Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé
  • Heim
  • Daglegt líf
    • Daglegt líf

      LAUGAVEGSHLAUPIÐ 2025

      júlí 19, 2025

      Daglegt líf

      Morgunblaðið um Grænlandsferðina

      maí 14, 2025

      Daglegt líf

      Grænland D6 þriðjudagur 29. apríl 2025

      apríl 29, 2025

      Daglegt líf

      Grænland D5 mánudagur 28. apríl 2025

      apríl 28, 2025

      Daglegt líf

      Grænland D4 sunnudagur 27. apríl 2025

      apríl 27, 2025

  • Fjallahlaup
    • Fjallahlaup

      LAUGAVEGSHLAUPIÐ 2025

      júlí 19, 2025

      Fjallahlaup

      ITRA HLAUP FRÁ 2011-2024

      júlí 31, 2024

      Fjallahlaup

      TMR D8 Ferðadagur

      ágúst 4, 2023

      Fjallahlaup

      TMR D7

      ágúst 3, 2023

      Fjallahlaup

      TMR D6

      ágúst 2, 2023

  • Keppnissaga
    • Keppnissaga

      LAUGAVEGSHLAUPIÐ 2025

      júlí 19, 2025

      Keppnissaga

      Grænland D4 sunnudagur 27. apríl 2025

      apríl 27, 2025

      Keppnissaga

      Grænland D3 laugardagur 26. apríl 2025

      apríl 26, 2025

      Keppnissaga

      Íþróttaferilskrá eftir árum frá 2011

      júlí 31, 2024

      Keppnissaga

      Vasavikan 2024

      mars 6, 2024

  • Þríþraut
    • Þríþraut

      Ironman Italy 2023 16.09.2023

      október 16, 2023

      Þríþraut

      Kópavogsþrautin 2021 (keppnissaga)

      maí 9, 2021

      Þríþraut

      Bláfjallaþríþraut Relive

      maí 10, 2020

      Þríþraut

      Bláfjallaþríþraut 2020

      maí 10, 2020

      Þríþraut

      50 ÁRA AFMÆLISÁRIÐ 2019

      desember 31, 2019

Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé
  • Heim
  • Daglegt líf
    • Daglegt líf

      LAUGAVEGSHLAUPIÐ 2025

      júlí 19, 2025

      Daglegt líf

      Morgunblaðið um Grænlandsferðina

      maí 14, 2025

      Daglegt líf

      Grænland D6 þriðjudagur 29. apríl 2025

      apríl 29, 2025

      Daglegt líf

      Grænland D5 mánudagur 28. apríl 2025

      apríl 28, 2025

      Daglegt líf

      Grænland D4 sunnudagur 27. apríl 2025

      apríl 27, 2025

  • Fjallahlaup
    • Fjallahlaup

      LAUGAVEGSHLAUPIÐ 2025

      júlí 19, 2025

      Fjallahlaup

      ITRA HLAUP FRÁ 2011-2024

      júlí 31, 2024

      Fjallahlaup

      TMR D8 Ferðadagur

      ágúst 4, 2023

      Fjallahlaup

      TMR D7

      ágúst 3, 2023

      Fjallahlaup

      TMR D6

      ágúst 2, 2023

  • Keppnissaga
    • Keppnissaga

      LAUGAVEGSHLAUPIÐ 2025

      júlí 19, 2025

      Keppnissaga

      Grænland D4 sunnudagur 27. apríl 2025

      apríl 27, 2025

      Keppnissaga

      Grænland D3 laugardagur 26. apríl 2025

      apríl 26, 2025

      Keppnissaga

      Íþróttaferilskrá eftir árum frá 2011

      júlí 31, 2024

      Keppnissaga

      Vasavikan 2024

      mars 6, 2024

  • Þríþraut
    • Þríþraut

      Ironman Italy 2023 16.09.2023

      október 16, 2023

      Þríþraut

      Kópavogsþrautin 2021 (keppnissaga)

      maí 9, 2021

      Þríþraut

      Bláfjallaþríþraut Relive

      maí 10, 2020

      Þríþraut

      Bláfjallaþríþraut 2020

      maí 10, 2020

      Þríþraut

      50 ÁRA AFMÆLISÁRIÐ 2019

      desember 31, 2019

Category:

Daglegt líf

Daglegt lífFjallahlaupKeppnissaga

LAUGAVEGSHLAUPIÐ 2025

by Halldóra júlí 19, 2025

Það eru forréttindi og alls ekki sjálfsagt að geta tekið þátt í ultramaraþoni eins og Laugavegshlaupinu. Það getur svo margt gerst í æfingaferlinu eins og ég fékk að reyna, þegar ég axlabrotnaði (við að bera sofa) tveimur vikum fyrir hlaup á síðasta ári (2024). Ég tognaði líka í rassvöðva á Yasso sprettæfingu fyrir Kaupmannahafnar maraþonið í vor (2025) og gat því ekki æft með Laugavegshópi Náttúruhlaupa í nokkrar vikur og gat ekki heldur hlaupið maraþonið í Kaupmannahöfn. Er því búin að vera „teipuð“ frá rassi niður á mitt læri (nokkrir borðar af stífu teipi) frá því í maí og það hefur virkað vel til að halda tognuninni í skefjun, þó ég viti af henni.

Því var fyrsta markmiðið í Laugavegshlaupinu 2025 alltaf að komast að ráslínu. Markmið númer tvö að komast í mark innan tímamarka (4 klst í Álftavatni og 6,5 klst út af Emstrum). Þriðja markmiðið var að njóta hlaupsins og hafa gaman alla leiðina. Var ég mjög ánægð með að ná öllum markmiðunum þremur.

LANDMANNALAUGAR FYRIR HLAUP
Dagurinn var einstaklega fallegur, veðrið algjörlega frábært. Ég hef tekið þátt sjö sinnum áður í Laugavegshlaupinu og farið tvisvar sinnum Laugaveginn á tveim dögum, en aldrei farið svona léttklædd af stað frá Landmannalaugum, það var svo hlýtt. Við pabbi og Jói bróðir vorum komin inní Landmannalaugar klukkan 07:30, eða tveimur klukkustundum fyrir mína ræsingu. Ég tók létta upphitun, fór í göngutúr að heita lóninu með Jóa og pabba og fór á klósettið allt í rólegheitum. Kláraði að græja drykkjarbrúsana í vestið mitt og fékk mér banana. Eftir að rúturnar komu þá var gaman að hitta alla félagana. Ég stýrði upphitun fyrir Náttúruhlaupara og stillti upp í myndatöku klukkan 08:45. Eins og oft áður, þá misstu síðustu rúturnar af myndatökunni, svo við vorum með aðra upphitun og aðra myndatöku rétt fyrir klukkan 09:00. Þá skellti ég mér að fylgjast með ræsingu á gula ráshópnum sem er fyrsti ráshópurinn sem var ræstur klukkan 09:00. Eftir að þau voru lögð af stað fór ég í klósettröðina, og krossaði fingur að ég myndi ná fyrir mína ræsingu sem var klukkan 09:30. Rauður hópur var ræstur klukkan 09:05, grænn hópur klukkan 09:10, svo var 15 mín hlé og blár hópur sem var minn hópur í ár, var ræstur 09:30 og bleikur síðastur eða klukkan 09:35.

LANDMANNALAUGAR – HRAFNTINNUSKER 1:33:31 = 09:27 mín/km meðalhraði.
(skv. Garmin 10,3 km 1 klst 35 mín 26 sek. av.pace 9:17)
Ég náði að fara á salerni og knúsa Jóa og pabba og henti mér svo í hólfið mitt, um 09:25. Þar hitti ég þjálfara Náttúruhlaupa, þær Önnu Siggu og Kristiönnu og svo kom Sigga Sig aðeins seinna. Þarna voru líka margir hlaupafélagar sem voru í Laugavegsnámskeiði Náttúruhlaupa og tók ég eina sjálfu með þeim.
Ég var með stafina mína tilbúna um leið og ég lagði af stað, enda er brekka strax þegar maður kemur yfir lækinn. Ég hélt mér á skynsömum hraða, en sá alltaf í Önnu Siggu. Ég var með “alarm” eða píp á Garmin úrinu mínu sem minnti mig á að borða á 30 mín fresti. Tók gel sem ég elska frá Bætiefnabúllunni, BioTech Energy Gel Pro, sem ég tók áður en ég lagði af stað og svo á klst. fresti og á móti, á hálfa tímanum, tók ég Enervit gúmmí kubba sem hentar mér mjög vel (1/2 pakka eða 3 kubba) í einu.

Það var ótrúlega heitt að ganga upp í Hrafntinnusker. Ég segi ganga, ekki hlaupa, því ég geng upp öll fjölin en hleyp á jafnsléttu og niður. Útsýnið á þessari leið, er svo magnþrungið, mæli svo með göngu þó það sé ekki nema bara uppí Hrafntinnusker. Tók nokkrar myndir á leiðinni sem má sjá hér að neðan. Á leiðinni uppí Hrafntinnusker sá ég nokkra hlaupara, sem voru svo sveittir, eins og þeir væru að koma úr sturtu, svo lentu því miður margir í því að fá krampa á leiðinni. Ég var mjög skynsöm og fór bara rólega þarna upp og lét það ekki hafa nein áhrif á mig, þó hlauparar væru að taka fram úr mér.

Ég kom í Höskuldsskála við Hrafntinnusker eftir 1 klst og 33 mín. Þar hitt ég Matthildi formann Þríkó, sem var sjálfboðaliði að gefa hlaupurum vatn, svo ég stoppaði þar til að kasta á hana kveðju. Fyllti á aðra Salomon skvísuna mína, en ég var búin að blanda í hana Kolvetnadufti með smá vatni, en fyllti hana núna af vatni. Bætti ekki vatni á Powerade brúsann sem ég var með hinum megin í vestinu, lagði svo af stað aftur, en þá var ég hætt að sjá Önnu Siggu, sem hefur örugglega sleppt stoppinu þarna, sem ég hef yfirleitt gert. Enda óþarfi ef maður er með nægt vatn. En í dag, þurfti að drekka vel, út af hitanum.

