Lokaæfing Náttúruhlaupa þetta vorið fór fram á Nesjavallasvæðinu þ.e. byrjuðum hlaupið við Ion hótelið.
Svæðið í kringum Ion hótelið er ofboðslega fallegt og þarna eru margar frábærar gönguleiðir. Þær eru vel merktar. Um er að ræða svartar, bláar, grænar og rauðar leiðir, allt eftir erfiðleikastigi.
Við vorum búin að fara í þrjá könnunarleiðangra um svæðið til að velja réttu leiðarnar fyrir mismunandi hópa. Á þriðjudeginum í síðustu viku fórum við grænu leiðina, en hún var bara 9 km. Á fimmtudeginum tókum við því bláu og svörtu leiðina, sem var um 16 km, en mjög krefjandi, bæði brött og snjór á henni. Í morgun fyrir lokaæfinguna, hlupum við auka grænan hring, sem við vildum bæta við grænu leiðina frá því á þriðjudag.
Það er ekki hægt að segja að veðrið hafi leikið við okkur í dag, en hins vegar er alltaf yndislegt að fara út að hlaupa þegar maður er búinn að klæða sig vel þá verður manni ekkert kalt.
Við lentum því miður í því að ein úr mínum hópi datt og fékk skurð á ennið, en þá kom í ljós hversu samheldinn og yndislegur þessi hópur er. Allir voru boðnir og búnir til að aðstoða og það gekk mjög vel að koma sjúklingnum niður á veg og í bíl til að komast sem fyrst á slysó. Fór betur en á horfðist.
Flestir fóru svo í heita pottinn og mat í Grímsborgum, en ég var búin að lofa mér í vinnu í Mt. Esja Ultra maraþoninu, svo ég varð að drífa mig í bæinn.