KEPPNISSAGA IM FLORIDA 2015

by Halldóra

Hér að neðan er ítarleg keppnissaga eftir Ironman Flórída keppnina sem ég tók þátt í með Þríkó vinkonum mínum, þeim Sjönu, Siggu, Irinu, Möggu og Gúu, en við kölluðum okkur Sexurnar.  Þetta er fjórða Ironman keppnin sem ég tek þátt í á innan við þremur árum, en við Sjana og Ásgeir fórum í Ironman í Cozumel í lok nóvember 2012 sem var fyrsti IM hjá okkur Sjönu. Við Sigga fórum með Ásgeiri í Ironman í Frankfurt í júlí 2013 og við Sjana og Irina fórum ásamt Ásgeiri með mörgum Þríkó félögum í Ironman Kalmar í ágúst 2014.

Við vöknuðum klukkan 04.00 á keppnisdegi, laugardagur 7. nóvember 2015. Skilaboðin sem við sáum á Facebook síðu Ironman keppenda  – sjórinn of heitur til að teljast löglegur og þá má ekki synda í galla. Ef sjórinn er frá 24-28 gráðum á Celsíus þá má synda í galla en þá getur þú hvorki unnið til verðlauna né fengið Kona sæti. Ef sjórinn fer yfir 28 gráður þá má enginn synda í galla.  Ég spurði Viðar Braga Kona-fara og þjálfara ráða, hvað við ættum að gera, ef þessi staða kæmi upp. Hann sagði að ef þessi staða kæmi upp þá myndi hann sjálfur ekki synda í galla, nema það væru líkur á því að hann næði ekki innan tímamarka annað hvort í sundinu eða keppninni í heild sinni.

Við Sjana ákváðum  að fara að ráðum Viðars, enda vissum við að við gætum alveg synt án galla, gerðum það í Cozumel, þó að sjálfsögðu taki það meiri orku. Ég nota fæturna meira þegar ég syndi ekki í galla og auk þess flýtur maður ekki eins vel og í gallanum. Hinar fjórar af Sexunum ákváðu að synda í gallanum, sem var alls ekki óskynsamlegt, svona eftir á að hyggja. Það var enginn greinarmunur gerður á því hvort þú syntir í galla eða ekki þegar úrslitin liggja fyrir.

Eftir léttan morgunmat, þ.e. ristað brauð og kaffi,var lagt í hann. Ætluðum að leggja af stað klukkan 04:45 en fórum ekki fyrr en um klukkan 05:00. Við vorum því ekki komin á skiptisvæðið fyrr en 05:15 sem hefði átt að vera nægur tími þar sem ræsa átti sundið klukkan 06:15.  Henti af mér „special needs bags“ bæði hjóla og hlaupa, en ég set alltaf eitt epli og samloku í hvorn pokann. Var líka með gamlan bol í hjólapokanum, ef mér yrði kalt, en búið var að ráðleggja okkur það. Þetta var bolur sem ég var til í að fórna, þar sem  maður fær þessa poka ekkert aftur.

Næst var að pumpa í dekkin á hjólinu og setja næringu og drykki á hjólið. Sjana var með mína pumpu svo ég náði að hitta á hjón á svæðinu hjá mér sem voru búin að pumpa í sín hjól. Ég fékk þau til að aðstoða mig því það þarf að halda vel í ventilinn á disknum og setja ákveðið stykki (sjá mynd hér að neðan)  á pumpuna til að komast að honum. Það gekk allt vel en um leið og ég er að kveðja hjólið, búin að koma drykkjum og gelum fyrir, uppgötva ég að maðurinn með pumpuna tók stykkið sem ég þarf til að geta bætt lofti eða kvoðu í dekkið. PÚFF – Þarna var ég í slæmum málum.

zipp-adapter-zoom

Fékk eiginlega vægt sjokk svo nú var bara að krossa fingur og vona að ekki myndi springa.  Fann að þetta stressaði mig mikið, var ekkert að spá í sundinu, eða að ná að hita upp í sjónum, náði ekki að hitta Sjönu með pumpuna mína og hittum ekki Óla og Atla en ég ætlaði að koma til hans wetsuit gallanum sem ég hafði tekið með mér í poka, ef ég hefði skipt um skoðun með að synda í honum. Hvíti pokinn með morgunfötunum var orðinn úttroðinn og slitnaði svo ég þurfti að fá annan yfir.