HRAFNTINNUSKER – ÁLFTAVATN 3:15:47 = 08:59 mín/km
(skv. garmin úrinu mínu 11,29 km 1 klst 38 mín 46 sek. av.pace 8:46)
Leiðin frá Hrafntinnuskeri að Álftavatni er líka guðdómleg. Það var mjög lítill snjór á leiðinni, sem gerði það að verkum að gilin voru dýpri og það var krefjandi að fara niður brött drullubörðin. Þar þakkaði ég Guði fyrir stafina mína sem og þegar ég fór niður Jökultungurnar. Þar fór ég fram úr tveimur hlaupurum, sem nefndu það sérstaklega að þau hefðu viljað hafa stafi þarna niður.

Síðan kom sléttur kafli áður en maður fer yfir fyrsta vaðið. Þar er alltaf gaman að sjá ferðmenn á göngu, fara úr gönguskóm og fara í vaðskó, á meðan hlaupararnir hlaupa bara yfir á hlaupaskónum. Ég elska Salomon Ultra Glide skóna mína og er búin að eiga kynslóð 1 og 2 og núna kynslóð 3. Það var mikil breyting frá 2 yfir í 3 . Dempunin og gripið er mun betra, þó hitt hafi verið frábært. Ég elska þessa skó og fann ekki fyrir neinum óþægindum í þeim og fékk enga blöðru eða slíkt.

Í Laugavegshlaupinu er maður oft að hitta aðra hlaupara sem maður þekkir, annað hvort ert þú að hlaupa fram úr þeim eða þeir að hlaupa fram úr þér og það er svo skemmtilegt, hitti og spjallaði við Ásthildi rétt áður en við fórum yfir vaðið. Flati kaflinn niður í Álftavatn gekk mjög vel og ég reyndar stoppaði einu sinni á leiðinni og pissaði bak við stein. Fann að ég gat ekki haldið lengur í mér. Fann nefnilega ekki salttöflurnar í vestinu, mundi ekki hvar ég hafði troðið þeim í hlaupavestið og því var pissuþörfin mikil.😉 Ég hugsaði bara eins og strákarnir, ef þeir geta pissað bak við stein þá geri ég það bara líka. Kom niður í Álftavatn eftir 3 klst og 15 mín, var sem sagt 1 klst 38 mín frá Hrafntinnuskeri.

ÁLFTAVATN – BLÁFJALLAKVÍSL 04:01:37 08:37 = mín/km
(skv. Garmin úrinu mínu var vegalengdin 5,13 km 45 mín 12 sek av.pace 8:49)
Ég stoppaði við drykkjarstöðina við Álftavatn. Hellti því sem eftir var úr Powerade brúsanum og fyllti af vatni og setti Precision salttöflu í brúsann. Fann þá líka salttöfluna sem maður má borða og fékk mér eina. Fékk mér svo banana bita og saltkringlur og eina gifflu í poka, sem ég ætlaði að narta í á leiðinni að Bláfjallakvísl. Kvaddi svo þessa frábæru sjálfboðaliða sem voru að aðstoða í Álftavatni.

DaVincibrúin sem Árni Tryggvason smíðaði yfir Álftavatnsána var algjör snilld. Við þurftum ekki að vaða yfir ána, takk kæri vinur. Aðeins lengra kom önnur á, Bratthálskvísl, sem þurfti að vaða yfir 😉

Leiðin að Bláfjallakvísl gekk líka vel, tók aðeins þjálfarann á þetta, þegar ég fór að reka á eftir hlaupurum sem voru að ganga á jafnsléttu, „koma svo alltaf að hlaupa þegar brekkurnar eru búnar“. Undirtektir við þesssari hvatningu voru misjafnar. Á leiðinni hitti ég annan hlaupafélaga sem var að drepast úr krömpum svo ég gaf honum salttöflu, en sá svo eftir að hafa ekki boðið honum banana líka sem ég var með í pokanum frá Álftavatni.

Þegar ég kom að skálanum í Hvanngili, ætlaði ég að skella mér á salernið, enda búin að segja öllum að það væri miklu þægilegra en að fara í biðröðina við Álftavatn. Nei, þá er búið að færa klósettin við hliðina á skálanum, þ.e. loka þeim sem eru rétt við stíginn. Ég gekk á allar hurðar og allt læst, hitti svo starfsmann sem vísaði mér á klósettin við skálann. Ég nennti ekki að hlaupa þangað, af leiðinni, svo ég þakkaði bara fyrir og sagði honum að það væri stutt í Emstrur.

Þegar maður kemur í Bláfjallakvísl, þá þarf maður að ákveða hvort maður ætli að stoppa og fara í “drop-bag” og sækja eitthvað eða hvort maður eigi bara að halda áfram. Ég velti fyrir mér hvort ég ætti að skipta um skó og fara í gömlu Salomon UltraGlide skóna mína, en þar sem ég var í svo góðum málum og fann ekki fyrir neinu, þá var það bara vitleysa. Mér leið vel og var með næga orku á mér svo ég hélt bara áfram. Það var mjög heitt og ég tók fleiri salttöflur, var dugleg að drekka salt-vatnið mitt og tók líka Enervit carbon töflurnar, sem eru algjör snilld. Þegar ég kom að Bláfjallakvísl var ég búin að vera í 4 klst og 1 mín.
Þegar ég er að skrifa keppnissöguna, þá er gaman að rifja það upp, að ég spáði ekkert í tímann á leiðinni, eina sem ég gerði var að lappa Garmin úrið mitt (var búin að taka 1 km autolap af) og lappaði sjálf á hverri stöð, án þess að spá í það hvað klukkan væri, nema jú þegar ég kom inná Álftavatn og Emstrur, þá vildi ég vera viss um að ég væri innan tímamarka.

BLÁFJALLAKVÍSL – EMSTRUR 05:32:04 = 08:30 mín/km
(skv. garmin 10,74 km 1 klst 30 mín 27 sek, av.pace 8:25)
Eftir Bláfjallakvísl er langur kafli sem er kallaður sandarnir. Ég var búin að ákveða að þar myndi ég kveikja á Aeropex After Shokz heyrnatól og hlusta á góða og hvetjandi tónlist. Þetta heyrnatól er mjög sniðugt, þar sem maður heyrir öll umhverfishljóð. Á leiðinni yfir sandana hitti ég annan hlaupara, sem var að drepast úr krömpum sem ég vorkenndi og gaf því salttöflur, eina í munninn og aðra í brúsann og gaf honum líka banana. Það er kínín í banana sem virkar vel gegn krömpum. Svo hvatti ég hann áfram þegar ég heyrði hann bölva og sagði honum að hugsa til allra þeirra sem vildu vera í okkar sporum, en gætu það ekki. ❤️

Ég hélt mínu næringaplani áfram, ég fann þegar stutt var orðið eftir í Emstrur að ég var orðin koffínþurfi. Hafði bara tekið inn gel sem eru ekki með koffíni og ég rifjaði upp líðanina í TOR-num (TorX330) þegar ég varð svona koffín þurfi, þá leið mér í hausnum, eins og ég væri ekki á staðnum. Í TOR hlaupinu spurði ég vini mína sem voru að hlaupa með mér, hvort þeir könnuðust við þessa líðan og hvað ég ætti að gera. Þá rétti einn mér svona KOFFÍN SKOT brúsa. Ég tók smá sopa og kom til baka eins og skot. 😉Tók þá ákvörðun um að fá mér Pepsi um leið og ég kæmi á drykkjarstöðina í Emstrur. Komutími í Emstrur 5 klst og 32 mín og “bara” 16 kílómetrar eftir.

Ég var með koffín gel á mér, en mig langaði ekki í það, svo ég fékk mér tvö glös af PEPSI þegar ég kom í Emstrur, mjög glöð að skutla þeim í mig og þau virkuðu um leið, alveg eins og í TORnum, bara skot beint í mark. Ég fyllti vel á brúsana í Emstrum, bæði Powerade brúsann og setti salttöflu í hann, og líka í aðra Salomon skvísu sem ég var með í vestinu, sem var með blönduðu carbon-dufti í. Fékk mér bara salt-kringlur í poka, langaði ekki í súkkulaði eða banana, en jú fékk mér tvær appelsínuskífur sem voru mjög góðar. Sagði svo bara bless við frábæru starfsmennina, þakkaði fyrir mig og kvaddi.

EMSTRUR – HÚSADALUR ÞÓRSMÖRK 07:59:26 = 09:12 km/klst
(Skv. Garmin 16,05 km 2 klst 27 mín 28 sek av.pace 9:11)
Ég hélt áfram að hlusta á tónlistina og reyndi að halda áfram næringaplani. Nú voru góðu gelin frá Bætiefnabúllunni búin og ég átti bara eftir koffín gel eftir frá Maurten og HighFive. Rétt áður en ég kom að fyrstu almennilegu hækkuninni eftir Emstur, þá reyndi ég að koma ofan í mig einu Maurten geli, en kúgaðist, en tróð því samt ofan í mig.

Þrátt fyrir þetta þá hélt ég samt alveg gleðinni og hitti fleiri hlaupavini á leiðinni, sem er alltaf skemmtilegra en að hlaupa einn. Stundum eltir maður hlaupar sem er kannski á ekki nógu góðum hraða og þá dettur maður í það að fara að hlaupa hægar en maður ætlaði. Stundum missir maður sjálfur orkuna og fer að hlaupa hægar. Þegar Arndís sem hafði verið með mér á námskeiði kom og hljóp fram úr mér og sagði mér hvað ráðið um söltuðu bílana og nammið hefði verið gott, þá mundi ég að ég var ekki búin að taka upp nammipokann minn. Svo ég tók hann upp og bauð öðrum hlaupara sem var að hlaupa með okkur bland í poka, það virkaði vel í magann, eftir vonda gelið. Ég kvaddi Arndísi og hvatti hana til að drífa sig og halda áfram. Nammið virkaði mjög vel, gefur manni gott sykur-skot, en ég hefði viljað vera með fleiri Biotech gel, geri það klárlega næst.

Það er drykkjarstöð áður en komið er að Kápunni og þar fékk ég mér aftur tvö Pepsi glös í Salomon glasið sem ég tók með mér. Svo var ekkert annað í boði en að henda sér upp Kápuna, en ég var búin að vera að hlaupa með Ölmu, Margréti, Gunna og Rúnari á flata kaflanum fyrir Kápuna.

Þegar ég kom svo að Þröngá hitti ég Sigga Nikk vin minn sem gaf mér knús og orku í síðast kaflann. Síðasti kaflinn inní Þórsmörk eftir Þröngá, leynir svo sannarlega á sér. Ég sakna þess að fá ekki lengur RedBull á síðustu drykkjarstöðinni sem er hinum megin við Þröngána og ég lét alveg vita af því.

