Hugbúnaðurinn STRAVA heldur utan um alla mína hreyfingu, þ.e. ég nota Garmin Fenix úrið mitt til að logga allar æfingar og keppnir, þ.e. hvort sem er í hjóli, hlaupum, sundi, fjallgöngum eða skíðum. Færslurnar fara svo sjálfkrafa frá Garmin Connect hugbúnaðinum yfir í Strava hugbúnaðinn. Til að gera hlutina ennþá flóknari þá er þriðji hugbúnaðurinn Training Peaks, sem þjálfarar í Þríþrautardeild Breiðabliks nota til að setja inn æfingar, og þær fara sjálfkrafa frá Training Peaks í Garmin úrið.
Ef það er hlaupa- eða hjólaæfing á plani þá er hægt að sjá í Garmin Fenix úrinu æfinguna um leið og hún er gerð, þ.e. fylgja planinu á úrinu.
Samkvæmt STRAVA þá æfði ég 771 klst á árinu 2021 samanborið við 739 klst á árinu 2020.
Flestar klukkustundir voru í september eða 113 klst.
Ég fór 5.348 km samtals á árinu 2021 samanborið við 6.849 km 2020.
Fór flesta km í janúar eða 619 km.
Náði samt mun meiri samanlagðri hækkun 2021 eða 128.458 m samanborið við 108.138 m á árinu 2020,
sem útskýrir kannski muninn á vegalengdinni m.v. tíma.
Fjöldi daga sem ég æfði voru 301 en þeir voru 319 í fyrra.
Strava mælir líka hversu marga daga samfellt í röð ég æfði lengst og það voru 38 dagar frá 17. apríl til 24.maí.
Kláraði einnig á árinu þrjú Þjálfaranámskeið. Tók fyrst Þjálfun 1 og síðan Þjálfun 2 hjá ÍSÍ, sem er bóklegt grunnám á vegum ÍSÍ sem nýtist við þjálfun allra íþrótta hjá öðrum sérsamböndum. Var einni skráð í Þjálfun 3, en það námskeið var ekki haldið.
Kláraði Þjá1 hjá Skíðasambandi Íslands, sem er kennsla fyrir gönguskíðakennara, fyrir markhópinn 6-12 ára börn.
JANÚAR
Árið 2021 byrjaði að sjálfsögðu með Nýársdags Esju í góðum félagsskap. Svo var einnig gengið á Úlfarsfellið með fjölskyldunni eftir Esjuferðina.
Landvættaprógram Náttúruhlaupa hafði farið af stað um haustið 2020, en æfingar urðu fleiri og skemmtilegar samverustundir strax í janúar. Ég var dugleg að hjóla úti með Þorsteini og krökkunum á sunnudögum og hlaupa á morgnana með Hafdísi og hundinum hennar honum Tinna, ríkishringurinn var sérstaklega vinsæll. Ég var auk þess með námskeið og gæðaæfingar fyrir Náttúruhlaup og svo með Stjörnuæfingar.
Við náðum líka að byrja æfingar á gönguskíðunum í desember með Landvættahópnum, undir frábærri leiðsögn Sævars Birkissonar ÓL-fara.
Var því mjög dugleg að æfa í byrjun árs og líkaminn bara í góðum gír, þó gömlu bakmeiðslin séu alltaf undir niðri sem ég þarf að halda gangandi með aðstoð sérfræðings.
Ég tók þátt í BOSE hlaupinu en vegna C-19, þá var það bara „virutal“ þ.e. þú fórst og skráðir svo handvirkt þinn tíma. Endaði svo janúarmánuð á að detta og meiða mig á hnjám í Bjössahringnum með Stjörnunni, svo ég varð að taka mér viku frí frá hlaupum eftir fallið, kannski samt bara kærkomin hvíld.
Æfingar í janúar 60 klst, samtals 620 km.
FEBRÚAR
Eftir vikuhvíld, héldu æfingar áfram með Stjörnunni, NH og Þríkó og reglulegar UltraForm styrktaræfingar með mömmu á morgnana tvisvar í viku.
