Fór út af Donnas stöðinni klukkan 23:52 (59 klst 52 mín) þriðjudagskvöld, þá 4 klst í tímamörkin út. Hélt svo ein í áttina að Sassa. Nú var ég að koma á slóðir sem ég var búin að fara í æfingaferðinni með Stefáni Braga og Iðunni í síðasta mánuði.
(Halldóra er farin frá Donnas 11:52 skv. plani og á núna 4 klst. a tímamörkin. Hún verður að ná að halda því. Hún lét teipa fætur, komnar einhverjar blöðrur. Fékk nudd, mat og tæplega 2 tíma svefn. og hún fer út með látum, búin að taka fram úr þremur strax. Þar með komin í sæti 514 af 540 og nú þarf hún að hirða upp hlauparana sem að lögðu sig ekki, hún nær þeim í brekkunni. Hún er núna á skokkinu til Saint Port Martin í góðum gír – frá Stefáni Braga)
Skilaboðin frá Stefáni voru skýr, að ná hlaupurum og taka fram úr þeim, alls ekki að hanga í þeim. Tók skilaboðin svo bókstaflega að ég sendi Stefáni Braga reglulega fjölda þeirra sem ég var búin að taka fram úr, einn, tveir, þrír ha ha ha o.s.frv.
Það var æðislegt að skokka fram hjá hótelinu okkar sem við gistum á, skokka göngugötuna þar sem við byrjuðum okkar ferð og svo að fara yfir brúna og í gegnum fallega bæinn. Magnað og yndislegt að vera þarna þó ég væri alein þarna í myrkrinu, þá voru Iðunn og Stefán Bragi svo mikið með mér þarna í anda.
Ég hitti svo Michele (M) á fyrstu drykkjarstöðinni, þarna í fallega gamla Perloz bænum, þar sem við Iðunn og Stefán Bragi höfðum reynt að fá borð á veitingastað en fengum ekki inn (en skoðuðum þar mjög gamla vínþrúguverksmiðju). Ég heilsaði M sem var mjög glaður að sjá mig, brosti alveg hringinn. Ég ákvað samt að halda mínu plani og halda áfram minni för og hugsaði bara ef hann nær að hanga í mér þá er það fínt, en ég ætlaði ekki að bíða eftir honum. Svo ég hélt för minni áfram og hann hékk ekki í mér.
Næsta stopp var í Sassa sem var á hótelinu sem við gistum aðra nóttina okkar í æfingarferðinni (man að ég fór allar þessar erfiðu brekkur í miklum hita fyrsta daginn okkar í æfingaferðinni og það var drullutöff), nú var sem betur fer komin nótt og mun kaldara og mér gekk mun betur þarna upp í þetta skipti. Það var virkilega gaman að koma aftur í Sassa á fjallahótelið sem við gistum fyrstu nóttina, en leiðinlegt að það var um nótt, svo ég hitti ekki aftur eigendurna sem voru alveg yndisleg.
Ég ætlaði að panta mér Sprite eða Fanta, en það var lokað og engin möguleiki að fá annað en kók og vatn. Á drykkjarstöðinni sem var í tjaldi úti, fékk ég mér 10 mín kríu með hausinn á borðinu, áður en ég hélt áram upp fjallið í áttina að Rifugio Coda. Það var annar hlaupari að taka sér kríu fram á borðið á sama tíma og ég sem þakkaði mér svo fyrir þegar vekjaraklukkan hringd í gsm símanum mínum og vakti okkur bæði 🙂
Á þessum tímapunkti gerði ég ein mistök, sem ég hafði aldrei gert áður og gerði ekki aftur, en það var að gleyma að fylla vatn á Salomon vatnsbrúsana mína á drykkjarstöðinni. Ég hafði alltaf fyllt á þá, með hreinu vatni í annan og sódavatni í hinn. Ég uppgötvaði að ég hefði gleymt þessu þegar ég fór á klósettið uppá bílaplani, en ég nennti ekki að snúa við aftur niður eftir, sem var samt mjög stutt (held ég hafi verið hrædd við að hitta M aftur og þurfa að stinga hann aftur af). Auk þess vissi ég að það var brunnur á leiðinni, þar sem kýrnar voru. En þegar ég kom að brunninum þá var ekkert nema drullugt vatn þar núna, ekkert rennandi vatn og ég með frekar lítið af vatni á mér eftir í brúsunum.