Þegar allar þessar brekkur (veit ekki hvað þær eru margar) eftir Þröngá og upp í Húsadagl voru búnar og við komnar inn skóginn, kannski 2 km eftir þá kíkti ég á úrið og sá að við áttum möguleika á að gefa í og reyna að ná undir 8 klst. Það var ein stelpa með mér, Margrét, sem var með blátt númer eins og ég. Ég spurði hana hvort við ættum ekki að að gefa í og reyna að ná undir 8 klst. Hún spurði hver tíminn væri og sagði að við myndum örugglega ekki ná þessu. Ég sagði að það skipti þá ekki máli, en við ættum að reyna. Sagði við strákana, Gunna og Rúnar, sem voru búnir að vera að hlaupa með okkur (þeir voru bleikir ræstir 5 mín á eftir okkur) að við ætluðum að fara fram úr og gefa í og reyna að ná þessu undir 8 klst.

Það var því viðbótargleðistund að koma í mark á tímanum 7 klst 59 mín og 26 sek. eftir þennan lokasprett. En að sjálfsögðu átti ég inni fyrir tvö Haddýjar hopp, svo ljósmyndarinn myndi örugglega ná þeim. Tók svo tvö auka Haddýjarhopp til að Beta gæti tekið mynd af mér hoppandi. Mikið var ég glöð að sjá Jóa bróðir, Gunnu vinkonu, Betu, Sunnu og fleiri vini mína þegar ég kom í mark. Ánægð með dagsverkið, eitt langt og skemmtilegt partý.

FATNAÐUR
Það var einungis eitt sem stressaði mig um morguninn á leiðinni inní Landmannalaugar. Ég var að brjóta eina reglu, sem ég segi öllum sem ég er að þjálfa að brjóta ekki. En það var að gera eitthvað nýtt eða öðruvísi á keppnisdag.

Ég tók sem sagt ákvörðun að hlaupa með “gamalt” en ónotað Salomon vesti sem ég átti en hafði aldrei hlaupið með. Því við hlaupum alltaf í Salomon vesti merktu Náttúruhlaupum á æfingum. Mitt er orðið slitið og mig langaði að hlaupa í ómerktu vesti.

Hljóp líka í nýjum Salomon bol, en ég vissi að hann yrði frábær, hef átt alveg eins bol og hafði því ekki miklar áhyggjur af því. En sem betur fer voru þessar áhyggjur óþarfar því vestið og bolurinn voru mjög þægileg eins og allur búnaður sem ég á frá Salomon. Ég hljóp í nýju, frábæru Salomon UltraGilde3 skónum mínum, í Salomon íþróttatoppi, sem er besti toppur sem ég hef átt, en gömlu Salomon topparnir voru líka mjög góðir. Hljóp í eldgömlum Fusion stuttbuxum (þurfti að gera við saumsprettu á þeim), í hnéháum compress sokkum, með hnéhlífar og ódýrar ermahlífar.

Að sjálfsögðu hljóp ég með æðislega Salomon derhúfu og uppáhalds sólgleraugun mín frá Julbo. Í vestinu var ég með léttan Salomon regnjakkann (10.000 vatnsheldni), Náttúruhlaupabuff og Salomon hanska og ullareyrnaband. Að sjálfsögðu með álteppi, plástra og second skin og litla túpu af brjóstakremi ef ég fengi núningssár. Ég body glide-aði mig vel á alla núningsfleti, áður en ég lagði af stað og setti gott lag af Gewohl extra á fæturna, svo ég fékk engin núningssár.

Kæru vinir í Útilíf, ég þakka kærlega fyrir Salomon stuðninginn bæði núna fyrir Laugavegshlaupið sem og fyrir keppnir síðustu ára. Það er ómetanlegt að fá þennan stuðning, bæði búnað og afslátt af búnaði. En ég get 100% mælt með þjónustunni í Útilíf sem og Salomon vörunum, sem eru að mínu mati besta vörumerkið í utanvegahlaupum.

NÆRINGARPLAN
Ég var með mjög gott næringaplan og ég elsk BioTech Energy gelin frá Bætiefnabúllunni, takk Telma fyrir að flytja þau inn. Var einnig vel búin af aukanæringu eins og alltaf, t.d. salttöflur bæði til að setja í vatn og sjúga svo og saltbíla og saltað nammi sem kom sér vel í hitanum þegar ég loksins mundi eftir því. Dísilvélin fékk því bara að ganga rólega (ætlaði ekki að vekja upp tognunina í rassvöða, sem var teipaður) ákvað að hlaupa stöðugt og rólega og mér leið bara vel. Var mjög ánægð með BioTech Energy Gelin frá Bætiefnabúllunni og gúmmíið og carbon töflur frá Enervit.

HLAUPAPLAN
Ég prentaði út hlaupaplan sem ég plastaði og var með í vestinu. Það voru áætlanir m.v. 9 klst lokatíma, 8 klst og 30 mín og 8 klst. Hins vegar kíkti ég aldrei á þetta plan og kíkti mjög sjaldan á úrið, nema til að lappa og kanna hvort ég væri ekki örugglega innan tímamarka. Álftavatn 4 klst og Emstrur 6 klst og 30 mín og svo í lokin þegar ég sá glugga á lokaspretti til að ná undir 8 klst.

Annars hlustaði ég bara á líðanina, var með púlsmæli og kíkti bara á hann á leið uppí Hrafntinnusker að ég væri ekki að fara of hratt. Hljóp því alls ekki hratt, en reyndi að hlaupa alltaf á jafnsléttu og ganga brekkur. Ég fór mjög varlega í niðurhlaup og sérstaklega þar sem komu brattir drullukaflar í gilunum út af snjóleysi, en þar komu stafirnir sér mjög vel, en ég var með gömlu Black Diamond hlaupastafina mína. Er búin að fá mér LEKI en ekki búin að æfa mig nóg til að þora að hlaupa með þá, svona langa vegalengd, en vá hvað þeir virka vel og eru flottir.

LOKAORÐ OG ÞAKKIR
Ég er mjög glöð og þakklát að hafa komist að ráslínu og að klára hlaupið. Var líka mjög glöð að njóta hverrar mínútu, man t.d. þegar ég var að hjálpa manninum á söndunum sem var að blóta hlaupinu að ég sagði við hann: „Hugsaðu um alla þá sem myndu vilja vera í okkar sporum, en gátu ekki byrjað vegna meiðsla eða annarra veikinda.“ Ég hugsaði oft og mikið til þeirra með þakklæti í hjarta. Ég er líka mjög þakklát bróður mínum og pabba sem komu með mér inní Landmannalaugar. Einnig að Jói bróðir sótti Gunnu vinkonu á Hvolsvöll og beið eftir mér í margar klukkustundir í Húsadal. Er líka þakklát Elísabetu Margeirs þjálfara og umsjónarmanns Laugavegsnámskeiðs Náttúruhlaupa að treysta mér til að leiða einn af skemmtilegum hópum hlaupara í Laugavegshóps Náttúruhlaupa (Hrafntinnusker/Landmannalaugar) með Gunni og Önnu Siggu. Þakklát líka fyrir góða hlaupaplanið hennar og allar frábæru æfingarnar. Takk kæri Birgir þjálfari (Coach Biggi) fyrir styrktaræfingar, en ég var í sterkum hlaupurum, og er núna komin aftur í þjálfun til Bigga, sem er algjörlega frábær og hann einstakur þjálfari. Takk Biggi.

Takk kæru starfsmenn og sjálfboðaliðar í Laugavegshlaupinu fyrir veitta þjónustu, stuðning og umhyggju. Vá hvað Egils Appelsínið var gott sem ég fékk í tjaldinu eftir hlaup. EGILS APPELSÍN – ÞETTA EINA SANNA 🧡

Ég er líka þakklát fyrir alla vinina sem ég eignaðist á þessu námskeiði sem og alla hina vinina sem ég hef eignast á hlaupum í gegnum tíðina. Þið eruð yndisleg.  Þakka Útilíf og Bætiefnabúllunni fyrir þeirra stuðning. ❤️

Að lokum fær ,,Óli minn” risa stórt  ❤️ og kudos fyrir að hafa þolinmæði fyrir öllum þessum æfingum og brölti í mér. Hann er einstaklega þolinmóður og ætlaði að sjálfsögðu að vera með mér þessa helgi, en var lasin heima og hans var sárt saknað. LUV JU elsku Óli minn. ❤️

ÁRANGUR LAUGAVEGSHLAUP FYRRI ÁRA

Laugavegshlaupið 2011 = 07:37:44
Laugavegshlaupið 2017 = 08:10:11
Laugavegshlaupið 2018 = 07:01:12
Laugavegshlaupið 2019 = 06:59:47 PB
Laugavegshlaupið 2020 = 07:21:09
Laugavegshlaupið 2021 = 07:41:34
Laugavegshlaupið 2022 = 07:41:17
Laugavegshlaupið 2023 = 07:59:26

MYNDIR LAUGAVEGSHLAUPIÐ 2025

júlí 19, 2025 0 comment
1 FacebookTwitterPinterestEmail
Daglegt lífGönguskíði

Morgunblaðið um Grænlandsferðina

by Halldóra maí 14, 2025

Hér að neðan er viðtal við Einar Ólafsson um Grænlandsferðina okkar, sem birtist á baksíðu Moggans 14. maí síðastliðinn.

maí 14, 2025 0 comment
0 FacebookTwitterPinterestEmail
Daglegt lífGönguskíði

Grænland D6 þriðjudagur 29. apríl 2025

by Halldóra apríl 29, 2025

Við fórum á fætur klukkan 7:00. Bílstjórinn okkar Símon frá Póllandi ætlaði að sækja okkur klukkan 08:30. Flugið heim var áætlað klukkan 11:00. Fengum okkur góðan morgunmat, enda fullt til ennþá í ísskápnum, jógúrt, súrmjólk, brauð og kex og við buðum strákunum, þ.e. Einari og Mikael að koma og fá sér af morgunverðarhlaðborðinu.

Við vorum búnar að pakka öllum farangri og koma skíðunum til Einars. Það var búið að pakka öllum byssum niður og við gáfum restina af skotunum okkar til Grænlenska teymisins. Þá var bara að taka af rúmunum og taka lokaþrif áður en við læstum hurðunum af þessum yndislegu íbúðum sem við höfðum gist í síðustu 5 nætur.

