Við flugum frá Íslandi til Genf á laugardagsmorgni. Við vorum 22 í hópnum, en tveir úr hópnum höfðu farið fyrr. Fórum svo með Alpybus frá flugvellinum í Genf til Chamonix en sú ferð tekur um 80 mínútur.

Beta tók á móti okkur í Chamonix með Náttúruhlaupafánanum. Eftir að hafa hent farangrinum uppá hótelherbergi kíktum við í bæinn. Það var frekar skýjað svo það viðraði ekki vel til að taka kláfinn upp í Aiguille du Midi. Kíktum því bara í búðir og skoðuðum bæinn.

Borðuðum svo saman á Pizza stað nálægt hótelinu um kvöldið. Það er 2 klst tímamunur, svo við fórum bara snemma á hótelið, til að undirbúa fyrsta hlaupadaginn og fara yfir hlaupaleiðir næstu daga.
