KEPPNISSAGA – ULTRA TRAIL DE LAVAREDO 2016

by Halldóra

Leiðin í The North Face Lavaredo Ultra Trail er guðdómlega falleg um ítölsku dólómítana. Toppurinn á fegurðinni er þegar hlaupið er fram hjá Lavaredo þríhnjúkunum, sem eru einstakir og mjög vinsælar gönguleiðir þar í kring. Hlaupið er samtals 119 km og samanlögð hækkun er 5.850 km. Tímamörkin í hlaupinu eru 30 klst og það eru 6 tíma-hlið á leiðinni. Fyrsta tíma-hliðið er eftir 6,5 klst í Federavecchia, þá er búið að fara yfir tvö fjöll þegar komið er að fyrsta hliði. Leiðina er að finna hér að neðan með upplýsingum um drykkjarstöðvar og tímastöðvar. lavaredo kortid

Á neðri myndinni (hægt er að smella á myndirnar til að stækka þær) er að finna upplýsingar um tíma-takmörkin (time-limits) í hlaupinu. Alls 30 klst í heildina og stöðugt allt hlaupið alls á sex stöðvum.timelimits Hlaupið er ræst klukkan 23:00 að kvöldi föstudags 24. júní, svo lagt er af stað í niðamyrkri með höfuðljós og síðasti séns að skila sér í mark er klukkan 05:00 aðfararnótt sunnudags.

Rétt fyrir ræsingu var úrhellisrigning, þrumur og eldingar. Um tíma héldum við að hlaupið yrði blásið af, alla vega yrði því frestað, því ekki langaði okkur mikið að hlaupa um skógana í eldingunum.

En rétt fyrir klukkan 23:00 stytti upp, þ.e. ekki lengur úrhelli, svo hlaupið var ræst á réttum tíma. Við Sigga hittum Sigga Kiernan og Börk Árna rétt fyrir ræsingu þar sem þeir höfðu komið sér fyrir frekar framarlega í hlaupinu. Þeir vildu endilega að við kæmum inn í röðina hjá þeim sem og við gerðum. Við fórum því mjög hratt af stað og stemningin var algjörlega einstök þegar við lögðum í hann, áhorfendur að klappa og hvetja okkur beggja megin við brautina, alla leið út úr bænum.  var með gæsahúð, þetta var algjörlega “breath-taking moment” eins og sagt er á engilsaxnesku.

Meðalhraði fyrstu tvo kílómetrana var 6 pace og meðalpúls var 162 fyrsta km og 173 seinni. Smá spenna í byrjun 😉 Svo hófst prílið upp fyrsta fjallið sem er í um 1750 m hæð. Ég var ekki komin upp fyrsta fjallið þegar ég var búin að misstíga mig þrisvar sinnum á hægri fæti. Greinilegt að ökklinn var eitthvað tæpur, en ég hafði ekki lent í þessu á æfingum fram að þessu. Hins vegar var ég mjög slæm fyrir CCC hlaupið í ágúst í fyrra og tape-aði báðar fæturnar fyrir hlaupið. Tók samt með mér Keynesian tape í bakpokann, svo ég var tilbúin að tape-a ökklann, ef á þurfti, en harkaði bara af mér og hélt áfram. Aðferð sem Ásgeir hafði kennt mér, ekki stoppa, ekki hætta, bara halda áfram og vona að bólgan komi þá ekki út. Leiðin niður þetta fyrsta fjall var frekar “rótótt” nýyrði, þ.e. mikið af trjá-rótum sem stóðu upp úr jörðinni og niðamyrkur sem var kannski líka ástæðan fyrir því að ég var að misstíga mig. Hugsaði að ég hefði betur æft meira í Helgafellinu áður en ég fór út, til að æfa hlaup í svona miklum rótum, en það gekk samt vel.