Við vorum svo lánsöm að hitta á hann Símon á flugvellinum þegar við komum til Grænlands og hann keyrði okkur í íbúðina okkar. Við fengum símann hjá honum og svo var hann bara einkabílstjórinn okkar allan tímann ásamt því að við fengum okkur 10 skipta strætókort. Það var mun hagkvæmara og þægilegra heldur en að leigja bílaleigubíl.

Inntékkun á flugvellinum gekk alveg ótrúlega vel. Tók mjög stuttan tíma, en við vildum mæta snemma, þar sem við vorum svo lengi að tékka okkur inn í Keflavík á leiðinni út. Fríhöfnin er ekki stór, en ég keypti grænlenskan bjór handa Óla og spilastokka sem minjagrip.

Flugið heim var líka mjög ljúft, útsýnisflug eins og á útleið og við lent í Keflavík fyrr en varði. Óli sótti okkur og við komum öllum farangri í bílinn, nema skíðum sem Nanna kom með til Einars. Við Hrefna og Óli fórum svo með byssurnar uppí SkotKóp til að setja þær aftur saman og koma þeim strax í læstar hirslur. Þar hittum viðÖrnu skotstjóra sem aðstoðaði okkur við að setja þær saman og að koma þeim í læstar hirslur.

Ferðalok eftir yndislega daga í Grænlandi, með frábærum vinum. Langar að þakka öllum ferða félögum fyrir yndislegar samverustundir og sérstaklega „5-fræknu“ þeim, Einari sem skipulagði ferðina, Hrefnu og Nönnu vinkonum mínum sem deildu með mér íbúð og Mikka sem deildi íbúð með Einari fyrir yndislegar samverustundir. Takk öll kæru ferðafélagar fyrir samveruna – ég mæli 100% með ferðalagi til Nuuk á Grænlandi. Kærar þakkir til Hrúts fyrir veitta aðstoða, ráðleggingar og City sightseeing um Nuuk.

Qujanaq – takussagut

AÐ LOKUM: Ég þakka félögum okkar í SkotKóp fyrir að taka vel á móti okkur Biathlon teyminu og aðstoða við æfingar í húsnæðinu þeirra í vetur og þá sérstaklega formanninum honum Bjarka sem fór norður á Hólmavík til að fylgjast með gengi okkar. Langar líka að þakka Hjalla í Hlaði fyrir veitta aðstoð en ég keypti mér æðislegan Anschutz biathlon riffil af honum og hann er búin að redda mér öllum fylgihlutum sem mig vantaði og hann og Jón Þór leiðbeindu okkur varðandi flutning á rifflum úr landi. Jón Þór aðstoðaði okkur líka við að calibera eða skjóta byssuna inn, þ.e. stilla aftursigtið eftir að Hjalli var búin að láta smíða hækkun undir framsigtið. Takk kæru félagar fyrir aðstoðina. Við eigum svo frábæra vini í þessu sporti okkar eins og Gummi Jóns og allt Skíðasambandið sem ég vil líka þakka fyrir veitta aðstoð. Að lokum þá á Einar Ólafsson að öllum ólöstuðum stærsta hrós og knús skilið fyrir að koma þessari ferð á laggirnar, ég veit að Grænlendingarnir trúðu því ekki fyrr en við mættum að hann myndi mæta með svona stóran hóp til Grænlands. Takk kæri Einar ekki bara fyrir að fá hugmyndina heldur líka að framkvæma hana. Þessi ferð mun lifa að eilífu í minningarbankanum mínum og við Óli ætlum að halda áfram að æfa með SkotKóp næsta vetur. <3

apríl 29, 2025 0 comment
0 FacebookTwitterPinterestEmail
Daglegt lífGönguskíði

Grænland D5 mánudagur 28. apríl 2025

by Halldóra apríl 28, 2025

Þegar maður ætlar að sofa út þá vaknar maður að sjálfsögðu klukkan 05:00 og sofnar ekki aftur 😉

Fór samt ekki á fætur fyrr en Hrefna og Nanna vöknuðu eða um klukkan 08:00. Fengum okkur góðan morgunmat og slökuðum á. Spáin fyrir daginn var ekki mjög góð, það átti að vera ofankoma og um 20 metrar á sek. Veðrið var hins vegar alveg ágætt þarna eftir morgunmatinn, svo við Nanna ákváðum að fara út á utanbrautar/ferðaskíði. Einar reyndar spurði „Rassalínu“ hvort hann hefði nokkuð misskilið hana, hvort hún væri ekki slæm í rassinum. En jú ég var ekki góð, en ég var búin að druslast með utanbrautar-skíðin, stafi og skó til Grænlands og mig langaði að nota þau og síðasti dagurinn okkar í dag.

Ég nennti ekki að fara langt, svo við lögðum bara af stað fyrir utan íbúðina okkar. Það hafði líka snjóað mjög mikið um nóttina og því mikill snjór fyrir utan húsið. Við fórum skemmtilegan hring niður að nýja kirkjugarðinum í áttina að fangelsinu og skotskíðasvæðinu. Snérum svo bara við þar og kíktum inn að skíðasvæðinu/húsinu þar sem partýið var í gær, samtals um 5 km hringur 😉

Eftir skíðatúrinn, hentum við okkur í casual föt og tókum strætó í bæinn. Einar, Mikki og Hrefna voru farin í bæinn í menningarleiðangur. Við hittum, þau á Þjóðminjasafninu, en Jói bróðir var búin að benda mér á að það væri virkilega flott safn og klárlega þess virði að skoða það. Þar hittum við Hafnfirðingana en þau voru öll á safninu, sjá upplýsingar um safnið hér https://en.nka.gl

Eftir langa skoðun á safninu, þá kíktum við á Sendiherra Íslands í Nuuk, hann Guðbjörn Árna Björnsson. Sendiráðið í Nuuk var opnað 2011, en Guðbjörn hefur verið sendiherra frá 2020.

Eftir mjög stutta heimsókn í sendiráðið þá fórum við í göngu niður á strönd að skoða þúsund ára gamla ísjaka og gengum svo uppá bæjarhólinn þar sem er stytta af Hans Egede sem var danskur prestur og landkönnuður, oft kallaður „fyrsti stofnandi Nuuk“.

Síðan fengum við okkur síðbúin hádegisverð á veitingastaðnum Esmeralda þar sem ég fékk með kjúklingasalat, sem Mari Jaersk var búin að mæla með, ég var sko ekki svikin af því 😉

Síðan var tekið lokashopping, aðeins kíkt í Kringlu þeirra Nuuk búa og að sjálfsögðu í túristabúðirnar og að lokum í matvörubúðina að kaupa mjólk í kaffið með morgunmatnum, síðan brunað heim í sturtu og skipt um föt fyrir kvöldmatinn.

Þar sem við vorum þrjár að fara í sturtu, Nanna, Hrefna og ég, þá vorum við ekki alveg jafn snögga og strákarnir. Einar, Nanna og Mikki fóru því aðeins á undan okkur Hrefnu og við brunuðum svo niður að strætóskýli og rétt sáum í rassinn á strætó fara. Þá sá ég konu í bíl með hund í framsætinu sem virkaði svo almennileg, svo ég bara setti upp puttann og húkkaði far fyrir okkur Hrefnu. Konan var fyrir tilviljun að fara í húsið við hliðina á Tapas veitingastaðnum sem við vorum að fara á. Einar var því mjög hissa þegar hann sá að við vorum komnar langt á undan honum og þeim á veitingastaðinn.

Hrútur vinur minn var búin að bóka borð, fyrir allan hópinn á Tapasbarnum, við vorum alveg út af fyrir okkur á annarri hæð og vorum fyrirfram öll búin að panta okkur 3-5 taparsrétti. Maturinn var mjög góður og frábært og einfalt skipulag.

Eftir kvöldmat fórum við bara heim með strætó að pakka fötum, skíðum og rifflum, enda flug heim á morgun.

Yndislegur ferðaskíða- menningar og verslunardagur að kveldi kominn.

apríl 28, 2025 0 comment
0 FacebookTwitterPinterestEmail
Daglegt lífKeppnissaga

Grænland D4 sunnudagur 27. apríl 2025

by Halldóra apríl 27, 2025

Síðari keppnisdagur í skíðaskotfimikeppninni var í dag. Símon bílstjóri sótti okkur og við vorum komin fyrst við ratstjárstóðina þar sem við þurftum að hlaða farangursboxið á troðaranum með öllum byssunum og skíðin og bakpokinn fóru í lokaðan snjósleða uppeftir. Ég fékk far með Óla á snjósleðanum sem ók eins og hann væri í F1 keppni, adrenalínið var í botni og ég gat sko ekki tekið neina mynd á leiðinni, þurfti bara að halda mér fast í Óla svo ég myndi ekki fljúga af snjósleðanum 😉

Þegar við komum upp eftir byrjuðum við að aðstoða Grænlendingana að setja upp motturnar við skotsvæði aftur og svo fórum við að „calibera“ eða „skjótainn“ rifflana. Mér gekk mun betur núna að græja mína byssu núna heldur en í gær, enda fékk ég aðstoð frá meistaranum honum Sondre Slettemark og ég var mjög ánægð. Fékk svo Svabba til að prófa hann og hann var sammála öll 5 skotin sem hann prófaði liggjandi voru inni.

Síðan tók við mjög löng bið, þar sem ég ákvað að fikta ekkert meira í rifflinum, eftir allt vesenið í gær. Hitaði aðeins upp, en fann mér var mjög illt í rassinum (tognunin) var að pirra mig og því var ég mjög róleg í upphituninni. Þar sem ég lenti í svo miklu fíáskói í gær rétt fyrir keppni þá fór ég aldrei af skíðunum, svo ég held ég hafi hangið og dólað á þeim í um 90 mín áður en ég var loksins ræst út. Þá sá ég að það vantaði smellu utan um skrúfufestingu á innanverðum hægra skó, en ekkert við því að gera, nema brosa og halda áfram og vona að þetta héldi. Ég var mjög kvíðin fyrir þessari keppni, út af tognuninni, þá var ég hrædd við að ná ekki að klára að skíða 5 * 1,7 km (fegin að það voru ekki 5*2,5 km) 😉

Krakkarnir voru ræstir fyrstir eins og í gær, en núna voru karlar, ræstir á undan konum. Það kom betur út, því í gær náðu þeir okkur og þá varð mikil bið á skotsvæðinu. Ég var t.d. með 2 mínútna bið samtals í gær þar sem ég þurfti fyrst að bíða eftir að fá pláss á mottunni, voru tvær byssur á sömu mottu, og í seinna skiptið var Svabbi að nota byssuna mína, svo ég bara beið og beið.