Einu sundæfingar sem fór á voru með Landvættahópi Náttúruhlaupa sem voru alltaf á föstudögum klukkan 17:00. Fór svo með Landvættahópnum ásamt Helgu Maríu og Siggu Sig norður í Fljótin í Sóta í gönguskíðaæfingarbúðir sem voru mjög vel heppnaðar. Þrátt fyrir frekar lítinn snjó, þá náðum við góðum æfingum á Ólafsfirði og í Fljótunum.
Fórum líka í lok febrúar norður í vetrar helgarfrí og skíðuðum í Hlíðarfjalli og Kjarnaskógi og hlupum aðeins á Akureyri, með Siggu og Pétri. Hittum líka þar fyrir Síu og Sævar vini okkar.
Æfingar í febrúar 42 klst, 363 km.
MARS
Í mars fór ég fyrstu skíða-púlku æfinguna með 20 kg verkfærakassa á púlkunni í Bláfjöllum. 😊 Hjólaði Gran Fondo Strava áskorun (sem er 100 km) með Þorsteini. Fór tvisvar sinnum upp að eldgosi að skoða það yfirleitt hlaupandi. Fór einnig í fyrstu vetrarútileguna í Bláfjöllum í lok mars þar sem ég lærði heilmikið af Árna Tryggva og Guðrúnu eins og að saga ísklumpa með snjósög og búa til ís-hleðslu vegg til að skýla tjöldunum. Ég svaf eins og engill þessa fyrstu nótt í snjónum, algjörlega yndislegt.
Æfingar í mars 64 klst, 511 km.
APRÍL
Fjallaskíðahópurinn sem var stofnaður í Covid #1 var búin að vera nokkuð duglegur að taka fjallaskíðaæfingar. Í apríl fór ég í fyrsta skipti á Eyjafjallajökul á fjallaskíðum á föstudaginn langa 2. apríl sem var frábær ferð, þrátt fyrir mjög krefjandi aðstæður, sérstaklega á toppnum, sem var mjög ísaður. Teiknaði svo páskaunga á Strava með SprengjuKötu á páskadag, þá er hlaupið ákveðin leið, sem myndar þennan fallega páskaunga, en þetta fórum við eftir að ég var búin að hlaupa einn ríkishring með Hafdísi og Tinna (ríkishringur er 12 km hringur í Heiðmörkinni.) Gekk svo 50 km æfingu í Bláfjöllum á gönguskíðum með Sigga Kiernan, til öryggis ef ekkert yrði af Fossavatnsgöngunni út af C19 og fór einnig í vetrarútilegu númer tvö í Bláfjöllum, sem var líka hin mesta skemmtun í frábærum félagsskap vina sem stefndu á þverun Vatnajökuls í vor sem og Ísbjarnavinkvenna.
Hin eiginlega FOSSAVATNSGANGA var svo 17. apríl við mjög krefjandi aðstæður. Gangan var samt mjög skemmtilegt, enda í frábærum félagsskap NH Landvætta.
Enduðum svo þennan fjöruga mánuð með fjallaskíða helgarferð í Sóta með Hildi og Sigga og vinum. Ferðin var toppuð með að prófa Heleskiing, eina ferð, í fyrsta skipti hjá mér sem var mögnuð upplifun.
Æfingar í apríl voru 56 klst, 409 km.
MAÍ
Í byrjun maí gistum við í tjaldi undir Snæfellsjökli og fórum svo á fjallaskíði uppá topp daginn eftir. Það var mögnuð upplifun. Þriðja útilegan í undirbúningi fyrir þverun Vatnajökuls. Kópavogsþrautin var svo haldin 9. maí og wow hvað það var gaman að prófa aftur að keppa í þríþraut, orðið ansi langt síðan síðast.
Landvættaæfingar á fjallahjóli byrjuðu líka í maí eftir að við höfðum klárað Fossavatnsgönguna með frábærum þjálfurum frá HFR. Við héldum sundæfingum áfram með Sigurði Erni á föstudögum sem voru mjög góðar. Við Þorsteinn kláruðum Gran Fondo maí mánaðar með „krökkunum“ og hefðbundnar hlaupaæfingar héldu áfram með Stjörnunni og Náttúruhlaupum og það komu margir nýliðar inn í nýliðaprógramm Stjörnunnar í maí.
