KEPPNISSAGA – Trail De Sierra De Las Nieves

by Halldóra

Hlaupið: 102 km fjallahlaup – 2800 m hækkun – 8. nóvember 2014.
Staðsetning: Hlaupið hófst í Benehavis, sem er í Malaga héraði í Andalúsíu á Spáni. Síðan var farið upp í snjófjöllin, þ.e. Sierra de Las Nieves og endað á að hlaupa fram hjá fjallaþorpinu Istán.
Ferðafélagar: Guðmundur Smári Ólafsson og Viggó Ingason.

Vekjaraklukkan hringdi klukkan sex að morgni keppnisdagsins. Viggó og Guðmundur hituðu sér hafragraut en ég lét kornflex og kaffibolla duga. Við vorum búin að græja allt í bakpokann nema vatnið svo eftir sturtu var fyllt á með vatni og aðeins kíkt í tölvuna. Þá kom í ljós að búið var að fresta ræsingu um eina klukkustund, þ.e. til klukkan 10 í stað klukkan 9 vegna þoku. Þá var ekkert annað að gera en að skríða aftur upp í. Ég notaði tækifærið og plástraði allar tærnar með silkiplástri og smurði vel með vaselíni áður en ég fór í sokkana. Ég náði ekki að sofna aftur þótt ég hafi ekki sofið vel nóttina á undan, eins og gerist reyndar oft fyrir keppni, en það var ágætt að ná að hvíla sig aðeins.

Við komum okkur út úr íbúðinni í tíma, eftir að hafa borðað aðeins meira, þ.e. eitt ristað brauð með osti og sultu og meira kaffi. Við vorum búin deginum á undan að finna rásstaðinn, sem betur fer, því það tók sinn tíma, samt var hann einungis í um fjögurra km fjarlægð frá íbúðinni okkar. Þegar við komum á staðinn um klukkan níu var ennþá frekar mikill þoka upp í fjallinu en það átti að ræsa fjallahjólin stundvíslega klukkan 10:00 og okkur fimm mínútum síðar.

Ég náði að fara síðustu ferðina á salernið í golfhúsinu fyrir ræsingu (var örugglega búin að fara þrisvar til fjórum sinnum heima um morguninn ha ha ha 😉 Svo var komið að því. Fyrst voru hjólin ræst, þ.e. fjallahjólin, þau sem voru að fara 102 km og 39 km öll á sama tíma. Ég viðurkenni það alveg að hafa hugsað á þessum punkti: Af hverju var ég ekki að fara að keppa á fjallahjóli frekar en á tveim jafnfljótum? Ég á þetta fína TREK SUPERFLY FS fulldempað hjól heima sem hefði hentað súpervel í þessum aðstæðum 😉 En það var ekki í boði.

Rétt áður en við fórum af stað komst ég að því að nýja spænska SIM símakortið sem ég hafði keypt deginum á undan virkaði ekki. En Viggó fór í málið og fékk það til að virka rétt áður en við fórum af stað. Ég ætlaði nefnilega að vera svo dugleg að láta vita af mér á leiðinni, en svo var símasamband og 3G samband mjög lélegt og takmarkað allan hringinn. Rétt fyrir ræsingu fékk ég skilaboð frá Rúnari þar sem hann óskaði mér góðs gengis og minnti mig á að ég væri eingöngu að keppa við sjálfa mig og komast heil í mark, það væri númer eitt, tvö og þrjú. –Frábær skilaboð á réttum tíma og það var frábært að fá alla hvatninguna og kveðjurnar að heiman.

Við vorum ræst klukkan 10:05. Við gátum hlaupið nokkra metra, áður en klifrið tók við en við höfðum ekið upp eftir fyrstu 5 km deginum á undan svo ég vissi hvað beið mín, alla vega fyrstu 5 km og það var mjög góð tilfinning.