Ég var ekki vel upplögð að leggja af stað, var fyrsta kona af stað, örugglega þar sem ég beið svo lengi í gær, en ítreka að ég var samt fegin að við myndum bara skíða 5 * 1,7 km – en ekki 5 * 2,5 km eins og var upphaflega auglýst. Svo áttum við að skjóta Prone, Standing, Prone, Standing, eða liggjandi, standandi, liggjandi og standandi.

Mér gekk mjög vel liggjandi hitti 4 af 5 skotum í bæði skiptin, en hitti ekkert skot í standandi 0 af 0 í bæði skiptin. Greinilega tækifæri til úrbóta þar. En ég er mjög ánægð með framfarirnar í liggjandi. Í keppninni í dag voru ekki refsihringir eins og í gær, sem voru skíðaðir, heldur var refisitíma bætt við fyrir hvert misst skot, samtals 45 sek. Ég fékk því 12 *45 sek refsitíma = 360 sek.

Skautaskíðunin gekk ekkert sérstaklega vel, fann að verkurinn í rassinum hafði áhrif á mig, og ég var ekki að hugsa mikið um tæknina, heldur hamaðist ég bara áfram á þrjóskunni og kraftinum. Taldi niður 20% búið eftir fyrsta hring, 60% eftir 3 hring og svo framvegis. Lokatími minn með refsitíma var 59 mæin 23 sek. Svo ég var mjög fegin þegar ég kláraði að hafa náð að klára því þessi tognun er búin að vera mjög pirrandi alla helgina ;-( Ég var mjög glöð og mjög High on Life eins og í gær eftir keppnina.

Hér eru niðurstöður á keppnisdegi 2 fyrir fullorðna.

Hér eru niðurstöður ungmenna.

Þegar allir höfðu klárað þá hjálpuðust allir við að ganga frá öllu, bæði rifflum, dýnum, skotmörkum, tjaldi og öllum búnaði. Byrjuðum svo að ganga niður og það var frekar vont, eiginlega verkur í hverju einasta skrefi. Gangan var samt mjög skemmtileg því Raggi fór á kostum og var að syngja fullt af lögum úr gömlum íslenskum auglýsingum. Mikið hlegið og mjög skemmtilegt.

Ég var svo heppin að þegar ég var komin hálfa leið þá fékk ég far með beltafjórhjóli niður. Það var mikið fjör, þ.e. bæði að fara upp með Óla (ekki mínum) á appelsínugula snjósleðanum og svo niður með beltafjórhjólinu, eins og að vera í rússíbana

Eftir sturtu kíktum við aðeins í bæinn, reyndar mikið lokað, þar sem það var sunnudagur, en matarbúðin var opin í Kringlunni og við versluðum þar íslensk jarðarber, rjóma og kex til að geta útbúið skyrtertur í Pálínuboðið sem halda átti í skíðaskála Nuuk búa í bænum klukkan 18:00. Við vorum mætt þangað klukkan 17:00 og útbjuggum fjóra bakka af skyrtertum í eftirrétt í Palínuboðið og við 5-fræknu komum líka með heilmikið af brokkolí pasta sem við áttum afgangs frá kvöldmatnum.

Pálínuboðið var þvílík veisla. Í boði var pasta réttur með hreindýrahakki, hreindýrasúpa, pastað okkar og salat og meðlæti. Glæsilegur ostabakki, snakk og fullt af drykkjum (sem hinir ferðafélagar okkar höfðu komið með í boðið).

Mikil veisla í og mikil gleði. Svo fór verðlaunaafhending fram en við höfðum keypt gjafir sem voru sett á verðlaunaborðið og svo gáfum við bestu stúlkunni og besta drengnum páskaegg sem við tókum með frá Íslandi.

Eftir Pálinuboðið var farið í íbúðina til Einars og Mikka þar sem við fórum í PUBQUIZ keppni sem Einar stýrði sem var líka mjög skemmtileg. Við fimmmenningarni ásamt Hrúta unnum að sjálfsögðu keppnina ;-).

Frábær dagur og mikil stemning meðal íslendinganna en við erum 19 sem komum frá Íslandi, algjörlega frábær hópur.

apríl 27, 2025 0 comment
0 FacebookTwitterPinterestEmail
Daglegt lífGönguskíðiKeppnissaga

Grænland D3 laugardagur 26. apríl 2025

by Halldóra apríl 26, 2025

Það var smá stress í loftinu, fyrri dagur keppnirnar og ég hafði áhyggjur af því að komast þessa 7,5 km. En í dag átti keppnin að vera 3 * 2,5 km og skotið tvisvar, einu sinni í liggjandi stöðu „prone“ og einu sinni í standandi. Ástæðan fyrir því að ég var stressuð var sú að ég var með tognun í rassi, en ég tognaði á Yasso æfingu á miðvkudagsmorgun, sama dag og við áttum að fljúga til Grænlands. Önnur ástæða fyrir smá stressi, var að það var mjög mikið af brekkum í brautinni, við séum það þegar við vorum að æfa okkur í gær. Það var ekkert að gera, en að leggja af stað og sjá hvernig ég yrði.

Eftir morgunmat þá sótti Símon leigbílstjórinn okkur og skutlaði okkur að staðnum, þangað sem við áttum að mæta með byssurnar og skíðin. Einar var búin að redda okkur skutli uppeftir, þurftum að hringja nokkur símtöl í gær, til að finna skutl. En „Óli“var maðurinn sem var til í að skutla okkur.

Við komum að ratsjárstöðinni, þar voru sleðar og troðari til að taka allar byssurnar og farangurinn, þ.e. bæði byssur, skíði sem og bakpoka. Við Mikki fengum svo far upp eftir með sleða, sem var með kerru með öllum skíðunum. Það var mjög næs ferð upp og ég gat tekið meira að segja myndband á leiðinni, frekar kósý.

Þegar við komum upp þá var farið strax í það að „calibera“ eða „skjóta inn“ byssurnar, þ.e. stilla aftursigtið. Ég fékk fyrst Sondre Slettemark (sonurinn) til að aðstoða mig en svo var ég í veseni með byssuna, enda var ég líka að prófa bara í annað skipti „slinginn“ þ.e. festingu sem festir byssuna við upphandlegginn. Hélt svo áfram að skjóta og skjóta og hitti illa og þá kom systir hans hún Ukaleq Slettemark og breytti stillingunni. Þá fór ég alveg í panik, var viss um að hún hefði breytt réttri stillingu í ranga ha ha ha og vildi láta hana breyta til baka. Þá kom mamman, hún Uiloq Slettemark og kenndi mér að nota slinginn. Ýtti honum langt upp unir handarkrikann, sagði að hann ætti að vera þarna. Þrengdi svo vel í bandinu undir rifflingum, leiðrétti svo á mér höndina undir rifflinum og BANG BANG með þessu, þá steinlá riffillinn í hendinni á mér og haggaðist ekki. Þvílíkur munur, vá hvað ég lærði mikið á þessu fikti. Takk kærlega öll sömul.

En nú var kominn tími til að ræsa þessa keppni og fyrst ætlaði hópurinn að fara upphitunarhring. Þá fann ég ekki Mikka sem var með skíðaskóna mína í bakpokanum sínum, þar sem ég hafði eftir reynsluna í gær, ákveðið að fara uppeftir á Salomonn trail skónum mínum. Svo þegar ég fann Mikka og var kominn í skóna, þá fann ég ekki skíðastafina mína og á endanum var ég búin að missa af öllum sem fóru upphitunarhringinn. Einhver sagði mér að ég gæti bara sleppt honum. Fannst það reyndar ágætt, þar sem mér var illt í rassinum, og þetta voru miklar og krefjandi brekkur sem við höfðum farið í gær, svo ég var mjög sátt við að fara ekki neitt þennan upphitunarhring. Vissi að ég myndi alltaf sjá einhvern á undan mér í brautinni, ég myndi ekkert týnast 😉

Svo var keppnin ræst, krakkarnir fyrst, svo konurnar og svo karlarnir. Ég var síðasta konan til að ræsa svo fremstu karlar voru mjög fljótir að hringa mig. Hringurinn var 1,7 km langur (sem betur fer styttur, þ.e. ekki 2,5 km) og allir voru á sama tíma í brautinni. Við skutum einu sinni liggjandi og einu sinni standandi. Ég hitti 3 skot af 5 liggjandi og þurfti því að fara 2 refsihringi en hitti 0 skot af 5 standandi svo þá fór ég 5 refsihringi. En á milli liggjandi og standandi var skíðað svo þess vegna skíðuðum við 3 * 1,7 km. Þegar ég kom að rifflinum mínum í bæði skipti þurfti ég að bíða, í fyrra skiptið var mottan sem þarf að liggja á og þá markið sem er skotið á upptekið, þar sem Arna var að skjóta á henni og í síðara skiptið var riffillinn minn upptekinn, svo ég beið samtals í rúmar 2 mínútur sem voru dregnar frá tímanum mínum, sjá hér að neðan. Lokatíminn minn var því 34 mínútur og 27 sek.

Hér að neðan sjáum við úrslitin yfir alla fullorðna, þ.e. konur og karla.

Hér eru niðurstöður ungmennanna sem tóku líka þátt.

Lærdómur dagsins: Keppnin var mjög þægileg, allt utanumhald og aðstoð mjög þægilegt og ekkert stress. Á sama hátt var samt mikil krafa um allt öryggi, þ.e. það var algjörlega sett á oddinn. Niðurstaðan var því að þetta gekk allt miklu betur en ég átti von á og ég var mjög ánægð og glöð þegar keppnin var búin. Ég var samt mjög fegin að fá far niður eftir með snjósleðanum, hefði ekki treyst mér til að skíða eða ganga.