Það var mikið verið að pressa okkur þarna á svæðinu og við vorum kölluð á ströndina klukkan 05:45, voru að loka svæðinu, svo ég rétt náði að henda af mér kaldri kók í T1 pokann og  bætti aukahlaupafatnaði í T2 pokann, var með slæman niðurgang um morguninn og þorði ekki öðru en að hafa auka föt þar ef ég myndi lenda í einhverju slæmu niðurgangsslysi á leiðinni.   Líðanin þarna rétt fyrir keppni var alls ekki góð, komst ekki á klósettið og allt í stressi út af þessu pumpudæmi. Þegar ég kom svo á ströndina, búin að skila af mér hvíta pokanum, hitti ég loksins á Sjönu sem hafði reynt að finna mig og hún komst ekki í T2 pokann sinn og lét svo bara einhvern starfsmann geyma fyrir sig pumpuna mína. Við sáum  Atla og Óla á ströndinni þar sem þeir voru með íslenska fánann og þar gat ég deilt áhyggjum mínum af þessu stykki með Óla. Lærdómur dagsins, við komum allt of seint á svæðið, allt of mikið stress, mun ekki gerast aftur. Það er nokkuð ljóst.

Það var ekkert annað að gera en að setja upp Pollýönnubrosið og henda sér í kaldann sjóinn án þess að hafa hitað upp, eins og ég ætlaði að gera, hafði hvorki hlaupið, né dýft tánum í sjóinn, eða prófað sundgleraugun. Þátttakendur voru almennt að því, hefði gert það, ef ég hefði haft meiri tíma.

Fatlaðir þátttakendur voru ræstir fyrstir, þ.e. klukkan 06:00 og við án galla 06:15 svo átti að ræsa hópinn þar sem þátttakendur voru í gallanum 15-20 mínútum síðar.12188968_10154382894569778_1454957856032282637_n

SUND  (1:23:39 – 27. sæti eftir sundið – allir í sama flokki)
Var ótrúlega lítið stressuð fyrir sundinu, kannski þar sem hausinn var bara að hugsa um stykkið sem ég var svo klaufsk að gleyma að taka af pumpunni hjá almennilega manninum sem aðstoðaði  mig. Við Kristjana gengum saman inn að staðnum þar sem við vorum svo látin bíða.  Finnst samt alveg ótrúlegt og í raun fáránlegt að stressa okkur svona upp og senda okkur á ströndina klukkan 05:45 þegar fyrsta ræsing var ekki fyrr en klukkan 06:00. Þannig biðum við í raun heillengi á ströndinni. Náði ekkert að hitta Siggu og Gúu fyrir keppni en hitti Irinu og Möggu en þær voru allar fjórar ræstar um 15-20 mínútum á eftir okkur.

Skipulagið á þessari sundræsingu var ekki eins gott og í Kalmar í fyrra. Fannst hlutirnir miklu skipulagðari þar og ekki eins margir sem fóru út í einu, eins og þarna, svo kraðakið var miklu meira. Auk þess var auðvitað engin alda í Kalmar en hún var þó nokkur þarna, þegar maður var að fara út i sjóinn.

Sundið er 3,8 km og farnir eru tveir hringir, þ.e. komið í land á milli.  Það koma mér líka á óvart, hversu margir syntu ekki réttu megin við rauðu baujuna t.d. á bakaleiðinni en við áttum alltaf að synda hægra megin við baujurnar, þ.e. hafa þær á vinstri hönd en meirihlutinn gerði það ekki.  Fyrri hringurinn gekk mjög vel og mér leið mjög vel þótt ég væri ekki í galla og það var þó nokkur alda sem þurfti að brjóta. Svo fór ég í land á milli, labbaði bara rólega, vinkaði Óla og Atla og fékk  mér vatnsglas áður en ég henti mér í seinni hringinn.