Ég var svo lánsöm að það kom þarna yndislegur HOKA hlaupari (var með HOKA bakpoka og í HOKA skóm) sem var með nóg af vatni og orkudrykk og gaf mér hluta af vatninu sínu, sem var algjör bjargvættur, ég náði svo sem aldrei nafninu hans og sá hann aldrei aftur þar sem hann fór upp eftir á undan mér eins og allir aðrir hlauparar 🙂 En mikið var ég honum þakklát.
Leiðin að Rifugio Coda er svolítið endalaus, þú sérð aldrei fjallakofann og það var orðið mjög kalt, eins og fyrri nætur, það var þoka og maður rétt sá meter fyrir framan sig. Ég var samt svo glöð að vera búin að fara þessa leið áður. Þó ég hefði farið hana, þá fannst mér ég alltaf vera að sjá nýja brekku áður en ég loksins kom að fjallakofanum, enda skyggni eiginlega ekkert og mjög kalt úti. Tékk-inn stöðin/drykkjarstöðin í Rif Coda (Fjallaskálinn Coda) var bara í tjaldi fyrir utan fjallaskálann og mér var bæði kalt og mér var flökurt þegar ég kom þangað. Ég ákvað því að fara inní skálann og kaupa mér drykk. Fyrst ætlaði konan að handa mér út og sagði að ég ætti að vera úti í tjaldinu en ég sagðist vera viðskiptavinur og vildi kaupa SPRITE. Keypti drykk og náði því að hvíla mig aðeins þarna uppi í skálanum í hitanum. Það var verið að hita skálann með opnum eldi.
Þarna í þessum skála höfðum við Stefán og Iðunn borðað Polentu (í fyrsta og eina skiptið sem ég hef borðað hana, langar ekki að smakka hana aftur). Við vorum þarna í hádeginu og það rigndi mikið þessa klukkustund þegar við stoppuðum þar í ágúst. Nú var enginn í skálanum nema ég og pirraður starfsmaður sem vildi helst henda mér út í tjaldið og bannaði mér að nota klósettið. Tékkinn tími á Ref Coda var klukkan 07:04 (71 klst og 4 mín).
(Halldóra er komin i gegnum Rifugi Coda. Mjög mikilvægur áfangi og stefnir óðfluga í Rifugi Barma sem er næsta Cut. Hún er búin að standa sig gríðarlega vel í nótt, búin að taka fram úr næstum 30 hlaupurum og er núna í sæti 492 af þeim 540 sem eru eftir. NB. 180 hlauparar eru nú hættir keppni. Þegar hún fór í gegnum Rifugi Coda var hún komin upp á toppinn og nú heldur hún sig í yfir 2.000.- metra hæð um langan veg. Leiðin er upp og niður en brekkurnar eru ekki eins rosalegar. Hún virðist vera búinn að finna sinn takt og svaraði skilaboðum í morgun (sem er gott :-)) Cut í Barma er kl. 13:00 í dag og hún mun ná því. Nú er hún aftur komin inn í þéttan hóp af hlaupurum með þau skilaboð að elta uppi þann næsta og taka fram úr honum…frá Stefáni Braga).
M var ekki kominn ennþá þegar ég fór frá Ref. Coda og ég hitti hann ekkert aftur í hlaupinu. Í R.Coda er maður hálfnaður með hlaupið kominn með 174,5 km og 15.024 m hækkun. Svo komst ég að því síðar að hann hætti í hlaupinu í R. Coda og ég veit ekki af hverju.
Ég átti ágætis niðurhlaup frá Ref.Coda þekkti leiðina ágætlega, svo ég tók fram úr mörgum hlaupurum, sem voru orðnir vanir að hleypa mér fram úr á niðurleið og ég var orðin vön að hleypa þeim fram úr mér á uppleiðinni . Svo kom auðvitað nýtt fjall, þ.e. brekka upp þar sem allir tóku fram úr mér eins og vanalega😊
(Næsta Cut er 75 klst. í Barma. Halldóra ætti að vera þar á 71,5 tíma og þar með eiga enn 3,5 tíma á tímamörk. Árið 2019 hætti Gunnar Júlísson í Barma skálanum vegna álagsastma (en hann var að klára UTMB í ágúst 2021 og kemur bara aftur sterkur inn í TORinn 2022) Halldóra ætti að vera um 9:30 að íslenskum tíma í Barma (11:30 ítölskum tíma). Mun þar taka eins stutt stopp og hægt er, borða og 10 mín slökun. Leiðin eftir Barma eru miklar óbyggðir og ef eitthvað kemur upp þar þá þarf að sækja hlaupara með þyrlu. Þannig er leiðin alveg þangað til Halldóra verður komin til Niel – frá Stefáni Braga).