Við Sigga hlupum saman og vorum á fínum hraða (pace-i) fram að fyrstu drykkjarstöð OPISTALE sem var eftir um 17 km frá ræsingu. Meðalhraði á okkur upp og niður þessa fyrstu 17 km var 8:48 og við búnar að vera að í um 3 klst. Fékk mér einn banana-bita á þessari drykkjarstöð, hann var frekar grænn og ekkert sérstaklega góður. Fyllti svo bara á skvísu brúsann, en ekkert á camel-bakið (stóra vatnsbrúsann í bakpokanum), enda ennþá nóg vatn á honum, um 1 1/2 lítri. Eftir þessa fyrstu drykkjarstöð, NB ekkert klósett, þá kólnaði aðeins og Sigga klæddi sig í langerma peysu. Ég var í stuttermabol og með ermar og dró þær bara upp, voru algjör snilld í þessu hlaupi, dregnar upp og niður eftir þörfum. Get mælt með því að nota ermar, virkaði vel fyrir mig. Sigga fann fyrir miklu orkuleysi eftir þessa fyrstu km, fyrst hægðum við á okkur, vorum á um 10.14 pace frá 18-22 km. Sigga skipaði mér svo að fara á undan sér, sem mér fannst virkilega leiðinlegt að gera en hlýddi henni. Varð litið á úrið og þá voru 21,8 km búnir, man ég hugsaði að við værum búnar með hálft maraþon á 3 1/2 klst. Ég viðurkenni að ég var farin að hafa áhyggjur af cut-off tíma, því fyrsta tímahliðið var eftir 3 klst, þ.e. samtals 6,5 klst og ég átti eftir að klífa fjall númer 2 sem var yfir 2000 m hátt og niður aftur og hafði sem sagt 3 klst í það.

Ferðin upp á Forc. Son Forca gekk vel og niður aftur, meðalhraði um 8:59 og meðalpúls um 153. Þegar ég kom í fyrstu tímastöðina, Federavecchia, var nákvæmlega 1 klst í cut-off og ég hef stoppað þarna í kannski 10 mín. Fyllti á báða vatnsbrúsana, þ.e. camel-bakið og skvísuna. Var næstum því búin að gera sömu mistök og Sigga vinkona í Ironman Frankfurt, að hella öllu gelinu mínu úr brúsanum sem var í vestinu (hún reyndar henti brúsanum í heild sinni) því skvísu-brúsarnir mínir eru eins, annar var fyrir gel, en hinn fyrir orku, ég fékk mér smá sopa fyrst sem betur fer og fattaði þá hvaða mistök ég var að gera 😉 Fékk mér eina sítrónusneið á drykkjarstöðinni og hélt svo áfram. Þegar maður kemur út af drykkjarstöðinni er tímahliðið, svo tíminn var 05:42.18 þegar ég fór út og var þá númer #1094 í heildina af öllum 1500 hlaupurum sem tóku þátt (1438 sem lögðu af stað).

#1 FEDERAVECCHIA 33 km – 1600 metra hækkun – tímamörk 06:30 klst Minn tími: 05.42.18 #1.094
Eftir Federavecchia hefst aftur klifur upp í um 1800 m hæð og svo smá niður og síðan upp aftur á toppinn Forc.Lavaredo sem er í um 2400 m hæð. Sólarupprás í Cortina er klukkan 05:23 á þessum tíma. Ég var komin um 36 km við sólarupprás og var að klifra upp frá Federavecchia í áttina að Lake Misurina. Þar sem sólin var komin upp, þurfti ég ekki lengur á höfuðljósinu að halda og langaði að skipta því út fyrir sólgleraugun sem ég var með í bakpokanum. Var ekki að nenna að stoppa og taka af mér bakpokann og hugsaði hvern ég gæti beðið um að gera mér greiða. Þá sé ég mann (klárlega ekki Frakka, nenni ekki að tala við þá, þar sem ég tala ekki frönsku), en þessi maður var að taka myndir af útsýninu svo ég sá að hann var ekkert að flýta sér. Ég spurði hann hvort hann gæti gert mér greiða, þ.e. sett ljósið í vestið mitt og rétt mér sólgleraugun sem voru þar í staðinn, jú hann sagði það alveg sjálfsagt. Svo bauðst ég til að taka mynd af honum með þetta fallega útsýni, sem hann hafði verið að taka myndir af og hann þáði það. IMG_3475Svo bara kvöddumst við.