Þá var heldur betur alda og mér fannst ansi erfitt að koma mér útí aftur. Reyndi samt að gera sama og aðrir, þ.e. að stinga mér til sunds undir hana, en hafði svo sem ekki æft þetta. Lenti svo illa í einni öldunni. Það fór ekki betur en svo að hún snéri mér alveg á botninn og ég fékk tognun aftan á hægra lærið, sem var mjög óþægilegt. Ég man að ég ég hugsaði á þessum tímapunkti, er keppnin OFF, mun ég þurfa að hætta eftir sundið, vegna tognunar, sem varð vegna baráttu við öldu, eða hvernig fer þetta eiginlega?  En ég hélt áfram, gat alveg synt þótt ég væri með stöðugan verk. Reyndi bara að nota fæturna minna, sem er erfiðara án galla. Seinni hringurinn gekk vel á endanum og verkurinn minnkaði þegar leið á sundið.  Hjúkk it 😉

Sundtíminn var 1 klst 23 mín og 39 sek sem er ágætt miðað við öldur og að synda ekki í galla. Sundið í Kalmar hjá mér var 1:17:45 í galla í sjó, sundið í Frankfurt 1:13:50 í galla í vatni og sundið í Cozumel  1:31 ekki í galla og í sjó. Bara nokkuð sátt við þennan tíma, þ.e. 1:23:39 m.v. sjó og ekki í galla.

Vegalengdin sem ég synti skv. Garmin var 4.160 metrar, á að vera 3.800 m.

T1 (7:45)
Ég sá aftur Óla og Atla þegar ég kom í land, veifaði þeim og hljóp svo áfram, fékk aðstoð við að renna niður „swimskinninu“ sem ég var í yfir þríþrautargallann á leið á skiptisvæðið, en það var þó nokkuð langt skokk, fyrst að bláu pokunum, þ.e. með hjólafatnaði og svo inn í hús, sem er skiptisvæðið.
Þar henti ég mér í hjólaskóna, setti á mig legghlífar, það mátti nefnilega ekki synda í legghlífum eða bol með ermum, ef maður ákvað að synda ekki í galla. Svo var ég í smá vandræðum að troða mér blaut í legghlífarnar, svo bara sokka, skó og hjálminn. Varð að bera aftan á hálsinn á mér græðandi krem, því ég fékk slæm nuddsár eftir swimskinnið sem sveið undan. Svo fékk maður sólbaðsáburð borinn á sig (það var ekki í Frankfurt, né Kalmar) og vatn að drekka á leiðinni út og við tók hlaup að hjólinu. Á leiðinni að hjólinu sá ég Óla, stoppaði aðeins að tala við hann, en hann sagði mér að kanna hvort stykkið væri ekki komið á hjólið, einhver tilfinning sem hann fékk.  Viti menn þegar ég kem að hjólinu þá er það fyrsta sem ég sé stykkið, komið í hjóla-töskuna á stönginni sem var með nestinu. Þessi  frábæri maður hefur skilað því þegar hann uppgötvaði að hann væri með það. Þvílíkur léttir að vita að ég væri komin með stykkið aftur, eftir allt stressið í kringum það.

T1 tíminn var 7 mínútur og 45 sekúndur sem er bara ágætur tími m.v. hversu löng vegalengd þetta var skv. Garmin var hún um 700 metrar og það er fyrir utan búningsklefann sem var inni á hótelinu.

HJÓL (5:51:09 – 25. sæti eftir hjólið)
Það var glöð og sæl Halldóra sem lagði af stað í hjólið með stykkið í nestistöskunni 😉 Það var mjög gaman að hjóla út úr bænum á Front Beach Rd, um 10 km leið, en svolítið mikið af hjólreiðamönnum, svo ég var mikið að taka fram úr. Sá að ég var samt að hjóla of hratt fyrstu 5 km á 32,1 km meðalhraða og næstu 5 km á 33, 8 km og púlsinn var of hár (164-169 slög á mínútu)ætlaði alls ekki yfir 160 og í raun ætlaði ég að taka fyrri helminginn á 150-155 og síðari á 155-160. En ég ætlaði að hægja á mér um leið og það myndi dreifast úr hópnum.