Eftir um 45 mínútur var ég búin að ná þessum fyrstu 5 km og 400 m hækkun, þar voru nokkrar vatnsflöskur sem lágu út í kanti og tómar flöskur allt í kring. Ég lagði af stað með rúman einn líter af vatni í bakpokanum og einn lítra af orkugeli, þrjú súkkulaðistykki, nokkrar gráfíkjur, fimm poka af GU gúmmí orkugelum og saltpillum, svo ég var vel birg ennþá á þessum tíma, svo ég hélt bara áfram, stoppaði samt til að taka myndir.

Eftir um 2 klst og 12 mín (16 km og 809 m hækkun) kom ég að nokkurs konar brunni. Vatnið í brunninn kom niður foss úr fjallinu. Þá voru vatnsbirgðir mínar orðnar af skornum skammti, svo ég ákvað að taka af mér bakpokann og fylla vatnspokann af vatni, tók 1 ½ lítra.

Það var mjög góð ákvörðun því 10 mínútum síðar (18 km og 944 m hækkun), kom ég að vatnstöð #2 sem var eins og árás hefði verið gerð á hana, og hún var algjörlega ,,tóm“, þ.e. hafði greinilega verið vatn og ávextir á þessari drykkjarstöð, en þegar við hlaupararnir komu að höfðu hjólreiðamenn klárað allt sem þar var til og kannski fyrstu hlauparar fengið eitthvað.  Þarna voru brjálaðir Spánverjar sem voru mjög fúlir þar sem þeir voru búnir með sitt vatn og höfðu kannski treyst á að fá orkugel og ávexti, eins og lofað hafði verið á drykkjarstöðvum í hlaupinu.

Ég hélt bara áfram, mér leið vel og ég gekk bara áfram rösklega með stafina mína og hljóp þegar það kom sléttur kafli, hljóp og gekk til skiptis. Það var sól og frekar heitt þennan dag, var alla vega heitasti dagur frá því við komum til Spánar, upp undir 20 stiga hiti. Ég lagði því af stað í hlýrabol með vel úttroðinn bakpoka. Fyrir utan næringu var í honum langermabolur, regnheldur jakki, regnheldar buxur (Viggó lánaði mér sínar, þar sem þær voru um 100 grömmum léttari en mínar), svo var í pokanum ljós, aukarafhlaða í ljósið, aukarafhlaða í símann minn og vettlingar og buff. Ég held pokinn hafi vegið um 5 kg. En Guðmundar bakpoki var næstum helmingi léttari.

Klukkan 13:12, eftir 3 klst og 7 mín kom ég að vatnsstoppistöð #3, þá komin 22 km og í 1.223 m hækkun. Það var ekki falleg sjón sem beið okkar þar, aftur allt tómt, bara tómir vatnsbrúsar og appelsínubörkur en á þessum tímapunkti skildu leiðir. Þeir sem voru að fara 39 km tóku vinstri beygju en við sem vorum að fara 102 km héldum áfram upp eftir fjallinu. Ég var samt í ágætis málum þar sem ég var ennþá með vatn í bakpokanum eftir að hafa fyllt á bakpokann í brunninum úr fjallinu. Hugsaði samt hvað ég var heppin að hafa gert það, reynslan frá ferðinni á Jakobsstígnum sumarið á undan nýttist mér þar.

Fjallið var svo toppað í um 1.274 m hæð, eftir 23 km og 3 klst og 22 mín. Þá kom rúmlega 5 km kafli sem var niður á móti og inn eftir dal. Þar var mikill mótvindur og frekar kalt. Þá stoppaði ég aðeins til að fara í peysu. Reyndi ég svo eftir fremsta megni að ,,drafta“, hanga í öðrum hlaupurum, í mesta mótvindinum.

Síðan tók aftur við klifur í 1.263 m hæð þá komin í 33 km og tíminn 4 klst og 40 mín. Ég var mjög ánægð að hafa kvöldið áður farið yfir leiðina í Garmin Connect og vissi að ég myndi toppa tvisvar, þ.e. eftir 23 km og svo aftur eftir 33 km. Það var mjög góð tilfinning að vita alltaf hvenær toppnum væri náð.

