Klukkan er sem sagt orðin 02:41 (aðfararnótt mánudags) þegar ég fer út af fyrstu Live-Base stöðinni, þ.e. Valgrisenche út í kuldann og myrkrið og framundan var mikil hækkun, þrisvar sinnum að fara í kringum og yfir 3000 metrana. Það var orðið frekar kalt úti, svo það var ekkert annað í boði en að klæða sig mjög vel.
Stefán Bragi og Elísabet voru búin að segja mér að þessi kafli, frá Valgrisenche til Cogne, væri lang erfiðasti kafli allrar TOR leiðarinnar, út af hækkuninni.
Fyrst er farið upp í um 3000 metra hæð eftir Valgrisenche og þaðan niður í Notre Dame. Á leiðinni niður fjallið í áttina að Notre Dame var farið að birta og ég pakkaði niður ullarpeysunni sem ég var í og öðrum hlýjum fötum, en var ennþá með höfuðljósið á hausnum, þó ég væri búin að slökkva á því. Þetta klifur var mjög erfitt fyrir mig og astmann minn, ég hringdi í Óla klukkan 07:00 (05:00 á íslenskum tíma) vissi að hann væri vaknaður og á leið í vinnu og ég sagði honum að ég væri alls ekki bjartsýn á að klára TORINN, því astminn og þessi rosalegu fjöll væru alveg að fara með mig. Ég væri alveg að kafna og var að velta fyrir mér hvort ég ætti að prófa að taka inn 1/2 díamóx töflu eins og við tókum þegar við gengum í grunnbúðir Everest, en vissi í fyrsta lagi að það tæki smá tíma að fá það til að virka og í annan stað að það væru fullt af aukaverkunum af lyfinu, svo sem hiti, slappleiki, lystarleysi, breytt bragðskyn og marblettir og þreyta og syfja.
Ég kem svo inn á NOTRE DAME stöðina klukkan 07:58 á mánudagsmorgni. Kom fyrst við á veitingastað í bænum og keypti mér Fanta og lagðist svo á bakið á bekk á stöðinni. Ég var ekki með neina matarlyst, en orðin frekar þreytt. Stillti vekjaraklukkuna á gsm símanum mínum á 10 mín, ætlaði einungis að taka powernap og lagði höfuðljósið frá mér á borðið.
Ég náði samt ekkert að sofna en þegar ég fer á fætur og fer að hafa mig til, þá sé ég að höfuðljósið er ekki lengur á borðinu, ég fer og leita að því í miklu sjokki og finn það hvergi. Er að spjalla við Stefán Braga og læt hann vita að höfuðljósið mitt sé horfið. Fer aftur á barinn þar sem ég keypti Fantað til að kanna hvort ég hefði gleymt því þar, en ekkert höfuðljós þar, ég lét starfsfólkið á Notre Dame stöðinni vita ef einhver myndi skila höfuðljósinu, að koma því á mig á næstu eða þarnæstu stöð.
Legg svo í hann á fjall númer tvö sem var í um 3000 metra hæð. Mér leið mjög illa af astmanum á leiðinni, spurði bæði Óla og Stefán Braga hvort ég ætti ekki að prófa 1/2 töflu af Díamóxi sem ég svo og gerði.
Ég var búin að vera að taka inn Symbicort og Ventoline, en það dugði ekki til. Það fóru allir fram úr mér á uppleið og mér leið ekki vel um leið og ég var komin í um 2000 metra hæð.
Þegar ég var þarna í ljósvandræðunum þ.e. að leita að höfuðljósinu mínu sat maður á móti mér sem ég spurði hvort hann hefði séð höfuðljósið, sem hann hafði ekki séð. En í svona hlaupum er maður mikið að rekast á sama fólkið og ég hafði setið líka á sama borði og hann í Valgrisenche fyrr um nóttina, man að þá spurði ég hann hvort það væri kalt úti og hann sagði já svo ég fór vel klædd út af Valgrisenche stöðinni.