Eftir keppnina kíktum við í bæinn og borðuðum um kvöldið á Hereford en það var lítið um steikur, ég var sú eina sem fékk mér kjöt, en líka mjög mikið af salati á salatbarnum, sem var mjög gott og glæsilegt. Þar hittum við Hafnfirðingana líka fyrir tilviljun og komumst að því að flug Icelandair hafði ekki verið flogið til og frá Nuuk þennan daginn.

apríl 26, 2025 0 comment
0 FacebookTwitterPinterestEmail
Daglegt lífGönguskíði

Grænland D2 föstudagur 25. apríl 2025

by Halldóra apríl 25, 2025

Símon leigubílstjóri sótti okkur og þar sem við vorum svo heppin að hafa fengið svo flottan skoðunar-bíltúr með Hrúti í gærkvöldi, þá vissum við nákvæmlega hvar við ættum að byrja gönguna uppá biathlon-gönguskíðasvæðið. Einari hafði ekki tekist að finna aðila til að skutla okkur uppá svæði, svo það var bara að setja skautaskíðin á bakpokann og byrja gönguna.

Þetta er í raun eins og að ganga upp að Steini á Esjuna. Frekar bratt upp, svo kemur svo flatur kafli og svo aftur bratt upp og að lokum er aftur flatur kafli. Það var „tæknilega“ ekki hægt að skíða þetta á skautaskíðunum, þó Einar hefði verið sá eini sem skíðaði alla leið upp. Ég var með verk í hverju skrefi í rassinum, en lét mig hafa það og tók bara vekjatöflu og áfram gakk.

Svo þegar við vorum loksins komin á sléttuna þá gátum við aðeins skíðað á skautaskíðunum. Síðan fundum við braut bæði þar sem höfðu verið lögð spor og sem og braut fyrir skautaskíði og skíðuðum við aðeins þarna um. Svæðið var með mikið af brekkum og ég var farin að kvíða fyrir keppninni á morgun, ef við ættum að fara upp allar þessar þrjár brekkur, mér leist ekkert á blikuna.

Þegar við vorum búin að skíða smá, sáum við fólk koma með troðara en þau voru að undirbúa skotsvæðið fyrir keppnina á morgun. Hittum systkinin (Ukaleg Slettmark og Sondre Slettemark) sem er þvílíkir Biathlon meistarar og keppa fyrir Grænland en þau búa í Noregi, en móðir þeirra er Grænlensk en faðirinn norskur (Øystein Slettemark). Mamman, (Uiloq Slettemark), er sú sem Einar hitti og var í sambandi við og kom þessu öllu í kring.

Einar tók okkur svo í smá upprifun og kennslu á skautaskíðunum. Minn stíll var alveg í rugli, enda ekki gott að hugsa um stíl þegar mann verkjar svona mikið í rassinn. Var ótrúlega óheppin að togna í rassvöðva á Yasso æfingu á miðvikudagsmorgunin, sama dag og við ætluðum að fljúga út til Grænlands.

Við þurftum svo að ganga niður aftur/ sumir skíðuðu alla leið og að sjálfsögðu hringdum við í „einkadriverinn“ okkar, leigubílstjórinn, sem sótti okkur og keyrði upp í íbúð. Einar var á undan okkur og hafði húkkað sér far.

Við Einar og Hrefna fórum í sundlaugina í Nuuk sem er bara rétt hjá okkur. Fór í heita og kalda pottinn og vatnsgufuna. Mjög flott sundlaug í Nukk, en frekar fyndið að þú þarft að fara upp úr heita pottinum í 10 mín á meðan hann er að hreinsa sig. Við kíktum svo í bæinn eftir sundlaugina, en Nanna og Mikki fóru með Hrút í utanbrautar-gönguskíðaferðalag aftur uppá svæðið.

Hafnfirðingarnir fóru í bátsferð um firðina, mjög skemmtilega, sem samt endaði ekki vel þar sem Díana handleggsbrotnaði þegar hún datt á sleipum stein og gat því miður ekki keppt, hvorki á laugardegi né sunnudegi.

Við Hrefna og Einar keyptum hráefni í pastarétt sem Einar eldaði um kvöldið fyrir okkur og kíktum í Kringluna og í nokkrar búðir í bænum. Einar stóð líka í ströngu að hafa uppá snjósleðamanni til að skutla okkur upp eftir í fyrramálið. Fórum svo aðeins yfir meðhöndlun riffilsins með Nönnu og komum með góð ráð eftir kvöldmat.

apríl 25, 2025 0 comment
0 FacebookTwitterPinterestEmail
Daglegt lífGönguskíði

Grænland D1 fimmtudagur 24. apríl 2025

by Halldóra apríl 24, 2025

Við áttum að fljúga til Nuuk Grænlandi í gærkvöldi miðvikudagskvöldið 23. apríl klukkan 23:00. Hins vegar var fluginu aflýst seinni partinn. Skýringin sem við fengum til að byrja með var mikil þoka í Nuuk, síðar kom í ljós að það hafði einnig vantað áhöfn í flugið.

Það er ótrúlegt hvað maður er fljótur að aðlagast breyttum plönum og strax á miðvikudagskvöldinu og fimmtudagsmorgninum (sumardeginum fyrsta) var ég orðin alveg sátt við að fara ekki neitt til Grænlands og fá bara flugmiðann endurgreiddan. Var farin að hugsa hvað ég ætlaði að gera og var líka smá fegin, af því ég hafði tognað í rassi á Yazzo æfingunni í gær um morguninn.

En rétt um klukkan 10 komu fréttirnar, flugið var ON klukkan 15:30 og við áttum að lenda í Nuuk klukkan 17:20.

Þá er bara að klára að pakka, henda gönguskíðunum til Einars og aðstoða hann við að læsa byssutöskunum og svo skutlaði Óli hennar Hrefnu okkur út á flugvöll.

Þá fyrst byrjaði ballið. Að reyna að tékka inn og fá að borga fyrir byssurnar sex.. Við vorum með tölvupóst sem sagði að við mættum nota aukatösku vegna gullkortshafa fyrir eina byssuna, en starfsfólkið vildi ekki viðurkenna það. Þau hringdu í þjónustuverið sem er staðsett erlendis og það var erfitt að fá þetta í gegn. Loksins þegar þetta var samþykkt eftir um 1 klst töf, þá byrjaði vesenið að reyna að borga 5 byssutöskur í stað 6. Þá kom „computer says no“. Við enduðum á að bíða í um 90 mín við innritun til að reyna að koma byssutöskunum í gegn. Þegar það loksins tókst þá þurftum við að fara með þær í „odd-size“ þar sem þurfti að opna hverju einustu byssutösku og tékka hvort það væri rétt serial númer m.v. skráningarblað sem við vorum búin að fylla út og heimild Einars til að fara með þessar byssur erlendis. Þá þurfti að taka aftur af öll strikamerkin af byssutöskunum til að geta opnað töskurnar og setja þau svo á aftur. Sem betur fer komum við með rúmlega 2klst fyrirvara, en þegar við vorum búin að þessu, ég Einar og Hrefna, þá höfðum við mjög stuttan tíma til að henda í okkur smá mat áður en við fórum út í Gate. Náði ekki einu sinni að veisla í fríhöfninni, Benelyn hóstamixtúru í apótekinu eins og ég hafði ætlaði mér, en ég er búin að vera með hæsi síðustu 4 vikur.

Það var mikið spennufall að setjast út í vél vitandi að allur farangurinn hafði verið tékkaður inn. Ég var samt með gönguskíðaskóna mína og keppnisfötin í handfarangri, til að vera örugg, ef t.d. ferðataskan mín yrði eftir, því þá er langt í næsta flug og hægara sagt en gert að finna sér gönguskíðaskó á Grænlandi með stuttum fyrirvara.

Allur farangurinn skilaði sér á flugvöllinn í Nuuk og þegar við vorum komin út af flugstöðinni, sáum við stóran og glæsilegan pallbíl (pick-up) sem við fengum til að skutla okkur í íbúðirnar okkar sem voru mjög nálægt flugvellinum. Ökumaðurinn heitir Simon, og er frá Póllandi og hann varð eiginlega einkadriverinn okkar í ferðinni. Við engum símanúmer hjá honum og bókuðum alltaf næsta pick-up sem var mun þægilegar og einfaldara en að taka bílaleigubíl.

Eftir að hafa komið okkur fyrir tókum við strætó í bæinn, þar sem „Rasselía“ sem var viðurnefnið sem ég fékk, þar sem ég haltraði á vinstra fæti út af tognuninni í rassinum hægra megin, gat ekki gengið í bæinn. Við fundum súpermarkað þar sem við fórum úr strætó og keyptum okkur hráefni í morgunmat og kaffi og við fengum að skilja pokana eftir í búðinni, ætluðum að sækja þá á heimleiðinni. Fórum svo á veitingastað niður við höfnina, sem vinkona Nönnu hafði sagt henni frá og heitir Einhyrningurinn eða Uniqorn og var mjög góður staður. VIð létum Hrút vita að við værum þar og hann borðaði með okkur og Hafnfirðingarnir komu þangað líka.

Eftir matinn fékk Einar hann Hrút til að skutla mér heim og þau hin ætluðu að ganga heim eða taka strætó, við vorum búin að kaupa okkur strætókort. En úr varð að Hrútur skutlaði okkur öllum og fór fyrst með okkur í skoðunarferð um bæinn. Það var mjög skemmtilegt og fræðandi því þá sýndi okkur t.d. hvar við byrjum/förum uppá skíðasvæðið þar sem Biathlon keppnin fer fram. Hann sýndi okkur líka höfnina þar sem var stórglæsileg snekkja. Einnig sýndi hann okkur skíðaskála/félagsheimili skíðaklúbbsins í Nuuk. Svo skutlaði hann okkur heim.

Nokkrir af Hafnfirðingunum komu til að aðstoða okkur við að setja rifflana saman og ég fékk nálastungu í rassinn frá Sveinbirni, sem mér fannst virka mjög vel. En það voru þreyttir en glaðir ferðalangar sem lögðust á koddann þetta kvöld, spenntir að fara á skíðin á morgun, „Rasselía“ líka 😉

apríl 24, 2025 0 comment
0 FacebookTwitterPinterestEmail
Daglegt lífGönguskíði

GRÆNLANDSFERÐIN APRÍL 2025

by Halldóra apríl 14, 2025

Grænland er hulið dulúð. Land sem maður veit svo lítið um. Svo nálægt manni en samt svo fjarlægt. Einhver sagði að ef maður stæði upp á Bolafjalli í góðu veðri þá gæti maður séð Grænland. Ég veit ekki hvort það sé rétt, en ég hef aldrei séð það eða upplifað. Nú stóð Grænlandsferð fyrir dyrum. 15 manns að keppa í skíðaskotfimi á Grænlandi. 19 manns samanlagt í ferð til þessa framandi lands.