Síðan hélt ég áfram hlaupunum og framundan var mikill drullukafli. Margir í vandræðum sem voru ekki í skóm með góðu gripi. Gripið í Brooks Cascadia skónum mínum var mjög gott. Ég fór því fram úr nokkrum aðilum á þessum kafla. Svo heyri ég að það er einhver sem heldur í við mig og er að hlaupa á eftir mér þennan drullukafla, svo þegar ég lít við þá er það þessi maður sem ég hafði beðið um greiðann. Ég bauð honum að fara fram úr, en hann var á mjög sleipum New Balance skóm, svo hann rann í hverju skrefi, en hann vildi það ekkert en hékk samt í mér. Svo fórum við að spjalla og hann sagði mér að það væri mikil upplifun að komast þarna upp, því útsýnið yrði magnað. Þessi nýi hlaupafélagi minn, Jason Fogaros (bandaríkjamaður sem býr í Englandi) hljóp svo með mér restina af hlaupinu. Við eigum margt sameiginlegt þar sem hann hefur tekið þátt í Ironman keppnum, æfir þríþraut, vinnur á fjármálamarkaði í London og hefur hlaupið maraþonið í Chamonix (Mt.Blanc), svo við höfðum um margt að spjalla.

Það var virkilega fallegt að koma að Lake Misurina, þar voru líka margir að hvetja okkur, IMG_3128en aðrir voru bara í mestu makindum að veiða í vatninu. Við hlupum hringinn í kringum vatnið og héldum svo beint upp á brattann í áttina að þríhnjúkunum Lavaredo.

Þessi kafli var virkilega brattur og ég zikk-zakkaði brattasta kaflann, því það var svo bratt og mikið álag á kálfana. Hugsaði þarna með mér hvað maður hefði átt að fara oftar alla leið upp á topp á Esjunni og kannski hefði maður átt að æfa tröppurnar í Laugum meira. Ég missti Jason fram úr mér á þessum kafla, þar sem orkuleysið varð mikið. Það var líka orðið mjög heitt og svo var þunna loftið líka farið að hafa áhrif. Lavaredo hnjúkarnir eru í um 2500 metra hæð.IMG_3461 (1)

Þegar ég kom upp að Rifugio Aronzo þá var biðröð að komast inn í fjallakofann og Jason vinur minn var kominn þarna í röðina. Skil ekki ennþá þetta skipulag að maður þurfi að bíða þarna í röð og við urðum að fara inn í húsið. Fólk var mikið að troða sér í röðinni. Við biðum þarna í um 30 mínútur, inni var verið að bjóða upp á súpu og brauð og það var greinilega hleypt inn í hollum. Komst svo að því af hverju maður þurfti að fara þarna í gegn, því bidrodtímatöku-skannann var þarna inni á leiðinni út í gegnum húsið bakdyramegin.

Eftir að komast loksins inn, fór ég á klósettið þarna, sem var mjög sérstakt, bara svona sturtubotn á gólfinu 😉 Ég var ennþá með niðurgang, hafði verið með niðurgang allan föstudaginn. Hélt það væri bara stress fyrir keppnina, sem var greinilega ekki þar sem staðan var ekki alveg orðin nógu góð. Ég heyrði í Óla í gsm þegar ég var þarna upp frá og hann skipaði mér að taka Imodium (lyf til að stöðva niðurgang). Hef alltaf verið með töflu með mér í keppnum en hef sem betur fer aldrei þurft að taka hana inn fyrr og var smá stressuð að gera það þarna, vissi ekki hvort ég fengi einhverjar aukaverkanir. Ákvað samt að hlýða Óla og gleypti töfluna. Borðaði svo súpu og brauð með Jason og svo bárum við á okkur sólarvörn. Það var farið að hitna, svo ég sótti eyðimerkur-derhúfuna mína sem ég notaði í CCC í fyrra. Þurfti líka að láta laga númerabeltið mitt, þar sem ég hafði missti aðra öryggisnæluna og tímaflagan er á númerabeltinu, svo það er verra að týna númerinu. Stelpan við kassann, heftaði bara númerið á númera-beltið mitt, svo það ætti að haldast fast, þar sem hún fann ekki neinar nælur 😉hoppa

Fylltum svo á camel-bak pokann og skvísurnar áður en við lögðum aftur í hann. Ég þurfti að hlaupa aftur inn í húsið, þar sem ég hafði gleymt bollanum mínum, en í svona fjallahlaupum, er skylda að vera með sinn eigin “bolla” á sér, þar sem ekki er boðið uppá nein ílát eða plastglös á drykkjarstöðvum, þú færð orkudrykk, kók eða vatn í þitt eigið glas, sem þú notar allt hlaupið. pos1

Við stoppuðum örugglega í rúmlega 60 mín þarna.

Að sjálfsögðu var svo “pósað” út um allt fjallið, því þetta er stórkostlegur staður (hægt að smella á myndirnar til að stækka).