Næsti fjallaskáli var Rifugio della Barma og þangað kom ég klukkan 11:04 á miðvikudagsmorgni (71 klst og 4 mín). Hann var æðislegur eigandinn að þessum skála. Hann var jafn almennilegur og starfsmaðurinn var leiðinlegur í Coda 🙂
Hann vildi endilega taka mynd af mér og númerinu mínu og þarna keypti ég mér mjög gott espresso kaffi og local límónaði gos sem var mjög gott (ekki vont bragð af því).
(Halldóra er komin í gegnum Barma skálann á miklu betri tíma en þeir sem að eru á undan henni. Hún var 4 tíma slétt frá Coda til Barma á meðan flestir aðrir eru 4,5 tíma á þeirri leið. Þannig að hún heldur ennþá 4 tímum á tímamörkin. Það er mikilvægt að halda því alla leið til Gressoney, en þá lækkar verulega meðalhraðakrafan í hlaupinu. Næsti áfangastaður er Niel. Á leiðinni er Drekaskarðið sem að Halldóra stendur í á Facebook myndinni sinni. Þannig að þaðan þekkir hún vel leiðina niður í Niel. Það er mjög gott hljóð í henni, keppnisskap. Smá vandræði með að koma niður mat, en verið að vinna í lausnum. Nú er allt orðið blautt og sleipt og því magnað hvað hún nær að halda góðum hraða – frá Stefáni Braga).
(Í Barma eru komnir 183 km og 15.676.- metra hækkun. 7,5 sinnum upp á Hvannadalshnjúk og niður aftur á 3 sólarhringum Stef.Bragi.)
Það var mikill munur á frábærum eigendum og andrúmslofti í þessum fjallaskála m.v. Ref.Coda. Get mælt 100% með þessum fallega fjallaskála í Barma. Tímamörkin í Rif della Barma var klukkan 15:00, svo ég var ennþá 4 klst innan tímamarka, yfirgaf skálann í mjög góðum málum og framundan var mjög krefjandi leið. Gunni Júl búin að senda mér skilaboð og vara mig við sem og Stefán Bragi, að leiðin fram undan væri mjög grýtt og erfið yfirferðar, ekki neinir stígar á þessari leið að skarðinu. Mér skilst að Gunni Júl hefði hætt hér, því það hefði bara verið hægt að sækja hann á þyrlu ef hann þyrfti að hætta og starfsmenn sögðu að hann yrði þá að greiða hana sjálfur, þar sem þeirra ráðleggingar væru að hann myndi ekki halda áfram út af astmanum.
Næstu tékkinn staðir, án þess að það væri skráðir tímar voru Col du Marmontana og Lago Chiaro en þar fékk ég grillaða svínasíðu, sem var vel söltuð og ofboðslega góð og þar fékk ég líka eina Fanta dós, sem ég sá inni á starfsmannabásnum. Þetta var besti matur sem ég fékk alla ferðina. Svo ég fékk mér tvær sneiðar 🙂
Eftir það tók við hækkunin upp í Crena du Ley sem við Stefán Bragi kölluðum, Drekaskarðið. Við Stefán Bragi höfðum farið frá Niel uppí þetta skarð í frábæru veðri í æfingaferðinni í ágúst og við tókum mjög gott niðurhlaup þaðan, sem endaði með því að ég flaug á hausinn, eða réttara sagt lenti á hnjánum 🙂
Eftir Drekaskarðið og smá niðurhlaup yfir mikið grjót, þá tók við næsta skarð sem var Col della Vecchia þar sem við Stefán Bragi höfðum líka stoppað og horft yfir til Sviss, en vörðurnar voru skreyttar Nepölskum fánum. En veðrið var alveg frábært í æfingaferðinni. Nú var enginn til að taka af mér myndir í Drekaskarðinu, svo ég tók nokkrar sjálfur og svo tók ég líka myndir af flotta steinlagða stígnum sem Rómverjar lögðu á sínum tíma, rétt fyrir neðan Col della Vecchia, algjörlega magnaður stígur.
