Berlínarmaraþon 2022

by Halldóra

Fékk það skemmtilega verkefni að vera hópstjóri á vegum Bændaferða í Berlínarmaraþonið í september 2022.

Hópurinn fór út á mismunandi tímum, sumir með Icelandair, aðrir með Play og enn aðrir komu annars staðar frá eins og frá Svíþjóð og Noregi.

Ég fór sjálf með Play, föstudaginn 23. september. Hitti strax nokkra úr hópnum á flugvellinum eldsnemma um morguninn, það var ekki búið að opna tollaskoðun, veitingar og verslanir þegar ég mætti út á flugvöll, þar sem flugið er svo snemma og ég var komin til Keflavíkur klukkan 03:30.

Flugið sjálft var mjög fínt, þar sem ég svaf að mestu alla leiðina. Svo hitti ég fleiri úr hópnum við farangursbeltið á flugvellinum í Berlin og við tókum lestina saman að hótelinu okkar, MODEL ONE, sem er mjög vel staðsett við Alexanderplatz.

Við vorum orðin frekar svöng þegar við komum á hótelið, svo við fengum okkur að borða á veitingastað fyrir framan hótelið en fengum svo herbergin strax.

Ákváðum samt að drífa okkur á EXPOIÐ – sem er á gamla flugvellinum í Berlín (Flughafen Templehof), um 30 mín ferðalag í lest, sem gekk samt mjög vel. Smá gangur var frá lestarstöðinni Tempelhof að Expoinu.

Það var ótrúlega mikill fjöldi fólks á EXPOINU, metfjöldi í ár 45.527 sem voru skráðir Berlínarmarþonið (34.879 sem kláruðu frá 157 löndum), auk þess sem rúmlega 5000 taka þátt á skautum (Roller Blades) á laugardeginum. Helmingur Exposins er því undir „rollerblades“ lagður, mjög áhugavert, ein íþrótt sem ég hef ekki prófað að stunda 😉 😉

Adidas er aðal styrktar aðili hlaupsins og framleiddi bæði mjög flotta BMW Berlínarmaraþons jakka og líka ekki eins fallega 😉 Flottu jakkarnir voru því miður uppseldir þegar við komum, en nóg til af þessum síðri, sem enginn vildi kaupa, enda ekki einu sinni búnir til úr hlaupaefni.

Fyrir þá sem eru að fara á næsta ári, þá borgar sig að panta jakka / boli áður en farið er út, enda hægt að sækja það á expoinu, sem er fyrirfram pantað. Við vorum frekar svekkt að geta ekki keypt okkur flotta jakkann, en maður á svo sem nóg af hlaupajökkum, hefði bara farið í safnið 🙂

Eftir göngu á expoinu fórum við með neðanjarðarlestum aftur til baka á hótelið. Komum við í matarbúið, til að kaupa vatn, gos og banana á leiðinni heim.

Náðum stuttri hvíld áður en við fórum út að borða, fengum okkur mjög góðan þýskan Svínasnitzel á veitingastað eiginlega við hliðina á hótelinu. Var svo lánsöm að kynnast Rikka (kallaður Óli fyrir norðan) tækninörd sem hjálpaði mér að tengja STRYD græjuna mína, sem ég fékk endurnýjaða á expoinu, þar sem mín var orðin ónýt, en þeir létu mig hafa nýja (sama árs módel) ekki splunku nýja módelið.

LAUGARDAGUR 24. SEPTEMBER 2022
Við Guðrún og Matta (vinkonur frá Höfn) bókuðum okkur í skoðunarferð á hjóli um Berlin klukkan 10:30 á laugardagsmorgninum. Við fórum því í morgunmat klukkan 9 og tókum svo Uber að hjólastöðinni. Ferðin tók 3,5 klst og var á ensku og mjög áhugaverð. Við hjóluðum að mestu í gömlu Austur Berlín en ég fræddist mjög mikið um margt sem ég vissi ekki, enda að fara til Berlínar í fyrsta skipti. Sjá nánar hér:

Um kvöldið borðuðum við nokkur saman klukkan 18:30 á veitingastað fyrir framan hótelið, þar sem ég fékk mér Lasagne sem var mjög gott. Fór svo upp á herbergi eftir matinn og fór að græja mig fyrir hlaupið, fór í fötin og setti gelin í mittistöskuna, skrifaði upplýsingar sem var óskað aftan á númerið og græjaði og gerði. Fór svo að sofa um klukkan 23:00.

