Grænland er hulið dulúð. Land sem maður veit svo lítið um. Svo nálægt manni en samt svo fjarlægt. Einhver sagði að ef maður stæði upp á Bolafjalli í góðu veðri þá gæti maður séð Grænland. Ég veit ekki hvort það sé rétt, en ég hef aldrei séð það eða upplifað. Nú stóð Grænlandsferð fyrir dyrum. 15 manns að keppa í skíðaskotfimi á Grænlandi. 19 manns samanlagt í ferð til þessa framandi lands.
Grænland af öllum stöðum. Venjulega flýgur fólk suður á bóginn en ekki við. Við flugum norður. Reyndar er Nuuk á svipaðri breiddargráðu og Reykjavík, en Grænland er Grænland.
Fyrir lá að keppa á Grænlenska meistaramótinu í skíðaskotfimi í Nuuk. Ég hafði kynnst formanni Grænlenska skíðaskotfimisambandsins á fundi í Zürich fyrir nokkrum árum. Síðasta haust kom upp sú hugmynd að við skyldum koma á samvinnu á milli landanna. Ég sagði við Uiloq (kúið sagt með háum smelli alveg í lok orðsins) að ég myndi koma með stóran hóp Íslendinga á mótið hennar. Henni leist vel á en hafði enga trú á Ísfirðingnum sem hafði svo oft horft til Grænlands en aldrei séð.
Grænland þar sem orðum er ekki eytt að óþörfu. Þögnin er mikilvægari en talað orð. Virðing, vinsemd og umhyggja allt um kring. Náttúran allt um kring. Þögnin. Vindurinn. Birtan. Ísjakar. Selir. Hafernir. Ísbirnir og hvalir. Langir firðir, há fjöll. Elsta berg í heimi. Við erum þar. Inn á milli alls þessa. Þvílík náttúra. Þvílík saga. Sagan þar sem Eiríkur rauði setti mark sitt á söguna langt á undan okkur. Við vorum svo sem að skrifa sögu líka. Í fyrsta sinn sem Íslendingar fara til Grænlands að keppa í skíðaskotfimi. Reyndar í fyrsta sinn sem Íslendingar fara að keppa erlendis í skíðaskotfimi ef því er að skipta.
Allt er afslappað í Grænlandi. Fólkið. Náttúran. Viðmótið. “Þið farið bara þangað og svo haldið þið áfram upp og inn í dalverpi” var okkur sagt. Við, reynd og flest í eldri kantinum héldum að þetta myndi reddast. Við fórum þangað sem okkur var sagt að fara. Enginn þar. Enginn að skutlast með okkur upp í dalverpið. Ok. Við erum fullorðin. Settum á okkur skíðin og skautuðum af stað. Engin spor nema gömul snjósleðaspor. Spennt. Spennt fyrir einhverju nýju. Spennt fyrir stærstu eyju í heimi. Þar sem fólk er illa við appelsínugula trúðinn. Sum okkar reyndari á skíðum en önnur. Brattar brekkur. Langar brekkur. Hvert áttum við svo að fara? Til vinstri? Beint áfram? Til hægri? Ég fór fremst. Tók sénsinn og fór til hægri. Mjög brött brekka. Hugsaði um hin. Hvað væru þau að hugsa? Hvaða vitleysu var ég búinn að koma okkur í? Sá haförn sveima fyrir ofan mig. Hátt uppi í lágum skýjum. Hann var ekkert að flýta sér. Bara að kanna hvaða hreyfing var þarna niðri. Var ég bráðin hans? Varla. Átti ég að kíkja eftir ísbirni? Nei, sennilega ekki en var samt á varðbergi. Hvað ætti ég að gera ef ég sæi einn? Vissi að ég gæti rennt mér hraðar en hann. Hvað ef ég dytti? Þá myndi hann ná mér. Gæti ég farið hraðar en hann á jafnsléttu? Sennilega ekki. Hvað með að flýja út í sjóinn? Nei. Hann er betri að synda en ég. Ok. Tapaður leikur hvort eð er. Hætti að hugsa um Bjössa. Hugsaði um innfædda fólkið sem ferðaðist um í þessu landslagi. Virðing. Allan daginn. Þau hlytu alltaf að vera með öll skilningarvitin opin. Brekkan á enda. Kíkti aftur fyrir mig. Bólaði ekkert á hinum. Vissi að þau sáu mig fara til hægri og upp brekkuna. Þau myndu elta mig fyrst þau eltu mig til Grænlands. Hélt áfram og kom þá loksins inn í fallegt lítið dalverpi, alveg eins og Uiloq (með smelli) hafði sagt mér. Uiloq var konan sem ég var sem sagt búinn að sammælast um að koma með þennan hóp til hennar lands. Á Grænlenska meistaramótið. Hún trúði mér ekki. En við vorum mætt. Stóðst allt eins og stafur í bók. Veðrið lék við okkur. Ég beið eftir hinum. Það var búið að troða spor. Fórum einn hring og meira til. Leit vel út. Veðrið fallegt. Spenningurinn var í loftinu. Skotmörkin lágu þarna tilbúin fyrir morgundaginn. Þetta var að gerast. Grænland tók vel á móti okkur. Veðurguðirnir líka.
Við komum til Grænlands degi seinna en við áttum þar sem þoka í Nuuk hafði seinkað förinni um einn dag. Brautarskoðunin hér að ofan var á föstudegi.