Eftir þetta seinna klifur tók við um 12 km kafli allur meira og minna niður á við. Fór yfir ,,mottu“ (sem mælir flögutímann) eftir 37 km, þá var flögutíminn 5:03:38. Þar var loksins vatnsstoppistöðin sem bauð uppá vatn og pepsi en þar var enginn starfsmaður og engir ávextir. Gosið kom sér samt mjög vel þar sem ég var orðin smá skrítin í maganum, enda búin að innbyrða mjög mikið af geli á þessum tímapunkti. Áætlunin hjá mér var að innbyrða u.þ.b. eitt gel á 45 mín fresti þannig að á þessum tíma var ég búin að innbyrða um 5 gel sem ég tók eins og klukka og drekka bara vatn, svo Pepsi var mjög kærkomið.

Það var önnur motta eftir um 46 km leið sem ég náði samkvæmt flögutíma  6:07:13 í um 690 m hæð. Þetta var síðasta mottan á leiðinni og þarna var drykkjastöð sem bauð upp á epli sem ég fékk mér sem var mjög gott og stemmandi í magann.  Ég stoppaði ekkert á þessari drykkjastöð frekar en öðrum heldur hélt bara áfram, sótti eplið og hélt mína leið, fannst bara fínt að borða það á hlaupunum.

Mér fannst Spánverjarnir og aðrir hlauparar stoppa ótrúlega lengi á þessum drykkjarstöðvum  því ég hafði verið að sækja á mjög marga hlaupara sem voru mun hraðari en ég, sérstaklega niður brekkurnar, þar sem ég fór „MJÖG“ varlega. Ég vissi að ég átti ennþá um 50 km leið eftir og ætlaði ekki að bræða úr lærunum á mér á þessari niðurleið. Guðmundur Smári, Ásgeir, Sigga og Sjana voru öll búin að vara mig við þessu, svo ég hugsaði stöðugt SKYNSÖM, SKYNSÖM og SKYNSÖM og fór mjög varlega á meðan mér fannst ansi margir fara mjög hratt og stoppa líka mjög lengi á stöðvunum. Þannig að minn ávinningur var að halda stöðugt áfram, stoppa ekki neitt, leið líka það vel að ég þurfti ekkert að stoppa til að hvíla mig. Ef ég þurfti að pissa þá gerði ég það bara á leiðinni.

Þegar ég var að hlaupa fram hjá þessum drykkjarstöðvum, án þess að stöðva, fór ég að hugsa um góða ráðið sem Friðleifur gaf mér nokkrum dögum áður en ég fór út. Hann sagði mér að nýta vatnsstöðvarnar vel. Ég spurði hann ekki hvað hann meinti með því. Hvað átti hann við? Átti ég að stoppa lengur? Var ég að gera mistök að stoppa ekki neitt? Hefði ég átt að hvíla mig, setjast niður? Ég velti þessu mikið fyrir mér á þessum tímapunkti enda hafði ég nægan tíma til að hugsa, þar sem ég var búin að vera að mestu ein þessar rúmar 6 klst sem voru liðnar, bara Spánverjar nálægt mér sem töluðu enga ensku. En mér leið vel, var ekki þreytt og af hverju ætti ég þá að stoppa eða hvíla mig, tók bara T1 og T2 hugsunina úr Ironman í þetta og stoppaði ekki neitt, enda var Guðmundur búinn að segja mér að ég ætti fyrirfram að vera búin að ákveð hvað ég ætlaði að gera í hverju stoppi svo ég kláraði þetta bara. Það var svo sem heldur engin íburður á þessum drykkjarstöðvum, engin tjöld eða sæti eða súpa, svo þetta var mjög einfalt 😉 Halda stöðugt áfram var málið.