Þegar ég fann ekki ljósið, hélt ég samt áfram, ég vissi að ég væri alltaf með PETZL aukaljósið og auka rafhlöðu í það með mér og ákvað að það yrði að duga og henti mér upp helv. fjallið (sem sagt fjall #2 í 3000 metra hæð). Þegar ég er svo komin áleiðis upp fjallið uppgötva ég að ég er búin að týna, fínu svörtu MILLU OG KRILLU grímunni minni (maski). Sný við og kanna hvort ég finni hana, en ákvað að ég nennti ekki niður allt fjallið aftur til að leita. Eftir nokkra stund kemur svo maðurinn sem hafði setið á móti mér og rétti mér grímuna (var alltaf með hana í plastpoka með gsm símanum), en hann hafði þá fundið hana á leiðinni og greinilega séð mig með hana og rétti mér hana.
Ég þakkaði honum kærlega fyrir og við fórum að spjalla. Hann heitir Michele Zenato og var búin að taka þátt í Tor dés Geants þrisvar sinnum áður, klárað tvisvar, en eitt skipti 2017 var keppnin blásin af vegna veðurs. Hann var mjög almennilegur við mig, talaði reyndar ekki mikla ensku, talaði mikið við mig á ítölsku sem ég skildi ekki. Ég var auðvitað að berjast í bökkum að komast upp þetta fjall, sem var rétt innan við 3000 metra, þ.e. fjall númer tvö í þessari miklu hæð og alltaf beið Michele. Ég marghvatti hann til að fara á undan mér, því ég væri svo lengi, en hann var rólegur, fór á undan settist niður og beið. En svo komumst við loksins á toppinn og þá fórum við mjög rólega niður því hann átti mjög erfitt með að hlaupa niður og á jafnsléttu, þar sem hann var með hnémeiðsli, var með bæði hnén teipuð.
Rétt eftir að við náðum þessum öðrum toppi í 3000 metrum, þá komum við að Eaux Rousses stöðinni. Þar voru tímamörk klukkan 21:30, en við vorum komin þangað klukkan 14.15 á mánudeginum (þá búnar 26 klst og 15 mín) og ég ekki búin að sofa neitt, en samt vel innan tímamarka.
Ég var mjög svöng og við stoppuðum á veitingastað sem var við hliðina á hvíta veitingatjaldinu og við pöntuðum okkur mat. Mig langaði í pizzu, eða kjúklingabringu, en það var ekkert til, nema pasta og svo entrecode steik, sem ég pantaði mér og fanta að drekka og svo fengum við okkur kaffi með sykri á eftir, en M fékk sér pasta. Allt mjög gómsætt. Ég spurði um höfuðljósið mitt á drykkjarstöðinni, en það hafði ekki fundist ☹
(Halldóra er komin núna niður í dal eftir fyrri 3.000 metra toppinn og situr á veitingastað að gæða sér á steik, frönskum og Fanta. Komin 84,5 km og svöng…. Næsti toppur er sá hæsti 3.300 metrar. Hún er í sæti 480 og það eru 83 hlauparar hættir keppni. 629 enn með. Frá Stefáni Braga)
Framundan var erfiðasta fjallið af þessum þremur, það sem fer í 3300 metra. Fyrst þarf maður að hlaupa upp minna fjall og svo inn dal og á endanum upp fjallið í áttina að Rifugio Vittorio Sella. Á leiðinni upp fyrsta fjallð hittum við dóttir hans Michele, hana Chiara, mjög falleg stelpa sem er 24 ára og var að æfa sig fyrir Tor30 km sem er næsta laugardag og er í raun síðustu 30 km af leiðinni okkar.
Þau spjölluðu mikið saman feðginin á ítölsku og ég hélt mig í humátt á eftir þeim, enda ekki hraðskreið upp fjöllin frekar en fyrri daginn. Leiðin svo inn dalinn er einstaklega falleg. Farið er í gegnum Gran Paradiso þjóðgarðinn, þar sem var mikið um „Alpine Ibex“ eða Steingeit, sem er mjög virðulegt dýr, sem er friðað. Í þjóðgarðinum eru líka Chamoix (Gemsur), fálkar, rjúpur, marmot (múrmeldýr) og miklu fleiri dýr. Við sáum fullt af þessum glæsilegu Ibexum, eða steingeitum á leiðinni.