Eftir skarðið er ágætis niðurhlaup niður í Niel – Dortoir La Gruba. Á leiðinni niður eftir hitt ég Finnann, vin minn, sem var að gera að hnénu á sér sem var eitthvað farið að hrjá hann. Leiðin sem við fórum núna þ.e. „efri leiðin“ var mun lengri og erfiðari en sú sem við Stefán höfðum farið, neðri leiðin, mikið upp og niður og ég fann ég var orðin frekar lúin. Það var ein tékk-inn stöð í viðbót með veitingum á leiðinni, en ég ákvað bara að stoppa ekki og halda áfram niður eftir, þó þeir segðu að það væru 90-120 mín eftir í Niel. Var bara orðin spennt að komast til NIEL.
(Halldóra tætir nú framhjá hverjum Frakkanum af fætur öðrum og er búin að vinna sig upp í sæti 460. (Frakkarnir eru sumir þekktir fyrir að hleypa helst ekki konum fram úr sér), þannig að hún skilur þá væntanlega eftir alveg niðurbrotna. Það eru ennþá 512 hlauparar eftir (198 hættir) og hún er því búin að setja aftur fyrir sig 32 hlaupara síðan í Donnas. Hvílík snilld. Hún er komin af stað í niðurhlaupið til Niel og er búin að vinna sér inn meiri tíma, sem er ótrúlegt. Cut off tími í Niel er 19:30 og hún á bara 1 klst. eftir þangað. Verður komin þar um 15:00 og hækkar því úr 3,5 tímum sem hún hafði í Barma í 4,5 í Niel. Þar er flott stöð, góður matur og smá hvíld. Og kannski fær hún bara að fara á Facebook life í smá tíma……. í Niel. Þetta er alveg magnað á þessum stað í hlaupinu að vinna sér inn tímamörk. Næsti áfangi er svo Gressoney sem er LIFEBASE og um leið og hún fer þar inn bætast 2 klst. við Cut tímann. Þetta verður mjög spennandi og tæpt áfram……. 300 metrum hinu megin við Niel er 200 km. múrinn fallinn – Stefán Bragi.)
Það var æðislegt að komast inn á hótelið okkar í Niel, drykkjarstöðin var inni í morgunverðarsalnum okkar, klukkan 17:39 og móttökurnar voru eins og ég væri bara að koma í mark, en þarna er ég búin með 199,7 km og 17.166 m hækkun.
Tímamörkin klukkan 21:30 svo ég var bara í góðum málum. Stefán hafði sent mér skilaboð og hrósað mér og í verðlaun fékk ég að mega fara á Facebook Live 😊 Ég sagði að ég yrði fyrst að láta kíkja á fæturna á mér, sem ég og gerði, lét aðeins fara yfir og teipa betur þar sem það þurfti. Langaði mest í kornflex sem ég fékk með mjólk út að borða og það voru allir einstaklega almennilegir á Niel drykkjarstöðinni vildu allt fyrir mann gera og þar var mikil stemning, eins og sjá má á myndbandinu hérna að ofan.
(Komin til Niel, síðasti kaflinn var blautur og sleypur þannig að hún tafðist aðeins fram yfir áætlun. En á ennþá 4 klst. á tímamörkin. Planið er að stoppa í 20-30 mín, tærnar upp í loft og reyna að borða. Síðan er það síðast brekkan upp áður en niðurhlaupið hefst til Gressoney. Þetta eru bara 1.150.- metra hækkun og 14 km. Sú leið er brött upp en mjög góð, aflíðandi og góðir stígar niður. Halldóra hefur 4 klst til að fara þennan legg. Veðrið er líka að skána og ekki rigning það sem eftir lifir dags. Hún er bara í ágætis standi, hress og ánægð með allan framúraksturinn. Auðvitað er þreytan aðeins farin að segja til sín og hana hlakkar til að ná smá svefni í Gressoney – Stefán Bragi.)
Þegar ég fór út af stöðinni fór ég að sjálfsögðu á FB life og spjallaði og henti mér svo uppá fjallið, hafði farið þessa leið með Stefáni og Iðunni í sumar og var alveg orðin spennt að komast til Gressoney S.J.