Eftir 6 klst og 40 mín var 50 km markinu náð og ég þá rétt tæplega hálfnuð. Ég var búin að lofa mér því að þá myndi ég kveikja á IPODinum, en ég var með hljóðbók á honum. Sigga Sig var búin að segja mér að spara hann fram að myrkri, en mér fannst ég eiga hann orðið skilið enda búin að vera meira og minna ein og ekki í neinum samskiptum við neinn svo sagan í hljóðbókinni var kærkomin á þessum tíma.

Gleymdi að nefna það þegar ég var búin að hlaupa langa kalda dalinn, þ.e á milli 23 og 33 km þá mætti ég hjólreiðamanni sem sagði mér að ég væri kona númer 3 í hlaupinu.   Ég fann það pirraði mig smá, þar ég var ekki í neinni keppni og ætlaði bara að sigra sjálfan mig en að sjálfsögðu hafði þetta ákveðin áhrif á mig. Eiginlega svo mikil áhrif að ég var næstum því búin að villast, hélt áfram þegar ég átti að taka stóra U-beygju, og var mjög heppin að tveir hlauparar kölluðu á mig, frekar utan við mig en lánsöm þar.

Svo þegar ég er komin þarna um 50 km þá segir annar hlaupari við mig að það væri ekki langt í næstu konu.   Þetta var spænskur hlaupari, einn af þeim sem hljóp hratt og stoppaði lengi á drykkjarstöðvunum, svo þess vegna vissi hann að hún væri ekki langt undan. Aftur fann ég þetta pirra mig því ég var ekki í neinni keppni, vissi samt að ég væri í 3. sæti og konan í 2. sæti ekki langt undan svo auðvitað kveikti þetta í keppnisskapinu, sem það átti samt ekki að gera, því ég ætlaði bara að klára, sigra sjálfa mig og koma heil í mark, eins og við Rúnar vorum sammála um.  Mér leið samt vel komin með söguna í eyrað svo ég hélt bara áfram.  Stoppaði ekkert í næstu drykkjarstöð frekar en við hinar, fékk mér bara pepsí og appelsínusneið og hélt áfram.

Þegar ég var komin um 55 – 60 km leið náði ég konunni sem var í 2. sæti en það var norska konan Sissel Sannæs Smaller. Ég heilsaði henni og kynnti mig um leið og ég náði henni og við fórum að spjalla saman. Þarna komst ég að því að ég var að hlaupa með Vilborgu Örnu þeirra Norðmanna en Sissel er búin að ganga á „The Seven Summits“ eða 7 tindana, það eru hæstu fjöll í hverri heimsálfu.  Hún hefur einnig tekið þátt í „Racing the planet“ í Sahara, Nepal og Chile, en hlaupið er um 250 km hlaup sem varir í 6 daga.  Hún er mikil fjallageit og fyrrum skíðadrottning, keppti á skíðum þegar hún var ung. Sissel er hjúkrunarfræðingur að mennt en er hætt að vinna og er bara að njóta lífsins, þ.e. ganga og hlaupa á fjöll. Sissel var að taka þátt í þessu hlaupi ásamt fleiri Norðmönnum en ástæðan fyrir því að hún tók þátt var að fá þessi þrjú stig sem hana vantaði til að sækja um í UTMB hlaupinu í Ultra Trail du Mont Blanc 2015 sem er 166 km hlaup, (sjá nánari upplýsingar um Sissel á heimasíðunni hennar hér).

Það var yndislegt að spjalla við Sissel svo tíminn leið mjög hratt (var fljót að slökkva á Ipodinum eftir að við hittumst). Við bara hlupum og spjölluðum saman í myrkrinu en það var komið niðamyrkur klukkan sjö, svo þá hlupum við með höfuðljós. Þessi tími var algjörlega yndislegur og okkur leið báðum mjög vel. Ég var reyndar í betra hlaupaformi en Sissel þar sem hún hafði verið að ganga á eitthvað stórt fjall tveimur dögum fyrir keppni, hafði ekki alveg verið að „tapera“ eins og ég. Hún hvatti mig því stöðugt til að fara á undan sér þar sem hún hægði á mér en ég var svo glöð að fá þennan frábæra félagsskap og tala nú ekki um konu sem hefur upplifað svona margt og mikið og skemmtilegt svo ég vildi frekar hægja á mér og hlaupa með henni, heldur en að fara á undan og vera ein einhvers staðar rétt á undan henni.