Leiðin var mjög falleg, björt og fín framan af, en svo fór hún að verða ennþá meira krefjandi, brattari og astminn farinn að segja vel til sín. Ég tók samt aðra ½ töflu af Díamóxinu og þá komu líka aukaverkanir, sem eru mikill munnþurrkur og flökurleiki. Leið alls ekki vel þarna upp þetta bratta fjall. En áfram hélt ég, eitt skref í einu og hugsaði um möntruna mína, „ég er grjóthörð og jákvæð“.
(Leiðin sem Halldóra er núna að fara er ein sú erfiðasta í öllu hlaupinu. Hún er búin að fara yfir 90 km. með 7.537.- metra hækkun nú þegar og brekkan sem hún er núna í er ca. 1.600. metra hækkun til viðbótar. Hinu megin dettur hún fljótlega inn í Rifugio Vittoria Sella og er þá komin rúma 100 km. Frá toppinum fer hún 1.770.- metra lækkun til Cogne þar sem hún getur loksins lagt sig á LifeBase. Frá Stefáni Braga)
Ég reyndi að skipa Michele að fara á undan mér því ég vissi að ég kæmist svo hraðar niður heldur en hann, en hann þrjóskaðist og vildi ekki fara á undan mér, beið eftir mér og hvatti mig áfram, þegar ég stoppaði og hékk á stöfunum. Þetta var ógeðslega erfitt og pirrandi þegar allir fóru fram úr mér. Svo þegar maður er alveg að koma á toppinn, þá eru endalaust þessi síðustu S – hélt maður ætlaði aldrei að komast á toppinn sjálfan. Sem svo hafðist á endanum.
Ég sagði svo við Michele að ef hann hefði ekki verið með, þá hefði ég örugglega sest niður og grenjað og hringt á vælubílinn 😊
Eftir að vera komin á toppinn þá var smá hlaup niður þar til maður kom að stöð, þar sem við vorum tékkuð inn eða númerið okkar skráð, þar var maður í svona skíðakláf sem skráði okkur inn og bauð uppá mjög sykrað og heit te. Leiðin niður var reyndar frekar hættuleg, maður þurfti að halda í kaðal sem var bundinn við fjallið. Michele vildi stoppa og fá sér te þarna í kláfnum, en ég rak hann áfram því ég vildi halda áfram, þar var bæði kalt þarna og niðamyrkur.
Við komum svo að Rif. Vittorio Sella klukkan 22:51, ég var auðvitað komin með vara PETZL höfuðljósið á ennið. Þetta var fjallaskáli og Michele vildi stoppa þar og leggja sig, sagðist fyrst ætla að leggja sig í 10 mín, sem ég var til í, en sagðist svo ætla að leggja sig í 30 mín. Ég samþykkti að stoppa og taka Powernap í 10 mín, NB þarna eru komnar 34 klst og 51 mín og ég var ekki búin að sofa neitt, svo ég var viss um að 10 mín myndu gera mér gott, en ég vildi drífa mig niður af fjallinu til að komast til Cogne, þar sem mín beið betra ljós, en varaljósið sem ég var með núna. Ég vildi ekki láta starfsfólkið í versluninni bíða lengi eftir mér.
(Eftir langa óvissu bið vegna þess að GPS kerfið er úti, var Halldóra að detta inn í Sella skálann. Komin í 101 km. og hæstu fjallaskörðin að baki. 10 km. til Cogne og ætti að ná þangað ca. 3 tímum fyrir tímamörk. Hún græðir svo 2 tíma á Lifabase Cogne og hefur þá 5 tíma MAX þar til hún verður að vera farin af stað aftur – frá Stefáni Braga).
Svo ég sagði Michele að ég myndi leggja mig í 10 mín, en hann gæti lagt sig lengur, svo var planið hjá okkur að leggja okkur í 1 klst í Cogne áður en við myndum halda áfram. Við fjallaskálann hittum við vin minn frá Finnlandi sem sagðist ætla að leggja sig í 2 klst í Cogne. Ég var því smá hugsi, hvort ég ætti að leggja mig í 1 eða 2 klst. En alla vega byrjaði ég á 10 mín powernap í Rif. Vittorio Sella. Þar ætlaði starfsmaður að vekja mig eftir 10 mín sem hann gerði ekki, svo ég var fegin að hafa passað mig sjálf á tímanum. Hélt svo áfram ein á leið niður í bæinn Cogne.