Í lok maí var svo stóra verkefnið, þ.e. þverun Vatnajökuls frá austri til vesturs á gönguskíðum með allan farangur í púlku (sleði). Ferð á vegum FÍ, þar sem Vilborg Arna og Brynhildur Róberts voru fararstjórar. Ferðin var frá 26.-31. maí. Á endanum skíðuðum við svo yfir jökulinn samtals um 125 km á þrem dögum, þar sem við lentum í vondu veðri og þurftum að bíða það af okkur í þrjá daga í Grímsvötnum.
Æfingar í maí voru 84 klst 618 km.
JÚNÍ
Júní var frekar rólegur mánuður, þar sem ég komst ekki í skó, eftir gönguskíðaævintýrið, þ.e. þverun Vatnajökuls. Fékk slæm hælsæri á báða fætur sem kom sýking í og ég endaði á pensilíni og daglegum heimsóknum á Heilsugæsluna í tíu daga.
Mætti því á rafmagns fjallahjólinu mínu á hlaupaæfingar í opnum sandölum. Gat því miður ekki tekið þátt í Esju maraþoninu sem ég var skráð í og ekki heldur í Blue Lagoon Challenge 12. júní. Ég fór og hvatti Landvættahópinn áfram í byrjun og lokin, þ.e. tók á móti þeim í Grandvík við Bláa lónið.
Við byrjuðum sjósundsæfingar með Landvættahópi NH í júní, eftir að Bláa lóns hjólaþrautin var haldin 12. júní.
Kláraði afmælis Gran Fondo 20. júní með Þorsteini og „krökkunum“. Síðan fórum við Óli í smá frí og fengum geggjað veður í Skaftafelli, þar sem við hjóluðum, gengum á falleg og krefjandi fjöll og tókum smá ísklifur á jöklinum.
Æfingar í júní voru 34 klst 273 km.
JÚLÍ
Þorvaldsdalsskokkið sem er næst síðasta þrautin í Landvættinum var fyrstu helgina í júlí, eða 3. júlí. Virkilega fallegt og skemmtilegt hlaup, alls 24 km. Eftir hlaupið buðu Siggi Kiernan og Hildur í mjög skemmtilegt partý inn í Eyjafirði hjá foreldrum Sigga og við tjölduðum þar á örugglega fallegustu tjaldflöt Eyjafjarðar.
Fór svo í virkilega skemmtilega hlaupaferð, Laugaveginn á tveim dögum með HHS í byrjun júlí.
Við Þorsteinn kláruðum Gran Fondo 11. júlí.
Laugavegshlaupið var 17. júlí og auðvitað mikil veisla í Þórsmörk eftir hlaupið eins og ávallt. Það hlaupapartý klikkar ekki frekar en fyrri daginn.
Mánudaginn eftir Laugavegshlaupið hófst svo fyrsta formlega æfingin samkvæmt plani frá Elísabetu Margeirs, fyrir Tor dés Géants hlaupið sem er í september. Urriðavatnssundið var svo 24. júlí sem var síðasta þrautin í Landvættinum. Þar sem það var mikil alda þá voru nokkrir vinir mínir sem kláruðu ekki á laugardeginum, svo við syntum leiðina saman aftur á sunnudeginum, í frábærum aðstæðum. Við vorum búin að vera mjög dugleg að æfa okkur bæði í Elliðavatni og Hafravatni bæði í júní og júlí.
Um verslunarmannahelgina, var svo Súlur Vertical hlaupið fyrir norðan eða 31. júlí, 29 km sem var virkilega skemmtilegt. Það var mjög heitt en mjög skemmtilegt að koma hlaupandi niður í miðbæ Akureyrar og að sjálfsögðu var aftur partý með Sigga og Hildi í Eyjafirði.
Æfingar/Keppnir í júlí voru 81 klst og 561 km.
