Upphaflegt plan var að fara á Utanbrautarskíðum (Stálkantaskíðum) frá Sigöldu inní Landmannalaugar.
Inga og Jói buðu okkur að gista í bústaðnum hjá sér í Árnesi og svo ætluðum við að leggja eldsnemma af stað á laugardagsmorgninum (7.3.2020).
En þar sem við búum á Ísland og allskonar litaðar veðurviðvaranir orðnar daglegt brauð, þá er nauðsynlegt að vera sveigjanlegur. Í stað þess að fresta ferðinni þá ákváðu þessir frábæru skipuleggjendur að gera smá breytingu á plani, ganga inn í Þjórsárdal í stað Landmannalauga.
Við lögðum af stað á laugardagsmorgni og gengum inn í Þjórsárdal í skógræktarlandinu hjá Skógrækt ríkisins, í skóginum í þokkalegu skjóli, eftir vegslóðum þar. Við áðum á Stöng, þar sem við settumst niður í skjóli, því það var svolítill mótvindur og borðuðum nestið okkar. Héldum svo áfram inn að Hólaskógi. Óli var á trússbíl og ætlaði að aka með dótið að skálanum í Hólaskógi, en vegna snjóalaga þá gat hann ekki farið á jeppanum að skálanum. Við urðum því að skíða með dótið frá bílnum upp í skála. Við fórum eina ferð með drykki og snakk og duffelbag töskur (aukaföt og svefpokar).
Við vorum svo nokkur sem fórum aðra ferð þegar Tóti og Hilmar komu með púlkurnar og þá fékk ég tækifæri í fyrsta skipti að draga púlku á gönguskíðum. Hugsaði mikið til afreks Vilborgar Örnu vinkonu minnar þegar ég dró þungu púlkuna þessa stuttu leið sem ég dró hana. Hversu mikið afrek þetta var hjá henni og fylltist þvílíku stolti að þekkja þessa mögnuðu konu.
Strákarnir grilluðu svo stórkostlegan mat, lambafile og bakaðar kartöflur. Meðlæti var salat og sósur, auk snilldar rjómasósu. Eftir kvöldmat, var smá súkkulaði desert og yndislegt spjall og spil að hætti Ísbjarna.
Á sunnudagsmorgninum var eldaður frábær hafragrautur og efir frágang á salnum, uppvask og þrif og pökkun fórum við öll eina ferð á gönguskíðunum í bílana sem nú voru orðnir tveir með farangurinn. Frá bílnum genguð við svo inn að gili og meðfram ánni niður að Stöng. Hópurinn samanstóð af 17 Ísbjörnum og 3 Ísbjarnarhúnum. Leiðin var stórkostlega falleg og það var gaman að sjá stóran rjúpnahóp fljúga yfir svæðið, ekki einu sinni heldur tvisvar.
Við áðum svo aftur að Stöng í skjóli, þar sem það var ennþá meira rok á sunnudeginum en á laugardeginum. En sem betur fer var um meðvind að ræða. Eftir áningu að Stöng, var tekin ákvörðun að reyna að komast yfir árnar að gömlu sundlauginni í Þjórsárdal. Það voru 50% líkur á að það myndi takast, því bæði var frekar takmarkaður snjór og spurning hvort árnar væru nógu frosnar. Þetta gæti stoppað för okkar í átt að sundlauginni og því ákváðum við bara að prófa, við yrðum þá bara að snúa við ef þetta gengi ekki.
Ferðin var mikið ævintýri. Það var alveg töff fyrr nýliða á utanbrautarskíðum að láta sig vaða yfir frosnar árnar, tala nú ekki um þegar rokið var jafnmikið og það var í dag, svo maður fauk yfir ísilagða ána og átti í erfiðleikum með að stoppa sig, líka þegar maður var kominn yfir og mikið af grjóti, þar sem snjórinn var takmarkaður.
Mér stóð ekki alveg á sama í eitt skiptið, þegar okkur var sagt að við yrðum að losa allar festingar á bakpokunum (þ.e. sem er bundinn við okkur) og hafa gönguskíðastafina lausa í höndunum á okkur, þannig að við gætum verið snögg að henda af okkur bakpokanum og stöfunum, ef við myndum falla ofan í vökina.
En við fórum yfir þessa á eins og allar hinar, bara eitt okkar í einu og það gekk mjög vel. Ég fór með möntruna mína, ég er grjóthörð og jákvæð og gaf svo bara í með stöfunum og það kom mér yfir, það var erfiðast að ná að stoppa mig hinum megin við ána. Enda fékk ég tvær byltur á leiðinni í dag. Eitt skipti þegar ég var búin að fara yfir eina ána, þar sem það var eina leiðin til að stoppa sig, að lenda á rassinum og nota svo bakpokann sem bremsu, en í hitt skiptið skíðaði ég óvart yfir grjót (sem ég sá ekki), sem var eins og bremsa og ég lenti á báðum hnjánum sem var aðeins verra 🙂
Við fórum svo í sund klukkan rúmlega 13 í gömlu lauginni í Þjórsárdal. Frábært að hafa búningsklefa til að verjast vindi, í þessari annars frábæru náttúrusundlaug. Eftir góðan „sundsprett“ var bara að taka síðasta spölinn frá lauginni niður að þjóðvegi, um 5,5, km leið, þar sem Óli og Tóti biðu okkar með trússbílana.
Frábær helgi með yndislegum Ísbjarnarvinum er að baki. Gengum samtals um 35 km leið í mjög krefjandi færi og þó nokkru roki. Leiðin var falleg og ofboðslega skemmtilegt að prófa þetta nýja sport, sem utanbrautar- eða stálskantaskíðin eru. Takk kæru vinir fyrir yndislega samveru alla helgina.
Dagur 1 – albúm
Dagur 2 – albúm