Við hlupum því saman og rétt áður en við komum að 76 km stöðinni, þ.e. við sveitabæ í Istán, þá hringdi kærasti Sissel í hana og sagði henni að við yrðum að fylla á alla brúsa því þetta væri síðasta vatnsstöðin. Það átti að vera ein þegar um 7 km væru eftir af hlaupinu en hún var tóm svo við urðum að fylla vel á. Á þessum tímapunkti vorum við búnar að vera á hlaupum í u.þ.b. 10 klst og komnar niður í 238 m hæð.

Okkar beið því þó nokkur hækkun aftur, eða um fimm sinnum upp í 500 m hæð og niður aftur. Þessir síðustu kaflar voru að mínu mati erfiðastir í hlaupinu. Eins og Rúna Rut vinkona mín sagði réttilega þá byrjar hlaupið ekki fyrr en það eru 20 km eftir. Við vorum því með mikið af vökva á okkur og á þessari drykkjarstöð fékk ég mér annað epli. Þá eru upptaldar þær veitingar sem ég fékk í föstu formi frá mótshöldurum, þ.e. fyrir utan vatn og Pepsi.

Ég hafði ekki verið í neinu netsambandi frá því ég hitti Sissel og hafði ekki tekið neinar myndir enda við komnar í myrkrið og því þurfti maður að fara mun varlegar og horfa fram fyrir sig. Stuttu eftir þessa síðustu drykkjarstöð hringdi Viggó í mig en þá hafði hann heyrt í Guðmundi sem var ekki langt á undan okkur. Viggó var búin að heyra að það væri lítið af vatni og gosi í þessari síðustu drykkjarstöð svo hann ákvað að ganga á móti okkur með vatn og Pepsi.

Hann náði okkur þegar um 15 km voru eftir, en þá var hann búin að hitta á Guðmund sem hélt bara áfram. Viggó var með vatn og Pepsi en ég var svo sem með fullt af vatni í bakpokanum ennþá en Pepsi-sopinn var kærkominn og gaman að hitta Viggó.

Viggó var skráður með okkur í hlaupið. Á æfingu fimm vikum fyrir hlaup þá missteig hann sig illa í Esjunni og lenti í meiðslum svo hann gat ekkert æft eftir það. Hann ákvað samt að fara með okkur út og upplifa stemninguna. Var reyndar á báðum áttum deginum fyrir keppni hvort hann ætti að taka þátt, en ákvað að fylgja hjartanu og skynseminni og skráði sig úr keppni um morguninn. En hann gekk samt um 47 km þennan dag og talaði við marga keppendur og hafði gaman af.

Á þessum tímapunkti vorum við Sissel líka búnar að ná Daniel Larsson sem er Svíi og vinnur hjá North Face í Swiss. Hann hafði hlaupið með Sissel fyrr í keppninni og farið á undan henni. Hann var með mikla verki í hné en náði samt að halda í við okkur og við hvöttum hann vel og mikið áfram og spjölluðum mikið við hann, sem dreifði huganum. Sissel hafði líka gefið einhverjum öðrum hlaupara, sem við hlupum fram hjá og hún hafði spjallað við fyrr í hlaupinu, verkjatöflu á leiðinni en sá var líka mjög kvalinn.

Mér leið hins vegar alveg ágætlega en ég var samt aðeins farin að finna fyrir þreytu framan á lærunum; fannst erfitt að sjá ekki og vita ekki nákvæmlega hvernig leiðin var framundan, hafði ekki skoðað þennan hluta leiðarinnar nógu vel kvöldið áður. Eina sem við sáum voru höfuðljós hlaupara langt á undan okkur og það var mikið um hækkanir og lækkanir. Á endanum komum við svo að 5 km staðnum, þar sem fyrsta vatnsstöðin var. Þar var kominn bíll með meira af vatni og gosi, en við vorum ágætlega stödd, fengum okkur smá gossopa og svo var bara að hlaupa niður brekkuna, þ.e. síðustu 5 km. Ég man ég hugsaði þarna, iss, þetta er bara hálfur Garðabæjarhringur, maður hefur farið þá nokkra og bara rúmlega Ásahringur, þetta er ekki mikið mál.