Leiðin niður fjallið var frekar seinfarin og illa merkt, og ég sá orðið mjög lítið með höfuðljósinu, reyndi tvisvar að skipta um rafhlöðu, en gat ekki opnað ljósið. Ákvað því að hlaupa með vasaljósið á gsm símanum mínum 😊 (Hugsaði um PODCAST sem ég hafði hlustað á um góð ráð í 200 mílna hlaupi, sem RRR vinkona sendi mér. Þar var einmitt verið að gera grín að fólki sem var í ljósavandræðum með Iphone símann og ég var kominn þangað á nótt númer tvö af sex 🙂 )
Vasaljósið á IPHONE-inum var reyndar sterkt og gott og virkaði vel. Átti alveg ágætist hlaup niður eftir skv. Stefáni. Var í sambandi við hann á leiðinni niðureftir sem sagði að ég ætti að leggja mig í 2 klst. Ég var eitthvað að malda í móinn, fannst meira að segja 1 klst of mikið ha ha ha, en hann sagði að það kæmi í bakið á mér ef ég myndi ekki taka góða hvíld, auðvitað ekkert búin að sofa í rúmar 35 klst.
Þegar ég kom í bæinn Cogne, þá fann ég íþróttabúðina með aðstoð Stefáns Braga (sem var með mig á tracki í gegnum messenger). Ég hringdi svo í konuna sem opnaði búðina fyrir mig og ég keypti mér PETZL ljósið ásamt 9 stk AAA rafhlöður, til að vera með í varaljósið. Hún var yndisleg og almennileg eigandinn að búðinni, hún Nella, og ég fékk fallega kveðju með ljósinu, sjá myndina hér að neðan.
(vesen dagur, en Halldóra er komin til Cogne. Hún kom öfugu megin að stöðinni og fékk tíma út í stað inn. Fór upp um 110 sæti við það Reyndi að láta laga og var þá skráð út úr hlaupinu. Leiðinda vesen sem vonandi lagast í nótt. Búið að redda nýju Petzl höfuðljósi eftir að hennar var stolið á einni stöðinni, eða týndist. Komnir 110 km. Hún er í ca. Sæti 512, það eru 569 hlauparar eftir, 143 hættir. Að nálgast 25% sem eru hættir. En Halldóra er í góðum gír, ætlar að stoppa 3-3,5 tíma, leggja sig og borða og fara af stað um 3:30 af stað frá Cogne og á þá 2,5 tíma + á tímamörkin út – frá Stefáni Braga)
Kom svo á rangan stað inní stöðin á Cogne svo þegar ég tékkaði mig inn þar þá var ég víst tékkuð út. Stefán Bragi hringdi og lét mig vita, svo þegar ég fór að leiðrétta þetta, þá endaði karlinn á að tékka mig út úr hlaupinu eins og ég væri hætt. Þá þurfti að taka upp símann og láta leiðrétta það. Loksins tókst mér svo að fá þau til að „tékka mig inn á stöðina“ og tékk inn tíminn var 02:22 aðfararnótt þriðjudags, þá komnar 38 klst og 22 mínútur frá ræsingu og ég einungis búin að sofa í 10 mínútur.
Ég fór í sturtu og í hrein hlaupaföt og henti mér á beddann með eyrnatappa, augnhlíf, í létta svefnpokann minn og með uppblásna koddann, þetta var ÆÐI. Steinsvaf í 2 klst. Man þegar konan var svo að vekja mig að ég fattaði ekkert hvar ég var, því ég hafði algjörlega rotast. Einhverra hluta vegna er ég ekki að fá skráðann á mig neinn tíma út, en ég fer út um 3 klst síðar, ca 05:20 á þriðjudagsmorgni. Tímamörkin voru inn á Cogne klukkan 06:00 og út klukkan 08:00.
ÞRIÐJUDAGSMORGUNN klukkan 05:20 – 110,5 km búnir – 9.616 metra hækkun búin.