Svo erum við komin rétt út af aðalgötunni inn á S Arnold Rd, búin að hjóla nokkra kílómetra upp eftir, þegar það kemur hópur á eftir mér sem ég reyni að taka fram úr en kemst ekki til hægri, þ.e. til hliðar, þar sem það var mjög mikið af hjólurum. Þá kemur dómari á mótorhjóli sem gaf mér bláa spjaldið, sem er „drafting“ refsing, þ.e. ef hjólreiðamaður er viljandi að hanga í næsta hjólreiðamanni en þú átt að vera með 10 metra í næsta hjólreiðamann. Ég var alls ekki sátt við þetta, þar sem ég var alls ekki að drafta, heldur lenti í þessu kraðaki og sat föst, hef alltaf passað mig mjög vel á að halda þessu bili og hægja á mér, svo mér fannst ég fá virkilega óverðskuldað spjald. En það þýðir ekki að deila við dómarana svo ég varð bara að stoppa í fyrsta penalty boxinu og taka út mína refsingu sem var 5 mín, eftir að ég stoppaði.  Ég fékk skeiðklukku í hendurnar og fékk ekki að fara af stað fyrr en eftir 5 mín á henni. Það mátti ekkert nota þessa refsingu, þ.e. til að fara á salernið eða slíkt. Ég bara stóð á hjólinu og fékk mér jú eitt gel. Tók út þessa refsingu á eftir 42,75 km (1 klst 8 mín).

Eftir að hafa tekið út refsinguna hægðist meðalhraðinn verulega hjá mér, því í hvert skipti sem einhver tók fram úr mér eða hópur sem kom fram úr mér, þá sló ég strax af, ekki ætlaði ég að fá aðra refsingu. Því eftir 3 refsingar ertu rekin úr keppni. Meðalhraðinn var því nær 30 km á klst næstu kílómetrana.

Undirlagið á hjólaleiðinni var alveg ágætt og sem betur fer var ekki mikil sól, því það var samt vel heitt og mikill raki og við fengum líka kafla með þó nokkrum mótvindi.  Sérstaklega kaflinn þegar við vorum búin að taka hringinn og vorum að hjóla aftur upp Dog Track Rd. En þegar komið var að þeim snúningspósti var bara að hjóla aftur beint suður eftir í meðvindi og svo taka þessa 10 km til baka á Front Beach Rd.  Náði ágætis hraða þarna niður eftir á um 35 km meðalhraða, þurfti reyndar að stoppa eftir 141 km samtals (4 klst. 28 mín) og laga keðjuna sem datt af hjá mér í einni skiptingunni, en gekk sem betur fer vel að koma henni á aftur. Svo var mjög mikið af hjólreiðamönnum á Front Beach Rd. svo þar hægði ég á mér enn og aftur til að passa 10 metra draft-vegalengdina eins og ég geri alltaf – svo ég var þar í kringum 30 km meðalhraða.

Garmin segir hitastigið hafa verið 22,2 gráður og 94% raka og vind 10 km á klst af aust-norðaustri.

Heildarhjólatíminn var 5:51:09 ( skv Garmin Edge 540 – 5:46:19 þá er refsingin ekki inni).
Þessi hjólatími er PB í Ironman hjá mér – því ég var 6:03:29 í Kalmar, 06:04:53 í Frankfurt og 6:34:19 í Cozumel.

1177_066215

T2 (6:06)
Það var aðstoðamaður sem tók við hjólinu, hljóp reyndar á eftir honum til að stoppa Garmin Edge græjuna. Hljóp svo og sótti rauða T2 pokann og svo var hlaupið inn með hann í búningsklefa. Losaði hjálminn og fór úr hjólaskónum. Í hlaupaskóna og setti á mig derið og tók með mér magnesíum spreyið, og saltið, því ég var farin að finna fyrir krömpum í lok hjólsins mest á innanverðum lærunum.  Endaði á að setja á mig númerabeltið. Svolítið sérstakt í Flórída að maður hjólar ekki með númerabeltið, heldur setur það upp í T2 og það er stranglega bannað að synda með það undir blautbúningi ef hann hefði verið leyfður. Fyrsta skipti sem ég upplifi það. Svo var að láta setja á sig sólarvörn og hlaupa af stað. Fór reyndar strax á klósettið áður en ég fór út af skiptisvæðinu.  Í fyrsta skipti í þessum Ironman sem ég upplifði ekki endalausar klósettferðir, sem var skemmtileg tilbreyting 😉

Tíminn í T2 var 6 mín 6 sek með klósettferðinni sem er bara mjög fínn. Lengdin skv. Garmin um 400 metrar.

