Fór í Bláfjöllin í dag með Þóru, Ingu og Sóley á mína fyrstu Vasa æfingu fyrir Vasaloppet sem verður 3. mars næstkomandi.
Það var yndislegt að komast aftur á gönguskíðin þó það væri smá þreyta í fótunum.
Fór í Bláfjöllin í dag með Þóru, Ingu og Sóley á mína fyrstu Vasa æfingu fyrir Vasaloppet sem verður 3. mars næstkomandi.
Það var yndislegt að komast aftur á gönguskíðin þó það væri smá þreyta í fótunum.
Átta Íslendingar tóku þátt í hundrað kílómetra fjallahlaupinu Hong Kong 100 Ultra, sem lauk um helgina og luku fimm þeirra keppni.
Aðstæður í hlaupinu voru krefjandi að sögn Halldóru Gyðu Matthíasdóttur Proppé, sem er þaulreyndur fjallahlaupari og kom fyrst í mark af Íslendingunum. Hún hljóp hundrað kílómetra með 5.400 metra hækkun á átján klukkustundum og 43 mínútum og varð 53. konan í mark.
Halldóra tók þátt í fjallahlaupinu í Hong Kong þriðja árið í röð. Hún hefur bætt tímann jafnt og þétt í áranna rás en ávallt sett sér sömu markmiðin. „Ég set mér fjögur markmið fyrir hvert hlaup, þau eru að komast að ráslínu, að klára hlaupið, að hafa gaman af því alla leið og að bæta tímann minn ef ég hef áður keppt í hlaupinu,“ segir Halldóra. Fyrir ári hljóp Halldóra á 19 klukkustundum og 20 mínútum en hlaupaleiðin var lengd um 6 kílómetra í ár og hækkuð um 500 metra, svo bætingin er vel merkjanleg.
Keppendur hlupu við ströndina og á hálendi og fengu að njóta útsýnis yfir Hong Kong-borg í leiðinni. Á hlaupaleiðinni mátti sjá vígalega apa, hunda og kýr á hverju strái en sérstakar aðstæður gerðu það að verkum að stór hluti keppenda lauk ekki hlaupinu.
Sjá nánar hér:
Þegar ég byrjaði að hlaupa árið 2009 þá var draumurinn, þ.e. stærsta en jafnframt fjarlægasta markmiðið í mínum huga að hlaupa svokallaðan Laugaveg, eða Laugavegshlaupið, frá Landmannalaugum í Þórsmörk, samtals 55 km.
Í mínum huga voru bara ofurhlauparar sem gátu hlaupið Laugavegshlaupið, enda er Laugavegshlaupið á ensku „Ultra Maraþon“ og öll hlaup yfir 50 km eru „Ultra“ eða ofurhlaup.
Eftir að hafa hlaupið og gengið hálft Reykjavíkurmaraþon Glitnis árið 2008 og svo aftur hlaupið það árið 2009 og bætt mig um 50 mínútur á milli ára, þá ákvað ég í lok árs 2010 að skrá mig í Laugavegshlaupið og í Laugavegshlaupanámskeið hjá Sigga P og Torfa.
Námskeiðið var frábært, ég eignaðist yndislega vini, hljóp um náttúruna í kringum höfuðborgarsvæðið og í Laugardalnum. Ég byrjaði á svipuðum tíma að hlaupa með Bibbu og Bíddu aðeins hópnum sem hafði einstök áhrif á mig og mitt líf.
Til að gera langa sögu stutta, þá kláraði ég Laugavegshlaupið í frábærum félagsskap vina minna. Ég held við höfum tekið um 200 myndir á leiðinni, enda er útsýnið á þessari leið ofurfagurt, litadýrðin stórkostleg eins og allir vita, sem hafa hlaupið eða gengið þessa leið.
Ég kom sjálfri mér á óvart þetta ár, enda kláraði ég fyrsta götumaraþonið mitt, Laugavegshlaupið, Jökulsárhlaupið og bætti mig aftur í ½ Reykjavíkurmaraþoni um 26 mínútur. Ég naut hverrar mínútu allt sumarið, bæði á æfingum sem og í keppnum í frábærum félagsskap.
Ætlar þú að láta drauminn rætast ?
