Vetrarsólstöðuhlaup #árstíðarhlaup

by Halldóra

Við Sigga Sig vinkona tókum saman þátt í Vetrarsólstöðuhlaupi, árstíðarhlaupa, laugardaginn 21. desember. Upphaflega planið gerði ráð fyrir að hlaupið yrði í Grindavík, en þar sem það var gul viðvörun og mikið rok, var ákveðið að færa hlaupið á Suðurlandið og hlaupa Jaðarinn, frá Bláfjallavegi inn í Heiðmörk.

Við hittumst klukkan 21:00 við Helluvatn í Heiðmörkinni þar sem við röðuðum okkur í bíla. Við Sigga fengum far upp í Bláfjöll með Stefáni Braga og Sigga og Viktori. Svo var lagt af stað um klukkan 22:00 frá Bláfjalla-afleggjaranum.

Það var mjög mikill snjór, háir skaflar og mjög erfið færð. Það var einnig mikið rok, norðanvindur um 18 metrar á sekúndu, en sem betur fer að mestu í hliðina á okkur eða bakið, en fengum smá part í fangið.

Færðin var hrikalega erfið, það var ekki hægt að ganga ofan á snjónum og maður féll stöðugt ofan í skafla svo þetta var mjög slæmt fyrir bakið og mjaðmirnar á mér. Við Sigga vorum orðnar langaftastar og hraðinn ekki upp á marga fiska. Þeir sem höfðu farið á undan höfðu dreift sér víða, svo það var ekki einu sinni hægt að ganga í sporunum. Stundum hélt maður að snjórinn myndi halda, en þá pompaði maður niður.

Eftir um 10 km, ákváðum við Sigga að hringja í Pétur og fá hann til að sækja okkur þegar við kæmum á veginn, þar sem okkur leist ekki á blíkuna.

Við náðum sem sagt 13 km á 3 klst og styttum leiðina þar með um 7 km, þar sem heildarleiðin er 20 km. Þrátt fyrir að þetta væri eitt erfiðasta hlaup (ef kalla má hlaup) sem ég hef tekið þátt í á Íslandi, þar sem skaflarnir voru djúpir og erfiðir. Þá var mjög gaman hjá okkur Siggu, við sungum jólalög og hlógum mikið. Pétur skutlaði okkur niður í Heiðmörk, þar sem bílarnir okkar voru, og þar beið okkar heitt kakó og meðlæti.

Takk elsku Helga María og Rúna Rut fyrir frábært framtak.

You may also like

Leave a Comment