Þannig hafði ég í raun farið þetta hlaup “á hausnum” með jákvæðu hugarfari allan tímann. Þegar 20 km voru búnir hugsaði ég: En frábært ég er búin með 1/5 eða 20% af hlaupinu. Þegar 25 km voru búnir var ég búin með fjórðung, sem mér fannst frábært. Eftir 34 km var ég búin með 1/3. Svo var ég bara allt í einu hálfnuð eða komin í 50 km. Eftir að ég hitti svo Sissel spáði ég ekkert í hvað ég væri búin með mikið eða hvað væri mikið eftir, fyrr en við komum að þessari vatnsstöð þar sem 25 km voru eftir og svo aftur þegar ég heyrði í Viggó. Þar sem það var svo gaman hjá okkur allan tímann.

Ég spurði Sissel þegar við vorum að hlaupa þessa síðustu 5 km hvort við ættum ekki að fara saman yfir marklínuna, þ.e. koma saman í mark. Hún sagði að ég væri pottþétt hraðari en hún á lokasprettinum og því ætti ég bara að fara á undan en ef ég vildi vera samferða henni þá var hún alveg til í það. Mér fannst það ekki spurning. Við vorum búnar að hlaupa saman þessa 50 km og spjalla svo mikið saman, ég eignaðist yndislega vinkonu á þessum fáu klukkustundum sem við hlupum saman.

Það var einstök tilfinning að hlaupa saman yfir marklínuna þó ekki væru neinir áhorfendur eða hvatningalið eða ljósmyndarar að taka á móti okkur. Guðmundur Smári og kærasti Sissel hann Petter Kragsett voru reyndar komnir í markið til að taka á móti okkur en við vorum saman önnur og þriðja konan í mark og tíminn okkar var 14 klst 11 mínútur og 37 sek. Við vorum í heildina í 43.-44. sæti af 80 þátttakendum sem luku keppni.

Guðmundur Smári náði sínu markmiði að vera undir 14 klst, en hann kláraði á 13:36:40 og Petter kærasti Sissel varð í 2. sæti karla. (Sissel vildi að ég fengi viðurkenninguna fyrir 2 sætið þar sem þetta var mitt fyrsta 100 km  hlaup og hún tók verðlaunin fyrir 3 sætið, en að sjálfsögðu vorum við jafnar í mark). Yndisleg vinkona mín hún Sissel Smaller.

Þessi árangur í mínu fyrsta 100 km fjallahlaupi var langt umfram væntingar. Ég byrjaði að æfa fjallahlaup tveim vikum eftir Ironman Kalmar í sumar, þ.e. 30. ágúst, þegar ég tók þátt í sjö tinda hlaupinu í Mosfellsbæ, það var reyndar lengst hlaupið sem ég hljóp á æfingatímanum, 37 km. Æfingatímabilið var því rétt rúmir tveir mánuðir svo væntingarnar sem ég gerði mér voru að klára hlaupið innan tímamarka sem voru 24 klst. Allt undir það var bara plús.

Þetta hlaup var mjög skemmtilegt, umhverfið var virkilega fallegt, skipulagið hefði mátt vera betra. Skipuleggjendur voru samt mjög yndislegir og allir að vilja gerðir. Svona lagað getur gerst þegar verið er að halda svona mót í fyrsta skipti. Mótshaldarar hafa beðist formlega afsökunar og virði ég það mikils. Ég veit að aðstandendur okkar sem voru að fylgjast með frá Íslandi höfðu áhyggjur af okkur, ráfandi um í myrkrinu á Spáni vatnslaus og næringarlaus, því fréttirnar um þetta fóru strax á Fésbókarsíðu hlaupsins sem var mjög slæmt.