SUNNUDAGUR 25. SEPTEMBER 2022
Vaknaði 5:45 nokkrum mínútum áður en klukkan hringdi. Fór í morgunmat klukkan 06:00 og svo lögðum við af stað frá hótelinu 07:30, þeir sem voru í ráshópum, A-F, en ég var í ráshóp F og átti að ræsa klukkan 09:35.

Við ákváðum að ganga að rásmarkinu við Brandenburgarhliðið, sem var um 3 km frá hótelinu. Ferðin tók okkur samt um 1 klst, þar sem við fórum í gegnum öryggishlið. Við Guðrún vorum lengi að leita að stað þar sem við áttum að geyma pokana okkar og svo að finna rétt hólf, biðum í klósettröð sem er þetta klassíska. Var fegin að hafa ekki lagt seinna af stað.

Ég ákvað svo að fara aftur í klósettröð fyrir utan hólfið mitt, svo ég var eiginlega ennþá á salerninu, þegar hólfið mitt var opnað og við fengum að ganga að ráslínunni. Ég var því alveg öftust í hólfinu mínu af stað, sem útskýrir að ég var með 11 mínútna mun á byssutíma og flögutíma þegar ég kom í mark. Það skipti mig engu máli, þar sem markmiðið var alltaf að hlaupa þetta maraþon á gleðinni, „njóta en ekki þjóta“, þar sem ég var í 100 mílna UTMB hlaupinu fyrir 4 vikum síðan.

Síðast þegar ég gerði þetta, þ.e. fór í götumaraþon 2019, til Fíladelfíu með Rúnu Rut vinkonu, ákveðið með mjög stuttum fyrirvara, þá voru 6 vikur liðnar frá því ég var í 100 mílna hlaupi, þ.a. í Grand Raid Reunion. Núna voru bara 4 vikur frá síðasta langa hlaupi. Veit þetta er ekki skynsamlegt og ekki til eftirbreytni ;-(

Hlaupið gekk mjög vel framan af. Fyrrri helmingurinn, þ.e. hálft maraþon var nokkuð gott, mér leið vel og púlsinn var bara eðlilegur. Svo eftir um 25 km fann ég að ég hafði ekki æft nóg á malbiki (fór lengst 18 km) sem er ekki alveg nógu langt fyrir maraþon. Flestir fara lengst í kringum 30 km. En ég vissi að ég hafði ekki æft nóg og þetta yrði alveg krefjandi, svo þá var ekkert annað að gera, en að hægja á sér, halda áfram að taka inn orku á 5 km fresti. Ég stoppaði og gekk í gegnum ALLAR drykkjastöðvar og drakk vatn og hellti yfir mig. Þó það væri ekki mjög heitt, þá var ég orðin vön því eftir allan hitann í Ölpunum í sumar að hella yfir höfuðið á mér sem og inn á bakið og á hendurnar og mér finnst það mjög gott.

Ég ákvað að njóta líka, svo ég tók mikið af myndum og myndböndum á leiðinni, sérstaklega af skrítnum fígúrum 😊 Fannst verst að ná ekki mynd af manninum sem hljóp berfættur fram úr mér, en hann hljóp svo hratt 😊

Þegar um 37 km voru búnir sá ég svæði þar sem var búið að setja upp mikið af bekkjum og þar voru nuddarar að aðstoða hlaupara sem voru komnir með krampa eða önnur meiðsli. Þar lágu líka maraþonhlauparar á börum og á leið í sjúrkabíl.

Þá hugsaði ég: „Ég ætla bara að klára – ég ætla EKKI að lenda í sjúkrabíl.“ Var líka hugsað til þeirra vina minna sem hafa lent í þessum heima, þ.e. að komast rétt yfir rásmarkmið og lenda á börum eða ná ekki að klára síðustu metrana í mark. Þessar hugsanir gerðu mig ennþá skynsamari og ég ákvað að hægja ennþá meira á mér.