#2 RIF AURONZO 48,5 km – 2800 m – tímamörk 11:30 klst
Minn tími: 09:42.15 #1032 (upp um 62 sæti)
Þríhnjúkarnir eru ólíkir ásýndar eftir því hvorum megin þú stendur við þá, svo ég tala nú ekki um þegar maður er við endann á þeim.

Eftir Lavaredo lá leiðin niður á við aftur um 10 km leið og alveg niður í 1400 m hæð, þ.e. niður um 1000 metra. Við Jason hlupum það eiginlega alla leiðina, gekk mjög vel. (meðal moving pace 8,49 þessa km og meðalpúls 139, )IMG_3442

Komum svo að mjög grænu vatni, Lake Landro, sem var alveg guðdómlegt. Eftir það var um 6 km sléttur kafli með smá hækkun sem við gengum bara rösklega (average pace um 9.30). Þar var mjög mikið af fjallahjólurum á þessum vegslóða. Það voru langflestir að ganga í kringum okkur, frekar erfiður kafli svona andlega.

#3 CIMABANCHE 66,1 km – 3100 m – tímamörk 14:30 klst
Minn tími: 13:12:56 #966 (upp um 66 sæti í viðbót)
Við komum að drykkjarstöðinni í Cimabanche eftir að hafa verið á hlaupum rétt innan við 13 klst. Þá var orðið mjög heitt, klukkan að verða 12 að hádegi og mikið af hlaupurum sem lágu um túnin þarna í sólinni og hvíldu sig. Í tjaldinu var “drop-off” pokinn okkar sem við sóttum. Þar náði ég í hleðslutækið fyrir Garmin úrið mitt og það var fyrsta verk að restarta 920 úrinu mínu, sem var orðið “battery low”og hlaða það með rafmagnspung sem ég var með á mér. Jason var með gamla 910 úrið sem hann hlóð reglulega á leiðinni, þ.e. hann þurfti ekki að slökkva á því og tvisvar sinnum hlóð hann það bara með utanáliggjandi pung sem var mjög sniðugt, en þetta er ekki hægt að gera með 920 úrið ;-( Spurning um að selja 920 og kaupa aftur 910 úrið hahahha 😉

Þegar ég var komin með pokann, lagðist ég á bakið á hart gólfið, var aðeins farin að finna fyrir bakinu, þrátt fyrir að vera með bakbeltið allan tímann, enda komin 66 km, rúmlega hálfnuð og búin að vera að í tæpar 13 klst. Stoppuðum í um 20-30 mín á þessum stað. Tímatökuhliðið var aftur þarna eftir drykkjarstöðina, svo maður fer ekki í gegnum það fyrr en maður er búin að hvíla sig og skila pokanum aftur í sendibíl, sem var þarna við hliðina á tjaldinu. Tíminn þegar við fórum út af stöðinni 13 klst 12 mín og 56 sek.

Eftir Cimabanche hófst klifrið í Forc Lerosa sem er í um 2000 metra hæð. Jason var aðeins farin að finna fyrir þreytu á þessum kafla. Það var mjög heitt og hann var hvorki með buff né derhúfu sagðist aldrei nota það. Við stoppuðum í öllum lækjum sem við fundum og ég bleyttu fínu eyðimerkur-derhúfuna mína og setti hana ískalda og blauta á höfuðuð á mér og hann bleytti á sér hárið. Við héldum áfram upp á þennan topp og niður aftur. Þar komum við að tjaldi þar sem við fengum súpu og drykki og það var orðið vel heitt. Þetta var í Malaga Ra Stua, en þarna var ekki tímatöku-búnaður eins og átti að vera.

Við héldum áfram aðeins niður á við áður en við héldum áfram gönguna inn dauðadalinn (Gunni Júl kallaði dalinn Dauðadalinn, veit ekki hvort það sé rétt heiti á dalnum, en það er klárlega réttnefni ef maður er að hlaupa hann hahah 😉 )
Það var virkilega falleg þarna í dalnum, fjöll og klettar allt í kringum okkur og mikil uppspretta vatns sem kom úr berginu. Í enda dalsins þurftum við svo að vaða þrisvar sinnum yfir ár, sem mér fannst bara yndislegt, þ.e. að kæla kálfa og fætur, henti mér bara í skóm og sokkun eins og maður er vanur og fannst frekar fyndið að horfa á hlaupara, fara úr skóm og sokkum til að vaða. Hjálpaði einu sinni ungri stelpu að komast yfir ána.IMG_3452IMG_3448

