Tók þátt í NY maraþoninu sem fulltrúi Free to Run samtakanna í ár. Þeir buðu mér þátttöku sem Free to Run Ambassador og ég safnaði fé sérstaklega í nafni maraþonsins til samtakanna. Það var mjög skemmtilegt og gefandi verkefni.
Það er hægt að komast að rásmarki í NY maraþoninu á tvennan hátt, með rútu frá miðbænum eða með ferju frá syðsta hluta Manhattan, kallast Battery, yfir á Staten Island. Ég var svolítið sein að ákveða hvar ég ætlaði að gista Í NY og því sein að skrá mig í rútu. Þegar ég skráði mig var bara eftir laust pláss með ferju. Ég gat ekki valið ferjutíma, en fékk úthlutað tíma klukkan 05:30, en rástíminn hjá már var klukkan 10:20, mér fannst þetta frekar langur biðtími, þ.e. 5 klst, þó að sjálfsögðu það væri alltaf gott að vera kominn tímalega.
Það voru nokkrir reynsluboltar sem sögðu mér að enginn skoðaði klukkan hvað þú ættir ferjutíma, svo ég gæti farið hvenær sem er. Þar sem ég ákvað að halda bara íslenska tímanum, fara að sofa klukkan 20:00 á kvöldin, þá var ég vöknuð fyrir klukkan 04:00 svo ég fór í sturtu og græjaði mig og hefði því í raun getað tekið ferjuna klukkan 05:30, en var búin að taka ákvörðun kvöldið áður að taka hana klukkan 06:15, þar sem hótelið mitt var bara í 15 mín göngufæri frá Ferjubryggjunni.
Þegar ég var tilbúin, lagði ég bara af stað, en fann samt ekki sólgleraugun mín þegar ég var að hlaupa út, typical 😉 Því fór ég með POC sparigleraugun mín sem eru með styrk, sem eru reyndar geggjuð. Ég var því komin í Ferjuna sem lagði af stað frá Manhattan klukkan 06:00 og ég sé ekki eftir því. Að sjá sólina koma upp yfir borginni var algjörlega magnþrungið 😉
Þegar ég kom á Staten Island, fór ég á klósettið og sjálfboðaliði bauðst til að taka mynd af mér með glæsilega skreyttu jólatré. Þaðan fer maður svo með gamladags gulri skólarútu að rásmarkinu.
Í skólabílnum kynntist ég konu, sem var að fara í sitt 17 NY maraþon. Hún þekkti allt svo vel og tók mig að sér eins og leiðsögumaður. Hún, eins og allir aðrir voru algjörlega hugfangnir þegar ég sagðist vera frá Íslandi og skemmtileg tilviljunin sem hún hafði ekki tekið eftir var að hún var með vatn frá Icelandic Glacier 😉
Þegar við komum úr skólabílnum var öryggisleit á hverjum hlaupara. Þú mátt ekki taka neitt inn á svæðið, sem ekki kemst í glæran poka sem þú fékkst með gögnunum þínum og ef þú hafðir gleymt þeim poka, þá fékkstu nýjan glæran poka.
ÓTRÚLEGA GOTT OG MIKIÐ SKIPULAG, ENDA 50.000 ÞÁTTTAKENDUR
NY maraþoninu er skipt upp í þrjá litaða ráshópa bleikan, appelsínugulan og bláan hóp. Ég var í bláa hópnum og nýja vinkonan líka. Appelsínuguli og blái fer yfir brúna, en bleiki fer undir brúna. Allir hóparnir sameinast svo í einn hóp á ákveðnum tímapunkti. Í hverjum lit eru fimm rástímar (five waves) og í hverjum rástíma eru sex hólf frá A til F(six corrals). Ég var sem sagt í bláa hópnum, þriðja rástími, sem var klukkan 10:20 og í hólfi B, sem var annað fremsta hólfið.
