Öppet Spår 90 – mánudagur 28.02.2022

by Halldóra

Við Hrefna, Harpa, Jimmy og Fjóla vorum öll í öðrum ráshópi í Opna sporinu 90 km á mánudeginum, en Sigga Sig var í þriðja ráshóp. Fyrsti ráshópur var ræstur klukkan 7, annar klukkan 7:10 og þriðji klukkan 7:20.

Margir velta fyrir sér hver sé munurinn á Opna sporinu 90 km á sunnudegi, Opna sporinu 90 km á mánudegi og svo aðal Vasakeppninni sem er sunnudaginn þar á eftir. Ég vissi nú ekki sjálf hver væri munurinn fyrr en ég tók núna þátt, eina sem ég vissi er að það er alltaf farin sama leiðin frá Sälen til Mora, samtals um 90 km.

Í sunnudags Opna sporinu er ekki heimilt að fara á skautaskíðum og því eru lögð gönguskíðaspor á alla brautina, kannski 5-7 spor. Þar eru því alir að keppa í „Classic skiing“. Í opna sporinu á mánudeginum voru bara lögð tvö spor og restin af brautinni var „preppuð“ eða undirbúin fyrir skautaskíði, þar sem á mánudeginum má fara keppnina á skautaskíðum. Þetta vissi ég ekki þegar ég skráði mig heldur, skráði ég mig bara í sömu keppni og Hrefna vinkona og hún hafði alltaf valið mánudaginn því þá eru færri þátttakendur þ.e. í mánudagskeppninni en sunnudags. Ég hélt líka að Opna sporið væri þannig að þú réðir því hvenær þú legðir af stað og það væru engin tímamörk, en það er sem sagt ekki rétt. Þú verður að leggja af stað í því hólfi sem þú ert skráður í og tímamörkin eru þau sömu og í Vasaloppet í klst, en þú ert að leggja fyrr af stað, þannig að þau eru aðeins rýmri, en það er ekki rétt að það séu engin tímamörk 🙂

Aðakosturinn samt við Opna sporið m.v. Vasaloppet keppnina er að það eru „bara“ 1000 manns með þér í hólfi svo t.d. leiðin upp fyrstu brekkuna gengur miklu hraðar heldur en í stóru keppninni þar seum 15.000 manns eru ræstir á sama tíma.

Óli og Brynja skutluðu okkur niður að rásmarkinu og við vorum komin þangað um 6 leytið. Þá fórum við og byrjuðum á að sækja skíðin okkar í „prepp“ tjaldið, þar sem við höfðum keypt áburðarsmurningu undir þau. Valkvíðinn í gær hafði verið um það hvort ég ætti að fara á skínnskíðunum eða áburðarskíðunummínum, en komst svo líka að því að fínu skinnskíðin mín væru ekki rétt fyrir mig, fékk þær upplýsingar að ég sé of þung fyrir þau. Einar Óla mælti með því að ég færi á skinnskíðunum, því færið var frekar hlýtt og því klísturfæri og vesen á hinum, auk þess sem breytileikinn í hitastigi var mikill, þ.e. frá miklu frosti um morguninn í mikinn hita eftir hádegi, þá lá sú ákvörðun fyrir 🙂

Við skiluðum í DHL rúturnar pokunum sem við fáum þegar við komum í mark, þar var ég með lopakjólinn minn og þurr föt og aðra skó til skiptana. Fórum svo inn í hólfið okkar (#2) með skíðin og komum þeim fyrir, vorum ca fyrir miðju, ekki fremst og ekki aftast. Eftir það fórum við í klósett röðina og á leiðinni á klósettið, datt ég aftur og skall á bakið, annað skiptið í þessari viku, var að spá hvort örlögin væru að reyna að stoppa mig í að fara í þessar þrjár keppnir 🙂

Eftir eina klósettferð hentum við okkur aftur í hólfið, Sigga ætlaði að kanna hvort hún fengi sig færða í okkar hólf, sem gekk svo ekki. Hólf 1 var ræst af stað klukkan 07:oo og ég og Hrefna vorum ekki komnar í skíðin okkar þegar við vorum látin færa okkur yfir í fremsta hólfið. Svo við vorum hlaupandi með skíðin okkar í fanginu í næsta hólf. Rétt náði svo að henda mér í skíðin, taka 1-2 myndir og svo vorum við bara ræst klukkan 07:10. Tíminn er svo fljótur að líða, þ.e. í aðdraganda að svona keppni.