(Smá tölulegar upplýsingar. Af hverju er mikilvægt að ná Gressoney stöðinni ? Ef þið skoðið tímaspjaldið hennar Halldóru þá er þar efst hægra megin tala sem segir að hún sé á 2,6 km meðalhraða. Til þess að ná Gressoney þarf 2,51 km meðalhraða. Halldóra mun ná því. Eftir Gressoney, þ.e. á næstu stöð á eftir má meðalhraðinn lækka í 2,33 (fyrir allt hlaupið) sem þýðir að hún hefur miklu meiri tíma til að komast til næstu stöðvar Champoluc og getur farið hægar og hvílt sig meira á leiðinni. Þeir sem að komast í gegnum Gressoney innan tímamarka hafa verulega hækkandi líkur á að ná að klára hlaupið. Halldóra hækkaði í sæti 448 við komuna til Níel. 504 eru enn að í hlaupinu og 206 hlauparar hættir – Stefán Bragi).
Leiðin upp á fjallið eftir Niel gekk mjög vel framan af. Svo kom mikil og þétt þoka, og við rétt sáum bara um einn metra fyrir framan okkur, vorum samt fjögur að þvælast þarna. Vorum því að mínu mati frekar lengi að finna hæsta punktinn, þar sem ég mundi svo vel eftir að að við höfðum stoppað og tekið myndirnar af okkur þremenningunum með íslenska fánann í ágúst. Mundi líka vel eftir því að þar reyndi ég líka í sumar að ná símasambandi því ég átti að vera á fundi með FAUS, en það var auðvitað mjög takmarkað síma-samband þá sem og nú.
Þegar við vorum svo loksins komin upp á topp Colle Laozney (2.400 m), þá var mjög þægilegt hlaup niður eftir í áttina að Ober Lòo. Stefán Bragi var búin að minna mig á að ég ætlaði að heilsa uppá bóndann vin minn á Ober Lòo, en við höfðum hitt hann í æfingarferðinni og sögðum honum að ég myndi taka þátt í hlaupinu og lofuðum honum þá að ég myndi heilsa upp á hann.
Þegar ég kom svo inná stöðina, þá spurði starfsmaður mig hvaðan ég væri og þegar hann heyrði að ég væri frá Íslandi, þá var hann fljótur að finna eigandann, þ.e. bóndann á Ober Lòo sem var búin að vera að bíða eftir mér. Það var mjög gaman að hitta hann aftur og hann var svo glaður að sjá mig og að ég væri komin svona langt.
Ég lét taka mynd af okkur, en mér leið frekar illa á þessum tímapunkti. Það var komið myrkur og allt upphitað með opnum eldi og reykurinn af svona opnum eldi fer frekar illa í mig og astmann minn. Ég reyndi að fá mér banana þarna en bara kúgaðist af honum. Lét samt taka mynd af okkur Rino (eigandinn af Ober Lòo) þarna á drykkjarstöðinni.
Tíminn var 21:15 á miðvikudagskvöldið, komnar 81 klst og 15 mín og ég búin með rúmlega 200 km.
Fékk svo skilaboð frá Stefáni Braga um að ég yrði að hraða mér, of mikið dól á mér þarna í Ober Lòo. Ég hljóp því eins og vindurinn niður brekkuna og gaf verulega í og tók fram úr öllum, en það var mjög krefjandi og erfitt að hlaupa þarna yfir mesta grjótið og það í niðamyrkri. Svo þegar ég kom niður á malbikið, gaf ég ennþá meira í og hljóp eins og ég væri að berjast við tímamörkin í áttin að sporthöllinni í Gressoney, en ég kom þangað klukkan 22:50 á miðvikudagskvöldið (82 klst og 50 mín). Búin með 213,4 km og 18,300 metra samanlagða hækkun.
Ég var orðin mjög þreytt þegar ég kom í Gressoney og vildi bara fara strax að sofa. Á meðan ég er að finna svefnpokann og dótið, þá kemur kona sem vildi skipta um rafhlöðu á TRACKER græjunni minni sem var komin í 20%. Ég leyfði henni bara að sjá um það, hún tók gömlu græjuna af og festi svo nýja á bakpokann.
