Hlaupahópur Stjörnunnar, um 60 aðilar hlupu saman Laugaveginn á tveim dögum. Binni og Vigdís sáu alfarið um skipulagningu og það eru margir mánuðir síðan þau bókuðu skála og rútu og hlauparar skráðu sig í hlaupið. Ég var með þeim síðustu að skrá mig þar sem ég var bókuð í hlaup á Spáni um helgina Val d´Aran. En svo ákvað ég að fara ekki til Spánar út af C-19 og stöðunni þar, svo þá var ekkert annað í boði en að skella sér og ég sé sko ekki eftir því.
Við lögðum í hann frá Ásgarði klukkan 08:00 fimmtudaginn 8.júlí. Fyrsta stopp var í Hveragerði, þar sem það voru pikkaðir upp farþegar og næsta stopp að Vegamótum. Vorum svo komin inní Landmannalaugar um klukkan 12:00. Græjuðum okkur í hlaupið, fórum á salernið, hituðum upp, smurðum okkur með CLINIQUE sólarvörn (sem ég bauð öllum og gleymdi svo á borðinu í Landmannalaugum) og lögðum svo í hann. Veðrið var mjög gott, bæði hlýtt og sólríkt.
Það var mikill snjór á leiðinni en gangan upp að Hrafntinnuskeri gekk vel. Þar stoppuðum við aðeins og notuðum salernið, borðuðum smá og tjúttuðum 😉
Skokkuðum svo sem leið liggur niður í Álftavatn og gekk ferðin mjög vel. Vorum í nokkrum hraðaskiptum hópum. Vorum komin í Álftavatn um klukkan 16:40 og þá var rútan með farangurinn okkar ekki komin. Það var því bara að fara á barinn og fá sér, bjór eða Fanta. Helmingurinn af hópnum hélt svo áfram en þau gistu í skálanum að Hvanngili. Við vorum með gamla skálann alveg út fyrir okkur, en get ekki mælt með honum, þar sem það er mikil mygla í honum, en sem betur fer gistum við bara eina nótt. Við borðuðum kjúklingasúpu frá Kjötkompaní-inu, sem við keyptum ásamt sýrðum rjóma, osti, tortilla og brauði, mjög gott og einfalt að elda. Svo voru lúxus desert bakkar, þ.e. ostur og sælgæti 🙂
Það voru þreyttir en sælir hlaupafélagar sem voru sofnaðir fyrir klukkan 23:00.