Aftur að leiðsögumanninum, hún fór með mig fyrst í appelsínugula hólfið, tók mynd af mér á leiðinni og sagði að við ættum að fara í appelsínugula hólfið til að fá „húfuna“ sem er skrautleg húfa merkt NY maraþoninu, beyglu og kaffi og ég sem var með örugglega heilt kíló af nesti með mér, afgangslasagna frá því kvöldinu áður, beyglu, smurost og smurt brauð, og fullt að drekka 😉 Allt þetta nesti kom ég fyrir í glæra pokanum. Ég fékk mér kaffi og beyglu, enda hafði ég ekki fengið mér kaffi áður en ég fór af hótelinu um nóttina og ég borðaði engin morgunmat þar og kaffið með mjólk og sykri var virkilega kærkomið.
Í appelsínugula hólfinu var líka svo flott útsýni í átt að brúnni sem við hlaupum svo yfir sem ég tók myndir af svo ég naut mín bara vel, sólin skein og það var ekki svo kalt. Ég fór svo á klósettið og settist niður og borðaði lasagnað og hringdi í Óla og sagði honum að ég væri búin að eignast nýja vinkonu. Svo kvaddi ég hana, þar sem hún var búin að hitta vin sinn, gamall kærasti og ákvað að henda mér yfir í áttina að bláa boxinu. Það var ekki alveg eins cozy þar, meiri skuggi, og kaldara, en ég þurfti svo sem bara að bíða þar í eina klukkustund.
Það sem er öðruvísi í New York maraþoninu en t.d. Berlín maraþoninu sem ég tók þátt í á síðasta ári, er að það er ekki hægt að skilja eftir poka með fötunum sem maður er í, áður en maður byrjar að hlaupa og fá hann aftur í markinu. Hins vegar var hægt að fara á laugardeginum, í Central Park með slíkan marktan poka með t.d. úlpu í og þurrum bol ef maður hefði viljað, en ég nennti ekki að gera mér sér ferð þangað. Í Berlín gat maður ráðið hvor maður fengi svona poka, sem maður NB skildi eftir áður en maður lagði af stað, eða fengi PONCHO í markinu. Í NY maraþoninu fá allir PONCHO þegar þeir koma í mark.
Sem betur fer vissi ég af þessu og tók því með mér gömul og lúin föt, og flísteppi, og buff. Öll föt sem eru skilin eftir eru gefin til heimilislausra eða fátækra. Þegar ég sat þarna og beið eftir ræsingunni minni, þá voru tvær ókunnugar konur að spjalla, þar sem þær voru báðar í eins hlýjum íþróttapeysum sem þær höfðu keypt greinilega á sama stað fyrir 25$. Þær hafa þá ekki átt nein gömul eða langað til að kaupa eitthvað nýtt til að gefa heimilislausum.
RÆSINGIN
Klukkan 9:45 var „básinn“ okkar opnaður fyrir okkur. Það mátti enginn fara inn í básinn sem var ekki með rétt númer, nema þeir hefðu átt að vera í fyrri ráshópum um morguninn, hefðu t.d. misst af þeim. Það gat enginn farið á undan símum tíma, en það hefði hver sem er mátt fara síðar, enda bara flögutími sem ræður. Þegar ég var komin inn á „básinn“ þá fór ég líka á klósettið þar, en hefði kannski ekki átt að fara svona snemma, því stuttu áður en við fengum að halda áfram var mér aftur orðið mál. Klukkan 10:00 er básnum lokað. Stuttu eftir það fer allur hópurinn af stað, gengur örugglega um 800 metra leið að ráslínunni, þá allir sex hóparnir sem í raun þá sameinast í einn hóp þið munið ég var í hóp tvö. Þetta er mjög flott skipulag og gert til að dreifa úr hlaupurum, að ekki verði svona mikill troðningur. Þegar ég svo kom að ráslínunni þá var mér aftur orðið mál að pissa, en engin klósett þar ha ha ha, þá var bara að halda í sér og telja sér trú um að þessi þörf sé bara ímyndunarveiki 😉
Það var mjög mikil stemning þarna í ræsingunni, talað um öll þau fjölmörgu lönd sem eru að taka þátt og svo var þjóðsungurinn sunginn, þá fékk ég gæsahúð, og var þakklát fyrir að hafa verið í B hóp, þar sem ég sá mjög vel og heyrði ræsingunni og sá svo allan hópinn fyrir aftan mig.
