Við héldum uppá það í kvöld að vera öll búin að útskrifast sem Landvættir 2021, en þetta var fyrsta árið sem Náttúruhlaup buðu uppá Landvættaprógram. Það var frábær hópur sem tók þátt, en því miður náðu ekki allir að klára allar þrautirnar og sumir þurftu að klára eina eða fleiri þrautir sjálfir og skila inn Strava link, út af C-19. T.d. þá var hætt við Jökulsárhlaupið og þeir sem ætluðu að hlaupa það, urðu því að hlaupa sjálfir eða bíða fram á næsta ár.
Við vorum með frábært þjálfarateymi. Sigurður Örn þríþrautar- og sundmeistari sá um sundþjálfun, Sævar Birgisson ÓLfari sá um gönguskíðaþjálfun, frábærir þjálfarar frá HFR sáu um hjólaþjálfun og allir Leiðtogar Náttúruhlaupa sáu um hlaupaþjálfun en prógrammið kom frá Elísabetu Margeirsdóttur. Þjálfarateymi NH sem var í Landvættahópinum voru Sigríður Sigurðardóttir, Helga María Heiðarsdóttir, Elísabet Margeirsdóttir, Birkir Már Kristinsson og Páll Ólafsson. Gott samstarf og samvinna var við 66°norður sem og Fjallakofann en bæði fyrirtækin buðu þátttakendum góðar vörur á góðu verði.
Ég er virkilega stolt af þessum glæsilega Landvættahópi Náttúruhlaupa sem æfði og tók þátt saman í öllum þrautunum fjórum í frábærum félagsskap og alltaf með gleðina að leiðarljósi. Takk kæru vinir fyrir ferðalagið okkar saman.