Everest eða Sagarmatha eins og það heitir á nepölsku er hæsta fjall jarðarinnar heilir 8.848 metrar og liggur á landamærum Nepals og Tíbets. Nepalska heitið Sagarmatha hefur skemmtilega þýðingu – Himnahöfuð – sem er öllu gagnsærra en heitið Everest sem mælingamenn Konunglega
Breska Jarðfræðafélagsins gáfu fjallinu árið 1856. Áður en Hillary og Tenzing Norgay náðu á hátind þess árið 1953 höfðu margir aðrir reynt. Frægastur þeirra er trúlega Georg Mallory sem reyndi við fjallið 1929 ásamt félaga sínum Andrew Irvine og fórust báðir á fjallinu. Ekki er vitað hvort þeir náðu á toppinn en lík Mallorys fannst árið 1999 í 8530 metra hæð og þótti ýmislegt benda til þess að hann hefði haft erindi sem erfiði.
Aðal fjallamennskutímabilið fyrir Everest er apríl – maí og yfirleitt er aðeins örstutt tímabil sem gefst til þess að reyna við toppinn sjálfan en mikilvægt er að hafa öðlast nægilega hæðaraðlögun þegar stóra stundin rennur upp svo að flestir leiðangrar taka uþb 6 vikur. Fyrstu Íslendingarnir sem klifu fjallið voru þeir Björn Ólafsson, Einar Stefánsson og Hallgrímur Magnússon árið 1997 og síðan þá hafa nokkrir aðrir landar staðið á toppnum þar á meðal fararstjóri ferðarinnar Leifur Örn. Hann fór þó ekki hefðbundna leið upp heldur norðan megin þar sem grunnbúðirnar eru í 6.400 metra hæð. Ein íslensk kona, Vilborg Arna hefur klifið fjallið í þriðju tilraun árið 2017.
Heimild: Íslenskir fjallaleiðsögumenn.