Þegar við vöknuðum voru 5menningarnir sem gengu frá Fljótavík í Hornvík, komnir á staðinn, en þau höfðu gengið mjög krefjandi göngu deginum á undan. Þau lögðu af stað á laugardeginum og gengu Hlöðuvík, Aðalvík, Aðalvík-FLjótavík og svo Fljótavík-Hornvík.
Það var ótrúlega heitt alla nóttina þar sem sólin skein alla nóttina. En það var orðið aðeins skýjað um morguninn þegar við vöknuðum. Eftir morgunmat var tjaldinu pakkað og haldið áfram og lá leiðin til Hornvíkur þar sem við ætluðum að hitta restina af hópnum.
Þegar við komum kvöldið áður í Hlöðuvík, leist okkur ekkert á fjallið sem blasti við okkur, þ.e. gönguleiðin á degi 2. Hins vegar þegar við vorum lögð af stað og komin uppá fjallið þá var það mun einfaldara að klífa en það leit út í upphafi. Leiðin var mjög falleg yfir Atlaskarð og við hittum leiðsögumann frá FÍ á leiðinni, sem var að snúa við í skálann í Hlöðuvík.
Við gengum samtals 11 km með 529 metra hækkun. Tíminn var 5 klst og 20 mín.
Þegar við komum að Hornvík (Höfn) þá var ég ekki viss um hvort við ættum að hitta hópinn þar eða útí Horni þar sem eru tvö hús. Fann ekkert um það í tölvupóst samskiptum. Kíktum því í bragga-tjald sem var þarna við ströndina og þar var merkið BOREA ADVENTURES og hvað við vorum glöð að þurfa ekki að ganga með bakpokana alla leið út í Höfn 🙂
Fengum frábærar móttökur frá starfsmönnum Borea þar sem okkur var boðið uppá kaffi og súkkulaðikex. Eftir að hafa tjaldað, þá velti ég fyrir mér að ganga á móti hópnum sem var að koma úr Veiðileysufirði, en Ester hafði farið á móti þeim, áður en við komum. Svo bara kom hópurinn, léttur og glaður og það var gaman að hitta þau öll.
Ég var svo farin að hafa áhyggjur af 5menningunum sem höfðu lagt af stað frá Hlöðuvík á eftir okkur, svo ég ákvað að fara á móti þeim. Hitti þau eftir um 1 km göngu þar sem þau voru að fara upp og niður kaðal smá skarð sem þurfti að klífa, svo það var ágætt að geta aðstoðað þau og gaman að hitta þau aftur.
Fengum svo frábæran pastakvöldmat hjá Borea og ostaköku í desert, yndislegt kvöld.