Það byrjaði aðeins að rigna á okkur þarna í dalnum og við fórum í regnjakkana. Var samt eiginlega bara svona sýnishorna-rigning, svo það var ekkert annað að gera en að fara aftur úr jakkanum, enda mjög heitt og maður bara svitnar í þessu. Ég hafði fyrr um morguninn, farið úr stuttermabolnum og verið bara á toppnum undir hlaupavestinu, enda verulega heitt fyrir okkur Íslendingana. En þegar við fórum svo að klifra upp úr Dauðadalnum upp að Forc.Col dei Bos varð ég mjög orkulaus, svo maður fór bara fetið, eitt skref í einu. Fórum líka upp í um 2300 metra hæð og fann ég líka fyrir því. Á leiðinni niður hlupum við í gegnum göng sem voru í fjallinu og svo niður á Rif. Col Galliana.

#4 RIFUGIO COL GALLINA 95 km – 2.450 m – tímamörk 22:30 klst
Minn tími: 20:07:28 #859 (upp um 107 sæti)
Í Rifugio col Gallina voru tímamörk eftir 22,5 klst, en við vorum búin að vera á ferðinn í 20 klst. svo við vorum vel innan tímamarka. Þarna var klukkan því 19:07 og tímahliðið áður en við fórum inn á drykkjarsvæðið, í fyrsta skipti þannig. Við settumst þarna niður við Jason, fengum okkur súpu og brauð og ég kláraði restina af gelinu úr skvísunni. Mér leið samt ekki vel því ég hafði tekið GU gel til að koma mér upp á topp á Col dei Bos og var næstum því búin að æla því, kúgaðist svo mikið og leið ekki vel. Svo það var gott að koma súpunni niður. Þarna pökkuðum við niður sólgleraugunum og tókum upp höfuðljósin aftur. Ég setti auka rafhlöðuna, þ.e. nýhlaðna rafhlöðu í ljósið mitt, langað ekki að þurfa að skipta einhvers staðar í myrkri á leiðinni. Þarna voru 95 km búnir. Ég sá skilti sem á stóð 24 km eftir, og ég man mér fannst það ekki neitt (annað kom á daginn).

Auk þessi hafði Gunni Júl sagt að þegar Lavaredo fjallið er búið, þá er restin ekkert mál. Svo ég lagði af stað í þessa 24 km með mjög jákvæðu hugarfari. Við ætluðum á klósettið í skálanum, en nenntum ekki að fara allan hringinn í kringum skálann. Fórum því bara af stað, og svo var bara pissað í náttúrunni á leiðinni, rétt eftir að við lögðum af stað.

Við tók smá lækkun niður fjallið áður en við fórum að klifra aftur og núna á Rif. Averau sem var í um 2500 m hæð, virkilega brött leið upp og ég var ekki hröð. Man svo að við fórum niður hinum megin við hliðina á skíðalyftu niður skíðaslóða, en Rif. Averau er mjög flottur skíðaskáli. Svo héldum við áfram niður og svo upp aftur og svo niður að Passo Giau sem var næstsíðasta tímahliðið.

#5 PASSO GIAU 102,5 km – 5.550 m – tímamörk 25 klst
Minn tími: 22:26:34 #766
Í Passo Giau var okkur boðið upp á heitt te. Þarna var komið niðamyrkur og orðið kalt. Það var líka búið að rigna mikið og ég var komin aftur í regnjakkann og regnbuxurnar. Mig langaði ekki í te-ið (voru samt mistök, hefði átt að fá mér, bæði til að hlýja mér sem og að fá koffín til að halda mér vakandi), auk þess var ég ekki að taka inn orkugel var með svona 10-12 á mér. Þarna var ég búin að vera rúmar 2 klst á ferðinni frá síðustu stoppistöð og ekki fengið mér neitt gel, sem var alls ekki málið, enda fór orkan stöðugt þverrandi. Ég var samt vel innan tímamarka á þessu hliði, þ.e. átti 2,5 klst inni.

Þarna vorum við að fara um mjóa stíga og þverhnípt allt í kring. Auk þess voru allir steinar og undirlag mjög sleipt, þar sem það rigndi mjög mikið. Hlaupið um þessa slóða var því orðið mjög krefjandi og erfitt.