HLAUP (4:44:28 – 15. sæti eftir hlaupið)
Leið ekkert allt of vel þegar ég lagði af stað í hlaupið. Var byrjuð að fá krampa í lokin á hjólinu og hitinn var að aukast mikið í hlaupinu. Sólin var búin að ryðjast fram undan skýjunum og því orðið ansi léttskýjað og mjög heitt. Ég reyndi að taka inn gel og vera dugleg að taka saltið (nýja saltið sem er stórsniðugt og ég keypti á Expoinu, ekki í hylkjum, heldur fer inntakan beint í gegnum tunguna og munninn). Mér leið alls ekki vel.  Hlaupið í IM Flórída eru 2 hringir 42,2 km. Það er mikið af beygjum og farið í gegnum nokkur íbúðarhverfi og endað á að fara hring inn í einhverjum garði. Það var djókað með það að ef þú sleppur við hákarlana í sjónum í IM Flórida og krókódílana á hjólaleiðinni, þá gætirðu lent í stingandi flugum í hlaupinu, sem við sluppum við en lentum í staðinn í stingandi sól, hita og miklum raka 😉

Í þessu hlaupi er ekkert svona teygjusystem eins og í Frankfurt og Karlmar, þannig að maður gat ekki séð hvort fólk var að fara fyrri eða seinni hring. Hins vegar voru hjólreiðamenn á undan fyrstu 4 körlunum og fyrstu 4 konunum, svo ég sá að það voru flestir á fyrri hring eins og ég, því ég mætti ekki þessum fyrstu mönnum fyrr en ég var byrjuð á síðari hring, en þá áttu þeir nú ekki mikið eftir. Meðalhraði fyrstu kílómetrana var í kringum 6 en fór svo hækkandi (þ.e. varð hægari) þegar á leið.  Í hausnum á mér glumdu síðustu skilaboð frá Viðari þjálfara, ekki ganga í hlaupinu, nema í gegnum vatnsstöðvar. Ég var hins vegar farin að ganga allt of mikið, setti mér nú samt upp ákveðið kerfi í því, þ.e. hljóp 100 skref og gekk 20 skref, fann að kramparnir í fótunum löguðust við að fá svona reglulega göngu.  Man ég hugsaði líka að maður á ekki að sleppa kvöldmatnum, þ.e. pastanu kvöldið fyrir Ironman, en við Sjana nenntum ekki að fara og fá okkur að borða og borðuðum bara eitthvað snakk og léttmeti, þó Atli frændi hafi verið að hvetja okkur til að fara og fá okkur pasta.

1177_060862

Mætti öllum stelpunum tvisvar og Rafnkeli líka, það var virkilega gaman. Man hvað ég var glöð að við værum öll komin í hlaupið, því þá var ég fullviss um að við myndum öll klára.  Það var ágætis stemning á staðnum sérstaklega í fyrri hringnum, en mun minni í seinni. Það sem kom mér líka á óvart var að eftir að myrkrið skall á, sem gerðist hjá mér þegar ég var að koma út í enda í seinni hringnum, þá var bara eiginlega engin lýsing allan hringinn. Það voru einhverjir rafmagnskastarar þarna í garðinum útí enda, annars hljóp maður bara í myrkrinu og sá ekkert fram fyrir sig. Þetta var mjög furðulegt, en allir starfsmenn á öllum drykkjarstöðvum sem maður stoppaði á voru mjög almennilegir og ég stoppaði á öllum drykkjarstöðvum, þar sem ég tók nýja blauta svampa og klaka sem ég setti inn á bringuna á mér og inn á bakið og bleytti á mér höfðuð, því hitinn og rakinn var rosalegur.  Drakk mikið af vatni og gatorade, tók sítrónu og saltið mitt, en borðaði ekki mikið, aðeins gelin mín, en kláraði þau samt ekki.  Ég tók mun minni orku í þessum Ironman, bæði í hlaupinu og hjólinu en ég er vön, en var mjög dugleg að taka inn salt.

Meðalhitastig í hlaupinu skv. Garmin 27,8 gráður á Celsíus (feels like 31,1 og 74% raki 10 km á klst nnv)– svo það hefur verið vel yfir 30 gráður í fyrri hringnum, þegar það var alveg orðið heiðskírt því svo var komið myrkur í síðari hluta seinni hringsins.

