D7 = Dingboche – Lobuche 4.910 m (28.okt)

by Halldóra

Þetta var erfiðasti dagurinn minn frá byrjun göngunnar. Fékk í magann þegar ég vaknaði og hafði ekki lyst á morgunmat og eftir þrjár ferðir á klósettið þá tók ég bara inn immodium og maginn snarlagaðist við það. Við skiluðum eins og vanalega gulu NF töskunum fyrir morgunmst og vorum tilbúin í göngu með bakpoka klukkan 8. Bakpokinn minn er orðinn ansi þungur, nú eru goretex buxurnar líka ásamt jakkanum auka húfi, vettlingum, nesti og  fullt af vatni.

Gangan hélt áfram uppí móti og við tókum te- og hádegismat saman og aðeins fyrr en venjulega. Borðuðum á stað sem heitir Kala Pathar Lodge í Thukla í 4.620 metra hæð.

Eftir hádegismatinn tók við mjög brött brekka og þá í fyrsta skipti síðan ég hóf gönguna sem ég notaði báða stafina mína. Hafði stundum notað annan en annars var Óli með þá eiginlega allan tímann.

Eftir mestu hækkunina komum við að minningarstað þar sem reistir hafa verið minnisvarðar um þá sem hafa látið lífið á Everest. Fallegur staður þar sem við Óli tókum mynd af okkur með Nátrúruhlaupafánann.

Áfram hélt gangan til þorpsins Lobuche sem er eitt af síðustu byggðu bólunum áður en komið er upp í grunnnbúðir.

Eftir tetíma þar gengum við uppá “hól” hérna í þorpinu þar sem við náðum 5000 metra hæð (Jón Örvar þurfti reyndar að halda úrinu mínu hátt uppi til að ná því 😉 ) svo var bara haldið aftur á gistiheimilið.

Sumir tóku spil en ég fór að hlusta á Veru Illugadóttir þáttinn hennar um Angelu Merkel -búin að hlusta á marga þætti síðan ég hóf þetta ferðalag, þeir eru allir frábærir.

Eftir kvöldmat fóru allir snemma að sofa, enda ræs klukkan 5, morgunmatur klukkan 6 og brottför 7.

 

You may also like

Leave a Comment