Ennþá áttum við eftir að klífa tvö fjöll upp og niður, og þetta var mjög gróft og sleipt undirlag og erfitt yfirferðar. Það var niðamyrkur og á einum stað var starfsmaður til að hjálpa okkur rétta leið yfir svona torfærur, ég hefði ekki viljað vera þarna í mikilli þoku, nóg að vera í myrkri og rigningu. Samt var leiðin mjög vel merkt og notuð sjálflýsandi neonljós til að merkja leiðina. Eftir þessa tvo tinda lá leiðin bara niður og þá sagt og skrifað ENDALAUST NIÐUR.

Stoppuðum á drykkjarstöðinni Rif. Croda de Lago, sem var síðasta drykkjarstöðin í hlaupinu. Þessi drykkjarstöð var í tjaldi og á þessum tíma var algjört úrhelli. Þarna voru margir hlauparar að reyna að sitja af sér mestu rigninguna og voru komnir með álteppið (sem var skyldubúnaður í bakpokann) yfir sig, enda orðið frekar kalt. Við Jason ákváðum að stoppa bara stutt og halda áfram. Hann fékk sér heitt te, “British way” (sem ég hefði átt að gera), en ég fékk mér bara kók. Man ég bað ungan dreng sem var þarna til aðstoðar að skola gel-skvísuna mína og setja í hana coca cola.

Svo héldum við áfram. Framundan var 10 km leið með lækkun upp á um 1000 metra, samt nokkrar stuttar brekkur á leiðinni. Þetta eru held ég lengstu 10 km sem ég hef hlaupið á ævinni. Bremsuvöðvarnir framan á lærunum voru farnig að gefa sig. Það var mjög mikil drulla í brautinni og ég flaug tvisvar á hausinn. Í fyrra skipti lenti ég á hægri hliðinni og lenti illa með vinstri þumalfing, nöglin brotnaði niður í kviku og það blæddi endalaust úr puttanum, sem var orðinn dofinn. Í seinna skiptið datt ég beint á rassinn. Það voru margir sem hlupu fram úr mér á þessum tímapunkti og ég man ég hafði enga orku, þegar ég þurfti að fara upp einhvern smá halla. Ég fann mér endalausar afsakanir til að hægja á mér. Fyrst var ég með svo mikinn brjóstsviða að ég varð að stoppa til að taka inn Remi töflur. Svo var ég alveg að sofna svo ég stoppaði til að fá mér tyggjó til að reyna að halda mér vakandi (hefði frekar tekið inn orkugel, sem ég gerði ekki og orðið ansi langt síðan ég tók inn orkugel síðast). Næst varð ég að stoppa til að henda mér bak við tré, þar sem Imodium taflan var hætt að virka, örugglega komnar 12 klst, svo það var ekkert annað í boði, en skila þessu af sér.

Ég bað Jason ítrekað að fara á undan mér niður, vera ekki að bíða eftir mér, því ég var bara í algjöru rugli á þessum tíma. Til dæmis spurði ég hann oft spurninga á íslensku (sem hann auðvitað skildi ekki). Ég var að tala við Óla í símann og ruglaði mikið um að ég væri búin að fara þessa leið áður og ruglaði eitthvað um að þetta væri einhver hluti sem við þyrftum ekki að fara, heldur bara sá sem tók bílaleigubílinn 😉 Svo mikið rugl og ég man eftir þessu rugli á mér í dag. Hef aldrei lent í þessu áður. Úrið mitt var auðvitað fyrir löngu orðið batteríslaust, svo ég vissi ekki hvað klukkan var, vissi ekki hversu mikið var eftir og það var frekar óþægileg tilfinning. Jason vildi bara vera almennilegur við mig þannig að þegar ég spurði hann hvað væri mikið eftir, var hann hættur að svara mér 😉 Hins vegar hittum við eitthvað brautarvörslufólk þegar við vorum komin langleiðina niður. Þá spurði ég þau hvað væri mikið eftir og þá voru 3 km eftir. Þá hlupum við eftir einhverjum vegslóða og svo komum við niður á malbikið í Cortina. Það var svolítið sérstakt að við vorum búin að sjá ljósin í Cortina bænum fyrir löngu síðan, en leiðin lá einhvern veginn aftur upp fyrir bæinn, svo hann var alltaf bara í fjarska.