Nú var laugardagur og við komin með “einkabílstjórann” Simon frá Póllandi sem skutlaði okkur á “staðinn”. Nú var okkur skutlað á snjósleðum upp brekkurnar. Fyrir suma var það mikil upplifun. Snjósleðagaurarnir kunnu þetta. Þetta voru þeirra nýtísku hundasleðar. Það var farið hratt yfir. Þegar við komum uppeftir var allt að verða tilbúið og allt að raungerast. Eftir að við vorum öll búin að fá startnúmerin þá jókst spennan.
Ég fór afsíðis og tók þetta allt inn. Þögnina. Á milli fjallanna. Í dalverpinu. Inn á milli heyrðust byssuskot. Í þetta sinn var það frá skíðaskotfimirifflum en ekki veiðirifflum. Í þetta sinn er þeim beint að skotmörkum en ekki hreyndýrum eða ísbjörnum. Fólk á hreyfingu. Undirbúa sig. Hita upp. Æfa skothittnina.
Númerin voru reyndar pínu spes. Þetta voru gömul númer sem Grænlendingar höfðu fengið í sinni þátttöku á erlendum mótum í gegnum tíðina. Sum merkt Lanzerheide, Holmenkollen, Val di Fiemme og öðrum óþekktum pólskum og þýskum bæjarnöfnum. Bara gaman. Sum lítil. Önnur stór. Afslappað. Þó svo andrúmsloftið hafi verið mjög afslappað þá fylgdu þau öllum ströngustu öryggisreglum þegar kom að rifflunum. Þar var enginn afsláttur gefinn. Það var flott að sjá og upplifa það. Á meðal keppenda voru börn Uiloq, þau Sondre og Ukiloq (líka með smelli í lokin) sem bæði eru á meðal bestu skíðaskotfimistjörnum í heimi í sínum aldursflokkum. Sindri vann IBU Cup unglinga síðasta vetur og Ukiloq keppti á síðustu Ólympíuleikum. Enda var skotnýting þeirra nánast 100%, líka standandi. Okkar fólki gekk vel. Mari Järsk vann sinn flokk og Salome Grímsdóttir varð í öðru sæti. Ukiloq var reyndar ekki með fyrri daginn en samt var þetta flottur árangur hjá okkar konum. Mér gekk ekki vel að skjóta. Hitti ekki mikið, enda lítið æft. Hitti bara eitt skot liggjandi en reyndar þrjú skot standandi af fimm. Kom sjálfum mér á óvart þar.
Næsta dag, sunnudag vann Ukiloq og Mari endaði í þriðja sæti. Ekki slæmt fyrir okkar bestu konu að vera á palli með stjörnunni Ukiloq. Hún er þekkt á Grænlandi og er á mörgum auglýsingaskiltum. Unglingarnir þeirra voru líka með mjög góða skotnýtingu. Kannski er þetta þeim í blóð borin verandi svona mikil veiðiþjóð. Við hin vorum svo með misgóðan árangur eins og gengur en ánægjan og gleðin stóð uppúr báða dagana. Það er sko greinilegt að þetta sport þarf að æfa til að ná árangri. Fyrri daginn var refsihringur fyrir hvert geigað skot, seinni daginn var 45 sekúndum bætt við tímann fyrir hvert geigað skot. Virkilega gaman og allir í skýjunum, líka þau sem hittu ekki mikið. Í lok keppninnar seinni daginn skelltu þau upp skotkeppni á milli systkinanna og þeirra sem vildu. 10 skot standandi. Sá /sú sem hitti oftast vann. Ef einhverjir voru jafnir þá vann sá/sú sem var fljótust. Mjög skemmtilegt form af keppni. Ukiloq vann 9/10, Sondre og Nanna (Grænslensk 18 ára stelpa) urðu í öðru sæti með 8/10. Svavar okkar hitti 4/10. Í lokin hittumst við svo öll í “Pálínu” boði í klúbbhúsi þeirra í Nuuk.
Grænlenskt samfélag kom á óvart. Á skemmtilegan hátt. Fólkið vinsamlegt. Maturinn mjög góður. Verðlag í hærra lagi en allt til alls. Dönsku áhrifin greinileg. Við gistum í fínum íbúðum í nokkrum minni hópum. Sumir fóru á bát inn í Ísfjörð sem er “bara” 50 km langur og gengur út frá Nuuk firði sem er 160 km langur. Aðrir fóru í siglingu í Nuuk firði og upplifðu ísjaka og náttúruna allt um kring. Við hin fórum á Þjóðminjasafnið sem geymir meðal annars múmíur sem fundust grafin í ísnum og eru ótrúlega heil. Annars var safnið mjög flott og þess virði að heimsækja það. Kíktum við hjá sendiherra Íslands í Nuuk sem hafði ekki mikinn áhuga á þessari sögulegu ferð okkar, en ekkert við því að gera. Við nutum okkar í botn og alveg ljóst að það verður áframhald á þessari samvinnu landanna. Þessi ferð fer í fallega minnis- og reynslubankann. Takk fyrir samferðafólk. Takk fyrir að treysta mér að koma þessari ferð á. Við söknuðum þeirra sem þurftu að hætta við. Við sendum hlýjar kveðjur til Díönu sem datt í gönguferð í bátsferðinni og braut handlegginn. Við þökkum Uiloq, Øystein (manni Uiloq), Sondre, Ukiloq, Martin Møller, Ola Jakub (sem keyrði margar tugi ferða með okkur upp og niður á keppnisstaðinn), Grænlenska skíðaskotfimisambandinu, IBU Dagmara Gerasimuk (vonandi styrkja þau þessa ferð okkar) og Skíðasamband Íslands sem er líka bakhjarl þessarar ferðar.
Höfundur: Einar Ólafsson, faraskipuleggjandi.