Grænland af öllum stöðum. Venjulega flýgur fólk suður á bóginn en ekki við. Við flugum norður. Reyndar er Nuuk á svipaðri breiddargráðu og Reykjavík, en Grænland er Grænland.

Fyrir lá að keppa á Grænlenska meistaramótinu í skíðaskotfimi í Nuuk. Ég hafði kynnst formanni Grænlenska skíðaskotfimisambandsins á fundi í Zürich fyrir nokkrum árum. Síðasta haust kom upp sú hugmynd að við skyldum koma á samvinnu á milli landanna. Ég sagði við Uiloq (kúið sagt með háum smelli alveg í lok orðsins) að ég myndi koma með stóran hóp Íslendinga á mótið hennar. Henni leist vel á en hafði enga trú á Ísfirðingnum sem hafði svo oft horft til Grænlands en aldrei séð.

Grænland þar sem orðum er ekki eytt að óþörfu. Þögnin er mikilvægari en talað orð. Virðing, vinsemd og umhyggja allt um kring. Náttúran allt um kring. Þögnin. Vindurinn. Birtan. Ísjakar. Selir. Hafernir. Ísbirnir og hvalir. Langir firðir, há fjöll. Elsta berg í heimi. Við erum þar. Inn á milli alls þessa. Þvílík náttúra. Þvílík saga. Sagan þar sem Eiríkur rauði setti mark sitt á söguna langt á undan okkur. Við vorum svo sem að skrifa sögu líka. Í fyrsta sinn sem Íslendingar fara til Grænlands að keppa í skíðaskotfimi. Reyndar í fyrsta sinn sem Íslendingar fara að keppa erlendis í skíðaskotfimi ef því er að skipta.

Allt er afslappað í Grænlandi. Fólkið. Náttúran. Viðmótið. “Þið farið bara þangað og svo haldið þið áfram upp og inn í dalverpi” var okkur sagt. Við, reynd og flest í eldri kantinum héldum að þetta myndi reddast. Við fórum þangað sem okkur var sagt að fara. Enginn þar. Enginn að skutlast með okkur upp í dalverpið. Ok. Við erum fullorðin. Settum á okkur skíðin og skautuðum af stað. Engin spor nema gömul snjósleðaspor. Spennt. Spennt fyrir einhverju nýju. Spennt fyrir stærstu eyju í heimi. Þar sem fólk er illa við appelsínugula trúðinn. Sum okkar reyndari á skíðum en önnur. Brattar brekkur. Langar brekkur. Hvert áttum við svo að fara? Til vinstri? Beint áfram? Til hægri? Ég fór fremst. Tók sénsinn og fór til hægri. Mjög brött brekka. Hugsaði um hin. Hvað væru þau að hugsa? Hvaða vitleysu var ég búinn að koma okkur í? Sá haförn sveima fyrir ofan mig. Hátt uppi í lágum skýjum. Hann var ekkert að flýta sér. Bara að kanna hvaða hreyfing var þarna niðri. Var ég bráðin hans? Varla. Átti ég að kíkja eftir ísbirni? Nei, sennilega ekki en var samt á varðbergi. Hvað ætti ég að gera ef ég sæi einn? Vissi að ég gæti rennt mér hraðar en hann. Hvað ef ég dytti? Þá myndi hann ná mér. Gæti ég farið hraðar en hann á jafnsléttu? Sennilega ekki. Hvað með að flýja út í sjóinn? Nei. Hann er betri að synda en ég. Ok. Tapaður leikur hvort eð er. Hætti að hugsa um Bjössa. Hugsaði um innfædda fólkið sem ferðaðist um í þessu landslagi. Virðing. Allan daginn. Þau hlytu alltaf að vera með öll skilningarvitin opin. Brekkan á enda. Kíkti aftur fyrir mig. Bólaði ekkert á hinum. Vissi að þau sáu mig fara til hægri og upp brekkuna. Þau myndu elta mig fyrst þau eltu mig til Grænlands. Hélt áfram og kom þá loksins inn í fallegt lítið dalverpi, alveg eins og Uiloq (með smelli) hafði sagt mér. Uiloq var konan sem ég var sem sagt búinn að sammælast um að koma með þennan hóp til hennar lands. Á Grænlenska meistaramótið. Hún trúði mér ekki. En við vorum mætt. Stóðst allt eins og stafur í bók. Veðrið lék við okkur. Ég beið eftir hinum. Það var búið að troða spor. Fórum einn hring og meira til. Leit vel út. Veðrið fallegt. Spenningurinn var í loftinu. Skotmörkin lágu þarna tilbúin fyrir morgundaginn. Þetta var að gerast. Grænland tók vel á móti okkur. Veðurguðirnir líka.

Við komum til Grænlands degi seinna en við áttum þar sem þoka í Nuuk hafði seinkað förinni um einn dag. Brautarskoðunin hér að ofan var á föstudegi.

Nú var laugardagur og við komin með “einkabílstjórann” Simon frá Póllandi sem skutlaði okkur á “staðinn”. Nú var okkur skutlað á snjósleðum upp brekkurnar. Fyrir suma var það mikil upplifun. Snjósleðagaurarnir kunnu þetta. Þetta voru þeirra nýtísku hundasleðar. Það var farið hratt yfir. Þegar við komum uppeftir var allt að verða tilbúið og allt að raungerast. Eftir að við vorum öll búin að fá startnúmerin þá jókst spennan.

Ég fór afsíðis og tók þetta allt inn. Þögnina. Á milli fjallanna. Í dalverpinu. Inn á milli heyrðust byssuskot. Í þetta sinn var það frá skíðaskotfimirifflum en ekki veiðirifflum. Í þetta sinn er þeim beint að skotmörkum en ekki hreyndýrum eða ísbjörnum. Fólk á hreyfingu. Undirbúa sig. Hita upp. Æfa skothittnina.

Númerin voru reyndar pínu spes. Þetta voru gömul númer sem Grænlendingar höfðu fengið í sinni þátttöku á erlendum mótum í gegnum tíðina. Sum merkt Lanzerheide, Holmenkollen, Val di Fiemme og öðrum óþekktum pólskum og þýskum bæjarnöfnum. Bara gaman. Sum lítil. Önnur stór. Afslappað. Þó svo andrúmsloftið hafi verið mjög afslappað þá fylgdu þau öllum ströngustu öryggisreglum þegar kom að rifflunum. Þar var enginn afsláttur gefinn. Það var flott að sjá og upplifa það. Á meðal keppenda voru börn Uiloq, þau Sondre og Ukiloq (líka með smelli í lokin) sem bæði eru á meðal bestu skíðaskotfimistjörnum í heimi í sínum aldursflokkum. Sindri vann IBU Cup unglinga síðasta vetur og Ukiloq keppti á síðustu Ólympíuleikum. Enda var skotnýting þeirra nánast 100%, líka standandi. Okkar fólki gekk vel. Mari Järsk vann sinn flokk og Salome Grímsdóttir varð í öðru sæti. Ukiloq var reyndar ekki með fyrri daginn en samt var þetta flottur árangur hjá okkar konum. Mér gekk ekki vel að skjóta. Hitti ekki mikið, enda lítið æft. Hitti bara eitt skot liggjandi en reyndar þrjú skot standandi af fimm. Kom sjálfum mér á óvart þar.

Næsta dag, sunnudag vann Ukiloq og Mari endaði í þriðja sæti. Ekki slæmt fyrir okkar bestu konu að vera á palli með stjörnunni Ukiloq. Hún er þekkt á Grænlandi og er á mörgum auglýsingaskiltum. Unglingarnir þeirra voru líka með mjög góða skotnýtingu. Kannski er þetta þeim í blóð borin verandi svona mikil veiðiþjóð. Við hin vorum svo með misgóðan árangur eins og gengur en ánægjan og gleðin stóð uppúr báða dagana. Það er sko greinilegt að þetta sport þarf að æfa til að ná árangri. Fyrri daginn var refsihringur fyrir hvert geigað skot, seinni daginn var 45 sekúndum bætt við tímann fyrir hvert geigað skot. Virkilega gaman og allir í skýjunum, líka þau sem hittu ekki mikið. Í lok keppninnar seinni daginn skelltu þau upp skotkeppni á milli systkinanna og þeirra sem vildu. 10 skot standandi. Sá /sú sem hitti oftast vann. Ef einhverjir voru jafnir þá vann sá/sú sem var fljótust. Mjög skemmtilegt form af keppni. Ukiloq vann 9/10, Sondre og Nanna (Grænslensk 18 ára stelpa) urðu í öðru sæti með 8/10. Svavar okkar hitti 4/10. Í lokin hittumst við svo öll í “Pálínu” boði í klúbbhúsi þeirra í Nuuk.

Grænlenskt samfélag kom á óvart. Á skemmtilegan hátt. Fólkið vinsamlegt. Maturinn mjög góður. Verðlag í hærra lagi en allt til alls. Dönsku áhrifin greinileg. Við gistum í fínum íbúðum í nokkrum minni hópum. Sumir fóru á bát inn í Ísfjörð sem er “bara” 50 km langur og gengur út frá Nuuk firði sem er 160 km langur. Aðrir fóru í siglingu í Nuuk firði og upplifðu ísjaka og náttúruna allt um kring. Við hin fórum á Þjóðminjasafnið sem geymir meðal annars múmíur sem fundust grafin í ísnum og eru ótrúlega heil. Annars var safnið mjög flott og þess virði að heimsækja það. Kíktum við hjá sendiherra Íslands í Nuuk sem hafði ekki mikinn áhuga á þessari sögulegu ferð okkar, en ekkert við því að gera. Við nutum okkar í botn og alveg ljóst að það verður áframhald á þessari samvinnu landanna. Þessi ferð fer í fallega minnis- og reynslubankann. Takk fyrir samferðafólk. Takk fyrir að treysta mér að koma þessari ferð á. Við söknuðum þeirra sem þurftu að hætta við. Við sendum hlýjar kveðjur til Díönu sem datt í gönguferð í bátsferðinni og braut handlegginn. Við þökkum Uiloq, Øystein (manni Uiloq), Sondre, Ukiloq, Martin Møller, Ola Jakub (sem keyrði margar tugi ferða með okkur upp og niður á keppnisstaðinn), Grænlenska skíðaskotfimisambandinu, IBU Dagmara Gerasimuk (vonandi styrkja þau þessa ferð okkar) og Skíðasamband Íslands sem er líka bakhjarl þessarar ferðar.
Höfundur: Einar Ólafsson, faraskipuleggjandi.

apríl 14, 2025 0 comment
0 FacebookTwitterPinterestEmail
Daglegt lífHjól

Hjólað um ítölsku rívíeruna með Bændaferðum

by Halldóra júlí 31, 2024

Var svo lánsöm að fá að vera fararstjóri eða hópstjóri fyrir hóp á vegum Bændaferða sem fór í rafhjólaferð á ítölsku rívíeruna í vor. Hópurinn var frábær og veðrið mjög þægilegt, ekki of heitt og ekki of kalt. Hótelið mjög fínt og allar aðstæður góðar.