ÁGÚST
Hefðbundnar æfingar voru fyrri hluta mánaðarins en svo fór ég út til Ítalíu með Stefáni Braga og Iðunni vinum mínum þar sem við fórum síðari helming af Tor Dés Géants leiðinni, þ.e. frá Donnas til Courmayeur.
Við fengum frábært veður, mjög heitt til að mynda fyrsta daginn. Upphaflega ætluðum við að ganga alla leiðina með allt á bakinu, en eftir fyrsta daginn breyttum við aðeins um plan og ákváðum að ganga léttari og nálgast alltaf bílinn í lok dags. Stefán Bragi er algjör snillingur í svona plönum og fljótur að gera þær breytingar sem þarf enda þekkir hann líka leiðina eins og lófann á sér. Við hlupum og gengum rúmlega 150 km á þessum 10 dögum með heilmikilli hækkun. Þetta var yndislegur tími og ég er einstaklega þakklát þeim hjónum og vinum mínum Stefáni Braga og Iðunni fyrir að fara með mér.
Við enduðum svo á að fara aðeins fyrr til Chamonix, þar sem við vorum með herbergi í íbúð með Sigga Kiernan, Bigga, Berki og Guðmundi Smára.
Tók svo þátt í OCC keppnis hlaupinu 26. ágúst í UTMB seríunni (56 km), sem var þá síðasta langa æfingin fyrir Tor dés Géants hlaupið sem var í september (16 dagar í það).
Æfingar/keppnir í ágúst voru 83 klst og 379 km.
SEPTEMBER
Fyrstu vikurnar í september voru svona „tapering“ tími fyrir TOR-inn. Ég ákvað að fara heima á milli keppna og ég var mjög ánægð með það. Það var gott að komast heim, hitta fjölskylduna og ná að hvíla sig í sínu eigin rúmi. Reyndi samt að fylgja plani á þessum tíma, en var samt í einhverju brasi heilsulega, var eitthvað slöpp svo ég ákvað frekar að hvíla meira, en að pína mig að klára allar æfingarnar.
Hljóp svo TOR hlaupið frá 12. -18. september eða í sex daga, eða 145 klst og 55 mín, samtals 349,3 km með 30.879 m. hækkun. Sjá heildarkeppnissöguna hér:
Ég trúi eiginlega ekki ennþá að mér hafi tekist að klára TOR-inn í fyrstu tilraun, þar sem tímamörk voru krefjandi og ég var að berjast við áreynsluasmann frá fyrsta fjalli. Ég lenti í ýmsum ævintýrum, eins og að týna höfuðljósinu mínu eftir fyrstu nóttina (af sex), eignaðist vin sem hjálpaði mér upp erfiðustu brekkurnar, en tafði mig verulega á niðurleiðinni svo ég varð að kveðja hann.
Ég eignaðist fleiri vini á leiðinni sem voru með mér síðari hluta ferðarinnar. Svaf mjög lítið eða um 9 ½ klst á þesusm sex dögum og borðaði ekki mikið, en var aldrei orkulaus eða þreytt. Það kom aldrei upp í hugann að ég ætlaði að hætta, en ég hefði aldrei klárað þetta ALEIN úti, ef ég hefði ekki notið frábærrar aðstoðar frá vinum mínum á Íslandi, þeim Stefáni Braga og Elísabetu Margeirs sem fylgdust með mér og voru í sambandi við mig símleiðis og með messenger skilaboðum allan tímann.
Eftir að ég kom heim þá voru bara léttar sundæfingar teknar og svo mætti ég á rafmagnshjólinu mínu á hlaupaæfingar. Tók algjöra hlaupahvíld í tæpar 3 vikur eftir TOR-inn.
Æfingar/keppnir í september voru 113 klst og 449 km.
OKTÓBER
Mamma hvatti mig til að taka þátt í Norðurlandameistaramóti í sundi NOM2021 í Laugardalshöll, sem var tæpum tveim vikum eftir TOR-inn. Mamma var einn af sunddómurum og gat ekki sjálf tekið þátt í mótinu. Ég skráði mig því í allar skriðsunds- og bringusundsgreinar og fékk fimm verðlaun, tvö gull, eitt silfur og tvö brons. Varð norðurlandameistari í bæði 50 m og 100 m bringusundi í aldursflokki 😊 Sjá nánar hér:
Um miðjan mánuðinn voru svo æfingabúðir hjá ÞRÍKÓ í Reykjanesbæ með Nick Saunders þjálfara, mjög skemmtilegar æfingabúðir.