EINA MARKMIÐIÐ mitt VAR AÐ KLÁRA, KOMAST BROSANDI GLÖÐ Í MARK OG SÆKJA FLOTTU MEDALÍUNA.

Síðasti kílómeterinn í hlaupinu er algjörlega magnaður, að hlaupa undir Brandenburgarhliðið og allir áhorfendurnir að fagna, báðum megin við götuna. Þetta er svo stórkostlegt. Svo hleypur maður áfram hinum megin við hliðin og kemur í mark og fer beint inní garðinn (Tiergarten).

FRÁBÆR UMGJÖRÐ, SKIPULAG OG STEMNING

Ég get 100% mælt með Berlínarmarþoninu. Allt skipulag er svo flott og yndislegir sjálfboðaliðar allan hringinn. Ég fékk medalíuna mína, sá að Eliud Kipchoge hafði slegið sitt eigið „World Record“, heimsmet á tímanum 02:01:09, þá var ég rétt búin með hálft maraþon. Ég hringdi í Óla minn, sem var heima að horfa á maraþonið í sjónvarpinu og sagði honum að ég væri komin í mark.

Tíminn minn var 04:20:42 – 20.981 sæti – 5.220 af konum – 542 í aldursflokki.

Gekk svo í gegnum allt svæðið, fékk poka með veitingum, sótti pokann minn með fötunum mínum og fékk einn óáfengan bjór sem var mjög góður.

Fór svo við „Treffen punk“ eða „meeting point“ stað þar sem við vorum búin að ákveða að hittast við „i-ið“ . Þar hitti ég Edda og Jórunni og svo Guðrúnu og Möttu. Lilja, Reynir, Bjarki, Rikki og Guðrún voru löngu komin í mark og farin upp á hótel.

Við biðum smá stund á þessum stað við I-ið, en svo fór að kólna þegar sólin fór og þá ákváðum við bara að skella okkur uppá hótel, tókum neðanjarðarlestina þangað sem er mjög einfalt og þægilegt. Þátttökumiðanum í maraþonið fylgir fjögurra daga lestarpassi.

Eftir sturtu og smá hvíld þá hittumst við á ROOF Bar klukkan 18:00 á hótelinu og fórum svo saman út að borða á Hofbraeu Wirtshaus.

Á maraþon matseðlinum var þríréttað ekta þýskt hlaðborð. Virkilega skemmtileg lifandi tónlist, skemmtilegir slagarar eins og Sweet Caroline og við tjúttuðum heilmikið á dansgólfinu um kvöldið.

MÁNUDAGUR 26. SEPTEMBER 2022

Flugið heim var klukkan 12, svo við borðuðum morgunmat klukkan 8, tókum lestina út á flugvöll klukkan 9 en svo var smá seinkun á fluginu út frá Íslandi um morguninn. Svo fluginu seinkaði um 1 klst.

En það voru sælir og glaðir ferðalangar, margir með medalíuna um hálsinn, aðrir í FINISHER bolum, en allir stoltir eftir flottan árangur í Berlínarmaraþoninu.

ÞAÐ SEM STENDUR UPP ÚR

Það var eitt sem ég myndi gera öðruvísi ef ég væri að fara í maraþon um næstu helgi. Það er að vera í gamla hlýrabolnum mínum sem er með nafninu mínu framan á og íslenska fánanum. Maður fær svo mikla hvatningu og orku frá áhorfendum sem eru að hvetja allan hringinn. Ég ákvað hins vegar að vera í FREE TO RUN hlýrabolnum mínum þar sem ég er að safna fyrir þessi frábæru samtök, sjá nánar hér.

Það sem stendur upp úr eftir helgina, er hvað það er skemmtilegt að kynnast nýju fólki og eignast nýja vini. Hópurinn (sem var mikið saman) náði virkilega vel saman og það var einstaklega gaman að kynnast þeim og vera með þeim.

Mig langar að þakka þeim kærlega fyrir skemmtilega helgi í Berlín og óska öllum hlaupurum innilega til hamingju með glæsilegt maraþon.

You may also like

Leave a Comment