Þegar ég kom í bæinn, örugglega búin að hlaupa smá hluta af leiðinni steinsofandi (alla vega hálfsofandi), kom Óli hlaupandi á móti mér, svo ég kynnti hann fyrir Jason. Við hlupum svo í gegnum bæinn og ég lét Jason og tvær aðrar konur og einn mann, hlaupa á undan mér, því mig langaði að koma EIN í mark og fá að taka Haddýjar hopp í markinu, sjá hér til hliðar með lokuð augu. Mjög lýsandi fyrir ástandinu á mér á þessum tímapunkti.g-1026 (1)

Heildartíminn hjá mér var 26 klst 53 mín og 11 sek. Var í 762 sæti í heildina og 87 konan í mark. Hafði unnið mig upp um 332 sæti frá fyrsta tímatökuhliði. Bara þessi síðasti kafli, 24 km frá Gallina sem átti ekki að vera neitt mál tók 6 klst 45 mín og 43 sek. Klárlega lengstu 24 km sem ég hef hlaupið og erfiðustu 😉
Var virkilega glöð að klára og þakklát Jason fyrir að bíða eftir mér og hlaupa með mér í mark.

I want to thank my new dear friend Jason Fogaros, that ran with me today for over 20 hours. This is my third Ultra marathon abroad, and I´ve always had the opportunity on those long runs to meet and gain friendship with one person for the whole race.

Today it was Jason, and he is very friendly, polite and kind. He was very helpful and he was there for me the whole part of the race, were I felt really bad. It was very nice talking to him. We do have many things in common, both in our working experience and field and also in our interests, e.g. triathlon and trail running.

I hope that Jason will come to Iceland and visit us soon. Jason thanks again for everything 😉

#6 ARRIVO /MARKIÐ 119 km – 5.850 m – tímamörk 30 klst.
Minn tími: 26:53:11 #762 (Búin að vinna mig upp um 332 sæti frá byrjun)

ÞAKKIR TIL SAMFERÐARMANNA
Ég óska öllum samferðarmönnum mínum í Lavaredo innilega til hamingju með glæsilegan árangur, hvort sem er í Ultra Trail de Lavaredo hlaupinu, í Cortina hlaupinu eða Cortina Skyrace hlaupinu. Það stóðu allir sig vel. Takk fyrir yndislegar samverustundir í Cortina.

Er stoltust af Siggu vinkonu minni sem kláraði 103 km af Ultra hlaupinu. Hún lagði af stað með báða fætur bólgna og tape-aða eftir að hafa misstigið sig á æfingu með okkur fyrir nokkrum vikum síðan. Svo var hún líka í þokkabót að berjast við kvefpest. Sigga er fjallahlaupa-fyrirmyndin mín og það er ekkert smá afrek að klára yfir 100 km. Það þarf líka hugrekki og skynsemi að hætta. Elsku Sigga mín ég er virkilega stolt af þér. Kæru vinir, Sigga og Pétur, takk fyrir yndislegar samverustundir hér í Cortina.

ÞAKKIR
Það er ekki sjálfsagt að komast AÐ RÁSLÍNU í svona krefjandi hlaupi og fyrir það er ég einstaklega þakklát. Halldór sjúkraþjálfari Víglundsson takk fyrir að kenna mér allar góðu æfingarnar með teygjunni og fyrir að halda mér gangandi með réttu nuddi, frá því brjósklosið var greint. H Bjössi Harðarson í Laugum takk fyrir allar frábæru styrktaræfingarnar sem hitta alltaf í mark, alveg sama hvað maður er að æfa fyrir. Kæri vinur og þjálfari Ásgeir Elíasson, takk fyrir að rífa mig upp á rassinum í vor og reka á eftir mér í Heiðmerkuræfingum og víðar, þegar við komumst að því að ég var ekki í neinu formi eftir að hafa einblínt á gönguskíðaæfingar sl. vetur 😉

Kæru æfingarfélagar allir í Þríkó hlaup takk fyrir æfingarnar í vetur og sumar og sérstaklega þið kæru vinir sem fóruð með mér Esjurnar 29 sem ég þó fór “bara upp að Steini” fyrir þetta hlaup.

Elsku Óli og Kristó, takk fyrir alla ykkur þolinmæði og stuðning, þið eruð bestir 😉

You may also like

Leave a Comment