Klukkan 10:20 var byssuskot og maraþonið var ræst fyrir Wave 3. Við í bláa hópnum vorum hægra megin á brúnni og appelsínuguli hópurinn var vinstra megin og niðri var bleiki hópurinn. Fyrstu sameinuðust blái og appelsínuguli hópurinn þegar við vorum komin til Brooklyn og síðar kom bleiki hópurinn inn líka.
Það að hlaupa yfir brúna Verrazzano Narrow Bridge yfir til Brooklyn var algjörlega magnað. Auðvitað var strax heilmikil hækkun, en maður var svo spenntur að maður var ekkert að spá í það. En NY maraþonið er alls ekki flatt, heldur er samanlögð hækkun um 300 metrar.
Það var heiðskýrt og ótrúlega heitt allan daginn, alla vega fyrir Íslendinginn. Ég var í stuttubuxum, en með kálfahlífar og hnéhlífar svo ég var alveg vel klædd, var í stuttermabol og með ermar, sá eftir að hafa ekki frekar farið í Free to Run hlýrabolnum sem ég hljóp Berlínarmarþonið í fyrra 😉
NÆRINGARPLAN
Mér leið bara mjög vel fyrstu kílómetrana, en það var heitt en ég reyndi að passa púlsinn og halda honum undir 160, en hámarkspúlsinn minn er 200 svo þá er ég undir 80%. Næringarplanið var mjög gott og virkaði vel. Ég borðaði reyndar mjög vel áður en ég lagði af stað, beyglu, kaffi, lasagna afgang (bara smá) ha ha ha og tvo banana. Drakk bæði vatn og kolvetnadrykk frá Bætiefnabúllunni. Fimmtán mínútum fyrir ræsingu tók ég inn BIOTECH Energy Pro gel og ég var með 4 svona gel með mér sem ég kláraði öll á leiðinni. Ég var líka með 3 pakka af Enervit gúmmí og carbon töflum frá því í sumar og svo var ég með salttöflur og Precision hydration töflur í Salomon vatnsbrúsann sem ég hjóp með sem var ALGJÖR snilld í hitanum. Ég fyllti hann á hverri vatnsstöð og bætti töflum í hann og kláraði allar fjórar töflurnar sem ég tók með.
STEMNINGIN OG DRYKKJARSTÖÐVAR
Stemningin er ólýsanleg, það var fólk að hvetja báðum megin brautarinnar, nær alla leiðina. Kosturinn sem ég sá við að vera í bláa hópnum, var að vera hægra megin á brautinni, því þá fengum við smá skugga af blokkunum, þar sem við hlupum í norður og sólin austan við okkur. Var hugsað til Arnars Péturs þegar hann var að lýsa maraþonum í sjónvarpinu í sumar sem ég hlustaði á, hversu mikilvægt það væri að hlaupa í skugganum. JÁ svo sannarlega og ég fann hvað mér leið miklu betur þegar ég komst í skuggann, eða þegar við fengum smá ský yfir sólina sem var ekki oft þennan daginn, auk þess sem ég jós yfir mig vatni á drykkjarstöðvum.
Á drykkjarstöðvum, var Gatorade og vatn í boði og ég drakk aðallega vatnið, stundum smá Gatorade, en var mjög sátt við næringarplanið mitt. Svo var boðið uppá SIS gel og banana á einhverjum tveim stöðvum á leiðinni. Ég gerði þau mistök að smakka SIS gel á einni stöðinni og var næstum búin að æla því, fannst það svo vont og þakkaði Guði fyrir góðu BIOTECH gelin mín.
