennþá í ísskápnum, jógúrt, súrmjólk, brauð og kex og við buðum strákunum, þ.e. Einari og Mikael að koma og fá sér af morgunverðarhlaðborðinu.
Við vorum búnar að pakka öllum farangri og koma skíðunum til Einars. Það var búið að pakka öllum byssum niður og við gáfum restina af skotunum okkar til Grænlenska teymisins. Þá var bara að taka af rúmunum og taka lokaþrif áður en við læstum herðunum af þessum yndislegu íbúðum sem við höfðum gist í síðustu 5 nætur.
Við vorum svo lánsöm að hitta á hann Símon á flugvellinum þegar við komum og hann keyrði okkur í íbúðina okkar. Við fengum símann hjá honum og svo var hann bara einkabílstjórinn okkar allan tímann ásamt því að við fengum okkur 10 skipta strætókort. Það var mun hagkvæmara heldur en að leigja bílaleigubíl.
Inntékkun á flugvellinum gekk alveg ótrúlega vel. Tók mjög stuttan tíma, en við vildum mæta snemma, þar sem við vorum svo lengi að tékka okkur inn í Keflavík á leiðinni út. Fríhöfnin er ekki stór, en ég keypti grænlenskan bjór handa Óla og spilastokka sem minjagrip.
Flugið heim var líka mjög ljúft, útsýnisflug eins og á útleið og við lent í Keflavík fyrr en varði. Óli sótti okkur og við komum öllum farangri í bílinn, nema skíðum sem Nanna kom með til Einars. Við Hrefna og Óli fórum svo með byssurnar uppí SkotKóp til að koma þeim strax í læstar hirslur.
Ferðalok eftir yndislega daga í Grænlandi, með frábærum vinum. Langar að þakka öllum ferða félögum fyrir yndislegar samverustundir og sérstaklega „5-fræknu“ þeim, Einari sem skipulagði ferðina, Hrefnu og Nönnu vinkonum mínum sem deildu með mér íbúð og Mikka sem deildi íbúð með Einari fyrir yndislegar samerustundir. Takk öll kæru ferðafélagar fyrir samveruna – ég mæli 100% með ferðalagi til Grænlands. Að lokum kærar þakkir til Hrúts fyrir veitta aðstoða, ráðleggingar og City sightseeing um Nuuk.
Qujanaq – takussagut