Kathmandu er höfuðborg Nepal og jafnframt stærsta borg landsins. Borgin er staðsett í Kathmandu dalnum og nánast samvaxin smærri borgum eins og Bhaktapur, Lalitpur og Thimi sem mynda eins konar stór Kathmandu svæðið, ekki ósvipað því sem við þekkjum hér á stór Reykjavíkursvæðinu. Þar búa uþb 1.750.000 manns og í dalnum öllum um tvær og hálf milljón manna. Borgin á sér langa sögu og elstu fornminjar sem þar hafa fundist eru ríflega 2000 ára gamlar. Óhætt er að segja að Kathmandu sé forvitnileg borg, sérílagi elstu hlutar hennar sem m.a. er að finna í nágreeni við Durbar torgið.
Flest hofin sem prýddu Durbar torgið urðu fyrir miklum skemmdum í jarðskjálftunum 2015 og torgið er því varla svipur hjá sjón miðað við hvernig þar var umhorfs fyrir skjálftana. Þar er þó enn gaman að rölta um, villast í litlum hliðargötum og fylgjast með því hvað er til sölu hjá heimafólki. Skammt frá Durbar er gatan Freak Street, sem var eitt af helstu kennileitum borgarinnar á sjöunda áratug síðustu aldar þegar hippar flykktust til landsins og héldu sig hafa fundið himnaríki á jörð. Þá var Freak Street helsta athvarf þeirra og þar að finna gistihús og veitingastaði. Í dag er þetta hins vegar róleg gata þar sem heimafólk býr og starfar. Helsta kennileiti dagsins í dag er Thamel hverfið, sem er vel þekkt af flestum þeim sem dvelja í borginni einhvern tíma og þar er að finna búðir, kaffihús, ferðaskipuleggjendur og hótel. Í þessum hluta borgarinnar er árstíðabundin sveifla á fjölda og lífi sem stjórnast af því hvenær flestir ferðamenn heimsækja landið.
Heimild: Íslenskir fjallaleiðsögumenn