Mig langar að þakka samferðamönnum mínum, þeim Guðmundi Smára og Viggó, innilega fyrir frábæra ferð og góðar æfingar fyrir keppni. Við áttum góðan hvíldardag á Spáni daginn eftir keppni og reynsluboltinn Guðmundur Smári gaf mér ótrúlega mörg góð og dýrmæt ráð. Það var líka frábært að hafa Viggó á staðnum og hann gat t.d. upplýst Óla heima hver staðan var hjá mér, þegar ég var ekki í netsambandi og það var virkilega ánægjulegt að sjá hann þegar hann kom á móti okkur.

Ásgeir og Ívar hlaupaþjálfarar takk fyrir ykkar frábæru plön og ráðleggingar í aðdraganda hlaupsins, algjörlega ómetanlegt að eiga svona góða þjálfara.

Sigga Sig og Sjana eru þvílíkir reynsluboltar sem gáfu mér stöðugt góð ráð. Fékk líka ómetanlega aðstoð og kennslu við að pakka niður fyrir fjallahlaup, enda mjög mikilvægt eins og í Ironman og þetta er mitt fyrsta ultramaraþon fyrir utan Laugavegshlaupið 2011. Takk elsku vinkonur fyrir allt.

Til þess að skrokkurinn komist í gegnum svona æfingatímabil, þá þarf að gera góðar styrktaræfingar og halda skrokknum í gangi. Þeir Hilmar Björn Harðarson (Bjössi) einkaþjálfari í World Class og Halldór Jónsson sjúkraþjálfari hafa séð til þess að líkaminn minn hefur þolað allt þetta álag. Frábærir fagmenn þar á ferð – takk fyrir ykkar framlag.

Það er ekki hægt að fara í svona ferðlag nema maður eigi óendanlega þolinmóðan eiginmann og son, Óli og Kristó takk fyrir óendanlega þolinmæði og hvatningu, LUV JU GUYS.

Bíddu aðeins og Þríkó æfingafélagar eru bestu æfingafélagar í heimi, takk mín kæru.

—————————————————————————————
FATNAÐUR

Ég hljóp í Brooks Cascadia 8 gömlu skónum mínum og var með salomon legghlífar. Var í  CEP hnésokkum, í CWX litaglöðu buxunum sem voru rétt fyrir neðan hné. Var í Under Armour IM Cozumel hlírabolnum, CWX toppnum, með Ronhill derhúfu og sólgleraugu. Að sjálfsögðu með garmin púlsband og 910 úrið og rafhlaðan entist allan tímann.

—————————————————————————————
BAKPOKI

Var með Salomon S-LAB 12 lítra bakpokann. Ég var með 1 1/2 lítra vatnsblöðru inn í honum. Var með 2 * 500 ml soft-flask brúsa sem ég var búin að setja í 20 gel, 10 high-five gel með koffíni og 10 high-five gel án koffíns. Svo var ég með 6 GU aukagel. Ég var með 5 poka af GU orku gúmmíi. Með gráfíkjur og þrjú súkkulaðistykki, eitt snickers, eitt bananahreysti og eitt prótein bar frá Hreysti, var með extra tyggjó, og slatta af saltpillum.

Var með CWX langermabolinn, Ronhill regnjakkann, Ronhill regnbuxur frá Viggó, Ronhill buff og fingravetlinga, með nýja Petzl NAO2 ljósið mitt og auka rafhlöðu. Var með Ipod shuffle og auka rafhlöðu í Iphone símann, sem ég var með framan á mér í frábæra Ronhill keppnisbeltinu sem var með góðum vasa fyrir símann.  Var að auki með verkjatöflur, plástra, magnesíum töflur, fullt af salttöflum, hælsærisplástra og gerviskinn og einnota sótthreinsandi klúta í first-aid kiti.