Nú eru kannski margir á sama stað og ég var á í upphafi árs 2011. Það eru allir að tala um þetta Laugavegshlaup og það eru allir að velta fyrir sér hvort það verði uppselt, hvort þeir geti þetta og hvort þetta sé yfir höfuð skemmtilegt 😊
Laugavegshlaupið er klárlega ekki fyrir gangandi en það er fyrir hlaupara 18 ára og eldri sem hafa einhverja reynslu eru í mjög góðri líkamlegri þjálfun og geta þekkt sín takmörk og eru tilbúnir að leggja á sig þær æfingar sem þarf til að ná þessum árangri. Þá er ekki nóg að vera líkamlega sterkur heldur og alls ekki síður andlega til að takasta á við erfiðar aðstæður, því löng utanvegahlaup, ganga út á að vera vel æfður, bæði líkamlega og andlega.
Í fyrsta skipti núna er gerð krafa um að hlauparar séu með álteppi og flautu á sér. Erlendis í sambærilegum hlaupum, eru mun harðari kröfur um þann búnað sem hlauparar þurfa að hafa með sér.
Það eru tímatakmörk í hlaupinu sem eru 4 klst út af drykkjarstöðinni við Álftavatn (22 km) og 6 klst og 30 mín út af drykkjarstöðinni í Emstrum (38 km). Miðað er við að þátttakendur ljúki hlaupinu á innan við 9 klukkustundum og 15 mínútum.
Nú þegar 180 dagar og 17 klst í hlaup eru 587 þátttakendur skráðir, þar sem ég var að skrá mig og ég geri ráð fyrir að það verði uppselt mjög fljótlega.
Ef þú ætlar að láta drauminn þinn rætast, þá myndi ég skrá mig núna og skrá mig á námskeið til að fá aðstoð til að ná markmiðum mínum og eignast góða vini. Það eru nokkrir aðilar að bjóða uppá slík námskeið, eins og Náttúruhlaup sem ég að sjálfsögðu get mælt með sem einn af þjálfurunum.
Hér er hægt að skrá sig á námskeið hjá Náttúruhlaupum.
Nánari upplýsingar um hlaupið og skráning hér:
Þetta ár verður tímamótaár fyrir mig, þar sem ég mun fagna 50 ára afmælinu mínu. Þess vegna ætla ég að gera eitthvað skemmtilegt á hverjum einasta degi, í hverri einustu viku og þannig alla daga allt þetta ár.
Það þarf ekki mikið til að gleðja mig eða gera daginn eftirminnilegan. Göngutúr, hlaupaæfing, sundæfing, skemmtilegt símtal eða lestur góðrar bókar mun vera nóg til að gleðja mig á hverjum degi alla daga ársins.
Ég byrjaði til dæmis þetta yndislega ár, á því að lesa nýju bókina eftir Yrsu og fór svo í frábærum félagsskap á nýársdag á Esjuna. Stóra verkefnið mitt í janúar verður HK100 hlaupið, sem er 100 km utanvegahlaup í Hong Kong þann 19. janúar. Hlaupið sjálft er bara endapunktur á mjög skemmtilegu æfingaferðalagi, sem hófst þegar ég skráði mig snemma á síðasta ári.
Ég mun leyfa þér að fylgjast með öllum þessum skemmtilegu ævintýrum mínum, stórum og smáum, á þessu afmælisári, hér og á Facebook síðunni minni, Halldóra Gyða.
Tók að mér að skipuleggja Nýársgöngu á Esjuna á nýársdag í fjarveru Trausta Valdimarssonar. Það voru 47 hressir göngu/hlaupagarpar sem mættu ásamt 3 hundum.
Stefán Bragi og Iðunn, komu með prímus og buðu uppá heitt kakó og kleinur og ég mætti með Nóa konfekt og áramótatónlistina.
Virkilega yndisleg og góð byrjun á nýju ári.
Tók þátt í virkilega skemmtilegu Garmlárshlaupi ÍR í dag. Hlaupahópur Breiðabliks var í 80s þema og ég fékk flottan orginal Henson krumpugalla lánaðan hjá Sigrúnu Hildi æskuvinkonu minni.
Ég hljóp allt hlaupið 10 km með Soundblaster hátalara og 80s tónlist á Spotify sem skapaði frábæra stemningu.
Toppurinn á ísjakanum, var svo að fá viðurkenningu fyrir besta búnaðinn, þ.e. ásamt Mosó skokk, sem voru líka í 80s búningi.
