Lúxus í Bhutan og verðlaunaafhending

by Halldóra

LOKAATHÖFN BHUTAN THE LAST SECRET
Við vorum keyrð á lúxushótelið Zhiwa Ling Hotel í Paro í Buthan. Hótelið er skráð sem „Unique Lodges of the World“ í National Geographic, enda einstaklega fallegt.  Bekka sagði okkur Betu að hringja strax og panta nudd, sem var einstaklega gott ráð, því það varð uppbókað á svipstundu.  Það var starfsmaður sem fylgdi okkur Betu á herbergið og við fengum hana til að aðstoða okkur og hún bókaði bæði heilnudd og „body scrub“ fyrir okkur, samtals 90 mín tíma.

Do not dwell in the past, do not dream of the future, concentrate the mind on the present moment.

Buddah

THERE IS NO WAY TO HAPPINESS. HAPPINESS IS THE PATH

Eftir að hafa sofið í tjaldi, á gólfinu í mishreinum húsum í 5 nætur með mjög takmarkaða salernisaðstöðu og ekki séð baðvask eða sturtu,  þá var það ólýsanlega góð tilfinning að komast loksins í almennilega sturtu, risastórt hótelherbergi, með tveim queen size hjónarúmum, sófasetti, sjónvarpi og með gott sjampó og hárnæringu. Eftir heita og góða sturtu settum við Beta djúpnæringu í hárið og fórum svo á hreinum hvítum baðsloppi í nuddið.  Það var yndislegt að komast í nudd og body scrub eftir að hafa hlaupið 200 km, með um 11.000 metra hækkun á 6 dögum.

Zhiwa Ling Hotel í Paro í Bhutan

 

Við fengum aftur handfarangurstöskurnar okkar, þ.e. töskurnar sem við skyldum eftir á hótelinu fyrsta daginn. Það var gaman að sjá allt sem skyldum eftir. Mikið af þessu dóti hefði ég aldrei skilið eftir, ef ég væri að leggja af stað núna.

Eftir frábært nudd, skoðuðum við hótelsvæðið, tehúsið, bókasafnið og allt fallega umhverfið í kringum hótelið. Síðan fórum við aftur upp á herbergi og fórum að hafa okkur til.

Það var danssýning og skemmtun á hótelinu klukkan 17:00 og svo byrjaði verðlaunaafhendingin klukkan 18:00.

Heiðursgestur kvöldsins var fyrrum dómsmálaráðherra Bhutan, háttvirtur hr. Sonam Tobgye. Hann gaf okkur öllum stjórnarskrá Bhutan: „The constitution of the Kingdom of Bhutan“.

hr. Sonam Tobgye

Við fengum einstaklega góðan kvöldmat á hótelinu og þegar dagskráin var búin fórum við niður á hótelbarinn. Það voru svo hörðustu djammararnir sem skelltu sér á diskótekið í miðbænum Paro með leigubíl og að sjálfsögðu klikkaði ég ekki á því,  þó ég yrði að vakna eldsnemma þar sem ég átti eftir að pakka niður og koma mér í flug.

Salurinn sem við borðuðum í, og verðlaunaafhendingin fór fram í.

Allar viðurkenningarnar og Finisher bolirnir.

 

Stefan að afhenda mér viðurkenninguna mína.

Það var mikið stuð á diskótekinu, en músíkin var eiginlega meira fyrir fólk í yngri kantinum. Náði þó að drekka tvo Red Bull á staðnum, til að halda uppi orkustiginu og dansa við nokkur vel valin lög.  Zamba vinur minn var í banastuði í íslenska landsliðsbúningnum sínum 🙂  Leigubílarnir sem við fórum með í bæinn, áttu að bíða eftir okkur og við vorum búin að borga fyrir bílinn fram og til baka. Þegar við hins vegar komum út voru þeir að sjálfsögðu farnir svo við urðum að finna einhvern heimamann, til að keyra okkur til baka uppá hótel. Bobby var með okkur og reddaði okkur einhverjum bílstjóra.

Við vorum því komin aftur upp á hótel um eitt leytið, þannig að því miður gat ég ekki sofið nema örfáar klukkustundir í þessu hreina og stóra og yndislega rúmi. Beta var ennþá vakandi þegar ég kom heim, svo ég dreif mig bara í það að klára að pakka. Mæli 200% með þessu hóteli ef þú ert á leið til Bhutan.

You may also like

Leave a Comment