Ferðin uppá hæsta punkt gekk vel og ég var komin þangað eftir 28 mín eða klukkan 07:49, enda reyndi ég bara að hanga í Hrefnu sem er mjög öflug upp brekkurnar. Fyrsta drykkjarstöðin er í Smågan og þar vorum við klukkan 08:27 og þá búnar að vera um 1 klst og 7 mín á ferðinni. Það var gaman að heyra nafnið manns lesið upp þegar maður kemur á drykkjarstöðvarnar.

Á leiðinni að næstu drykkjarstöð týndi ég Hrefnu, en við vorum til skiptis fyrir framan og aftan og allt í einu uppgötvaði ég að hún væri ekki með mér, þ.e. hvorki fyrir framan ná aftan. Svo ég stoppaði og beið í smá tíma og kallaði á hana, en hugsaði svo að hún væri kannski bara á undan mér, svo ég hugsaði að ég myndi þá bara hitta hana á næstu drykkjarstöð sem var í Mångsbodarna. Þegar ég kom þangað sá ég hana ekki, en fékk mér að drekka og borða og þegar ég er að fara að gera mig klára í að fara, þá heyri ég þulinn segja Hrefna Guðmundsdóttir fra Island, svo ég skíðaði til baka og tók á móti henni. Hún fékk sér að drekka og borða og svo héldum við saman áfram. Hrefna hafði lent í því að einhver datt fyrir framan hana eða datt á hana svo hún reif 66°norður mittistökuna sína og þurfti að koma næringunni fyrir í bakpokanum, þess vegna var hún svona langt á eftir.

Eini gallinn sem ég sé við mánudags Opna sporið, er að það eru bara tvö spor og ekki allir sem virða þá reglu að halda sig hægra megin og því vorum við Hrefna stöðugt að taka fram úr fólki sem var samt í vinstra sporinu. Það er mikil orka og tími sem fer í það. En opna sporið á mánudegi er sniðugt fyrir góða skautara og þeir flugu hratt fram úr okkur.

Okkur var fljótlega mjög heitt og Hrefna vildi fara úr jakkanum og ég ákvað að fara í þynnri vettlinga, auk þess sem ég þurfti að pissa. Við stoppuðum því út í kanti (vorum búnar með um 32 km). Ég fór af skíðunum og aðeins út í skó, þar sem ég pissaði og svo skipti ég um vettlinga, fór í þynnri vettlinga sem var mjög sniðugt.

Rétt áður en þú kemur að Risberg sem er þriðja drykkjarstöðin (35 km búnir), þá er hættulega fyndna brekkan sem allir detta í, svo við ákváðum að fara mjög rólega þar niður og duttum sem betur fer ekki þar, sjá annars þetta skemmtilega myndband.

Í Evertsberg er gangan rúmlega hálfnuð (47 km búnir), þar fengum við okkur bara heita súpu og næringu eins og venjulega.

Oxbberg er fimmta drykkjarstöðin og eftir hana eru um 28 km eftir. Þar fórum við Hrefna á klósettið sem var mjög gott. Eini gallinn var að þegar við erum komnar niður fyrstu brekkuna eftir Oxberg, þá fattaði ég að ég hafði gleymt mittistöskunni með allri næringunni minni inni á klósetti. Var alvarlega að hugsa um að skilja hana bara þar eftir, en Hrefna var ekki alveg á því, svo ég dreif mig til baka skíðaði upp eftir og sótti töskuna og Hrefna beið bara róleg eftir mér á meðan og nærði sig.

Hökberg er næst síðasta drykkjarstöðin og við stoppuðum bara eðlilega þar og fengum okkur að drekka og nærðum okkur og síðasta drykkjarstöðin er í Eldris og þá eru 9 km eftir.

Við vorum báðar í nokkuð góðum málum og ákváðum að skíða saman inní markið en sporin voru orðin frekar léleg þarna í lokin síðustu kílómetrana, þar sem það var orðið mjög hlýtt.

Það voru brosmildar og ánægðar vinkonur sem komu í mark klukkan 16:27 og lokatími því 9 klst 6 mín og 58 sek

Þar sem Opið spor er ekki keppni þá ertu ekki í neinu sæti, það er ekki haldið utan um það sem er líka bara frábært.

Ég var mjög glöð enda er þetta minn besti tími í Vasaloppet keppni hingað til og samveran með Hrefnu alla leiðina, var mjög skemmtileg.

Takk elsku vinkona fyrir yndislega göngu saman og alla samveruna í Svíþjóð þessa viku, það var yndislegt að vera með ykkur öll sömul kæru vinir í Sälen.

https://fatmap.com/routeid/2925655/oppet-spor-2022?fmid=cp

Tímarnir mínir á drykkjarstöðvunum í Opna sporinu.

You may also like

Leave a Comment