HÁLFT MARAÞON
Þegar ég var búin með 14 km þá sá ég klósett og hugsaði nú get ég ekki meir, ég bara verð að fara, enda búin að halda í mér síðan ég byrjaði. Wow, hvað það var gott að komast á klósett og létta á sér 😉 Stuttu seinna fór ég yfir 15 km skiltið og leið bara vel ennþá. Náði 5 km á 30 mín, 10 km á 59 mín og 15 km á 1:30 með pissustoppi 😉 20 km voru á 2:03 og hálft maraþon á 2 klst og 10 mín sem ég var bara sátt við, en eftir það kom í ljós að ég hafði ekki alveg náð að æfa eins og ég ætlaði fyrir þetta maraþon 😉 Markmiðið var að byrja að æfa að krafti í byrjun október (tveim vikum eftir Ironman Italy) en þá lagðist ég í flensu sem ég var frekar lengi að ná úr mér. Því náði ég ekki að hlaupa lengra en 21 km og náði tveim slíkum æfingum. Ein sem var 20 km og hin 21 km í haustmaraþoninu. Þannig að eftir hálft maraþon eða eftir um 23 km var þetta aðeins farið að taka á, lærin urði aðeins stíf og þá hægðist aðeins á mér.
AUÐMÝKT OG ÞAKKLÆTI
Ég var búin að ákveða þrátt fyrir að vita að ég væri ekki í besta formi lífs míns, að hafa gaman alla leið og hugsa til ungu stúlknanna í Afghanistan sem ég var búin að vera að safna fjármagni fyrir sem hafa ekki frelsi til að hlaupa, þær hafa ekki frelsi til að mennta sig, né vinna eða gera yfið höfuð nokkurn skapaðan hlut. Ég hugsaði líka til alls fólksins sem býr við stríð, hungur, sefur í tjöldum og vaknar við sprengjur í kringum sig og sér fólk deyja allt í kringum sig. Algjörlega hræðilegt ástand í heiminum <3
Einnig hugsaði ég til allra þeirra sem ekki geta hlaupið t.d. vegna sjúkdóma eða veikinda. Ég hljóp fram hjá konu sem var að hlaupa maraþonið á tveim hækjum, þ.e. hún lyfti báðum fótum jafnfætis með hækjum vegna fötlunar. Ég hljóp fram hjá eldra fólki sem var orðið áttrætt eða eldra og var búið að hlaupa um 30-40 hlaup margir á hverju ári síðustu 20 árin, þau voru með slík merki á bakinu, ein þeirra átti afmæli svo ég óskaði henni til hamingju með afmælið þegar ég hljóp fram úr henni og hún var glöð og þakklát fyrir það.
Ég hljóp einnig fram hjá manni sem var að hlaupa með fatlaða dóttur sína í kerru. Hljóp fram hjá mörgum sem voru í merktum bolum, ég hleyp fyrir krabbameinssjúka og í minningu einhvers. Þá varð ég meir og hugsaði til mömmu, sem er búin að vera í krabbameinsmeðferð síðustu árin og hversu mikill harðjaxl hún er, syndir eins og selur og hjólar og gengur um allt. Mikið sem ég er stolt af því að vera dóttir hennar.
Ég var full af þakklæti, þakklát öllum þeim einstaklingum og fyrirtækjum sem hétu á mig og styrktu þannig Free to Run málefnið sem ég hef svo mikla trú á. Maraþon er alltaf erfitt og það á að vera erfitt þetta eru 42,2 km og 300 metra hækkun 😉
Það voru líka skemmtileg hvatningarskilti á leiðinni sem var hægt að hlægja að, eins og „Einungis 0,01% af fólki í heiminum hleypur maraþon“, „Þið eruð öll Kenyabúar í dag“, „Drífðu þig í mark áður en Kenya búarnir klára bjórinn“, „smelltu á skiltið fyrir orku“ og svo framvegis. Guðbjörg vinkona í 3N var einmitt búin að hvetja mig og sagðist ætla að sjúga í sig alla orkuna frá mannhafinu og ég svo sannarlega gerði það.