(Spennan magnast og inneignin á tímamörkin minnkar. Halldóra er komin inn í Gressoney. Á rúma tvo tíma enn á tímamörkin. Stöðin í Gressoney er gríðarlega stór og góð. Allt til alls, heitar sturtur, læknar, allt í sama húsi, hægt að fá nudd osf. En tíminn er nú orðinn alvarleg fyrirstaða. Halldóra á 2 klst. á tímamörkin þegar hún kom inn á stöðina. Það þýðir að hún á 4 klst. á tímann út af stöðinni. Planið er einfalt, hún verður að fara út kl. 00:00 á íslenskum tíma í síðasta lagi. Það þýðir að hún hefur 3 klst. til að láta laga plástrana, skipta um föt, borða, sturtu og sofa. Og ég ætla að veðja á að henni takist það. Skynsemin verður að ráða för og það er mjög óskynsamlegt að fara út af Gressoney ósofinn. Þannig að svefn í 1,5 klst. verður að hafa forgang fram yfir keppnisskapið. Hún er farin að sofa. Og þó svo að hún fari út af stöðinni bara með 1 klst. á tímamörkin þá er hún enn inni í hlaupinu. Sjá um það hér neðar. Nú er næstum 1/3 hlaupara hættur og margir munu hætta í Gressoney eins og alltaf. Stefán Bragi.)
Stefán hrósaði mér fyrir niðurhlaupið og sagði að ég gæti sofið í 1 og ½ klst og sagðist myndu vekja mig sem og hann gerði eftir 90 mín. Þá skipaði hann mér að fara í sturtu og hrein föt, svo þurfti ég að láta skipta um allt teipið á fætinum, þ.e. ég tók þá af áður en ég fór í sturtuna og fékk svo alveg nýtt á báðar fæturna. Þegar ég er að fara í sturtu þá hringir Beta í mig til að kanna hvernig mér liði. Ég sagðist vera í góðum gír, en ég væri með þennan verk aftan á hálsinum, svona eins og ég væri með hálsríg, og ætlaði að reyna að fá nudd. Þurfti svo að bíða í mjög langan tíma eftir að komast að í teiperinguna, fékk mér þá að borða á meðan, en hafði bara lyst á soðnum kartöflum og gulrótum 🙂
Frétti eftir á að Stefán hafði beðið Betu um að taka stöðuna á mér, því hann spurði mig aldrei hvernig mér liði, eða gaf mér tækifæri til að kvarta. Hann hafði á þessum tímapunkti áhyggjur af því að ég væri komin á klettabrúnina og vildi láta Betu kanna hvernig staðan væri á mér, áður en hann héldi áfram að ýta á mig. Beta staðfest svo við Stefán Braga að ég væri bara fín fyrir utan, þennan verk aftan á hálsinum.
(Og um framhaldið. Í Gressoney er Halldóra búin að fara 213 km. og 18.300 metra hækkun. Hún er búin að vera 83 klst. á ferðinni þangað. Næsta CUT er í Champoluc, hinu megin við fjallgarðinn, þangað er ein brekka upp og ein niður, hækkun upp á 1.700 metra og 17 km, þar af tæpir 5 á sléttu malbiki. Það góða við þennan legg er að Halldóra hefur 12 klst. til að fara þessa leið. Hún þarf sem sagt bara að ná 1,42 km meðalhraða á leiðinni og allt sem að hún nær að fara hraðar, vinnur hún sér inn sem viðbótartíma. Halldóra fór þessa leið í sumar á ca. 5-6 klst. En núna verður hluti af leiðinni í myrkri. Þetta er ástæðan fyrir því að hún varð að komast í gegnum Gressoney og það tókst, Stefán Bragi.)
Eins og ég sagði við Betu þá var ég komin með mikinn verk aftan í hnakkann (þ.e. aftan á hálsinum), en gat ekki beðið eftir að fá nuddara til að nudda á mér hálsinn að aftan, var farin að hafa áhyggjur af tímamörkum. Setti því teipið í forgang, svo var bara að pakka niður í gulu töskuna, skila henni inn og halda svo áfram.
(Vöknuð eftir 1,5 klst svefn og byrjar núna að vinna eftir tékklistanum. Tekur næsta 1,5 klst í það og fer út 00:00 að íslenskum tíma í síðasta lagi. Næsta stopp er Alpenzu skálinn sem að sést vel á myndinni hjá Ágúst Kvaran í UTMB hópnum. Þar tekur hún aftur Powenap fyrir efri hlutann af brekkunni. Það verður spennandi að sjá hvert hún verður komin í fyrramálið þegar við vöknum, Stefán Bragi.)
Stimplaði mig út klukkan 02:10 aðfararnótt fimmtudags (86 klst og 10 mín).
FIMMTUDAGUR, 02:10, 86 klst og 10 mín. Búin með 213,4 km 18.300 metra samanlögð hækkun. Tímamörk 01:00 inn og 03:00 út.