Tíminn í hlaupinu var 4 klst 44 mín og 28 sek. sem er næst lakasti tími í IM hjá mér. Var 5:04:44 í Cozumel, 4:27:43 í Frankfurt og 4:15:55 í Kalmar.  Hefði viljað sjá betri tíma í hlaupinu, þá hefði ég þurft að hlaupa allt hlaupið, en ekki ganga það og kannski vera skynsamari á hjólinu.  Alla vega átti ég ekkert inni í lokasprett í þessu hlaupi eins og ég á oft svo ég er bara mjög sátt.1177_020206

SAMTALS TÍMI (12:13:07 – 15. sæti í aldursflokki allir, með og án wetsuit)

Heildartíminn var 12 klst 13 mín og 7 sek. Árangurinn er 15. sæti af 159 konum í aldursflokki, topp 9,4% en það voru 115 sem kláruðu. Þetta er í fyrsta skipti sem árangurinn minn er innan við topp 10% svo ég get vel við unað.

Sjá til samanburðar árangurinn í eldri Ironman keppnum hjá mér, þó það sé ekki samanburðarhæft að bera saman mismunandi keppnir né keppnir milli ára. Bæði eru brautir mismunandi sem og veðuraðstæður. Eina sem er sambærilegt er vegalengdin.

2014 Kalmar = 11:44:11 – 8. sæti af 45 konum í aldursflokki (42 sem klára) topp 17,7%
2013 Frankfurt = 11:54:40 – 22. sæti af 64 konum í aldursflokki (50 sem klára) topp 34,37
2012 Cozumel = 13:24:33 –  34. sæti af 127 konum í aldursflokki (85 sem klára) topp 26,7%
1177_021845

LOKAORÐ
Ironman er þríþraut, sund, hjól og hlaup og það þýðir ekkert að ná góðum árangri í einni greininni, ef maður tekur of mikið úr sér og tapar á því í þeirri næstu eða síðustu. Maður verður að vera skynsamur alla leið og passa að halda púlsinum vel innan mjólkursýrumarka í öllum þremur greinunum. Einnig er mjög mikilvægt að passa næringuna og taka hana skipulega og reglulega inn.

Ef maður ætlar að ná framúrskarandi árangri þá verður maður líka að æfa skipulega og í mínu tilviki tóku fjallahlaupaæfingar frá mér mikið af hjólaæfingum í sumar. Það var að sjálfsögðu mitt val og ég sé alls ekki eftir því, því Mt. Esja Ultra, 11 Esjur í júní 77 km og Mt.Blanc CCC hlaupið 102 km í lok ágúst eru ógleymanleg fjallahlaup sem ég hefði alls ekki viljað fórna.

Markmiðið hjá mér í Ironman Flórída 2015 var alltaf #1 að klára og #2 að hafa gaman af því og þessi markmið náðust að fullu. Markmið #3 var að bæta eigin tíma sem náðist ekki.

1177_076249

Elsku vinkonur, það eru algjör forréttindi að komast allar að ráslínu og  algjörlega einstakt og frábært að við náðum allar að klára sem er alls ekki sjálfsagt, því það voru margir sem urðu að hætta keppni.

Langar að óska Gúu og Möggu innilega til hamingju þar sem þær voru að klára sinn fyrsta Ironman og gerðu það með stæl.

20151108_170058

Óska einnig Rafnkeli Jónssyni innilega til hamingju með frábæran árangur í Ironman Flórida 2015.

Kæru samferðarmenn, Óli og Atli frændi takk fyrir yndislegar tíma og samverustundir og elsku Sjana, Sigga, Irina, Gúa og Magga takk enn og aftur fyrir þetta yndislega ferðalag, frá
skráningu til keppni,

LUV JU ALL 😉

—————————————-

Myndband frá keppnishöldurum hér:
(Halldóru og íslenska fánann er að finna á mínútu 9:07)
Myndir frá IM Flórída 2015 keppninni í heild hér:
Myndir frá FINISHER PIX frá keppninni hér:

Sjá ÞAKKIR EFTIR IM FLÓRÍDA 2015 hér:

11215878_10153806650449558_264707767272679334_n

You may also like

Leave a Comment