UMHVERFIÐ
Maraþonhlauparar fara í gegnum alla fimm borgarhluta New York sem er fjölmennasta borg NY fylkis og jafnframt Bandarikjanna en þar búa um 8,8 milljónir íbúa. Hlaupið er ræst á Staten Island, svo er hlaupið yfir brúna og yfir í Brooklyn, þaðan er hlaupið í gegnum Queeens, síðan i gegnum Bronx áður en farið er yfir brúna til Manhattan og að lokum hlaupið um 5 km leið í gegnum Central Park þar sem markið er.
Það er ógleymanleg upplifun að hlaupa í gegnum alla þessa ólíku borgarhluta. Þar sem ég er vön að ferðast og hef séð fólk af öllum kynþáttum um allan heim þá kom það mér mest á óvart að sjá og hitta Amish fólkið sem var að hvetja. Í fyrsta skipti sem ég sé Amish fólk með eigin augum, en þarna voru karlar og drengir að hvetja, en ég sá engar konur. Það var líka mikið af hljómsveitum að spila lifandi tónlist út um allt og mjög oft heyrði ég spilað hið margfræga lag með Frank Sinatra „New York, New York“, aftur gæsahúðarmóment.
Það að koma svo að Central Park og hlaupa í gegnum garðinn, öll hvatningin, „high five“ frá öllum krökkunum, hlaupa fram hjá Hótel Ritz og taka inn alla orkuna og gefa til baka „high five“ til áhorfenda, þetta er ógleymanleg stund. Að sjá svo íslenska fánann ásamt öllum hinum fánunum, þegar ég var alveg að koma í mark. Mér leið eins og ég hefði verið að klára mitt fyrsta maraþon, en ekki mitt ellefta. En hvert einasta maraþon er sigur og minning sem gleymist aldrei.
Það var KONA jákvæð og grjóthörð, en á sama tíma auðmjúk, hrærð og full þakklætis sem kom í mark í New York maraþoninu sunnudaginn 5. nóvember 2023 <3 <3
NEW YORK MARAÞON FINISHER 2023 = 4 klst 35 mín og 30 sek
ÞAKKIR
Elsku Óli minn, mín stoð og stytta, TAKK fyrir allan stuðninginn og að vera alltaf til staðar alltaf. TAKK allir frábæru vinir mínir sem hétu á málefnið og styrktu Free to Run og öll fyrirtækin sem ég leitaði til og styrktu málefnið. TAKK 66 norður sem gáfu stelpunum þrem frá Afganistan, gjafir, úlpur, boli og eyrnaband. TAKK Útilíf fyrir að halda kynningarfund um málefnið. TAKK Bætiefnabúllan fyrir afslátt á frábærri orku og TAKK Coach Biggi fyrir frábæran stuðning og góðar styrktaræfingar. Kæru vinir Siggi K og Guðmundur Smári TAKK fyrir ykkar aðstoð við skipulag fjáröflunar og stuðning. TAKK ÖLL <3
Er svo stolt af þessum mögnuðu afgöngsku stúlkum sem eru svo miklar fyrirmyndir fyrir kynsystur sínar í heimalandinu sem hafa ekki „Frelsi til að hlaupa“. Það var svo gaman að fá að kynnast þeim og ég er mjög stolt af þeim <3 <3 <3
Það er ennþá hægt að heita á málefnið hér ef það fór fram hjá þér:
https://www.givegab.com/p2p/2023-tcs-nyc-marathon-for-free-to-run/halldora-matthiasdottir-proppe
Sjá fleiri myndir í myndaalbúmi hér:
Hér að neðan eru fleiri myndir frá helgarferðinni til New York í NY maraþonið 2023.
1 comment
Þú ert svo … ég veit ekki hvað! Mögnuð, gefst aldrei upp og alltaf með rétta viðhorfið. Ég var glöð að geta styrkt þetta góða málefni og hvet hina vini/vandamenn/samstarfsfélaga og alla hina sem þú þekkir að gera slíkt hið sama … því eins og þú sagðir: Margt smátt gerir eitt stórt <3