Hér að neðan eru helstu upplýsingar um hverja dagleið.

Föstudagur 7. júní 2024 – SAN REMO

Fyrsta daginn okkar lá hjólaleið dagsins meðfram ströndinni og við hjóluðum eftir gömlu lestarleiðinni til strandbæjarins San Remo. Þessi leið var einstök og það var dásamlegt útsýni yfir ströndina. San Remo er einn elsti vetrardvalarstaðurinn á þessum slóðum og þar er að finna frægt spilavíti í glæsilegri byggingu. Við hjóluðum reyndar hjólastíginn allan á enda út að Ospdaletti og upplifðum þennan fallega bæ SAN REMO sem er of kallaður blómabærinn, svo mikið af fallegum blómm hjólandi og fengum okkur hressingu í San Remo áður en við hjóluðum til baka á hótelið. Fórum svo að sjálfsögðu í sjóinn við eftir hjólatúrinn, gott að kæla sig smá.

Laugardagur 8. júní 2024 – NORNABÆRINN TRIORA
Við hjóluðum í úthverfi Taggia sem er með einstökum miðaldablæ. Þaðan lá leiðin í svonefndan Argentínudal en um hann rennur samnefnd á. Skógivaxnar hlíðar eru til beggja handa með litlum þorpum, eins konar listaverk í guðsgrænni náttúrunni. Brátt komum við að fyrsta dæmigerða þorpi þessa dals, Badalucco og skömmu síðar erum við í Malino di
Triora. Að lokum náðum við takmarki dagsins, þorpinu Triora sem er mjög hrífandi miðaldabær í 800 m hæð yfir sjávarmáli. Þorpið er þekkt sem „þorp nornanna“ og fyrir einstaklega gómsætt brauð. Borðuðum líka mjög gómsætan mat á veitingastað upp í þorpinu. Mæli með að bóka borð áður. Frá Triora hjóluðum við svo til baka á hótelið.



Sunnudagur 9. júní 2024 – Arma di Taggia, Bussana Vecchia & Taggia
Frá hótelinu héldum við í notalegan hjólatúr um sveitir Lígúríu. Við þræddum litla bæi og byrjuðum á því að heimsækja litla sjávarþorpið Arma di Taggia. Héldum áfram listamannabæjarins Bussana Vecchia en bærinn fékk endurnýjun lífdaga snemma á sjöunda áratugnum eftir að hafa verið yfirgefinn draugabær. Að síðustu fórum við í litríki gamla
bæjarhlutann Taggia. Fórum svo nokkur í langan ísleiðangur og leit að súpermarkaði eftir hjólatúr dagsins.

Mánudagur 10. júní 2024 FRJÁLS DAGUR OG MÓNAKÓ
Heimsóttum furstadæmið Mónakó, stundum kallað dvergríkið Mónakó. Þar skoðuðum við meðal annars kaktusgarðinn en
þaðan er glæsilegt útsýni yfir borgina og klettinn sem gamli bærinn var reistur á. Við fórum í HOP-ON HOP-OFF skoðunarferð um klettaborgina en þar er að finna höll furstafjölskyldunnar og dómkirkjuna þar sem Grace Kelly var borin til grafar sem við skoðuðum að sjálfsögðu. Einnig kíkti ég inní stórglæsilega byggingu Grand Casino spilavítisins í Monte Carlo hverfinu.


Þriðjudagur 11. júní San Lorenzo al Mare, Imperia & San Bortolomeo og Cervo
Frá San Stefano hjólum við að strandbænum Imperia, skoðum nýju höfnina og gömlu, þaðan til Diano Marina og áfram til San Bortolomeo og að lokum til Cervo. Skoðuðum svo gamla bæinn í Imperia á leiðinni heim. Þar sem við lentum í miðri jarðarför. Þá bæði búin að upplifa brúðkaup og jarðarför í ítalíu á þessum fáum dögum.

Miðvikudagur 12. júní Dolcedo, Catellazzo, Bellisimi, Rincheri og Cappelletta di Santa Brigida
Í dag hjólum við frá San Loreanzo al Mare til Delcedo og þaðan til Catellazzo. Næst til Bellisimi, Rincheri og Cappelletta di Santa Brigida. Enn hjólum við fram hjá ólífulundum og í gegnum litlu, sjarmerandi þorpin Cipressa, Pompeiana og Castellaro.
ATH MYNDAALBÚM

Við gistum á Best Western Hotel Anthurium í Santo Stefano al Mare. Hótelið er staðsett 100 m frá ströndinni á milli Imperia og San Remo.

júlí 31, 2024 0 comment
0 FacebookTwitterPinterestEmail
  • 1
  • 2
  • 3
  • …
  • 38

Nýlegar færslur

  • LAUGAVEGSHLAUPIÐ 2025
  • Morgunblaðið um Grænlandsferðina
  • Grænland D6 þriðjudagur 29. apríl 2025
  • Grænland D5 mánudagur 28. apríl 2025
  • Grænland D4 sunnudagur 27. apríl 2025

Nýlegar athugasemdir

  • Björk Ólafsdóttir um Vasavikan 2024
  • Sif Helgad. um Langjökull þveraður 17.júní 2020
  • Helga Bryndís um New York City maraþon 2023
  • Ingvar Þóroddsson um Free to Run Ambassador í New York maraþoninu 2023

Færslusafn

  • júlí 2025
  • maí 2025
  • apríl 2025
  • júlí 2024
  • maí 2024
  • apríl 2024
  • mars 2024
  • nóvember 2023
  • október 2023
  • september 2023
  • ágúst 2023
  • júlí 2023
  • apríl 2023
  • janúar 2023
  • desember 2022
  • nóvember 2022
  • september 2022
  • ágúst 2022
  • júlí 2022
  • júní 2022
  • maí 2022
  • apríl 2022
  • mars 2022
  • febrúar 2022
  • janúar 2022
  • desember 2021
  • október 2021
  • september 2021
  • ágúst 2021
  • júlí 2021
  • maí 2021
  • apríl 2021
  • mars 2021
  • febrúar 2021
  • janúar 2021
  • nóvember 2020
  • október 2020
  • september 2020
  • ágúst 2020
  • júlí 2020
  • júní 2020
  • maí 2020
  • apríl 2020
  • mars 2020
  • janúar 2020
  • desember 2019
  • nóvember 2019
  • október 2019
  • september 2019
  • ágúst 2019
  • júlí 2019
  • júní 2019
  • maí 2019
  • apríl 2019
  • mars 2019
  • febrúar 2019
  • janúar 2019
  • desember 2018
  • nóvember 2018
  • október 2018
  • september 2018
  • ágúst 2018
  • júlí 2018
  • júní 2018
  • maí 2018
  • apríl 2018
  • janúar 2018
  • janúar 2017
  • september 2016
  • ágúst 2016
  • júlí 2016
  • júní 2016
  • mars 2016
  • nóvember 2015
  • ágúst 2015
  • júní 2015
  • febrúar 2015
  • nóvember 2014
  • ágúst 2014
  • október 2013
  • september 2013
  • ágúst 2013
  • júní 2013
  • maí 2013
  • apríl 2013

Flokkar

  • Daglegt líf
  • Fjallahlaup
  • Fjallaskíði
  • Fjallgöngur
  • Gönguskíði
  • Hjól
  • Hlaup
  • Ísklifur
  • Kajak
  • Keppnis
  • Keppnissaga
  • Sjósund
  • Skíði
  • Sund
  • Veiðar
  • Þríþraut

Um mig

Um mig

Halldóra Gyða

Halldóra hefur mjög gaman af því að fara út að leika. Markmiðið hjá henni er að njóta lífsins hvern einasta dag, brosa, hafa gaman og hún er þakklát fyrir góða heilsu.

Verum í sambandi

Facebook Twitter Instagram Pinterest Tumblr Youtube Bloglovin Snapchat

Nýlegar færslur

  • LAUGAVEGSHLAUPIÐ 2025

    júlí 19, 2025
  • Morgunblaðið um Grænlandsferðina

    maí 14, 2025
  • Grænland D6 þriðjudagur 29. apríl 2025

    apríl 29, 2025
  • Grænland D5 mánudagur 28. apríl 2025

    apríl 28, 2025
  • Grænland D4 sunnudagur 27. apríl 2025

    apríl 27, 2025

Um mig

banner
Halldóra Gyða elskar að vera úti að leika. Hér er hún í Dólómítunum í Lavaredo fjallahlaupinu 2016.

Vinsæl innlegg

  • 1

    Eco Trail Reykjavík – 22 km

    júlí 6, 2018
  • 2

    Ironman Texas 2018

    apríl 28, 2018
  • 3

    Buthan – dagur 1 – hæðaraðlögun og skoðunarferð

    maí 26, 2018

Síðustu æfingar

  • Styrkur Coach Birgir 🤩
    On júlí 23, 2025 6:07 e.h. during 00:48:00 hours burning 315 calories.
  • Frábær sumar gæðaæfing hjá Þóru - alltaf gleði og gaman 🤩
    On júlí 22, 2025 5:32 e.h. went 7,01 km during 00:54:22 hours climbing 94,00 meters burning 481 calories.
  • Evening Ride
    On júlí 21, 2025 8:44 e.h. went 4,33 km during 00:16:00 hours climbing 32,00 meters burning 73 calories.
  • Sunnudagsstyrkur á mánudegi 🙏
    On júlí 21, 2025 5:35 e.h. during 00:36:15 hours burning 223 calories.
  • Smá viðrun með Óla 🙏
    On júlí 20, 2025 3:48 e.h. went 24,49 km during 01:29:56 hours climbing 313,00 meters burning 459 calories.
  • Facebook
  • Twitter
  • Instagram
  • Linkedin
  • Snapchat
  • Vimeo

@2017 - PenciDesign. All Right Reserved. Designed and Developed by PenciDesign


Back To Top