Það var yndislegt veður hjá okkur í dag 26. desember, annan dag jóla í Kirkjuhlaupi TKS sem byrjaði úti á Seltjarnarnesi.
Kirkjuhlaupið byrjaði þar sem presturinn í Seltjarnarneskirkju blessaði hlauparana og við sungum saman Bjart er yfir Betlihem.
Síðan var hlaupið og komið við hjá 13 kapellum og/eða kirkjum, alveg yndislegt eins og alltaf.
Svo skemmtilegt að hitta alla hlaupavini sína, hvort sem er úr Breiðablik, Náttúruhlaupunum, Ármanni eða bara hvaða hlaupahópi sem er.
Kirkjuhlaupið er ómissandi hluti af jólunum. Í dag bætti ég við 15 km, þar sem við Elisabet hlupum heiman frá Hafdísi með henni og Melkorku og hlupum svo eftir Kirkjuhlaupið aftur þangað til baka. Svo ég náði 30 km í dag, sem var ágætt þar sem það eru 24 dagar í HK100 2019.
Það var einstaklega gaman að taka þátt í Þorláksmesssundi Breiðabliks í morgun. Viðurkenni það alveg, að ég var ekki alveg að nenna að fara í morgun þegar ég vaknaði, enda þreytt eftir 40 km hlaupið frá Hveragerði til Reykjavíkur í gær.
En ég vissi að ég yrði mjög svekkt í allan dag ef ég myndi ekki fara, svo ég dreif mig og hugsaði líka með þakklæti fyrir að geta tekið þátt, því það er ekkert sjálfsagt.
Sundið gekk ágætlega, fyrir utan það að ég missti sundhettuna af mér á leið yfir í þriðju ferðinni, svo ég stoppaði alveg til að taka af mér gleraugun, setja aftur á mig sundhettuna og gleraugun hahahah 🙂 En það skipti svo sem engu máli, þar sem ég vissi að ég myndi ekki ná PB og markmiðið var bara að hafa gaman og vera með sem ég og gerði.
Það voru nokkrir hressir HK100 farar sem skelltu sér í ferðalag austur fyrir fjall til að hlaupa frá Hveragerði til Reykjavíkur.
Við byrjuðum hlaupið við sundlaugina í Hveragerði. Hlupum þar í gegnum Hamarinn upp gamla Kambaveginn og upp línuveg meðfram þjóðveginum.
Svo voru undirgöng undir þjóðveginn og þaðan tók við um 3 km malbikaður kafli. Síðan malarvegur og þá vorum við austan við Nesjavallarvirkjun og um 500 m frá Litlu kaffistofunni.
Héldum svo áfram uppá Hólmsheiði, fram hjá fangelsinu og upp á Geitháls, fram hjá Moggahúsinu og upp í sundlaugin í Árbæ, þar sem við höfðum skilið eftir bílana okkar um morguninn og safnast saman í bíl austur.
Það voru glaðir og ánægðir hlauparar sem enduðu í lauginu eftir 40 km hlaupatúr á þessum fallega morgni, sem sjá má á myndunum hér að neðan.
Á þessu Hitakorti, sést hvað við náðum að hlaupa mikið um eyjuna á þessum 8 dögum, þ.e. 200 km og 9.695 metra hækkun.
Þegar við komum út sagði Beta í gríni að við myndum svo hlaupa 200 km þessa vikuna á Palma. Þessu gríni tók ég mjög alvarlega svo úr varð að við kláruðum og náðum þessum 200 km á síðasta deginum á jafnsléttu þegar við hlupum 12 km í St. Cruz 🙂
Dagur 1: Hringurinn í kringum St. Cruz
Dagur 2: Frá St.Cruz beint norður til Charco Azul (austurströndin)
Dagur 3: Frá Charco Azul til Barlovento (uppá fjöllin)
Dagur 4: Frá Barlovento til Santo Domingo (norðurströndin)
Dagur 5: Frá Franceses til Punta Gorda (vesturströndin)
Dagur 6: Frá Roque de lo Muchachos til Los llanos (frá hæsta punkti suður og svo til vesturs)
Dagur 7: Frá El PIlar til El Faro de Fuencaliente (beint suður að vitanum syðsta punkti eyjarinnar)
Dagur 8: Strandlengjan í St. Cruz
Nánari upplýsingar um hvern dag er að finna í færslunum hér að neðan.