Ég hljóp með léttu Black Diamond stafina mína, sem voru alveg frábærir. Ég hélt ég myndi henda þeim í pokann þegar ég væri búin að toppa tvisvar, en mér fannst mjög gott að hafa þá líka á niðurleiðinni, svo stafirnir fóru aldrei í bakpokann, voru við hendurnar á mér allan tímann.

—————————————————————————————
HORFT UM ÖXL

HVAÐ HEFÐI ÉG GERT ÖÐRUVÍSI ?
Ef ég væri að fara í þessa ferð aftur, þá hefði ég klárlega farið af stað með léttari bakpoka. Hefði t.d. skilið eftir 4 poka af GU geli og eitthvað af súkkulaðinu, því ég borðaði ekki neitt af því, hefði verið til í að vera með banana á mér, en ég átti svo sem von á að fá þá á drykkjarstöðvunum. Guðmundur Smári var reyndar búin að benda mér á að bakpokinn minn væri ansi þungur og honum fannst ég með ansi mikið með mér, en ég hélt ég yrði svo lengi og þyrfti því alla þessa orku.

Ég hefði líka skilið vind/regnbuxurnar eftir, því það var ekki spáð svo mikilli úrkomu. Ég myndi vilja prófa að vera frekar í Compression legghlífunum mínum, sem ég nota í Ironman keppnum í staðinn fyrir CEP sokkana, sem voru frekar heitir í hitanum á Spáni.
Annars er ég bara nokkuð sátt við ákvarðanir mínar og árangurinn og hefði svo sem ekki breytt neinu öðru, ef ég væri að fara aftur í þessa ferð í dag.

Hefði kannski viljað æfa aðeins lengur og meira en ég gerði, náði 10 vikum samtals og lengsta æfingin var fyrsta æfingin, þ.e. 7 tinda hlaupið. En hver vill ekki æfa meira og lengra fyrir svona keppnir? Held þetta sé eðlileg tilfinning.

—————————————————————————————
ÁHUGAVERÐ TÖLFRÆÐI
Sigurvegarinn í 102 km hlaupinu var hollensk kona, Irene Kinnegim og kláraði hún hlaupið á 9:35:21 sem er tæplega klukkustund betri tími en fyrsti karlmaður sem var á 10:34:24.

Irene er fædd 8. janúar 1975, Hún er mikill þríþrautarkappi.  Hún hefur þrisvar tekið þátt í Ironman í Hawai  2005, 2006 og 2008.  Sjá nánari upplýsingar um Irene hér:

Við hittum Irene við skráninguna degi fyrir keppni og spjallaði ég aðeins við hana, en náði því miður ekki að komast að því hversu mikil þríþrautarkona hún er þá, þar sem við spjölluðum bara um fjallahlaup, en erum núna vinkonur á fésbókinni.

Óska henni innilega til hamingju með GLÆSILEGAN og EINSTAKAN árangur, en þetta var hennar fyrsta 100 km hlaup, hún sagði mér að hún hafði hlaupið lengst 80 km fyrir þetta hlaup.

—————————————————————————————

80 hlauparar klára 102 km – 4 konur = 25 sem eru DNS
(Besti tími er 9:35:21 Irene Kinnegim – síðasti hlaupari á 23:32:45)

60 hlauparar klára 39 km – 10 konur = 65 sem eru DNS (ekki rétt því Viggó var skráður líka þar) (Besti tími er 3:26:28 – síðasti hlaupari á 7:34:28 )

225 hjólreiðamenn klára 102 km – engin kona = 34 sem eru DNS
(Besti tími er 4:17:03 – síðasti hjólreiðamaður er á 13:35:19)

37 hjólreiðamenn klára 39 km – 2 konur = 11 sem eru DNS
(Besti tími er 2:17:14 – síðasti hjólreiðamaður er á 6:10:37)

—————————————————————————————
FLÖGUTÍMAR HM
31 km = 4:16:41
37 km = 5:03:38
46 km = 6:07:13
102 km =14:11:38
—————————————————————————————

You may also like

Leave a Comment