Arnar P tók við sem yfirþjálfari Hlaupahóps Stjörnunnar 18. október, sem var frábært skref og margir félagar hafa bæst í hópinn.
Í lok mánaðarins fórum við Óli svo til Tenerife með vinum okkar Eddu og Eið, í „ekki hreyfi-ferð“, heldur meira hvíldar og njóta ferð, sem var algjörlega yndslegt og kærkomið frí.
Æfingar/keppnir í október voru 43 klst og 231 km.
NÓVEMBER
Í nóvember setti ÍSÍ af stað átakið „Syndum saman“, þar sem landsmenn voru hvattir til að synda og skrá inn dagsetningu og vegalengd. Ég ákvað því að taka áskoruninni og vera dugleg að synda í mánuðinum, enda er sund mjög gott „recovery“ þar sem ég var ennþá að ná mér eftir TOR-inn. Var samt með bæði gæðaæfingar fyrir NH og hlaupaæfingar fyrir HHS og alltaf eina hjólaæfingu fyrir Þríkó í WC Kringlunni. Esjan var heimsótt nokkrum sinnum í mánuðinum. En engin keppni í þessum mánuði, né Gran Fondo.
Æfingar/keppnir í nóvember voru 58 klst og 455 km.
DESEMBER
Ég fylgdi bara þríþrautarplani í desember, þ.e. 2-3 sundæfingar, hlaup með HHS og 2-3 hjólaæfingar, allt bara samt frekar rólega, þar sem mér fannst ég ekki hafa náð fullri orku eftir TOR-inn.
Um leið og færi gafst bætti ég þó gönguskíðaæfingum inn. Þegar Einar Óla skoraði svo á mig að vera með honum og Óskari allan tímann í „Göngum í Ljósið“ söfnunarátaki fyrir Ljósið, sem gekk út á að ganga á gönguskíðum í 18 klst frá sólarsetri til sólarupprásar styðsta dag ársins, þá gat ég ekki skorast undan. Móðir mín hefur á þessu ári verið að njóta frábærrar þjónustu Ljóssins svo ég var þakklát að geta tekið þátt í þessu og hvatt alla til að styrkja söfnunarátakið.
Ég náði að skíða samtals 120 km á þessum tíma, en við tókum tvisvar sinnum góða hvíld, þ.e. fyrst kvöldmat klukkan 22:00 og svo morgunmat um klukkan 04:30. Ákvað að skipta þessum 18 klst upp í þrjá 6 klst einingar. Það er ekki orðið ennþá ljóst hversu mikið safnaðist, en þetta var virkilega skemmtileg áskorun. Veðrið var alveg krefjandi, þó nokkuð mikið rok um nóttina og kalt, en við bara breyttum hringnum sem við fórum. Hættum að fara stóra hringinn þ.e. 4,7 km og fórum bara fyrir hólinn. Ég var mikið með Kristjáni alla nóttina og þakka ég honum frábæran félagsskap. Sjá nánar um þetta skemmtilega verkefni hér:
Út af C19 stöðunni þá var Þorláksmessusundinu frestað, svo ég synti bara mitt eigið Þorláksmesu-sund með Hrefnu. Við skiptumst á að leiða 200 m hverju sinni og sinntum þessa 1500 m á 33 mín. Var mjög ánægð með það, tveim dögum eftir Ljósaverkefnið, þar sem ég missti alveg úr eina nótt í svefni.
Á aðfangadagsmorgun fór ég tvo Bakgarðshringi í Öskjuhlíðinni með góðum vinkonum.
Gamlárshlaupi ÍR var líka frestað út af C19 en við ákváðum því nokkrar saman í Hlaupahópi Stjörnunnar að hlaupa okkar eigið Gamlárshlaup eða 10 km.
Æfingar/keppnir í desember voru 53 klst og 478 km.